04. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Mikilvægt að vinna í sátt segir Aron Björnsson heilaskurðlæknir

„Við erum fjórir læknar á deildinni en samanlagt fimm,“ segir Aron Björnsson, yfirlæknir. „Menn eru svo samstíga að hópurinn eflist og verður því á við fimm.“ Aron er að hætta en velur ekki eftirmanninn úr sjö manna hópi. „Áhuginn er mikil lúxusstaða“

Aron Björnsson, yfirlæknir heila-, og taugaskurðdeildar Landspítala, B6, er rétt að hætta eftir ríkan feril. Hann hefur margt á sínu borði og hefur einnig hugsað sér að ferðast. „Við Karin eigum börn í Ameríku, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi.“ Mynd/gag

„Ég er sannfærður um að margir gætu lært af módelinu sem við höfum komið okkur upp á B6,“ segir Aron Björnsson, yfirlæknir heila-, og taugaskurðdeildar Landspítala. Hann er að alveg að ljúka starfsferlinum. Veit bara ekki nákvæmlega hvenær. Sjö keppast um að fylla í skarð hans.

„Við þurfum aðeins einn svo það er mikil lúxusstaða þegar svona margir sækja um. Í fjölda sérgreina sækja fáir eða engir um hérna heima. En við eigum fjöldann allan af heilaskurðlæknum.“ Hann sé viss um að enn fleiri hefðu sótt í þetta fag hefðu þeir séð fram á að komast heim að námi loknu.

„Það er erfitt að velja sér langt og strangt nám og vita fyrirfram að ólíklegt sé að menn komist aftur heim, þótt kannski á endanum verði það þannig að menn hafi engan sérstakan áhuga á því, enda komnir í góða stöðu erlendis,“ segir hann.

Góður starfsandi

Deildin hans Arons er þekkt fyrir góðan starfsanda. „Hér hefur gengið afskaplega vel í gegnum árin. Við höfum verið heppin með samskipti okkar við yfirstjórn spítalans. Við höfum verið með í liðinu,“ segir hann. „Við höfum ekki verið til vandræða í rekstrinum. Þetta gengur átómatískt.“

Það er kannski ekki tilviljun. Aron lýsir því hvernig hann fór í viðskiptanám, hugaði að kostnaði hluta og tekur lítið dæmi. „Við gripum til að mynda inn í þegar við sáum að túba, sem nýtt var til að skola sár í aðgerðum, kostaði orðið um 5000 krónur. Við hófum að nota stórar sprautur sem kostuðu rétt um 100 krónur í staðinn. Við leituðum lausna,“ segir hann og með þessari einu breytingu hafi tekist að spara fimm milljónir króna á ári á einni deild.

„Allt sem við notum í aðgerðum kostar mikla peninga. Aðgerðir geta því fljótt orðið mjög dýrar ef menn passa sig ekki – en dýrt er ekki alltaf betra.“ Traust hafi myndast um að deildin nýti féð vel.

„Við höfum því alltaf fengið það sem við höfum beðið um. Við höfum notið trausts um leið og við höfum treyst yfirstjórninni til að standa við bakið á okkur til að árangurinn verði góður.“

Biðlistar fjölgi bráðaaðgerðum

Aron segir að allt frá því að hann kom heim úr námi árið 1988 hafi deildin barist við að halda biðlistum í lágmarki og forðast að hætta við áætlaðar aðgerðir. Liður í því hafi verið að ráðast í að reisa eigin hágæsludeild, fjögur rúm, á legudeildinni B6, sem komið hafi verið upp fyrir þremur árum.

„Það var ekki alltaf pláss á gjörgæsludeildinni og við þurftum því að hætta við aðgerðir með jafnvel dags fyrirvara,“ segir Aron. „En frá þessari ákvörðun höfum við ekki þurft að hætta við eina einustu höfuðaðgerð vegna plássvandræða. Það gæti verið fyrirmynd fyrir aðrar einingar hérna innanhúss að koma því á,“ segir hann og að sér finnist ekki að biðlistar eigi að vera til. Vinnulisti, þar sem aðgerðin er plönuð, sé ásættanleg bið.

„Öll önnur bið er viðbótarkostnaður, aukið flækjustig í kerfinu, þar sem hringt er og aðgerðir afturkallaðar eða færðar til. Við höfum lent í þessu upp á síðkastið vegna COVID. Skurðdögum var fækkað úr 5 í þrjá. Það er vissulega verulega truflandi en okkur hefur tekist nokkuð að halda sjó,“ segir hann en er þó órólegur, verði dögunum ekki fjölgað aftur sem fyrst.

„Við sjáum ekki fyrir okkur hvernig næstu mánuðir og ár verða,“ segir hann. „Um leið og dregst að gera aðgerðir og þeim frestað, fjölgar bráðaaðgerðum.“ Aron vill sjá nýjan forstjóra taka af festu á málunum. „Ég vona að hann kynni 100 daga áætlun um hvernig við náum okkur á rétt strik. Það er gríðarlega mikilvægt.“ Hann finni einnig hvernig mórallinn á spítalanum hafi dalað í COVID.

„Kannski er fólk orðið þreytt og uppgefið en það er svo mikilvægt að fólk hafi gaman af því að fara í vinnuna. Ef það verður pína kemur það hiklaust niður á þjónustunni.“

Lífsharmonían mikilvæg

En hvernig tilfinning er að vera að hætta? „Mér finnst þetta orðið ágætt eftir öll þessi ár,“ segir hann og lýsir því hversu gaman hafi verið í vinnunni. „Ég hef gjarnan sagt við mitt fólk að það að hafa gaman í vinnunni og hafa gaman af því að fara heim þegar hún er búin, skiptir öllu máli,“ segir hann.

