03. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Mannaflagreining Læknafélags Íslands. Ingvar Freyr Ingvarsson og Steinunn Þórðardóttir

Læknafélag Íslands hefur unnið að gerð spálíkans um mannaflaþróun lækna á Íslandi til ársins 2040. Í spánni kemur fram áætlað framboð lækna og ætluð eftirspurn eftir læknum til ársins 2040. Við gerð spálíkans er horft til ýmissa þátta, til dæmis breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Gert er ráð fyrir að hópurinn 65 ára og eldri vegi þyngra í eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu en þeir sem eru yngri. Spálíkanið byggist á mannfjöldaspá Hagstofunnar fyrir hlutfall 65 ára og eldri af heildarmannfjölda á komandi árum. Þá er einnig tekið mið af áætluðum breytingum í læknastéttinni.1 Í spánni er meðal annars tekið tillit til eftirfarandi þátta:

  • Nýliðunar í læknastéttinni og aldursdreifingar.
  • Fjölda lækna sem útskrifast frá Háskóla Íslands og erlendum háskólum.
  • Hlutfalls lækna sem stunda framhaldsnám hérlendis og þeirra sem kjósa að fara utan til framhaldsnáms.
  • Hlutfalls lækna sem setjast að erlendis eftir nám.
  • Núverandi aldurssamsetningar læknastéttarinnar.
  • Hlutfalls þeirra sem fara á eftirlaun á næstu árum, bæði hér á landi og erlendis.

Sé litið á tölfræði um starfandi lækna á Íslandi kemur ýmislegt áhugavert í ljós, sjá mynd 1 og 2. Meðalaldur starfandi lækna á Íslandi er nú um 48 ár og hefur því lækkað lítillega frá árinu 2014. Það ár var meðalaldurinn 50,4 ár. Yngri læknum hefur því fjölgað. Má það rekja annars vegar til þess fjölda Íslendinga sem leggur stund á læknisfræði erlendis. Þeir sem það gera eru nær jafnmargir og nemendur í læknadeild Háskóla Íslands. Hins vegar hefur nýnemum við læknadeild Háskóla Íslands fjölgað frá því að vera um 49 árin 2014 til 2016 í það að vera 62 árið 2021. Vaxandi framboð sérnáms í læknisfræði hér á landi hefur leitt til þess að læknar starfa lengur hér á landi eftir útskrift og afla sér sérmenntunar að hluta til eða að öllu leyti hérlendis í ríkari mæli en áður.

Þá hefur orðið algjör viðsnúningur í kynjahlutföllum þar sem 66% lækna undir þrítugu eru konur en 34% eru karlar. Þó yngri læknum hafi fjölgað síðustu misserin, þá eru 27% starfandi lækna 60 ára eða eldri. Því er ljóst að liðlega fjórðungur læknastéttarinnar hættir störfum næsta áratug fyrir aldurs sakir. Því er mikilvægt að nýliðun í stéttinni sé nægjanleg.

Aðalástæða þess að unnið er að spálíkani sem þessu er að fá sem skýrasta mynd af framtíðarhorfum í heilbrigðisþjónustu. Miðað við gefnar forsendur er útlit fyrir að það verði enn meiri skortur á læknum á komandi árum en nú er. Þannig eru vísbendingar um að það muni vanta 125-130 lækna árið 2030, 210-215 árið 2035 og 250-255 árið 2040. Þessi viðbót er umfram það sem vantar nú. Þá er sleginn varnagli við því að það á eftir að taka tillit til fjölgunar erlendra ríkisborgara og ferðamanna og áhrifa þess á fjölda lækna. Líklegt er því að vöntunin verði enn meiri að teknu tillit til þessara þátta (mynd 3).

Nám lækna er langt. Það tekur að minnsta kosti 12-15 ár að mennta sérfræðilækna. Því er mikilvægt að bregðast tímanlega við komandi viðbótarþörf á framtíðarmönnun læknastarfa innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Í skýrslunni Sérfræðinám lækna og framtíðarmönnun sem gefin var út af heilbrigðisráðuneytinu árið 2020 kemur fram að víða á landsbyggðinni séu ómönnuð stöðugildi lækna.2 Ljóst er að á komandi árum verður enn meiri þörf fyrir fleiri lækna vegna vaxandi verkefna. Er það meðal annars vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og til að efla getu heilbrigðiskerfisins til að bregðast við alvarlegum uppákomum. Má þar meðal annars nefna hópslys, öldrunartengda og árstíðarbundna smitsjúkdóma auk heimsfaraldurs eins og nú geisar. Tryggja þarf mönnun lækna, sem og annarra heilbrigðisstarfsmanna, innan heilbrigðiskerfisins bæði nú og í náinni framtíð svo hægt sé að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma.

Heimildir

1. Arngrímsson R. Hvað þarf marga lækna á Íslandi - mannaflaspá til 2040. Morgunblaðið 2021: 8. nóv.
 
2. Sérfræðinám lækna og framtíðarmönnun - skýrsla starfshóps (stjornarradid.is). Heilbrigðisráðuneytið, Reykjavík 2020.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica