02. tbl. 108. árg. 2022

Fræðigrein

Meðferð háþrýstings í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu

Hypertension Management in Primary Care in the Capital Area of Iceland

doi 10.17992/lbl.2022.02.675

Ágrip

INNGANGUR
Háþrýstingur er einn aðaláhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma sem voru orsök þriðjungs allra dauðsfalla á heimsvísu árið 2010. Ómeðhöndlaður háþrýstingur getur valdið heilablóðfalli, hjartadrepi, hjartabilun, heilabilun, nýrnabilun, æðakölkun og sjónskerðingu. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna meðferð háþrýstings í heilsugæslu.

EFNI OG AÐFERÐIR
Rannsóknin var lýsandi afturskyggn þversniðsrannsókn og náði yfir þrjú ár: 2010, 2014 og 2019. Til skoðunar var meðferð háþrýstings hjá einstaklingum eldri en 18 ára með greininguna háþrýstingur samkvæmt flokkunarkerfinu ICD-10. Gögnum var safnað úr sjúkraskrárkerfi allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, alls 19 heilsugæslustöðva.

NIÐURSTÖÐUR
Fjöldi einstaklinga með háþrýstingsgreiningu jókst á rannsóknartímabilinu og meðalaldur þeirra sem hafa greininguna hækkaði. Hlutfall kynja hefur einnig breyst. Hlutfall karla með greininguna hefur aukist en hlutfall kvenna að sama skapi lækkað. Af þeim 25.873 sem voru með greindan háþrýsting árið 2010 voru 63,4% á lyfjameðferð. Árið 2019 hafði hlutfall háþrýstingssjúklinga á lyfjameðferð lækkað í 60,9% (p<0,001). Meðal þeirra sem voru á lyfjameðferð hélst hlutfall notkunar eins, tveggja eða þriggja eða fleiri lyfjaflokka í háþrýstingsmeðferðinni svipuð á tímabilinu 2010-2019. Algengustu lyfjaflokkar sem notaðir voru við meðferð háþrýstings hér á landi voru þvagræsilyf (C03), beta-blokkar (C07), kalsíumgangalokar (C08) og lyf með verkun á RAAS (C09). Hlutdeild lyfjaflokkanna í meðferð við háþrýstingi breyttist marktækt á rannsóknartímabilinu. Notendum þvagræsilyfja (p<0,001) og beta-blokka (p<0,001) fækkaði hlutfallslega en á sama tíma fjölgaði þeim sem tóku kalsíumgangaloka (p<0,001) eða lyf með verkun á RAAS (p<0,001). Yfir allt rannsóknartímabilið náðu 44,1% meðferðarmarkmiðum. Hlutfall þeirra sem ná meðferðarmarkmiðum var skoðað eftir heilsugæslustöðvum fyrir árið 2019. Rúmlega 41% sjúklinga náðu meðferðarmarkmiðum það ár. Tvær stöðvar skáru sig hins vegar nokkuð úr með um þriðjung sjúklinga sem náði markmiðum á hvorri stöð.

ÁLYKTUN
Miðað við innlendar og erlendar algengistölur eru enn margir háþrýstingssjúklingar ógreindir á Íslandi. Ljóst er að enn má gera betur í greiningu sjúkdómsins. Ekki getur talist ásættanlegt að færri en helmingur sjúklinga nái meðferðarmarkmiðum. Umbætur eru því mikilvægar og aðkallandi enda til mikils að vinna.

Greinin barst til blaðsins 11. júní 2021, samþykkt til birtingar 10. desember 2021.

Inngangur

Háþrýstingur er einn aðaláhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma en árið 2010 voru þeir orsök þriðjungs allra dauðsfalla á heimsvísu. Ómeðhöndlaður háþrýstingur getur valdið heilablóðfalli, hjartadrepi, hjartabilun, heilabilun, nýrnabilun, æðakölkun og sjónskerðingu.1 Með því að lækka blóðþrýsting er unnt að lækka tíðni kransæðasjúkdóma, hjartabilunar, og heilablóðfalla.2 Safngreining á 61 ferilrannsókn3 sýndi aukna hættu á þróun hjarta- og æðasjúkdóma vegna hækkaðs blóðþrýstings frá slagbilsþrýstingi (SBÞ) 115-180 mmHg og hlébilsþrýstingi (HBÞ) 75-105 mmHg. Í þeirri greiningu var hækkun um 20 mmHg í SBÞ og 10 mmHg í HBÞ hvor um sig tengd tvöföldun á áhættu á þróun hjarta- og æðasjúkdóma.

Algengi háþrýstings var 31,1% árið 2010 og fer hækkandi í heiminum vegna hækkandi aldurs mannkyns. Einnig er líklegt að meira salt í mat og hreyfingarleysi hafi áhrif á þessa þróun. Aukið algengi er í lág- og meðaltekjulöndum en þar hefur algengi háþrýstings aukist úr 23,8% árið 2000 í 31,5% árið 2010. Á sama tíma lækkaði algengið í hátekjulöndum frá 31,1% í 28,5%. Þá er áætlað að 1,39 milljarðar manna hafi verið með háþrýsting árið 2010 og var sjúkdómurinn nokkuð jafndreifður milli kynjanna.4 Hjá körlum er lægsta algengi í Suður-Asíu (26,4%) en hæsta í Mið- og Austur-Evrópu (39,0%). Hjá konum er algengi lægst í hátekjulöndum (25,3%) en hæst í löndum sunnan Sahara (36,3%). Þrátt fyrir að algengið hafi haldist nokkuð stöðugt er byrði sjúkdómsins að aukast á heimsvísu, sérstaklega í lágtekjulöndum.5,6

Nokkuð er síðan háþrýstingur varð þekktur sem aðaláhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma og ýmsar meðferðarleiðbeiningar7-9 eru til sem byggjast á vönduðum vísindarannsóknum. Þrátt fyrir það er sjúkdómurinn enn vangreindur og vanmeðhöndlaður. Árið 2010 vissu einungis 45,6% þeirra sem voru með háþrýsting af því, 36,9% voru á einhverskonar meðferð og 13,8% náðu meðferðarmarkmiðum (<140/90 mmHg). Þá var hlutfallslega tvöfalt betri vitund um sjúkdóminn í hátekjulöndum og fjórfalt fleiri náðu meðferðarmarkmiðum en í lágtekjulöndum.4,6 Greining og meðferð á Íslandi fer að mestu fram í heilsugæslu en einnig á læknastofum sérgreinalækna. Ekki eru til íslenskar leiðbeiningar um háþrýsting og því sennilegt að flestir styðjist við erlendar leiðbeiningar eins og NICE.7

Blóðþrýstingur hækkar með aldri. Mögulegar skýringar á þessu eru meðal annars uppsöfnuð áhrif lífsstíls, minni eftirgefanleiki slagæða og/eða lélegri síun í gauklum. Slagbilsþrýstingur hækkar út alla ævina en hlébilsþrýstingur hækkar til 55-60 ára aldurs og því er aukið algengi háþrýstings eftir þann aldur að miklu leyti einangraður slagbilsháþrýstingur.10

Salt í mat getur haft áhrif á blóðþrýsting og óhófleg neysla á salti er almennt talin skaðleg heilsu11 en ekki eru allir með saltnæman háþrýsting. Minni saltinntaka lækkar blóðþrýsting og hefur langtíma verndandi áhrif gagnvart hjarta- og æðasjúkdómum.12 Hreyfingarleysi er áhættuþáttur fyrir háþrýstingi en hreyfing lækkar blóðþrýsting bæði meðal háþrýstingssjúklinga og einstaklinga með eðlilegan blóðþrýsting.13

Mikil áfengisneysla (>3 drykkir á dag) er einnig áhættuþáttur fyrir háþrýstingi. Mikil áfengisneysla hækkar blóðþrýsting bæði hjá einstaklingum með eðlilegan blóðþrýsting og einstaklingum með háþrýsting og er sú aukning skammtaháð. Miðlungs neysla áfengis (<2 drykkir á dag) veldur ekki hækkun á blóðþrýstingi14 og hefur í sumum rannsóknum tengst lægri áhættu á heilablóðfalli og hjartaáfalli.15

Markmið þessarar rannsóknar var í fyrsta lagi að kanna hve margir skjólstæðingar heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu væru skráðir með greininguna háþrýstingur. Í öðru lagi að skoða hversu stórt hlutfall þeirra náðu meðferðarmarkmiðum á árunum 2010, 2014 og 2019. Í þriðja lagi að kanna hvaða lyfjameðferð er veitt við háþrýstingi. Einnig var gerður samanburður milli heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til skráningar á blóðþrýstingsmælingum og hlutfalli þeirra sem ná meðferðarmarkmiðum. Upplýsingar um stöðu meðferðar á háþrýstingi í heilsugæslu á Íslandi eru takmarkaðar. Síðasta og helsta rannsóknin á þessu sviði var framkvæmd á heilsugæslustöðinni Sólvangi í Hafnarfirði og tók yfir tímabilið 2002-200316 en var eingöngu bundin við eina heilsugæslustöð.

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin var lýsandi afturskyggn þversniðsrannsókn og náði yfir þrjú ár; 2010, 2014 og 2019. Til skoðunar var meðferð háþrýstings hjá einstaklingum eldri en 18 ára með þá greiningu samkvæmt flokkunarkerfinu ICD-10. Gögnum safnaði deild rafrænnar þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins úr sjúkraskrárkerfi (Sögukerfinu) og voru gögnin frá öllum starfandi heilsugæslum á höfuðborgarsvæðinu (tafla I). Leitað var í Sögukerfinu eftir öllum með greininguna háþrýstingur (I10). Ýmsum upplýsingum var safnað um þessa einstaklinga, sjá töflu II. Gögnum var safnað frá öllum sem höfðu greininguna I10 þann 31. desember 2010, 31. desember 2014 og 31. desember 2019. Gögnin voru á Excel-formi og ópersónugreinanleg. Gögnum var ekki safnað sérstaklega um undirflokka lyfjaflokkanna en sumir þeirra innihalda lyfjablöndur.

Mannfjöldatölur voru sóttar af vef Hagstofu Íslands. Við tölfræðilega úrvinnslu og hreinsun á gögnum var notuð SPSS, útgáfa 26, og Rstudio, útgáfa 1.2.5033. Við tölfræðilega úrvinnslu voru marktektarmörk sett sem p-gildi <0,05. Nokkrar tölfræðiaðferðir voru notaðar. Í flestum tilvikum var notuð tvíkosta aðhvarfsgreining (logistic regression) þar sem leiðrétt var fyrir aldri, kyni og öðrum breytum ef við átti. Í nokkrum tilvikum var notuð kí-kvaðrat greining og er það þá tekið fram. Notað var ANOVA þegar meðaltal fyrir samfelldar breytur var metið.

Við gildi blóðþrýstingsmælinga voru notuð meðferðarmarkmið samkvæmt leiðbeiningum NICE,7 sem er <140/90 mmHg. Athygli er vakin á því að árin 2010 og 2014 voru önnur meðferðarmarkmið fyrir sykursjúka (<140/90 mmHg) heldur en árið 2019 (<130/80 mmHg). Fyrir hvern einstakling var tekin síðasta skráða blóðþrýstingsmæling á árunum 2010, 2014 og 2019. Ef ekki var til skráð blóðþrýstingsmæling fyrir tiltekin almanaksár var skráð að mælingu vantaði. Blóðþrýstingsgildi voru fengin úr sérstökum skráningardálkum fyrir blóðþrýsting. Ekki var unnt að ná í gildi sem aðeins voru skráð í sjúkraskrárnótu.

Leyfi frá vísindanefnd Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins/Háskóla Íslands fékkst 8. janúar 2020. Vísindasiðanefnd gaf leyfi fyrir framkvæmd rannsóknarinnar 28. janúar 2020 (VSN-20-021) og Persónuvernd gerði ekki athugasemd við að vísindasiðanefnd afgreiddi umsóknina.

Niðurstöður

Rannsóknarþýði

Mynd 1. Aldursdreifing rannsóknarþýðis. Súlur sýna samanlagðan fjölda þeirra með háþrýstingsgreiningu innan hvers aldursbils á árunumum 2010, 2014 og 2019.

Eins og fram kemur í töflu III hefur fjöldi einstaklinga með háþrýstingsgreiningu aukist á rannsóknartímabilinu. Hlutfall kynja hefur einnig breyst, hlutfall karla með greininguna háþrýstingur hefur hækkað og hlutfall kvenna að sama skapi lækkað. Þá eru hlutfallslega færri með skráða blóðþrýstingsmælingu og meðalaldur þeirra sem hafa greininguna hefur hækkað á tímabilinu en á sama tíma hefur meðalaldur þýðisins einnig hækkað. Aldursdreifing rannsóknarþýðis er á mynd 1. Hlutfall þeirra sem eru með skráða blóðþrýstingsmælingu er misjöfn milli ára en er rúmlega 51% árið 2010.

Lyfjameðferð við háþrýstingi

Af þeim 25.873 sem voru með greindan háþrýsting árið 2010 voru 63,4% á lyfjameðferð. Árið 2019 hafði hlutfall sjúklinga á lyfjameðferð lækkað í 60,9% (p<0,001). Meðal þeirra sem voru á lyfjameðferð hélst hlutfall notkunar eins, tveggja eða þriggja eða fleiri lyfja-flokka í háþrýstingsmeðferðinni svipuð á tímabilinu 2010-2019. Notkun þriggja eða fleiri lyfjaflokka fór úr 11,4% árið 2010 í 12,4% árið 2019 (p=0,21). Mynd 2 sýnir skiptingu háþrýstingssjúklinga eftir fjölda lyfjaflokka í meðferð. Líkt og með þrjá eða fleiri lyfjaflokka varð ekki marktæk breyting á notkunarhlutfalli eins lyfjaflokks (p=0,6) eða tveggja (p=0,164) á tímabilinu 2010-2019.

Mynd 2. Hlutdeild fjölda lyfjaflokka af lyfjameðferð 2019.

Algengustu lyfjaflokkar sem notaðir voru við meðferð háþrýstings hér á landi voru þvagræsilyf (C03), β-blokkar (C07), kalsíumgangalokar (C08) og lyf með verkun á RAAS (C09). Hlutdeild lyfjaflokkanna í meðferðinni breyttist marktækt á rannsóknartímabilinu. Á mynd 3 er sýnt hlutfall sjúklinga sem fær ávísað lyfi úr tilteknum lyfjaflokki á mismunandi tímum Notendum þvagræsilyfja (p<0,001) og β-blokka (p<0,001) fækkaði hlutfallslega en á sama tíma fjölgaði þeim sem tóku kalsíumgangaloka (p<0,001) eða lyf með verkun á RAAS (p<0,001).

Mynd 3. Hlutfall allra háþrýstingssjúklinga á lyfjameðferð með ávísað lyf eftir lyfjaflokkum.

Mynd 4. Hlutfall lyfjaflokka af meðferð árið 2019 þegar beitt var einum lyfjaflokki.

Þegar meðferð var veitt með einu lyfi var algengast að það væri lyf sem verkar á RAAS (C09). Þá jókst hlutdeild þess lyfjaflokks í meðferð þegar einum lyfjaflokki var beitt (p<0,001) um 1,38 prósentustig (prst) á ári á tímabilinu (95% ÖB: 1,24-1,52 prst.). Hlutdeild þvagræsilyfja (C03) lækkaði (p<0,001) sem nemur 1,28 prst á ári (95% ÖB: 1,18-1,39 prst). Notkun β-blokka (C07) lækkaði (p<0,001) um 0,40 prst á ári (95% ÖB: 0,29-0,51 prst). Kalsíumgangalokar (C08) fengu aukna hlutdeild (p<0,001) sem nemur 0,33 prst á ári (95% ÖB: 0,24-0,40 prst). Mynd 4 sýnir hlutdeild helstu lyfjaflokka í meðferð árið 2019 þegar beitt var einum lyfjaflokki.

Þegar sjúklingur var á að minnsta kosti þriggja lyfja meðferð var algengast að nota β-blokka, kalsíumgangaloka og RAAS saman og voru 50,1% sjúklinga á þeirri meðferð árið 2019. Sú notkun hafði aukist að meðaltali um 1,09% árlega á rannsóknartímabilinu (95% ÖB: 0,78-1,40 %). Næst algengasta samsetningin í blóðþrýstingsmeðferð árið 2019 samanstóð af að minnsta kosti þvagræsilyfi, β-blokka og lyfi með verkun á RAAS, eða í 39,6% tilfella, og lækkaði notkun á þeirri meðferð marktækt á tímabilinu, eða að meðaltali um 0,74% á ári (ÖB: 0,44- 1,05 %) Aðrar meðferðir með þremur eða fleiri lyfjaflokkum voru sjaldgæfari.

Meðferðarmarkmið

Yfir allt tímabilið var slagbilsþrýstingur að meðaltali 140,2 mmHg og HBÞ 82,6 mmHg. Hjá körlum var SBÞ 140,9 mmHg en SBÞ kvenna var 139,7 mmHg. Hjá körlum var HBÞ 83,5 mmHg að meðaltali en 81,8 mmHg hjá konum. Frá 2010 hefur SBÞ þróast úr 138,9±16,4 mmHg í 139,6±16,8 mmHg og 141,5±17,9 mmHg árin 2014 og 2019, sem er marktæk hækkun (p<0,001). HBÞ var 82,3±9,9 mmHg árið 2010, 82,8±10,4 mmHg árið 2014 og 82,6±10,1 mmHg árið 2019 og hækkaði á tímabilinu (p=0,015).

Yfir allt rannsóknartímabilið náðu 44,1% meðferðarmarkmiðum en aðeins var um helmingur með skráða blóðþrýstingsmælingu eins og sést í töflu III. Á mynd 5 má sjá hlutfall þeirra sem náðu meðferðarmarkmiðum eftir undirhópum.

Mynd 5. Hlutfall þeirra sem náðu meðferðarmarkmiðum í mismunandi hópum. Hlutfall sykursjúkra sýnt samkvæmt meðferðarleiðbeiningum NICE sem voru í gildi hverju sinni. Lengst til hægri er hlutfall sykursjúkra sem var undir 140/90 mmHg á hverjum tíma.

Af þeim sem höfðu bæði greininguna háþrýstingur og sykursýki höfðu 2/3 fengið ávísað einhverju blóðþrýstingslækkandi lyfi. Þegar háþrýstingur og sykursýki fara saman er skýr ábending fyrir notkun lyfs með verkun á RAAS. Af þeim sem voru með sykursýki og á einhverju háþrýstingslyfi fengu 73,3% lyf með verkun á RAAS, annaðhvort sem eitt lyf eða sem hluta af fjöllyfjameðferð. Ekki varð marktæk breyting á notkun lyfja með verkun á RAAS hjá körlum með sykursýki (p=,627) en hjá konum með sykursýki jókst notkun (p=,009) um 0,52 prst á ári (95% ÖB: 0,13-0,94 prst).

Heilsugæslustöðvar

Hlutfall þeirra sem ná meðferðarmarkmiðum var skoðað eftir heilsugæslustöðvum fyrir árið 2019. Rúmlega 41% háþrýstingssjúklinga náðu meðferðarmarkmiðum það ár. Stöðvar númer 2 og 19 skera sig hins vegar nokkuð úr með um þriðjung sjúklinga sem nær markmiðum.

Umræður

Samkvæmt þessari rannsókn fjölgaði sjúklingum með skráða háþrýstingsgreiningu í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu á árabilinu 2010-2019. Ekki er samt hægt að fullyrða að háþrýstingur á Íslandi sé algengari þar sem rannsóknin er afturskyggn og tekur ekki tillit til þátta eins og skráningar eða skimunar, sem gæti hafa breyst. Vonir standa til að skráning batni, ekki síst eftir að skráning á blóðþrýsingsgildum var tekin inn í greiðslulíkanið sem notað er til að ákvarða rekstrarfé til heilsugæslustöðva (innleitt 2017).

Á rannsóknartímabilinu hafa bæði SBÞ og HBÞ hækkað að meðaltali sem er ótvírætt áhyggjuefni. Þá ná færri sjúklingar meðferðarmarkmiðum. Hafa verður í huga að á tímabilinu voru meðferðarmarkmið fyrir blóðþrýsting lækkuð fyrir sjúklinga með háþrýsting og sykursýki. Þannig voru lægri markmið árið 2019 heldur en árin 2010 og 2014. Sú breyting skýrir að aðeins um 20% sykursjúkra náðu meðferðarmarkmiðum (<130/80 mmHg) árið 2019 samanborið við 45% sem náðu markmiðum ársins 2014 sem voru <140/90 mmHg. Þegar allir nema sykursjúkir eru skoðaðir varð ekki hlutfallsleg fækkun á þeim sem náðu meðferðarmarkmiðum. Ekki er um að ræða verri stjórnun blóðþrýstings hjá sykursjúkum þrátt fyrir að hlutfallslega færri nái meðferðarmarkmiðum. Ef miðað er við meðferðarmarkmið frá 2014 (<140/90 mmHg) ná marktækt fleiri þeim meðferðarmarkmiðum árið 2019 heldur en 2014.

Mynd 6. Hlutfall sjúklinga sem nær meðferðarmarkmiðum á mismunandi heilsugæslustöðvum árið 2019.

Fjöldi lyfjaflokka í lyfjameðferð hefur haldist svipaður á rannsóknartímabilinu en lyfjaval hefur breyst. Notkun lyfja úr flokki kalsíumgangaloka og lyfja með verkun á RAAS hefur aukist en notkun lyfja úr flokki β-blokka og þvagræsilyfja hefur minnkað. Lyf með verkun á RAAS eru langalgengust í meðferð háþrýstings með einum lyfjaflokki og eru einnig mjög algeng í samsetningum tveggja lyfjaflokka. Í slíkum samsetningum hefur aukist notkun samsetningar með kalsíumgangaloka og lyfs með verkun á RAAS. Það er ótvíræð takmörkun á þessari rannsókn að upplýsingum um undirflokka lyfjaflokkanna var ekki safnað sérstaklega. Því var ekki hægt að ákvarða með vissu hvort sjúklingur væri á einu, tveimur, þremur eða fleiri háþrýstingslyfjum. Þetta hefur mest áhrif í lyfjaflokknum C09 (lyf með verkun á RAAS) en þar eru lyf í samsetningum sem eru töluvert notuð (oftast þíasíð) en ekki er hægt að meta notkunina út frá þeim gögnum sem safnað var.

Miðað við algengistölur háþrýstings erlendis frá er enn stór hluti sjúklinga í heiminum ógreindur. Í einni rannsókn4 er áætlað að um 31,6% karla og 25,3% kvenna í hátekjulöndum séu með háþrýsting. Miðað við þær tölur og kynjahlutfall á höfuðborgarsvæðinu væri því hægt að búast við að algengi háþrýstings hér sé um 28,5%. Hluti sjúklinga er eingöngu í meðferð hjá sérgreinalæknum en óvíst er hversu stór hluti. Þá eru sumir þeirra sem eru í meðferð hjá sérgreinalækni jafnframt skráðir með greininguna í sögukerfi heilsugæslunnar.

Í rannsókn frá Svíþjóð náðu aðeins 20% meðferðarmarkmiðum í meðferð hjá heilsugæslu.17 Skýringarnar eru sennilega margar. Léleg meðferðarheldni er ein skýring og önnur að sumir heilsugæslulæknar sætti sig við hærri blóðþrýstingsgildi en tiltekin eru í leiðbeiningum. Hár aldur virðist algengasta ástæða þess að læknar hefja ekki lyfjameðferð.

Rannsókn sambærileg þessari var gerð á heilsugæslustöðinni Sólvangi í Hafnarfirði fyrir árin 2002-2003. Í þeirri rannsókn náðu einungis 27% þátttakenda meðferðarmarkmiðum. Þrátt fyrir þetta lága hlutfall samræmdist lyfjavalið leiðbeiningum þess tíma. Af þeim sem voru með háþrýsting á Sólvangi voru 75% á lyfjameðferð, þar af voru 39% á einu lyfi, 36% á tveimur lyfjum og 25% á þremur eða fleiri lyfjum. Algengustu lyfin í eins lyfs meðferð voru β-blokkar (29%) og þvagræsilyf (29%).16 Gagnasöfnun í þessari rannsókn var frábrugðin gagnasöfnun í núverandi rannsókn. Þar var skimað í gegnum sjúkraskrár og því náðust þau blóðþrýstingsgildi sem eingöngu voru skráð í nótur. Með þeirri aðferð fannst blóðþrýstingsgildi hjá nánast öllum sem skoðaðir voru samanborið við um helming í núverandi rannsókn. Sennilega eru blóðþrýstingsgildi stundum skráð í frjálsan sjúkraskrártexta í Sögukerfinu í stað þess að þau séu skráð í mælieiningahlutann. Af þeim sökum koma gildin ekki fram þegar mælieiningahluti sjúkraskrárkerfisins er rannsakaður eins og við gerðum í þessari rannsókn.

Árið 2019 náði rúmlega 41% háþrýstingssjúklinga meðferðarmarkmiðum. Mikill munur milli heilsugæslustöðva vekur hins vegar ýmsar spurningar og kallar í sumum tilvikum á frekari skoðun. Þarf að endurskipuleggja eftirlitið? Er nauðsyn á skýrari markmiðssetningu og hvernig er unnt að bæta þessa þætti? Heimamælingar á blóðþrýstingi eru almennt að aukast og leiðbeiningar mæla með þeim í auknum mæli við eftirlit á háþrýstingssjúklingum. Líklegt má telja að ef heimagildi væru skoðuð næðu fleiri meðferðarmarkmiðum en fram kemur í þessari rannsókn.

Almennt má segja að miðað við önnur lönd sé meðferðarárangur okkar nokkuð góður. Í nýlegri stórri alþjóðlegri rannsókn, þar sem faraldsfræðileg gögn úr hóprannsókn Hjartaverndar voru meðal annars notuð, kom fram að árangur hér á landi væri með því best sem þekktist.6

Einn helsti styrkleiki rannsóknarinnar er stórt rannsóknarþýði. Háþrýstingur er algengur sjúkdómur og safnað var gögnum um alla með sjúkdóminn sem voru eldri en 18 ára. Fjöldi þeirra sem uppfyllir þessi skilyrði var um 26.000 árið 2010, um 32.000 árið 2014 og um 41.000 árið 2019. Hægt er að treysta á upplýsingar um lyfja-ávísanir frá grunninum. Hins vegar er líklegt að blóðþrýstingsgildi séu ekki alltaf skráð í þar til gerða reiti í sjúkraskrárkerfinu heldur séu oft einungis í nótum lækna og telst það ótvíræð takmörkun á rannsókninni. Einnig er líklegt að margir skjólstæðingar heilsugæslunnar með greininguna séu samtímis í meðferð og eftirliti hjá sérgreinalæknum á stofu. Aðrar takmarkanir rannsóknarinnar eru beinar afleiðingar hins afturskyggna rannsóknarsniðs. Skortur á stöðlun og samræmingu vega þar þyngst, ekki síst hvað varðar það hvernig blóðþrýstingur er mældur. Almennt er hann mældur í sitjandi stöðu og í dag nánast eingöngu notaðir rafrænir mælar.

Ályktanir

Miðað við algengistölur, bæði innlendar og erlendar, eru enn margir háþrýstingssjúklingar ógreindir á Íslandi. Þrátt fyrir vaxandi algengi háþrýstings í heilsugæslu undanfarin ár er ljóst að enn má gera betur í greiningu sjúkdómsins. Þótt hærra hlutfall sjúklinganna nái meðferðarmarkmiðum en í fyrri rannsóknum og samanburður við önnur lönd komi vel út, getur ekki talist ásættanlegt að minna en helmingur sjúklinga nái meðferðarmarkmiðum. Umbætur eru því mikilvægar og aðkallandi enda til mikils að vinna.

 

Heimildir

 

1. Organization WH. Global status report on noncommunicable diseases 2014: World Health Organization.
 
2. Law M, Morris J, Wald NJB. Use of blood pressure lowering drugs in the prevention of cardiovascular disease: meta-analysis of 147 randomised trials in the context of expectations from prospective epidemiological studies. BMJ 2009; 338: b1665.
https://doi.org/10.1136/bmj.b1665
PMid:19454737 PMCid:PMC2684577
 
3. Lewington S, Clarke R, Qizilbash N, et al.. Age-specific relevance of usual blood pressure to vascular mortality: a meta-analysis of individual data for one million adults in 61 prospective studies. Lancet 2002; 360: 1903-13.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(02)11911-8
 
4. Mills KT, Bundy JD, Kelly TN, et al. Global disparities of hypertension prevalence and control: a systematic analysis of population-based studies from 90 countries. Circulation 2016; 134: 441-50.
https://doi.org/10.1161/CIRCULATIONAHA.115.018912
PMid:27502908 PMCid:PMC4979614
 
5. Mills KT, Stefanescu A, He J. The global epidemiology of hypertension. Nature Rev Nephrol 2020: 1-15.
 
6. Zhou B, Carrillo-Larco RM, Danaei G, et al. Worldwide trends in hypertension prevalence and progress in treatment and control from 1990 to 2019: a pooled analysis of 1201 population-representative studies with 104 million participants. Lancet 2021; 398: 957-80.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(21)01330-1
 
7. Health NIf, Excellence C. Hypertension in adults: diagnosis and management. NG 136: NICE London, 2019.
 
8. Whelton PK, Carey RM, Aronow WS, et al. 2017 ACC/AHA/AAPA/ABC/ACPM/AGS/APhA/ASH/ASPC/NMA/PCNA guideline for the prevention, detection, evaluation, and management of high blood pressure in adults: a report of the American College of Cardiology/American Heart Association Task Force on Clinical Practice Guidelines. J Am Coll Cardiol 2018; 71: e127-e248.
https://doi.org/10.1161/HYP.0000000000000076
 
9. Williams B, Mancia G, Spiering W, et al. 2018 ESC/ESH Guidelines for the management of arterial hypertension: The Task Force for the management of arterial hypertension of the European Society of Cardiology (ESC) and the European Society of Hypertension (ESH). Eur Heart J 2018; 39: 3021-104.
https://doi.org/10.1093/eurheartj/ehy339
PMid:30165516
 
10. Franklin SS, Jacobs MJ, Wong ND, et al. Predominance of isolated systolic hypertension among middle-aged and elderly US hypertensives: analysis based on National Health and Nutrition Examination Survey (NHANES) III. Hypertension 2001; 37: 869-74.
https://doi.org/10.1161/01.HYP.37.3.869
PMid:11244010
 
11. Sigurðsson EL. Salt: A taste of death? Scand J Prim Health Care 2014; 32: 53-4.
https://doi.org/10.3109/02813432.2014.921381
PMid:24939739 PMCid:PMC4075016
 
12. Cook NR, Cutler JA, Obarzanek E, et al. Long term effects of dietary sodium reduction on cardiovascular disease outcomes: observational follow-up of the trials of hypertension prevention (TOHP). BMJ 2007; 334: 885.
https://doi.org/10.1136/bmj.39147.604896.55
PMid:17449506 PMCid:PMC1857760
 
13. Whelton SP, Chin A, Xin X, et al. Effect of aerobic exercise on blood pressure: a meta-analysis of randomized, controlled trials. Ann Int Med 2002; 136: 493-503.
https://doi.org/10.7326/0003-4819-136-7-200204020-00006
PMid:11926784
 
14. Roerecke M, Kaczorowski J, Tobe SW, et al. The effect of a reduction in alcohol consumption on blood pressure: a systematic review and meta-analysis. Lancet Public Health 2017; 2: e108-e20.
https://doi.org/10.1016/S2468-2667(17)30003-8
 
15. Sacco RL, Elkind M, Boden-Albala B, et al. The protective effect of moderate alcohol consumption on ischemic stroke. JAMA Cardiol 1999; 281: 53-60.
https://doi.org/10.1016/S1098-3597(99)90041-8
https://doi.org/10.1001/jama.281.1.53
PMid:9892451
 
16. Jensdóttir J, Sigurðsson E, Þorgeirsson G. Meðferð háþrýstings í heilsugæslu. Læknablaðið 2006; 92: 375-80.
 
17. Hedblad B, Nerbrand C, Ekesbo R, et al. High blood pressure despite treatment: results from a cross-sectional primary healthcare-based study in southern Sweden. Scand J Prim Health Care 2006; 24: 224-30.
https://doi.org/10.1080/02813430601002134
PMid:17118862
 
18. Midlöv P, Ekesbo R, Johansson L, et al. Barriers to adherence to hypertension guidelines among GPs in southern Sweden: a survey. Scand J Prim Health Care 2008; 26: 154-9.
https://doi.org/10.1080/02813430802202111
PMid:18609250 PMCid:PMC3409603

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica