12. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Vert að sinna stjórnunarstörfum til að hafa áhrif á forgangsröðunina segir Heidi Stensmyren
„Mér finnst að Svíar þurfi að sýna auðmýkt og læra af öðrum,“ segir Heidi Stensmyren við Læknablaðið um baráttuna við COVID-19. Hún hélt sína fyrstu opinberu ræðu í embætti forseta Alþjóðasamtaka lækna, WMA, á aðalfundi Læknafélagsins
Heidi Stensmyren er vön að leiða læknasamtök. Hún var formaður Sænska læknafélagsins um 6 ára skeið, frá 2014 til 2020. Hún tók við forsetaembættinu í þessum alþjóðlegu óháðu samtökum lækna, WMA, um miðjan október. Félagsmenn eru um 9 milljónir frá 115 löndum. Heilbrigðisráðherra ávarpar oftast aðalfund Læknafélagsins en óljóst hver leiðir ráðuneytið næstu fjögur árin og Heidi tók þetta hlutverk að sér í þetta sinn.
Heidi Stensmyren var gestur Læknafélagsins á aðalfundinum sem haldinn var á Hótel Natura. Hún hefur gegnt stöðu forseta Alþjóðasamtaka lækna, WMA, frá miðjum október en var áður formaður Sænska læknafélagsins. Mynd/gag
Heidi er norsk. „Já, en ég er líka með sænskt ríkisfang,“ segir hún þegar hún sest niður með blaðamanni Læknablaðsins í kjölfar erindis síns á aðalfundinum. „Ég flutti til Svíþjóðar 19 ára gömul, fyrir mörgum árum,“ segir hún sposk. Hún lærði til læknis í Würzburg í Þýskalandi. Sérnámið tók hún svo á Sahlgrenska í Gautaborg í Svíþjóð. „Rétt eins og margir íslenskir læknar.“
Hún er svæfinga- og gjörgæslulæknir. Eftir 10 ár á Sahlgrenska flutti hún til Stokkhólms og stýrir heilbrigðisdeild kvenna og barna á Karólínska sjúkrahúsinu.
„Já, þetta þýðir að yfirmaður minn er íslenskur,“ segir hún og vísar til Björns Zoëga, forstjóra sjúkrahússins. „Maður fárra orða,“ lýsir hún og hlær. „Kannski þess vegna kemur hann svona mörgu í verk. Hann er skilvirkur. Hann stendur sig mjög vel. “ Hún slær á létta strengi.
„Við Norðmenn notum frekar mörg orð þegar við útskýrum hluti. Svíar færri, Danir líka. Finnar nota svo ansi fá orð en Íslendingar jafnvel enn færri.“ Það sé því alltaf ákveðið stress að tala við Íslendinga.
Heidi setur starfið sitt til hliðar næsta árið meðan hún sinnir forsetaembættinu. „Ég hitti ekki sjúklinga, en sé þó til þess að þeir fái sína þjónustu á Karólínska,“ segir hún. Hún snýr aftur eftir árið, en gegnir þó einnig stöðu fráfarandi forseta WMA í ár til viðbótar. Hún segir mikilvægt fyrir lækna að sinna stjórnunarstörfum.
Stjórnunarstörf mikilvæg
„Heilbrigðisþjónusta snýst um forgangs-röðun og því mikilvægt að hafa áhrif á hana. Ef ég sinnti aðeins hverjum og einum sjúklingi er ekki víst að mér tækist að sjá eins marga læknast. Ég lít því svo á að ég sé að sinna sjúklingum meðan ég sinni stjórnunarstarfi,“ segir hún. En meðal kosta þess að vera læknir séu að hún geti klætt sig í sloppinn þegar á þurfi að halda.
En hvers vegna kýs hún að starfa að hagsmunum læknastéttarinnar? „Ég held að uppeldið skýri það,“ segir hún. „Foreldrar mínir hafa tekið að sér svona félagsstörf og unnið fyrir nærsamfélagið. Þau hafa líka tekið þátt í íþróttastarfi. Þetta er því í blóðinu; er uppeldi mitt.” Hún vilji bæta læknasamfélagið.
„Það má segja að ég sé kjörin til að lækna félagsstarfið. Ég bæti strúkturinn svo við getum fengið sem mest út úr starfi okkar sem læknar,“ segir hún ákveðin. Hlutverk forseta sé að koma fram og kynna stefnu félagsins. Hún setji fókusinn á siðfræði við rannsóknir.
„Við sjáum hversu hratt vísindastarf gengur fyrir sig um þessar mundir. Við þurfum því þéttan siðferðislegan ramma utan um starfið svo ekkert fari úrskeiðis. Við missum traust samfélagsins á læknisfræðinni ef eitthvað fer úr skorðum og samtökin voru einmitt byggð til að auka traustið.“ Einnig vonist hún til þess að vinna nánar með alþjóðastofnunum eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO. Stórar stofnanir geri ákvarðanir skjótvirkari. Þær séu til að mynda mikilvægar við bólusetningar á alheimsvísu.
En telur hún að COVID-faraldurinn hafi skaðað traustið á læknavísindin? „Nei. Fólk hefur séð hversu mikilvægar bólusetningar eru. Það þýðir ekki að tekist hafi að taka á misvísandi skilaboðum og vantrausti á bóluefnum, en það er vandi sem við glímdum einnig við fyrir áratug. Við höfum hins vegar séð ávinning rannsókna,“ segir hún en það skorti þó á að aðrir sjúkdómar fái sömu athygli og COVID-19.
„Hvað um malaríu og aðra sjúkdóma sem við vinnum að því að lækna? Við erum á réttri leið en við þurfum að vera sanngjörn, huga að siðfræðinni og setja rannsóknum ramma, leiðbeiningar, sem hjálpa.“
Svíar vísi ábyrgðinni á stofnanir
En talandi um traust. Gefið hefur verið upp að 15.000 hafi látist af COVID-19 í Svíþjóð. Uppreiknað hlutfallslega væru það um 500 hér á landi, en eru enn undir 40. Hvað finnst henni um það?
„Já, það hefur gengið miklu betur hér á Íslandi en í Svíþjóð,“ segir hún. „Mér finnst að Svíar þurfi að sýna auðmýkt og læra af öðrum.“
En ætti einhver að sæta ábyrgð vegna þessara dauðsfalla? „Ábyrgð. Hún er afar mikilvæg í samfélögum. Sé hún ekki til staðar getur traustið horfið,“ segir hún. „Það skapar vanda ef óljóst er hver ber ábyrgð. Tilhneiging er í Svíþjóð til að segja að kerfið beri ábyrgð en enginn er ábyrgur fyrir kerfinu,“ segir hún.
„Læknar bera ríka ábyrgð, en þeir verða þá einnig að hafa umboð til að taka ákvarðanir. Ábyrgð án þess að geta gripið til gjörða er mjög krefjandi og streituvaldandi fyrir lækna. Þeir finna til mikillar ábyrgðar en fá ekki tækifæri til að bregðast við,“ svarar hún.
„Það er heillavænlegra að líta á ábyrgð hvers og eins og nýta kerfið til lausnar. Það er ókostur að engin þeirra 24 heilbrigðisstofnana sem eru í Svíþjóð taki á málinu. Það ætti að vera í höndum einnar að gera það.“ Læknar hafi hins vegar sjálfir tekið faraldurinn föstum tökum og þótt svona hafi farið hafi traust til þeirra vaxið. Spítalarnir hafi gripið til varnar.
Læknar útskýri hvað gerðist
En var áfall fyrir þjóðina að svona fór? „Já, en traustið er þó enn mikið þótt skort hafi á getuna til að vernda fólkið fyrir faraldrinum.“ Nú sé á ábyrgð lækna að útskýra hvað hefur gerst.
Sjálf fékk Stensmyren COVID-19 í upphafi faraldursins. Hún segir það hafa verið hræðilegt. „Ég veiktist áður en þekkingin á sjúkdómnum varð svona víðfem. Ég átti erfitt með andardrátt,“ segir hún.
„Það tók mig langan tíma að koma til baka. En í upphafi var talað um að sjúkdómurinn herjaði eins og kvef á fólk og hyrfi hratt á braut, en ég upplifði það ekki þannig.“ Þekking hennar hafi hjálpað henni, ólíkt mörgum sem vissu ekkert við hverju væri að búast. „Fólk kom jafnvel á spítala til þess eins að vera sent heim.“
Hún nýtti tímann sinn vel á Íslandi. Hitti Ölmu Möller landlækni og Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, framkvæmdastjóra á skrifstofu forstjóra Landspítala, fyrir aðalfundinn. Þær ræddu samvinnu svo hver eining á Norðurlöndunum þurfi ekki að sérhæfa sig í sjaldgæfum sjúkdómum.
„Ég trúi að með stafrænni tækni og möguleikunum að deila upplýsingum geti norrænar sjúkrastofnanir unnið enn betur saman.“
Mikilvægt að þjóðir séu sjálfbærar
„Það er alþjóðlegur skortur á heilbrigðisstarfsfólki. Mörg lönd missa heilbrigðis-starfsmenn sína til velmegandi landa. Við eigum að vera sjálfbær þegar kemur að því að mennta okkar eigið heilbrigðisstarfsfólk,“ segir Heidi Stensmyren, forseti Alþjóðasamtaka lækna.
„Norðurlöndin eiga einnig að styðja önnur ríki sem standa ekki vel. Dæmi eru um lækna sem sinna þúsundum sjúklinga. Við þurfum því að efla heilbrigðismenntun,“ segir hún.
Stensmyren bendir þó á að heilbrigðismenntun nútímans þurfi að breytast. Þau sjái til að mynda í Svíþjóð að verði staðið eins að menntuninni eftir 20 til 30 ár til að anna sömu verkum, þurfi að mennta öll sænsk börn í skólakerfinu sem heilbrigðisstarfsfólk.
„Það er ekki hægt. Það verður því ekki sjálfbært að starfa óbreytt frá því sem nú er.“