04. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Markmiðið er að halda jafnvægi á milli tónlistarinnar og lækninga - það er mottóið hans Doctor Victor

„Þetta eru tveir ólíkir heimar en ég er ennþá sami maðurinn,“ segir Doctor Victor. Hann er læknir á daginn og tónlistarmaður þess á milli – með Sony-samning. Victor skilur ekki alveg á milli heimanna, því sjúklingarnir þekkja listamanninn þegar hann mætir þeim í sloppnum. „Já, það gerist reglulega,“ staðfestir hann og hlær

Victor Guðmundsson er Doctor Victor, tónlistarmaður með samning við Sony. Hann samdi þemalag Ólympíuleikanna í ár og er með mörg járn í eldinum. Hann starfar sem læknir á Heilsuvernd. Mynd/ gag

Læknablaðið · Victor Guðmundsson - viðtal í apríl 2022

hlusta

„Ég reyni að halda fagmennskunni í vinnu en finnst mjög gaman að tala um tónlistina þegar fólk nefnir hana,“ segir Victor Guðmundsson læknir sem vinnur þessa dagana með landsliði tónlistarmanna. „Mér finnst líka gott þegar fólk að skemmta sér kemur til mín og þakkar fyrir að hafa lækni á svæðinu um leið og ég spila fyrir það.“

Victor vakti athygli á dögunum því hann samdi með þremur öðrum þemalag Ólympíuleikanna í ár. Hann á þriðju mínútuna, danshlutann, sem spilaður hefur verið 900 milljón sinnum á kínverskum samfélagsmiðlum. Læknablaðið hittir hann á nýjum vinnustað hans hjá Heilsuvernd.

„Mér finnst mjög gaman að vinna hér á Heilsuvernd og geta gert bæði,“ segir Victor, „læknað og unnið að tónlist.“ Hann fýkur í hús á sama tíma og blaðamaður á vindasömum marsmiðvikudegi, frídegi, en hann finnur fljótt lausa læknastofu. Glæsilegt útsýnið yfir Elliðaárdalinn grípur athyglina.

„Starfsemin hér er svo margþætt. Ég vinn á heilsugæslunni en við erum líka til að mynda með heilsufarsskoðanir með hjartaálagsprófum, trúnaðarlæknaþjónustu, öldrunarvernd og í spennandi þróunarverkefnum og starfið því fjölbreytt.“ Er í 80% starfi hjá Heilsuvernd. Nýtir miðvikudagana til að semja og sinna samningum við Sony í Danmörku. Samningi sem hann landaði fyrir rétt rúmu ári.

„Aðdragandinn var rosalegur,“ segir Victor sem segir draumana hafa stækkað þegar hann hóf að gera eigin tónlist. „Þetta var eins og að reyna að halda hesti rólegum. Ég átti ár eftir af náminu og tónlistin stækkaði og stækkaði. Ég reyndi hvað ég gat til að halda jafnvægi,“ segir Victor sem á ekki langt að sækja læknisáhugann. Móðurafi hans, Frosti Sigurjónsson skurðlæknir, er fyrirmyndin.

Frosti afi fyrirmynd

„Ég man svo vel eftir afa mínum. Hann var húmoristi, stór karakter og mikil fyrirmynd fyrir mig. Hann fór í sérnám í skurðlækningum í Kiel. Þar fæddist mamma mín. Síðan fluttist hann til Braunschweig og var yfirlæknir þar. Hann var virtur skurðlæknir,“ segir Victor.

Frosti Sigurjónsson skurðlæknir og afi Victors gaf barnabarni sínu flygilinn sem hann sjálfur spilaði á eftir langar vaktir.

„Ég ætlaði að feta í fótspor afa. Síðan þegar leið á námið fór ég að hafa áhuga á því hvernig mannslíkaminn virkar og hvernig hægt er að koma í veg fyrir að eitthvað klikki í stað þess að laga það sem aflaga fer,“ segir Victor.

„Ég tala fyrir fyrirbyggjandi læknisfræði. Hún snýst um fjóra þætti: Svefn, hreyfingu, næringu og andlegt jafnvægi. Hægt er að sjá fyrir sér stól með fjóra fætur og ef einn brotnar undan fellur stóllinn.“ Nýta þurfi tæknina betur til að fylgjast með heilsufarinu og því hafi hann síðustu misseri einnig unnið með hlauparanum Arnari Péturssyni og hugbúnaðarfyrirtækinu Driftline.

„Þeir eru fyrstir í heiminum til að mæla með einföldum og nákvæmum hætti þol með því að nota hjartsláttargögn úr snjallúrum. Þannig fæst fyrsta vísindalega mælieiningin á þoli á skalanum 0-100%. Algjör snilld. Breytir leiknum,“ segir Victor sem er einnig að fara af stað með fyrirlestra á vegum Heilsuverndar um mikilvægi þess að halda jafnvægi í lífinu.

Með söguna í stofunni sinni

Bakgrunnur Victors er alþjóðlegur þótt hann sé Íslendingur. Fæddur í Þýskalandi eins og mamma hans. Foreldrar hans búa nú í Noregi þar sem hann bjó einnig um nokkurra mánaða skeið eftir Versló áður en hann stökk til Slóvakíu í læknanám. Mamma hans, Edda Freyja Frostadóttir fatahönnuður, og pabbi hans, Guðmundur Rafn Guðmundsson verkfræðingur. Systir hans, Eva Mey, ætlar líka að verða læknir og er á fjórða ári af 6 í Slóvaíku.

„Ég byrjaði í tónlist þegar ég var ungur. Pabbi setti mig við píanóið og ég spilaði á það og ræddi læknisfræði við afa. Það var alltaf þetta tvennt og svo hefur mér alltaf fundist gaman að hjálpa fólki. Það vatt upp á sig,“ segir hann. Í náminu ytra sprakk tónlistin hins vegar út; ekki þó sú klassíska sem hann lærði, heldur dans- og raftónlist sem hann semur nú gjarnan á flygil afa síns í stofunni heima.

„Þessi flygill var smíðaður í Þýskalandi 1908. Grotrian-Steinweg, frá upprunalega Steinweg fyrirtækinu. Flygillinn er búinn að lifa bæði fyrri og seinni heimsstyrjöldina í Braunschweig. Afi fékk hann til sín og flutti til Íslands og var með hann í stofunni. Hann ræddi læknisfræðina og svo spilaði ég á píanóið,“ lýsir Victor.

„Afi spilaði einmitt á flygilinn eftir erfiðar aðgerðir og hann gaf mér hann áður en hann féll frá. Þetta er flygillinn þinn, sagði hann við mig. Haltu honum í fjölskyldunni.“

Victor fékk flygilinn eftir afa sinn Frosta og situr hér með frumburðinn sinn Frosta Victorsson. Flygillinn kom frá Þýskalandi þar sem hann fór í gegnum fyrri og seinni heimsstyrjöldina.

Flygillinn er langt frá ljósunum og ryþmanum á klúbbunum í Slóvakíu þar sem hann féll fyrir danstónlistinni. „Þetta er skipulögð tónlist, taktföst og ég fann að ég gæti nýtt píanókunnáttuna og skapað. Þetta opnaði heiminn fyrir mér á fyrsta árinu í læknisfræðinni og frá öðru ári gafst tækifæri til að spila á klúbbum og ég nýtti þau.“

Hann spilaði víða í Slóvakíu, Ungverjalandi og fleiri löndum í kring. Hann var læknaneminn í tónlist. „Hvað eigum við að kalla þig? Þú ert náttúrulega doktor, svo doktorinn? Sögðu klúbbeigendurnir. Doctor Victor festist við mig og mér fannst það passa vel.“

Tónlistin sprakk út í námi

Hann lýsir því hvernig hann samdi lagið Sumargleðin á lokaárinu í Slóvakíu en það hefur nærri tveggja milljóna hlustun á Spotify.

„Þegar ég kom heim til Íslands var það orðið mjög vinsælt og ég tilnefndur nýliði ársins, lagið lag ársins og myndband við lag sem ég gerði með Svölu Björgvins myndband ársins. Ég áttaði mig á því hvað hlutirnir geta gerst hratt. Tónlistin hætti þarna að vera hobbý,“ segir Victor sem hefur klifið stigann síðan. Netflixgláp eða línuleg dagskrá á RÚV fær ekki vigt í lífi hans.

„Ég hef þó talað mikið um að halda jafnvægi og þarna sá ég að ég væri með tvo meginpóla; læknisfræðina og tónlistina. Ég mætti ekki missa mig um of í öðrum hvorum,“ segir Victor sem leyfði sér að njóta á milli lestrarlota í Slóvakíu.

„Ég setti mér það markmið að spila á stærsta klúbbi Slóvakíu áður en náminu lyki, Ministry of Fun, og úr varð að ég spilaði þar á fimmta ári,“ segir hann og hvernig hann hafi saxað á hvert markmiðið á fætur öðru, eins og að spila á Þjóðhátíð fyrir lok náms. „Ég var kominn á stóra sviðið fyrir framan 15.000 manns áður en lokaárið hófst.“

Krafturinn greip athygli bæjarstjórans í Martin sem veitti honum fyrstu heiðursverðlaun í sögu skólans fyrir vel unnin störf. Sony hafi svo boðið honum samning þegar sjötta árinu í læknisfræði lauk. „Ég ætlaði ekki að trúa því að tónlistin væri komin á þennan stall, tónlist læknanema frá Íslandi.“

Victor hefur nú gefið út nokkur lög í gegnum Sony og gengið vel. „Sony hefur höfuðstöðvar út um allan heim og getur tengt mig áfram,“ segir hann. „Þetta er svo stór bransi. Ég geri lagið heima og svo tekur allt ferlið við. Fæst fólk áttar sig á vinnunni á bak við þriggja mínútna lag,“ segir Victor og nefnir að 100 til 200 klukkutímar sé ekki óalgengt.

Skírði soninn í höfuð afa

„Núna er ég kominn í nokkuð gott jafnvægi með vinnuna og tónlistina og stefni í ár á að gefa út eitt lag á mánuði að meðaltali.“ Ha! „Já, það hefur alltaf verið markmið mitt að vera duglegur,“ segir Victor sem vinnur með landsliðinu.

„Ég var að klára lag með Daníel Ágústi, er að vinna lag með Svölu Björgvins og áfram með Rúrik Gíslasyni. Er einnig í viðræðum við fleiri hér á Íslandi og er með lög í bígerð með tónlistarfólki frá Kína og fleiri löndum. Svo er ég í viðræðum við nokkra í Los Angeles. Ég er með margt í gangi enda tekur allt sinn tíma og gott að hafa marga bolta á lofti í einu,“ segir hann.

„Ég vil halda tempói og er núna að byrja á apríl og maí-laginu,“ segir Victor þennan kalda marsdag, hlýtt á læknastofunni, og laumar að að hann hafi nú einnig bætt enn einum ásnum við jafnvægispólinn. Hann og kærasta hans, Dagbjört Gudjohnsen Guðbrandsdóttir, sem er í sérnámi í bráðalækningum, eiga þriggja mánaða dreng, Frosta Victorsson – í höfuðið á afa.

Dagbjört og Victor kynntust á þriðja ári í læknisfræði. Hún lærði í Ungverjalandi. Hann í Slóvakíu. Nú eiga þau lítinn dreng, Frosta, sem skírður er í höfuðið á langafa sínum, skurðlækninum Frosta Sigurjónssyni.

„Dagbjört lærði í Ungverjalandi. Við kynntumst í sameiginlegri skíðaferð íslenskra læknanema þegar við vorum á þriðja ári. Það voru ekki nema 5 tímar á milli svo við keyrðum og vorum í fjarsambandi í fjögur ár. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.“ En breyta barneignir ekki jafnvæginu?

„Nei, ég finn að ég er meira mótíveraður. Ég vil vera góð fyrirmynd fyrir hann, verða betri tónlistarmaður, betri læknir. Vera til staðar fyrir hann. Svo er Dagbjört súpermamma á bráðavaktinni.“ Lykillinn sé að setja sér markmið og stefna að þeim.

„Markmiðið nú er að halda jafnvægi.“

Verðum að halda í gleðina í starfi

„Mér finnst sem margir ungir nýútskrifaðir læknar lendi á vegg um leið og þeir klára læknanámið. Það vantar spennuna og gleðina, að þetta unga fólk sé spennt að hefja leik eftir langt nám,“ segir Victor Guðmundsson nýútskrifaður læknir sem hefur markvisst valið að halda í áhugamálin og frá álaginu eftir að námi lauk.

„Kandídatsárið er keyrsla í heilt ár. Algjör keyrsla. Mönnunarvandi er á nánast hverri einustu deild. Álag, bugun og heilt yfir – ég fór á margar deildir – eru unglæknar mjög þreyttir strax. Nýútskrifuð og buguð. Það á ekki að vera þannig.“

Sjálfur hefur hann minnkað starfshlutfall sitt til að geta sinnt tónlistinni. „En langflestir hafa engan tíma í að sinna öðru.“ Ungir læknar þurfi stöðugt að taka aukavaktir. „Maður veltir fyrir sér hvert þetta leiðir,“ segir hann og er hugsi yfir stöðunni.

„Ég þekki fólk bæði á skurðsviði og lyf- og öðrum sérnámum sem hefur hætt eftir eitt eða tvö ár í sérnámi því það getur ekki meir. Það er sorgleg þróun að við getum ekki sinnt unglæknunum okkar, sem fóru spenntir í námið en upplifa þreytu og kulnun vegna álags. Einn læknir sé oft að sinna tveggja, þriggja manna starfi.“

Starfið eigi að vera skemmtilegt. „Læknum á að líða vel í vinnunni. Við eigum að geta verið fyrirmyndir fyrir sjúklingana okkar,“ segir hann og er hugsi yfir stöðunni í íslenska heilbrigðiskerfinu um leið og hann er vongóður um að tæknin leysi hluta vandans. „Henni fleygir hratt fram og við verðum að nýta hana til þess að hjálpa okkur að gera kerfið markvissara og skilvirkara.“

Hér eru tvö vídeó af lögum Victors á YouYube:

https://www.youtube.com/watch?v=vJqNV2G_KdI


https://www.youtube.com/watch?v=eShm5uJ2Ud0


 Þetta vefsvæði byggir á Eplica