„Stundum eru erfiðleikar á öðrum hvorum kantinum og það þarf að laga. Ég hef verið heppinn að vinna með jákvæðu fólki og hef verið ánægður í vinnunni. En maður verður að hætta samkvæmt reglunni. Það er kannski nauðsynlegt því annars myndi maður halda endalaust áfram,“ segir hann, brosir og hugsar til heilsunnar.

„Það er dýrmætt að vera frískur. Á því áttar maður sig sérstaklega eftir að hafa unnið svona lengi á spítala – að geta verið það áfram og gert annað líka.“ Hann hafi hugsað vel um heilsuna, hugað að mataræði, hreyfingu og harmoníu í lífinu með hjálp og fyrir tilstuðlan konu sinnar Karinar Eriksson.

„Hún er svæfingahjúkrunarfræðingur sem fylgdi mér heim úr sérnámi í Svíþjóð og vann hér á Landspítala nánast frá fyrsta degi. Til að byrja með á ýmsum deildum spítalans en vinnur nú í litlu fyrirtæki okkar sem kemur að fjármálum. Hún er algjör orkubolti,“ segir hann.

„Hún hefur alla tíð verið mjög áhugasöm um heilsu og séð til þess að ég kemst ekkert upp með að borða óhollt. Svo hreyfum við okkur mikið,“ segir hann en tiltekur þó ríkari ástæðu góðs sambands.

„Stuðningur heima fyrir á dögum þegar hlutirnir ganga ekki eins og maður vænti er ómetanlegur þegar vinnan er svona krefjandi og maður hefur líf og limi fólks í lúkunum,“ segi hann. „Oft er ekki snúið til baka. Ef menn ganga of nærri sjúklingum getur það valdið varanlegu meini. Ég upplifi því mikilvægt að hafa bandamann heima fyrir. Það er hluti af harmóníunni.”

Við ræðum tækniframfarir, tæki og þrívídd, og kemur þá í ljós að hann hefur heillast af tækninni. Er kominn með prentara heima hjá sér og farinn að hanna og framleiða ýmsa hluti. Sker út samsett nafn þeirra hjóna, Karon, Karin og Aron, í hönnuðu hlutina og leikur sér að formum og efni.

„Já, ég hannaði til að mynda þessa sápueiningu fyrir nýtt baðherbergi okkar í Svíþjóð,“ segir hann, sýnir mynd á símanum og vísar í nýja íbúð þeirra hjóna í hæstu blokk Stokkhólms, 37 hæðir. Íbúð þeirra er rétt um hana miðja. „Við förum út um helgina að standsetja,“ segir hann og er spenntur.

Með æxli á við appelsínu

Aron er nýkominn af göngudeildinni þegar hann sest niður með Læknablaðinu. Þar hitti hann konu sem hann skar góðkynja æxli á stærð við appelsínu úr við framheila báðum megin fyrir jól. Hún hafði misst minnið, hætt að hirða um sig, sem hann segir geta verið lúmskt merki heilaæxlis.

„Æxlið er hvergi sjáanlegt lengur á nýrri mynd og hún á hröðum batavegi. Hún sagði mér að hún væri farin að tala 8 tungumál en ég gleymdi að spyrja hana hvað hún talaði mörg fyrir,” segir Aron og hlær.

„Hún mun nú áfram ná bata og væntanlega fara aftur í vinnu. Þetta er ánægjulegt á meðan við glímum oftar við illkynja æxli þar sem horfurnar eru ekki góðar. Þá skiptir máli að tryggja að sjúklingurinn sé samt ánægður með meðferðina sem hann fær. Fólk bæði sjái og upplifi að við gerðum hvað við gátum.“

Ljóst er að með Aroni fer hafsjór af fróðleik og þekkingu. Hann stressast þó ekki við að skila deildinni af sér. „Ég veit að gott fólk tekur við,“ segir hann og ætlar ekki að koma að vali á eftirmanni, enda þekki hann þar til og viti að erfitt verði að velja úr hópnum. „Það er engin launung að í hópnum eru tveir af mínum mönnum og 5 erlendis frá. Ég kem því ekki að þessu vali.“

Stoltur? „Já, já, það hefur gengið vel, en maður á kannski ekki að segja sjálfur til um það. En ég geng sáttur frá borði. Já.“

27 þúsund aðgerðir á fimmtugri deild

Heila- og taugaskurðlækningar hafa nú verið gerðar í hálfa öld á Landspítala. Haustið 1971 voru fyrstu tvær aðgerðirnar gerðar og deildin svo formlega opnuð árið eftir.

„Á þessum árum hafa 27.000 aðgerðir verið gerðar á deildinni sem alltaf hefur verið til húsa í Fossvogi,“ segir Aron Björnsson yfirlæknir deildarinnar sem er nú að hætta. Höfuðaðgerðir, bak- og ýmsar taugaaðgerðir.

„Þeim hefur fjölgað ár frá ári og eru um 700-800 á ári. Við teljum samt að enn, rétt eins og þegar ég byrjaði, sé nóg að hafa fjóra sérfræðinga. Það þarf að vera nóg að gera fyrir alla,“ segir hann. „Annars verða duglegir skurðlæknar ekki ánægðir í vinnunni.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica