05. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Úkraínumenn gefast seint upp segir Angela geðlæknir um þjóð sína

„Óttinn varð að skelfingu,“ segir Angela Haydarly geðlæknir um tilfinninguna þegar hún heyrði að stríð hefði brotist út í heimalandi hennar, Úkraínu. Angela hefur búið hér á landi frá aldamótum og horfir með hryllingi heim þar sem foreldrar hennar eru í miðju landinu, of veikburða til að flýja

„Stríðið er svo gróft og hrikalegt. Það er ekki hægt að skilja það sem gerist núna á 21. öld í miðri Evrópu,“ segir Angela sem hefur starfað sem læknir allt frá árinu 1996 þegar hún kláraði læknanámið í Úkraínu. Hún starfaði sem berklasérfræðingur í Úkraínu en er nú starfandi geðlæknir á Íslandi, á Landspítala og hjá Lækninga- og sálfræðistofunni í Skipholti.

Angela Haydarly er geðlæknir sem vinnur á Landspítala á daginn og leggur samlöndum sínum lið á kvöldin. Hennar lækningaleyfi er bæði íslenskt og úkraínskt. Mynd/gag

„Slíkt óréttlæti, lygi, villimennska, þjófnaður, pyntingar, nauðganir, dráp á almennum borgurum, börnum – þetta er þjóðarmorð.“ Hún lýsir því hvernig Úkraínumenn hafi verið þriðja stærsta kjarnorkuríki heims á eftir Bandaríkjunum og Rússlandi. „En samið var um að afvopnast með Búdapest Memorandum árið 1994 gegn því að landamærin yrðu virt og kjarnorkuríki myndu veita öryggisábyrgð.“ Rússland, Bretland og Bandaríkin hafi ásamt Úkraínu skrifað undir samninginn. „Samkomulagið var ekki virt.“

Angela lýsir tilfinningunum sem geta blossað upp við stríð hjá fólki. „Það er eðlilegt að upplifa stundum blendnar tilfinningar í stríði. Þær geta verið depurð, örvænting, spenna, afneitun, lost, sektarkennd, vanmáttur en líka léttir! Allar þessar tilfinningar eru eðlilegar en það er erfitt fyrir marga að skilja það. Sjálf hef ég farið í gegnum öll þessi stig og fundið létti að standa ekki í stríðinu miðju og að ekkert hafi komið fyrir fólkið mitt. En guð minn góður. Fullt af fólki hefur misst sína og ég græt það,“ segir hún.

Óskiljanleg voðaverk

Fólk sem standi fjær, eins og Íslendingar sem sæki tíma til hennar, upplifi líka vanmátt og sektarkennd. „En þetta eru eðlilegar tilfinningar.“ Sorgin sé mikil. „Bæði vegna hermanna okkar og hinna. Sorg yfir almennum borgurum og börnum sem hafa verið drepin.“ Flestir vilji kenna Pútín um. „En það er ekki bara Pútín. Margir fremja voðaverkin og maður skilur ekki hvernig þetta er hægt.“ Hún tárast þegar hún nefnir óhugnaðinn í borginni Bucha.

„Hvað er að í hausnum á mönnum sem gera svona hluti? Svo mikið áfall. Ég er ofboðslega hrædd“. Angela býst ekki við stuttu stríði. „Í Donbas hefur verið stríð í 8 ár.“ Hún hugsi til þess hvernig hún grét yfir fréttum af látnum börnum þegar þau voru 20. „Núna eru þau yfir 200. Maður verður dofinn. Ég las og las fréttir og gat ekki sofið. Grét. Ég horfði á vanmáttinn og ráðaleysið hjá eiginmanni mínum sem hélt í höndina á mér og reyndi að styðja mig. Ég er þakklát fyrir hann. Hvað getur hann gert? Hann er miður sín eins og ég,“ segir hún og þurrkar tár.

Hryllingurinn staðreynd

„Já, tárin koma,“ segir hún og brosir. Spurð hvort henni finnist íslenskur eiginmaður hennar skilja ástandið svarar hún: „Ég veit ekki einu sinni hvort ég geri það. Þetta er svo bilað. Þú getur slökkt á hryllingsmynd en þú slekkur ekki á stríði. Það er staðreynd. Þetta er að gerast.“ Hún hafi fundið að hún verði að passa sig betur. „Vernda mig frá þessum voðafréttum.“

Fyrstu 10 dagarnir hafi verið hræðilegir. Hún þekkti ekki marga hér á landi frá Úkraínu en langaði til að hjálpa. „Ég sendi Rauða krossinum tölvupóst og fékk til baka svar á íslensku og ensku um að styrkja samtökin fjárhagslega. Ég hringdi svo og gaf símanúmerið mitt og sagðist geta hjálpað. Enginn hafði samband. Svo fann ég Svein Rúnar. Frábær manneskja. Hann bjó til kjarna þar sem fólk getur komið og hjálpað.“ Núna mætir hún reglulega í Guðrúnartún og hjálpar sem geðlæknir.

„Mér fór að líða betur þegar ég gat hjálpað. Ég fer að heiman fyrir kl. 8 á morgnana, er í vinnunni til 4, stundum lengur, og svo frá klukkan 18-20 í Guðrúnartúni. Svona hafa dagarnir liðið.“ Hún hafi tekið yngstu dótturina með til að hafa hana nálægt sér. Hitta hana.

„Flest fólk frá Úkraínu sem kemur hingað er í grunninn heilbrigt en þau eru mjög kvíðin og með svefntruflanir vegna áfalls. Þau þurfa að sofa til að ná sér. Svefninn er mikilvægur til að vinna úr áfalli. Ég legg því áherslu á svefninn.“ Sjálf hafi hún verið vansvefta. „Ég svaf aðeins 4-5 tíma fyrstu daga stríðsins, var upptendruð og þreytt, en tók á því til að hjálpa öðrum.“ Margir foreldrar meðal flóttamannanna ræði um börnin sín sem hagi sér öðruvísi eða eigi erfiðara með svefn.

„Ég ráðlegg þeim að ræða við krakkana, knúsa þau eins og hægt er, leika, syngja saman, tala um fallegar minningar og gera jákvæð framtíðarplön. Það hjálpar.“

Einkabarn foreldra sinna

Angela er einkabarn foreldra sinna sem komin eru á eftirlaunaaldur. Pabbi hennar geð- og taugalæknir. Móðir hagfræðingur. Þau bjuggu nálægt Chernobyl en fluttu inn í mitt land, til Uman þar sem foreldrar föður hennar bjuggu, í kjölfar kjarnorkuslyssins árið 1986. Sjálf á hún þrjú einkabörn, eins og hún lýsir, svo langt sé á milli þeirra í aldri. 29 ára sonurinn, 19 og 9 ára dætur.

Hún lýsir áhrifum vanmáttarins á son sinn sem flutti með henni til Íslands um aldamótin. Hann hafi velt fyrir sér að fara til Úkraínu til að verja gömlu fósturjörðina. „En við sáum að hann hafði enga þekkingu til þess. Betra væri að fara þegar byggja þarf upp að nýju.“ Einnig þurfi þá að vinna úr áfallastreituröskun fólks. „Þetta er áfall hjá öllum. Hrikalegt áfall og mikilvægt að eiga vin, nána manneskju til að tala við.“

Angela segir að hún hafi búist við stríðinu. Rússar hafi mánuðina fyrir stríðið reist færanleg sjúkrahús við landamærin. Hún hafi reiknað með að stríðið hæfist 23. febrúar, því þeir tengi gjarnan atburði við dagsetningar og þann 23. sé dagur rússneskrar herþjónustu. Þeir hafi svo ráðist á landið aðfaranótt 24. og sprengt á fleiri en 40 stöðum samtímis fyrsta klukkutímann og hermenn streymt inn í landið.

„Mér leið hræðilega. Var stjörf.“ -Hringt hafi verið í hana af Landspítala og henni boðið að vera heima. „En ég mætti á vaktina og vann mikið næstu daga. Ég held ég hefði ekki fúnkerað annars.“ Hún hafi samt átt erfitt með að rita nótur eftir tímana og gefa vottorð. Hún hafi ekki náð einbeitingunni.

Treystu sér ekki úr landi

„Fyrstu dagarnir voru skelfilegir. Það var erfitt að hugsa til foreldra minna sem mátu að pabbi væri of veikur til að fara. Þau sögðust treysta sér til að vera og ég sagði: Já, ykkar nánustu ættingjar eru erlendis, en mínir nánustu eru í stríðshrjáðu landi. Þau sýndu því takmarkaðan skilning,“ segir hún og hlær góðlátlega.

Hún man eftir Sovétríkjunum, enda ólst hún þar upp. „Ég hef búið svo lengi hér á landi að ég er orðinn gestur í Úkraínu. Þar hefur svo margt breyst,“ segir hún. En þar séu ræturnar. „Allt frá falli Sovétríkjanna hafa heilu kynslóðirnar alist upp við frelsi. Þær hafa alist upp við málfrelsi, hafa vilja. Þannig var það ekki í Sovétríkjunum,“ segir hún og rifjar upp söguna.

„Báðar ömmur mínar hafa sagt sögur frá barnæsku sinni. Báðar upplifðu að allt væri tekið frá þeim. Önnur var send til Síberíu 10 ára gömul ásamt foreldrum sínum og systur árið 1930 með lest eftir að allt sem þau áttu var tekið frá þeim. Fjölskyldunni tókst að hoppa af lestinni og koma til baka fótgangandi. Þau áttu ekkert,“ lýsir hún. „Þá var hungursneyð í Úkraínu, því öll uppskera var flutt til Rússlands. Gervihungursneyð,“ segir hún, enda Úkraína gjöfult land.

„Hin fékk að vita að pabbi þeirra yrði tekinn frá þeim. Allt var tekið af býlinu. Þau voru skilin eftir 8 systkini með móður sinni til að deyja. Pabbi þeirra og elsti sonur höfðu byggt falskan vegg í hlöðunni og settu þar korn. Þetta var að haustið 1936. Amma var send að veggnum á nóttunni til að ná nokkrum kornum dag hvern. Móðir hennar sauð það niður, gaf öllum að drekka og þau lifðu veturinn af,“ rifjar Angela upp. Erfiðir tímar sem ekki hafi verið kenndir í sovéska skólakerfinu. „Sögur sem þessar voru klipptar út úr sögunni og hún gerð falleg.“

Uppgjöf ekki í myndinni

Angela segir stríðið geta varað lengi. „Uppgjöf er ekki í eðli okkar.“ Rússar hafi heilaþvegið þjóð sína. Hún hafi verið beðin að ræða við einstakling og talið að þar færi Úkraínumaður sem hefði verið lengi hér á landi, enda karlar sjaldséðir meðal flóttamannanna sem nú koma.

„Hann brosir og segir: Ég er reyndar Rússi. Ég horfi á hann og segi: Ég samhryggist þér og vorkenni.“ Margir Rússar utan lands síns skilji hvað sé að gerast. Þeir séu ekki heilaþvegnir af aðgerðum yfirvalda sinna. „Þetta er þeim líka áfall og ég er fegin að vera frá Úkraínu í þessari stöðu. Að vera frá Rússlandi er hræðilegt og þurfa að standa undir þessum gjörðum.“

Staðfestan skilaði Angelu nýju læknaleyfi

„Ég sagði alltaf að ég ætlaði aldrei að verða geðlæknir því pabbi minn er það,“ segir Angela Haydarly, geðlæknir á Landspítala. Hún er einnig sjálfstætt starfandi. „En hann vissi að þetta er það sem ég átti að gera.“

Angela var sérfræðingur í berklasjúkdómnum í Úkraínu. „Ég vann aðallega með börn,“ segir hún, en menntun hennar hafi ekki gilt hér á landi þar sem Úkraína var ekki á Evrópska efnahagssvæðinu. „Ég varð því að taka prófin aftur,“ segir hún og lýsir því hvernig uppeldið mótaði hana. „Ég ólst ekki upp við hugarfarið: Ég vil, heldur: Ég verð.“

Hún hafi því lært íslensku og stóðst öll próf eftir að hafa mánuðum saman, dag eftir dag, óskað eftir viðtali um framvinduna í læknadeild. Hún stundaði nám í íslensku fyrir útlendinga og lífeindafræði meðan hún beið og hafði áður starfað á St. Jósefsspítala í stöðu hjúkrunarfræðings.

„Í hvert sinn sem ég mætti í Læknagarð var ritað á post-it miða. Svo þegar ég fékk loksins fundinn einhverjum mánuðum síðar flæddu póst-it miðar upp úr möppu forseta deildarinnar,“ lýsir Angela og hvernig fundurinn kom henni á beinu brautina að nýju. Hún tók prófin, stóðst með prýði, fékk að fylgja kandídötum og kláraði sérnám í geðlækningum.


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica