04. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Persónulegt uppgjör við kórónaveiruna. Theódór Skúli Sigurðsson

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

„Sjaldan hafa jafnmargir, átt jafnfáum, jafnmikið að þakka, án þess að gera sér grein fyrir því“

Ég leyfi mér hér að ofan að vitna í hin fleygu orð Winstons Churchill með smávægilegum áherslubreytingum um leið og ég horfi um öxl og rifja upp síðustu misseri í lífi mínu og margra heilbrigðisstarfsmanna.

Vorið 2020 var haldinn lokaður fundur svæfinga- og gjörgæslulækna starfandi á Íslandi í skugga faraldurs sem átti eftir að hafa mikil áhrif á heimsbyggðina. Tilefni fundarins var nýr óvinur, kórónaveira sem aldrei hafði sést áður, en breiddist út með ógnarhraða og virtist afar skæð. Vísbendingar voru þegar farnar að berast frá læknum á Ítalíu um afleiðingar faraldursins á vestrænt heilbrigðiskerfi og lýsingarnar þaðan voru allt annað en hughreystandi.

  • Öll vissum við á fundinum að Ísland væri illa undirbúið og að gjörgæslurými landsins væru alltof fá.
  • Öll vissum við að öndunarvélar Landspítala voru fáar og löngu komnar á tíma, en útboði Landspítala um kaup á nýjum öndunarvélum var frestað í seinustu sparnaðaraðgerðum.
  • Öll vissum við að íslenska heilbrigðiskerfið myndi bresta næði veiran að breiðast óhindrað um íslenskt samfélag.

Framundan væru erfiðar ákvarðanir um hverjir ættu að fá að lifa og hverjir myndu deyja. Óopinberar spár gerðu ráð fyrir að mörg hundruð ef ekki þúsund Íslendingar myndu liggja í valnum. Mikill undirbúningur hófst við að mæta hinum nýja óvini, en tíminn var skemmri inni á Landspítala en flesta grunaði. Strax í upphafi varð ein af fyrstu hópsýkingum veirunnar á Íslandi meðal starfsmanna á gjörgæsludeild Landspítala í Fossvogi, litlu munaði að síðasta vígið í baráttunni við faraldurinn myndi falla á fyrstu dögunum. Í framhaldinu skall hver kórónuveirubylgjan á fætur annarri á landsmönnum og heilbrigðisstarfsmenn náðu sjaldnast að jafna sig milli átaka. Hægt og rólega fórum við að læra á hinn síbreytilega óvin, árangursríkar bólusetningar hófust og vísindaleg gögn unnin úr tölfræðilegum upplýsingum sýndu á endanum að veiran hafði breyst og olli vægari einkennum. Óhætt virtist vera að létta á samfélagslegum takmörkunum sem á endanum höfðu nær eingöngu snúist um að verja viðkvæmt heilbrigðiskerfið. Öllum hefði samt átt að vera ljóst að lokaorustan yrði dýrkeypt með óheftri útbreiðslu veirunnar og að fórnarkostnaðurinn yrði einkum talinn í fleiri dauðsföllum hjá viðkvæmum sjúklingahópum.

Kórónaveirufaraldurinn afhjúpaði bresti íslenska heilbrigðiskerfisins og lærdómarnir voru margir á leiðinni. Andlát af völdum veirunnar á Íslandi voru samt með því lægsta sem þekkist í heiminum og þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður getum við verið stolt af árangri Íslands. Árangurinn getum við þakkað útsjónarsömu og duglegu heilbrigðisstarfsfólki, öflugum sóttvarnaaðgerðum og samstilltum viðbrögðum almennings í landinu.

Mikilvægt er að átta sig á því að árangurinn í baráttunni við kórónaveiruna hefur ekki verið án fórna, því veikindi og langtímafjarvistir heilbrigðistarfsfólks eru nú í sögulegu hámarki. Heilbrigðisstofnanir þurfa að grípa inn í þessa atburðarás, styðja við starfsfólkið og hjálpa því að komast á rétta braut. Hver einasti starfsmaður er ómissandi, því að reynslan og þekkingin sem býr í hverjum og einum er ómetanleg.

Í dag er skortur á starfsfólki ein stærsta áskorun heilbrigðiskerfisins. Slíkt endurspeglast einna helst í skorti á legurýmum heilbrigðisstofnana, með viðvarandi álagi á bráðamóttökur, frestunum skurðaðgerða og óhóflegum þrýstingi á útskriftir sjúklinga. Leita þarf allra leiða til að leysa þetta mönnunarvandamál og gera allt til að koma til móts við óskir heilbrigðisstarfsmanna, hvað varðar laun, vinnutíma og vinnuumhverfi.

Staðreyndin er sú að íslenska heilbrigðiskerfið náði aldrei að rétta úr kútnum eftir efnahagshrunið og í dag ætti öllum að vera ljóst að ennþá vantar fjármagn inn í heilbrigðiskerfið. Hlutfallslega minna af vergri þjóðarframleiðslu er varið í heilbrigðismál á Íslandi samanborið við nágrannalöndin og þótt aðeins hafði verið aukið við fjárframlög seinustu ár er það alls ekki nóg til að endar nái saman.

Það er von undirritaðs að nýr forstjóri Landspítala fái nauðsynlegt svigrúm til að móta nýja stefnu og skilgreina betur hvaða þjónustu spítalanum beri að veita. Mikilvægt er að losa Landspítala undan sligandi skuldahala síðustu ára, bæta við fjárframlög og láta af sífelldum sparnaðarkröfum í heilbrigðiskerfinu. Vonandi er tími uppbyggingar íslenska heilbrigðiskerfisins loksins hafinn.

Á heilbrigðisstofnunum landsins gerast þrátt fyrir allt lítil kraftaverk alla daga við erfiðar aðstæður. Hugsjón og eldmóður þeirra starfsmanna sem eru í framlínunni er einstakur, slíkt ber að varðveita og standa vörð um inn í bjartari framtíð.

Til minningar um móður mína, Auði Theodórs meinatækni, sem helgaði allt sitt líf íslenska heilbrigðiskerfinu, en lést úr kórónaveirunni 14. febrúar 2022.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica