01. tbl. 108. árg. 2022

Ritstjórnargrein

Vísindi og framtíð heilbrigðiskerfisins á Íslandi – miklar væntingar til nýs heilbrigðisráðherra. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir |sérfræðingur í lyflækningum og innkirtla- og efnaskiptalækningum |klínískur prófessor við Landspítala og Háskóla Íslands |sérfræðilæknir Læknasetri |Ritstjóri Læknablaðsins

doi 10.17992/lbl.2022.01.668

Vísindi eru undirstaða styrks heilbrigðiskerfis. Liðið ár markaði mörg mikilvæg vísindaleg tímamót. Byltingarkennd bóluefni gegn SARS2-COVID 19 veirunni voru markaðssett um áramótin 2020-2021 og bólusetningar almennings hófust í ársbyrjun 2021. Aldrei höfðu vísindamenn náð eins hratt árangri í þróun bóluefna, sem sjaldan hefur verið eins mikilvægt. Heimsfaraldrinum er ekki lokið, vísindavinnan heldur áfram. Skilningur var á mikilvægi vísindavinnu varðandi faraldurinn og íslenskir vísindamenn fengu áheyrn þjóðarinnar og þeirra er stýra fjármagninu. Vísindavinna sem íslensk þjóð getur verið stolt af.

Söguleg vísindaleg tímamót urðu með markaðssetningu nýs bóluefnis gegn malaríu og aldarafmæli var frá uppfinningu insúlíns. Sú þróun sem síðan hefur átt sér stað í meðferð með nýjum lyfjum og aukinni tækni heldur áfram að auka lífsgæði og lifun einstaklinga með sykursýki sem byggir á þrotlausri vísindavinnu.

En fleiri þættir en heimsfaraldurinn reyndu á lýðheilsu þjóðarinnar árið 2021, svo sem jarðskjálftar, eldgos, efnahagsvandi í kjölfar heimsfaraldurs, minnkandi hreyfing í samkomutakmörkunum og mögulega hafa einhverjir sjúkdómar og greiningar fallið í skuggann af yfirstandandi heimsfaraldri. Það er heilbrigðiskerfisins að standa vörð um það með vísindalegri nálgun og eins og alltaf eru raddir lækna þar verulega mikilvægar.

Læknablaðið flutti efni um allt ofangreint á liðnu ári, ásamt fjölda annarra mikilvægra leiðara, bréfa til blaðsins og ekki síst lýsinga sjúkratilfella og vísindagreina frá íslenskum læknum. Blaðið er leiðandi í birtingu íslensks vísindaefnis innanlands. Skemmtilegt efni berst frá ungum sem öldnum læknum alls staðar að auk þess sem blaðið falast eftir að halda á lofti mikilvægum umræðuefnum innan heilbrigðiskerfisins. Lestur fræðigreina og leiðara gegnum PubMed og almennt á netinu hefur aukist með árunum frá því slíkar mælingar hófust 2012, og 2021 barst blaðinu mesti fjöldi vísindagreina í gegnum ScholarOne frá upphafi notkunar þess grunns, en frá 2015 fara allar fræðigreinar til blaðsins í gegnum ScholarOne. Læknablaðið hefur alltaf staðið læknum nærri og þessar tölur bera þess skýr merki.

Theódór Skúli Sigurðsson og Margrét Ólafía Tómasdóttir hverfa nú úr ritstjórn blaðsins og er þakkað fyrir góð störf, ásamt öllum sem á einhvern hátt hafa komið að efni blaðsins með skrifum eða ritrýni á liðnu ári. Nýir læknar eru boðnir velkomnir í ritstjórn. Gunnar Thorarensen lauk námi í svæfinga-og gjörgæslulækningum frá Sahlgrenska Háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Hann starfar nú á Landspítala og er kennslustjóri sérnámslækna í því fagi. Hann tók þátt í endurskoðun nýs Codex Ethicus, birt í þessu tölublaði. Lilja Sigrún Jónsdóttir lauk sérfræðinámi í heimilislækningum á Íslandi og starfar á Heilsugæslu Efstaleitis. Hún er með Dr.Sc gráðu í faraldsfræði og tölfræði frá Erasmus háskólanum í Rotterdam. Hún hefur meðal annars starfað að vísindum hjá Hjartavernd og verið verkefnastjóri í samvinnuverkefni Evrópuþjóða.

En þrátt fyrir augljóst mikilvægi vísindavinnu hefur hún staðið höllum fæti á Íslandi síðastliðin ár eins og fram hefur komið bæði í ræðu og riti. Hlutfallslegum tilvitnunum í vísindaverk íslenskra lækna hefur fækkað verulega þegar skoðaður er samanburður á milli háskólasjúkrahúsa á Norðurlöndum. Sá stuðull fyrir Landspítala fer úr því að vera leiðandi á Norðurlöndum í það að vera í lægsta sæti.1 Íslenskir læknar eru sjaldnar í forsæti birtra rannsókna.1 Þetta er áhyggjuefni og er von lækna að aukið fé renni til vísindavinnu sem skapi rými fyrir unga lækna við sín fyrstu spor í vísindavinnu og þeirra eldri sem leiða brautina.

Þjóð sem nýtur vaxandi langlífis þarf að bregðast við fjölþættari heilbrigðisvanda með hækkandi aldri og auka fjölda heilbrigðisstarfsfólks. Læknaskortur er þegar farinn að segja til sín á Íslandi. Læknadeild Háskóla Íslands hefur ekki getað aukið fjölda læknanema eins og þyrfti og kraftmikið menntafólk leitar erlendis til læknanáms. Læknadeild þarf aukið fé og athygli stjórnvalda. Fjöldi íslenskra læknanema erlendis er jákvæður með tilliti til læknaskorts framtíðarinnar. Er ekki eðlilegra að stjórnvöld styðji betur við fjárhag Háskóla Íslands og Landspítala? Vísindi og menntun heilbrigðisstarfsfólks eru órjúfanlega tengd. Fé skortir í báða málaflokka og læknar binda vonir við að nýr heilbrigðisráðherra fái tækifæri til að beita sér fyrir aukinni vísindavinnu með auknu fé til þess málaflokks og til menntunar lækna og heilbrigðismála almennt.

Virk vísindavinna og styrk heilbrigðisþjónusta eru undirstaða heilbrigðrar og hamingjusamrar þjóðar.

Heimildir

1. Gottfreðsson M. Úr fyrsta sæti í botnsætið á 15 árum – saga um samruna og vannýtt tækifæri. Vísbending 2021; 33: 1-4.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica