03. tbl. 108. árg. 2022
Umræða og fréttir
Runólfur Pálsson vill forvirkar aðgerðir gegn kynbundinni mismunun á Landspítala
Breyta þarf menningunni á Landspítala svo kynferðisleg áreitni og mismunun þrífist ekki. Þetta segir Runólfur Pálsson nýr forstjóri Landspítala. Hann fær yfir sig stjórn og sér í kjölfarið fram á að skipurit spítalans breytist
Læknablaðið · Runólfur Pálsson - viðtal í marsblaðinu 2022„Ekki nægir að verkferlar séu til staðar til að grípa fórnarlömb kynbundinnar mismununar heldur þurfum við fyrirbyggjandi aðgerðir,“ segir Runólfur Pálsson, nýr forstjóri Landspítala.
Runólfur Pálsson er nýr forstjóri Landspítala. Hann hefur starfað þar frá 1996, þekkir starfsemina vel og er spenntur fyrir verkefninu. Mynd/gag
„Niðurstaða könnunar Félags almennra lækna sýnir að hér á Landspítala eru þessi mál ekki einstök heldur smita inn í almenn samskipti.“ Hann segir þau því hluta af kúltúrnum á spítalanum ásamt ákveðinni þöggunarmenningu sem sé viðhaldið með valdaójafnvægi.
„Við þurfum að ráðast kerfisbundið í að bæta þessa menningu og samskipti almennt,“ segir hann. „Við þurfum að vinna frumkvæðisvinnu þannig að við grípum inn í oft vanhugsaða háttsemi sem einhverjir hafa tamið sér. Við þurfum að eyða þessu.“
Læknablaðið hitti Runólf á skrifstofu hans í Fossvogi hálfum mánuði fyrir settan forstjóradag. En verður hann með skrifstofu þegar hann tekur við eða fetar hann í fótspor Páls Matthíassonar og sleppir hendinni af slíkum munaði?
„Góð spurning, ég hef lítið hugleitt þau mál,“ segir hann. Spurður hvernig honum hafi liðið þegar ljóst varð að hann tæki við, segir hann: „Mér varð ljóst að ég stæði frammi fyrir breyttum veruleika.“
Með keppinautana í farteskinu
Runólfur var valinn úr hópi 14 umsækjenda. Nú stýrir hann 80 milljarða framlagi ríkisins til þessa þjóðarsjúkrahúss. Ekki einn, því hann fær yfir sig heila stjórn.
Runólfur mun þó í fyrstu stýra hópi fólks í framkvæmdastjórn, sem einnig vildi setjast í forstjórastólinn: Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur starfandi forstjóra, Sigríði Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar, Ólafi Baldurssyni, framkvæmdastjóra lækninga, og Gunnari Ágústi Beinteinssyni, framkvæmdastjóra mannauðsskrifstofu. Hvernig mun það ganga?
„Fólkið sem situr í framkvæmdastjórninni hefur flest verið lengi í forystu spítalans. Það hefur mikla reynslu og mjög gott að vinna með þeim. Hins vegar eru breytingar í vændum,“ segir hann og vísar til áhrifa nýrrar stjórnar.
„Ég tel að fljótt verði hugað að breytingum á skipulagi yfirstjórnar spítalans. Ég skoða þessa dagana hvernig við útfærum forystu spítalans með hliðsjón af því.“ Stjórnin komi til með að hafa ríkt hlutverk. „En þangað til vænti ég góðs samstarfs við framkvæmdastjóra og forstöðumenn.“
Blaðamaður fullyrðir að Landspítali sé eins og olíuskip. Það taki tíma að skipta um kúrs. Það sjáist á því að bráðamóttakan hafi nú verið stífluð svo árum skipti og legurými spítalans fullnýtt. „Forgangsmál,“ segir Runólfur. Spítalinn verði að hafa fleiri legurými til reiðu fyrir bráðveikt fólk.
„Það er afar mikilvægt að rúmanýtingin fari ekki yfir 85-90% að meðaltali en hún hefur gjarnan farið yfir 100% og þá er lítið sem ekkert svigrúm til að takast á við skyndilega álagsaukningu svo sem vegna fjöldaslysa og faraldra. Þá viðhelst þetta ástand sem hefur verið undanfarin ár, þar sem að fjöldi fólks kemst ekki innan ásættanlegs tíma í sjúkrarúm á legudeildum.“ Þessu ætli hann að breyta. “Já, við verðum að breyta þessu.“
Hann bendir á að fjórðungur legurýma á spítalanum tilheyri öldrunarþjónustu. „Við getum ekki ráðstafað stórum hluta legurýma til aldraðra sem þarfnast langvarandi endurhæfingar eða hafa lokið meðferð á spítalanum.“ Ræða þurfi verkaskiptingu milli þjónustustiga. Ýmis verkefni eigi heima utan spítalans.
„Þá á ég við þjónustu við aldraða sem hafa lokið meðferð hér á spítalanum. Einnig eru tækifæri í bráðaþjónustunni og svo miklu skýrari verkaskiptingu í eftirliti og meðferð varðandi langvinna sjúkdóma milli heilsugæslu, sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna og spítalans. Þar eru mjög óskýr mörk og oft hending sem ræður því hvar sú meðferð er veitt.“
Vill nýta alla möguleika
Runólfur bendir á að Landspítali leiki veigamikið hlutverk í samfélaginu sem þjóðarsjúkrahús. „En við þurfum í ljósi smæðarinnar og takmarkaðra úrræða sem henni fylgja að nýta alla okkar möguleika eins og kostur er. Við verðum að nýta til hins ýtrasta þjónustuúrræðin um allt land og sníða að þörfum fólksins.“
Hann horfi til þess að kröfur séu nú meðal starfsfólks um að vinna skikkanlegan vinnutíma, ná jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Að starfið sé þeim ekki íþyngjandi. „En þá verðum við samt að hugsa í lausnum, því dagvinnutími er aðeins 24% af venjulegri viku.“
Fyrir áramót var samið við Klíníkina um að skera niður af biðlistum spítalans fyrir um 175 milljónir króna. Ætlar Runólfur að útvista meira í þessum dúr? „Þetta eins og annað snertir markvissa hlutverkaskipan milli helstu eininga heilbrigðisþjónustunnar. Ég hef lagt áherslu á að hámarka nýtingu úrræða með hagkvæmnisjónarmið að leiðarljósi. Þar á meðal eru mögulega ákveðnar aðgerðir. Þetta þarf að skoða eins og annað. Það þarf að velta við öllum steinum,“ segir hann og augljóst að hann er fullur starfsþreks og tilhlökkunar að byrja.
En hvað ætlar hann að gera við prófessorsstöðuna sína í Háskóla Íslands? „Það verður breyting á mínum störfum fyrir skólann en ég mun ekki hætta,“ segir Runólfur sem hefur vísindarannsóknir á sínum snærum og 5 doktorsnema. „Ég hef ekki hug á að hlaupa frá því. Þetta eru verkefni sem hafa verið í uppbyggingu í áraraðir, en ég hætti daglegum störfum fyrir Háskóla Íslands,“ segir hann.
„Ég hef sinnt mikilli kennslu og verð að hverfa frá því. Ég get ekki sinnt öllu áfram en einbeiti mér að þeim verkefnum sem ég get ekki svo auðveldlega sett í hendur annarra og eru heppilegri viðureignar samhliða starfinu.“
Alltaf verið annasamt
Forstjórastarfið er annasamt en Runólfur býst þó ekki við að fjölskyldan finni mikinn mun. „Ég hef í rauninni verið í veigamiklum og krefjandi störfum alla tíð.“ Hann lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1985, sérfræðinámi í lyflækningum frá Hartford Hospital og Háskólanum í Connecticut árið 1991 og sérfræðinámi í nýrnalækningum frá Massachusetts General Hospital og Harvard Medical School árið 1996. Runólfur hefur starfað á Landspítala samfellt frá árinu 1996 og sinnt fjölda stjórnunarstaða.
Hann á dóttur og son, Hrafnhildi og Bjarna Pál, með eiginkonunni Ragnheiði Linnet söngkonu. Hrafnhildur fylgdi í fótspor hans en hún er í sérnámi í lyflækningum og hefur starfað um skeið á COVID-göngudeildinni. Bjarni Páll lauk nýverið BS-prófi í sálfræði og er nú í meistaranámi í heilbrigðisvísindum. „Ég hef ekki haldið þessu að þeim. Maður vill að þau velji það sem þau hafa raunverulegan áhuga á.“
Runólfur viðurkennir að hans fólk hafi heldur búist við að hann færi að draga úr verkefnum en auka þau, kominn yfir sextugt. „En einhvern veginn þróaðist þetta mjög hratt og ekki á stefnuskránni að ganga svona langt í stjórnunarstörfum. Þetta kemur þeim því á óvart en þau styðja mig,“ segir hann.
„Þetta starf er svo spennandi þar sem því fylgir óvissa. Áskoranirnar eru margar. Hér þarf að hyggja að okkar dýrmæta mannauði. Þar er læknahópurinn mikilvægur og mér finnst ekki hafa tekist að rækta þann garð nægilega vel allmörg undanfarin ár. Við merkjum óánægju,“ segir Runólfur.
„Læknanámið er langt og strangt og fólk á að njóta ávaxta erfiðisins í störfum sínum sem læknar. Þetta er gríðarlega áhugavert en jafnframt krefjandi starf og því verður ánægjan að drífa fólk áfram,“ segir hann. En þarf hann þá að taka handbremsubeygjuna nú þegar svo margir lýsa kulnun og þreytu?
„Já, þetta er áhyggjuefni en þetta ástand var byrjað áður en COVID-faraldurinn skall á. Ég tel að við séum í viðkvæmari stöðu en margar þjóðir því okkar er lítil og við aðeins með þetta eina stóra sjúkrahús, kröfurnar miklar og mannaflinn takmarkaður,“ segir hann og bendir á breytta tíma og því mikilvægt að leggja sig fram um að viðhalda gæðum kerfisins.
„Ættjörðin kallaði lækna áður til baka að loknu námi erlendis en þróunin síðustu tvo áratugi hefur breytt því. Fólk er ekki eins bundið af því að koma heim og áður var. Samskiptin eru auðveld, ferðir greiðar. Við verðum því að leggja okkur fram við að laða fólk til starfa á Landspítala. Þess vegna verðum við að hlúa vel að mannauði okkar.“
Meðferðarkjarninn opnaður á skipunartímanum?
„Ég ætla að vona að nýr meðferðarkjarni verði kominn í notkun áður en skipunartími minn er úti,“ segir Runólfur Pálsson, nýr forstjóri Landspítala sem ráðinn hefur verið til 5 ára.
„Ég er hóflega bjartsýnn því framkvæmdatími opinberra bygginga er oft langur.“ Stór hluti húsakynna spítalans er úreltur og takmarkaður. „Við þurfum strax að ráðast í skipulagsbreytingar til að mæta aukinni þjónustu og kröfum svo við ráðum við verkefnin sem að okkur snúa,“ segir hann.
„Það er einnig góður undirbúningur fyrir nýja meðferðarkjarnann, sem verður jú aðeins hluti af spítalanum.“