12. tbl. 107. árg. 2021

Fræðigrein

doi 10.17992/lbl.2021.12.666

Ágrip

INNGANGUR

Greint er frá niðurstöðum könnunar um reynslu og upplifun kandídata og almennra lækna og reyndra sérfræðinga af klínísku starfi á Íslandi. Til samanburðar var höfð samskonar rannsókn við breskar sjúkrastofnanir þar sem reyndir sérfræðingar fengu spurningarnar. Rannsóknin beindist að því hvernig starfsumhverfi lækna hefur áhrif á mannkosti þeirra, upplifun af stuðningi, vinnuálagi, sjálfræði og tengingu við starfið.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Samtals 89 læknar tóku þátt og svöruðu 15 spurningum. Tíðni svara var borin saman úr klösum fjögurra efnisflokka.

NIÐURSTÖÐUR
Niðurstöður bentu til markverðs vanda á vinnustöðum lækna hérlendis. Upplifunin var neðarlega í öðrum fjórðungi (2,1-3,0) matsskala þess að vinnuumhverfið hamli því að fagleg manngerð þeirra njóti sín. Einnig vantaði upp á þætti stuðnings. Í samanburði við breska sérfræðinga var upplifun þeirra sambærileg en þó skárri hvað stuðning varðaði. Kandídatar og almennir læknar upplifa marktækt meiri streitu, minni stuðning og sjálfræði í vinnu sinni en reyndu sérfræðingarnir hérlendis. Í samanburði við bresku rannsóknina var upplifun íslensku sérfræðilæknanna jákvæðari varðandi sjálfsákvörðun og tilfinningaleg tengsl við starfið. Rannsókn okkar sýnir í fyrsta sinn samband vinnuumhverfis og álags á mikilvæga fagtengda mannkosti lækna hérlendis.

UMRÆÐA
Þessar niðurstöður endurspegla niðurstöður fræðigreina um mikilvægi þess að læknar geti nýtt mannkosti sína í starfi, því þeir tengist starfsánægju, langvarandi velfarnaði og tilfinningu fyrir tilgangi starfsins. Niðurstöðurnar styðja viðhorf í skrifum lækna hérlendis um óheyrilegt vinnuálag og manneklu. Rannsóknin sýnir upplifun lækna af því hvar skóinn kreppir í starfi og mikilvægi þess að þjóðfélagið bæti starfsskilyrðin til að gera þeim kleift að starfa eftir hugsjón sinni.

Greinin barst til blaðsins 21. maí 2021, samþykkt til birtingar 18. október 2021.

Inngangur

Framkvæmd var rannsókn vorið 2019 á vegum sagnfræði- og heimspekideildar Háskóla Íslands í samvinnu við læknadeild um reynslu og upplifun kandídata og almennra lækna (K-Alm) og reyndra sérfræðinga (RSér) af klínísku starfi. Kveikjan að rannsókninni var bresk rannsókn frá Jubilee-rannsóknarsetrinu við Birmingham-háskóla í Englandi um dygðir og mannkostamenntun.1 Notaðar voru sömu spurningar til að fá samanburð milli lækna úr menningarheimum landanna tveggja en þær eru byggðar á Eurostat-staðli kannana um gæði vinnustaða á evrópska efnahagssvæðinu.2

Í læknanámi, á kandídatsárunum og í sérnámi er lagður grunn-ur að fagmennsku lækna. Fagmennskan samanstendur af þremur meginþáttum: fræðilegri þekkingu, verklegri færni og samskiptahæfni sem felur í sér siðferðilega, sálræna og félagslega mannkosti.3 Rannsóknin beindist að siðferðilegum mannkostum lækna og því hvernig starfsumhverfið hefur áhrif á líðan í starfi og faglegar væntingar þeirra til starfs síns. Rannsóknir á þessu sviði benda til að þegar fagfólk geti nýtt mannkosti sína í þágu starfsins auki það bæði ánægju þess og tilgang.4 Yfirlit 12 rannsókna um sálræn áhrif þess óheilnæma vinnuálags sem læknar búa við víða bendir til að það komi niður á gæðum læknisþjónustunnar. Frekari rannsóknir skorti þó til að staðfesta betur þessi tengsl.5 Hérlendis leiddi könnun Læknafélags Íslands frá 2018 í ljós að 58% lækna töldu sig „ekki geta uppfyllt kröfur eða ráðið við tímaþröng í starfi.“6 Læknar í Bandaríkjunum virðast í meiri hættu á kulnun í starfi, þunglyndi, fíkn og sjálfsvígum en gerist meðal almennings.7 Samantekt rannsókna um þá þætti manngerðar lækna sem hafa sterkustu tengslin við velfarnað í starfi leiddi í ljós að þótt heiðarleiki, velvilji, sanngirni og dómgreind væru talin læknum mikilvæg almennt, skiluðu von (bjartsýni), þrautseigja, sjálfræði, samstarfshæfni (í teymum) og brennandi áhugi velfarnaði og starfsánægju til lengri tíma.8 Áhrif starfsumhverfisins á möguleika lækna til að nýta sér mannkosti sína hafa ekki verið mikið könnuð og er þetta fyrsta rannsóknin hérlendis um þá hlið mála.

Í könnun okkar voru lagðar fyrir þátttakendur samtals 15 spurningar, í fjórum efnisklösum, sem varða upplifun lækna af starfsumhverfi sínu. Spurt var hvort (I) starfið hamli því að mannkostir læknanna njóti sín, (II) læknar njóti stuðnings, (III) njóti sjálfsákvörðunar og sjálfræðis og (IV) hversu tilfinningalega tengdir læknarnir séu við starf sitt. Margir læknar líta á starf sitt sem hugsjón og hún endurspeglast í þeim gildum og faglegu mannkostum sem þeir hafa þroskað með sér.9 Fyrsti klasinn varðar fyrrnefnd tengsl þess að geta nýtt mannkosti sína í starfi við starfsánægju og upplifun þess að starfið hafi tilgang. Annar klasinn, um stuðning, kemur inn á líðan í starfi og ýmsa þætti sem geta haft áhrif á mannkosti sem tengjast velfarnaði í starfi, eins og þrautseigju og samstarfshæfni. Þriðji klasinn varðar tengsl mannkosta og sjálfsákvörðunar og fjórði klasinn áhugahvötina.

Rannsóknin byggði á hugmyndum dygðasiðfræðinnar sem eiga rætur í siðfræði Aristótelesar þar sem manngerðin er í fyrirrúmi.10 Greint er á milli siðferðilegra dygða eða mannkosta sem mynda siðgerð manna og vitrænna dygða sem birtast í dómgreind og fræðimennsku.11 Rannsóknin beindist einkum að samspili vinnuumhverfisins við siðgerð lækna, það er þá siðferðilegu og klínísku mannkosti sem þá prýða. Vitrænu dygðirnar eru samofnar siðgerðinni því skorti lækna fræðilegan skilning hefur það áhrif á dómgreind þeirra til að taka siðferðilegar ákvarðanir í starfi. Siðgerðin varðar dýpri afstöðu og tilfinningar gagnvart starfinu og frá henni er drifkraftur hugsjónar hvers læknis fenginn.

Góð og nærgætin samskipti lækna við sjúklinga, annað fagfólk og stjórnendur eru ákveðinn lykill að markmiðunum. Óhóflegt vinnuálag, ásamt stöðugum kröfum um hagkvæmni og skilvirkni, getur fært samskiptin úr jafnvægi og dregið úr jákvæðum tilfinningum gagnvart starfinu.12 Rannsóknin stefndi að því að kanna ofangreinda þætti í upplifun lækna af starfi sínu og starfsumhverfi.

Efniviður og aðferðir

Fjöldi þátttakenda og samsetning

Könnun á efnisatriðum rannsóknarinnar beindist að tveimur úrtakshópum á misháu stigi menntunar og starfsreynslu. Annar samanstóð af læknakandídötum og læknum með almennt lækningaleyfi á 1.-2. ári starfs síns (K-Alm). Hinn samanstóð af reyndum sérfræðilæknum sem höfðu starfað í 5 ár eða lengur eftir veitingu sérfræðileyfis (RSér). Leitað var eftir þátttöku með opnum kynnisbréfum á fjölsóttum síðum lækna á samfélagsmiðlum, bæði almennum og síðum sérgreinafélaga lækna. Svarhlutfall var ekki hægt að ákvarða. Söfnun þátttakenda, sending boðsbréfa til þeirra og viðtaka svara úr könnuninni frá rannsóknarhópunum tveimur stóð frá 28. mars til 9. júní 2019. Hóparnir fengu þrjú minnisbréf hvor um þátttöku á tímabilinu.

Þátttakendur meðal sérfræðinga völdu sig sjálfir til þátttöku (utan 5-10 þeirra) með því að bregðast við kynnisbréfum til hópa þeirra á meðal.

Könnunin tók ekki til almennra lækna með >2 ár í starfsreynslu eða sérfræðilækna með 5 ár eða minna í starfsreynslu eftir veitingu sérfræðingsleyfis. Engir læknar á aldursbilinu 35-38 ára voru því meðal þátttakenda. Þessi „millistig“ í reynslu og aldri læknanema og lækna voru skilin eftir í hönnun rannsóknarinnar (líkt og rannsókn Jubilee-setursins) til þess að fá aðgreiningu á milli kynslóða, stigs menntunar og starfsreynslu. Þannig má meta sjálfstætt svör hvers úrtaks (meginrannsóknarhóps) og bera þau saman. Á móti kemur sú takmörkun að ekki er hægt að túlka svör rannsóknarinnar sem tölfræðilega líkleg svör allra lækna því að fjögur ár í aldri vantar.

Framkvæmd

Rannsóknaráætlun fékk jákvæða umsögn vísindasiðanefndar HÍ (nr. 19-012). Könnunin var á formi netkönnunar í kerfinu Limesurvey 1.92+ sem rannsóknaraðilar í HÍ fengu frían aðgang að hjá AP Media ehf. Þátttakendur gáfu upplýst samþykki fyrir töku könnunar. Engar úrskráningar bárust á meðan könnunin stóð yfir og fram að skrifum þessarar greinar. Með svörum þátttakenda voru engar persónugreinanlegar upplýsingar og þátttakendur gátu skráð sig nafnlaust úr rannsókninni á hvaða stigi sem er. Þýðingar spurninga voru rannsakenda.

Tölfræðileg úrvinnsla

Þar sem svör voru á eigindlegu formi raðaðra flokkabreyta var tölfræðilegt mat á þeim gert megindlegt með samanburði á tíðni staðlaðra svara á milli úrtakshópa. Í samræmi við rannsókn Jubilee-setursins var einnig þeirri aðferð beitt að svörum við spurningum sem áttu saman í efnisklasa var snúið yfir á númeraðan skala (strjálla breyta frá 1 til 5) og svo reiknað út meðal-tal hvers þátttakanda fyrir klasann áður en meðaltal allra var reiknað.1 Útkoman var því á formi samfelldrar talnabreytu þar sem miðjan markast við 3 (stundum) en jaðrarnir við 1 (aldrei) og 5 (alltaf). Við samanburð á tíðni svara (flokkabreyta) var notað kí-kvaðrat próf en í tilvikum samanburðar á tölugildum var notað tvíhliða ósamhverft t-próf. Viðmið p-gildis fyrir marktækan mun á niðurstöðum svara var ≤0,05.

Niðurstöður

Sjá má að hlutfallslega er úrtakið úr hópi reyndu sérfræðinganna minna þó að þátttakendur séu fleiri þaðan. Úrtökin spanna vítt aldurssvið, flestar sérfræðigreinar læknisfræðinnar og fremur jafnt kynjahlutfall, en uppfylla ekki fyllstu stærðarkröfur miðað við leyfð ± 5% skekkjumörk. Í tilviki K-Alm eru 95% líkur á að svar sé innan ± 15% skekkjumarka en innan ± 13,2% hjá RSér (tafla I).

Kynjahlutföllin endurspegla kynjahlutföll útskrifaðra lækna meðal árganga K-Alm13 en jöfn skipting kynja (p=0,49) í úrtaki RSér er ekki í takt við að flestir árgangar þeirra sem hafa meira en 5 ára starfsreynslu (um 25 árgangar af um 35), innihéldu fleiri karla en konur. Mögulega er því einhver kynjabjögun í því úrtaki. Því má velta fyrir sér hvort konur séu viljugri til að taka þátt í könnun af þessari gerð en karlar, en það verður ekki skoðað hér. Meðalaldur hópanna tveggja er um 29 og 60 ár (p=0,003). Aldursbil K-Alm (26–34 ár) er mun þrengra en RSér (39–81 ár) eins og búast mátti við (tafla II).

Lagðar voru fyrir staðhæfingar og spurt hversu mikið staðhæfingin ætti við um þátttakandann, starf og vinnuaðstæður hans/hennar. Allar spurningarnar 15 voru bornar fram í töflu þar sem þátttakendur voru beðnir um að gefa svar eftir 5 stigbreyttum þrepum frá alltaf yfir í aldrei. Spurt var „Fyrir hverja staðhæfingu, vinsamlegast merktu við hversu títt það á við í þínu vinnuumhverfi“.

Spurningarnar fengu númer eftir þeirri röð sem þær voru bornar fram en niðurstöður voru teknar saman eftir fyrrgreindum klösum spurninga sem skýra ákveðnar myndir sameiginlegra efnisþátta. Við skoðum hér fyrst saman í töflu svör við spurningum sem byggja á upplifun þess að vinnan hamli því að mannkostir læknanna njóti sín (tafla III).

Út frá meðaltalinu er dreifing svara í átt til þess hjá flestum að vinnan hamli því stundum til sjaldnast (63,6%) að mannkostir læknanna fái að njóta sín fremur en oftast eða alltaf (24,0%). Svörin við 2. spurningu skera sig þó úr á hinn veginn en þar svara K-Alm marktækt oftar (63,9%) en RSér (32,1%) að oftast upplifi þeir mikið vinnuálag. Það vekur eftirtekt að læknar telja sig oftast eða alltaf (34,8%) ekki fá nægan tíma til að vinna eftir þeim gæðastaðli sem þeir telja réttan, en færri (27,0%) upplifa það sjaldnast eða aldrei. Marktækur munur er þó á úrtakshópunum hvað þetta varðar.

Á númeruðum skala frá 1 til 5 er nokkur munur á milli K-Alm og RSér sem nær marktækni. Vinnan er því oftar hamlandi á mannkosti lækna hjá K-Alm en RSér.

Í næstu töflu skoðum við saman svör þess klasa spurninga sem varpa ljósi á þann stuðning sem læknar fá í vinnunni (tafla IV).

Það er áberandi að 61,3% lækna finna alltaf eða oftast fyrir þessum þáttum stuðnings í vinnunni og aðeins 11,4% finna þá sjaldnast eða aldrei. K-Alm finna marktækt oftar oftast fyrir stuðningi starfsfélaga (spurning 3) en RSér finnst þeir marktækt oftar oftast geta nýtt eigin hugmyndir (eða haft áhrif á mikilvægar ákvarðanir) í vinnunni (spurning 5), ásamt því að þeim líði oftast þar líkt og ‚heima‘ (spurning 10). K-Alm upplifa marktækt oftar en RSér að þeir mæti bara stundum sanngirni. Í heild upplifa RSér marktækt meiri stuðning samkvæmt númeraða skalanum en K-Alm.

Því næst lítum við á svör við þeim klasa spurninga sem varpa ljósi á sjálfsákvörðun og sjálfræði læknanna í vinnu (tafla V).

Þessi niðurstaða bendir til að sjálfræði lækna sé vel viðunandi þar sem 75,8% upplifa það ástand oftast eða alltaf. RSér upplifa þetta marktækt oftar en K-Alm eins og sjá má á mismun númeraða skalans. Fullyrðingunni „Mér er gert kleift með því sem völ er á að skila vinnunni eftir þeim gæðastaðli sem ég tel réttan“ var svarað í 24,7% tilvika með stundum og 7,9% með sjaldnast. Um þriðjungur álítur að vinnuumhverfið hamli því að hluta að læknar geti unnið eftir þeim gæðastaðli sem þeir telja réttan. Loks ber að líta á svör þess klasa spurninga um upplifun á því hversu tilfinningalega tengdir læknar eru við starf sitt (tafla VI).

Hér er afgerandi niðurstaða í átt til jákvæðra og sterkra tilfinninga til læknisstarfsins, en 94,8% þátttakenda telja sig oftast eða alltaf hafa slíkar tilfinningar. Ekki er mikill munur á K-Alm og RSér í heildina (þótt marktækur sé á númeraða skalanum) en RSér velja oftar alltaf en K-Alm oftar oftast.

Umræða

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að vinnuumhverfi lækna hafi ýmis áhrif á það hvort þeir nái að rækta mannkosti sína og njóti sín í starfi hérlendis. Áhrifin eru til verri vegar í nokkrum mikilvægum þáttum starfsins en í heild jákvæðu megin við miðju matsþáttanna og læknar virðast djúpt tengdir fagi sínu. Neikvæð áhrif vinnuumhverfisins koma einna helst fram í klasanum um mannkosti læknanna. Það er áhyggjuefni að um fjórðungur (24%) þátttakenda upplifir oftast eða alltaf að starfið hamli því að mannkostir þeirra njóti sín. Þar eru stærstu áhrifaþættirnir upplifun á miklu vinnuálagi, bæling tilfinninga og ónægur tími til að vinna eftir þeim gæðastaðli sem læknarnir telja réttan (tafla IV).

Samanburður við Bretland

Breska rannsóknin fór fram á þremur svæðum í Englandi og einu í Skotlandi og voru einungis reyndu sérfræðingarnir (n=276) spurðir þessara spurninga. Hlutfall kvenna var 61% og karla 39%, sem er heldur hærra hlutfall kvenna en meðal íslenskra RSér.11 Í klasanum um upplifun þess að vinnan hamli því að mannkostir læknanna njóti sín (tafla IV) var niðurstaða okkar rannsóknar sú að 18,9% RSér voru neikvæðu megin við miðju (3.1-5) sem endurspeglar svarbilið stundum til alltaf, en RSér í rannsókn Jubilee-setursins töldu það í 22,1% tilvika, sem er svipað. Í spurningaklasanum um þætti stuðnings sem læknar fá í vinnunni (tafla V) skoruðu RSér í Bretlandi dálítið hærra (3,76) í númeraða skalanum en RSér hérlendis (3,49).1 Upplifun K-Alm hérlendis af stuðningi var marktækt lægst þó oftar væri hún jákvæð en neikvæð. Í klasanum um sjálfsákvörðun og sjálfræði lækna í vinnu var upplifun íslensku RSér jákvæðust (tafla VI) líkt og í klasanum um tilfinningalega tengingu við starfið þar sem bresku RSér skoruðu meira að segja aðeins lægra en íslensku K-Alm.

Samantekið benda niðurstöður fyrstu tveggja klasanna til markverðs og sambærilegs vanda á vinnustöðum lækna hérlendis og í Bretlandi. Upplifunin var neðarlega í öðrum fjórðungi (2,1-3) matsskala þess að vinnuumhverfið hamli því að fagleg manngerð þeirra njóti sín og einnig vantaði upp á þætti stuðnings, þó minnst hjá bresku RSér í því tilliti. K-Alm upplifa marktækt meiri streitu, minni stuðning og sjálfstæði í vinnu sinni en RSér hérlendis. Á móti finna þeir marktækt meira fyrir stuðningi starfsfélaga. Síðari klasarnir tveir um sjálfræði/sjálfsákvörðun og (sérstaklega) um tilfinningaleg tengsl við starfið koma betur út í báðum löndum. Skor K-Alm í sjálfstæði/sjálfsákvörðunar-klasanum er þó lakast. Íslensku RSér skora hagstæðast í þeim og upplifa áberandi góð tilfinningaleg tengsl við starfið. Þetta bendir til að upplifun lækna af starfsumhverfi eða starfsmenningu landanna sé um margt lík en mismunandi styrkleikar og veikleikar koma fram í þeim báðum.

Í rannsókn okkar voru af neikvæðu þáttunum mest áberandi vinnuálagið, bæling tilfinninga og ónægur tími til að skila vönduðu starfi (spurningar 2, 8 og 9 í töflu IV) en af jákvæðu þáttunum mikill áhugi á að gera sitt besta og þættir sjálfsákvörðunar. Klasi 1 kom lakast út hjá læknum beggja landa og ber því nokkur merki kulnunar í starfi þótt góð útkoma í klösum 3 og 4 vegi þar á móti. Erfitt er að finna nákvæmlega ástæðurnar fyrir þessum niðurstöðum rannsóknar okkar og Jubilee-setursins. Ólíkar orsakir geta leitt til hins sama en Ísland er fámennt land sem þarf samt að halda uppi sömu gæðum í heilbrigðisþjónustu og fjölmennari lönd. Skattfé í heild er minna og stofnanir hafa minna af sérhæfðri þjónustu. Læknar fara mikið utan í sérnám og stærð og styrkur erlendra heilbrigðisstofnana lokkar skiljanlega lækna til að setjast þar að til langframa. Þetta veikir endurnýjun í stéttinni hérlendis og erfitt er að viðhalda stöðugleika í mönnun stofnana með sífelldan skort á læknum á millistiginu milli kandídata og sérfræðinga. Samkvæmt viðtali við Ölmu Möller landlækni er vitað „að ekki er nógu vel mannað víða í heilbrigðiskerfinu.“6

Endurómun umræðu um vinnuálag lækna

Í ritstjórnargrein eftir Sigurberg Kárason svæfinga- og gjörgæslulækni, í Læknablaðinu 2018, kom fram að mannekla og plássleysi á gjörgæsludeildum Landspítala hafi lengi valdið margvíslegum vandkvæðum í starfsemi spítalans sem bitnuðu bæði á sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki.14 Elísabet Benedikz, læknir hjá gæða- og sýkingarvarnardeild Landspítala, skrifaði einnig í ritstjórnargrein um hvernig langlífi og fjölgun aldraðra eykur fjölda langveikra og með því álag á sjúkrahúsunum. Það á sér einnig stað í Bretlandi en Elísabet talar um hvernig sú sérstaka íslenska hefð að heilbrigðisstarfsfólk taki orlof yfir fáa sumarmánuði fylli heilbrigðisstofnanir af nemum og lítt reyndu starfsfólki. Þetta vinnufyrirkomulag sé óskynsamlegt, úr sér gengið og mæti ekki þörfum um öryggi sjúklinga. Rannsóknir sýni að það stuðli oft að mistökum að lítt þjálfað fagfólk fái of mikla ábyrgð í hendur.15 Okkar könnun bendir til marktæks meira álags á minna reynda lækna (K-Alm) en á reyndu sérfræðingana (RSér).

Ofmetnaður í þágu skilvirkninnar

Í þessu kerfi mikils vinnuálags eru metnaðarfullir læknar og sérfræðingar árangursmiðaðir,16 bæði í þágu þeirra veiku og afkasta heilbrigðiskerfsins. Það sem skilar hröðu greiningar- og bataferli sjúklinga er þá eitt meginatriðið. Rannsóknir benda til að þessi metnaður auki álagstilfinningu og einkenni kulnunar: að finnast maður vera úrvinda og aftengdur við sjálfan sig og starfið. Aftengingin sé að hluta meðvitað viðbragð sem dregur úr álagstilfinningu, en herði læknir á faglegum kröfum sínum auki það vandann.17 Rannsóknir hafa einnig beinst að takmörkum skilvirkninnar hvað árangur og líðan varðar. Bætir það til dæmis læknis-sjúklings sambandið að þjappa því saman í tíma líkt og þegar laga þarf verkferla hreinna tæknilegra úrlausnarefna? Það er ólíklegt og rannsóknir sýna að viðtöl í tímaþröng auka óánægju sjúklinga og lækna, fjölda útgefinna lyfseðla og óviðeigandi lyfja-ávísana, sem og líkur á lögsóknum gegn læknum.12

Bæta þarf starfsskilyrði lækna

Könnun okkar meðal læknakandídata / almennra lækna með skemmri en 5 ára starfsreynslu og sérfræðinga með meira en 5 ára reynslu við sérfræðistörf sýndi að mikið vinnuálag og þættir sem geta hamlað því að mannkostir lækna njóti sín voru næstir því að vera neikvæðu megin við miðju. Sama má segja um þætti stuðnings hjá K-Alm. Í samanburði við niðurstöður sömu könnunar hjá sambærilegum hópi reyndra sérfræðilækna í Bretlandi er upplifun íslensku sérfræðilæknanna á stuðningi nokkru neikvæðari, en jákvæðari gagnvart sjálfsákvörðun og tilfinningalegri tengingu við starfið. Rannsókn okkar sýnir í fyrsta sinn þessi tengsl vinnuumhverfis og álags á mikilvæga fagtengda mannkosti lækna hérlendis. Frekari rannsóknir gætu beinst að athugun á því hvaða mannkostir skipti íslenska lækna mestu máli varðandi tilgang starfsins, vellíðan og velfarnað til lengri tíma. Einnig má kanna hvort munur sé á þessu milli ólíkra sérgreina fagsins, en erlendar rannsóknir benda til að þar liggi mun meiri munur en á milli kynja eða mismunandi starfsreynslu.8 Stærð úrtaka meðal K-Alm og RSér uppfyllti ekki kröfur um 5% skekkjumörk og svarhlutfall hefði því mátt vera hærra. Einhver bjögun gæti skapast af því að sjálfvaldir þátttakendur hafi meiri áhuga á efni rannsóknarinnar en hinir sem skráðu sig ekki og sá áhugameiri hópur kynni þá að svara á einhvern annan máta. Úr því verður ekki skorið. Í ljósi fyrrgreindra fræðigreina um þá mannkosti lækna sem tengjast góðri líðan og velfarnaði í starfi benda niðurstöður okkar til að uppfylla þurfi þau starfsskilyrði að læknar geti: a) nýtt þá mannkosti sína sem lúta að kjarnagildum læknis (heiðarleika, góðvild, sanngirni, dómgreind) og b) notið sjálfræðis svo sterkur áhugi, samstarfshæfni, þrautseigja og bjartsýni, viðhaldist. Að okkar mati verður ekki nægjanlega í haginn búið fyrir fagfólk með launabótum og auknum frítökurétti heldur benda rannsóknir og reynsla þeirra sem gerst þekkja til álags heilbrigðiskerfisins að uppbygging þess þurfi að fylgja auknum þörfum, álagi og gæðakröfum hvers tíma. Þjóðfélagið ætti að gera læknum kleift að starfa eftir hugsjón sinni um fagmennsku án hamlandi áhrifa frá ófullnægjandi starfsumhverfi.

Þakkir

Höfundar þakka Kristjáni Kristjánssyni, Stephen Earl og Francisco Moller við Jubilee-rannsóknarsetrið við Birmingham-háskóla í Bretlandi fyrir góða aðstoð við undirbúning og úrvinnslu rann-sóknarinnar. Starfsfólki á skrifstofum Hugvísindastofnunar og heilbrigðisvísindasviðs HÍ eru jafnframt færðar þakkir fyrir veitta aðstoð. Þátttakendum er þakkað fyrir tíma sinn og veitt svör.

Rannsóknin er hluti af stærra rannsóknarverkefni (Siðrænar dygðir og læknismenntun) sem innifól úrtakshóp á meðal læknanema við læknadeild HÍ á 1.-3. námsári. Sökum þess að læknanemar hafa ekki starfsreynslu sem læknar tók þessi hluti rannsóknarinnar ekki til þeirra.

 

Heimildir

 

1. Arthur J, Kristjánsson K, Thomas H, et al. Virtuous Medical Practice - Research Report. Research Report. Jubilee Centre for Character and Virtue, Birmingham, UK 2015.
 
2. Commission EE. ESS Standard for Quality Reports. European Communities, Lúxemborg 2009. ec.europa.eu/eurostat/web/products-manuals-and-guidelines/-/KS-RA-08-015 - maí 2021
 
3. Árnason V. Siðfræði lífs og dauða. 2. útg. Siðfræðistofnun og Háskólaútgáfan, Reykjavík 2003.
 
4. Littman-Ovadia H, Steger M. Character strengths and well-being among volunteers and employees: Toward an integrative model. J Posit Psychol 2010; 5: 419-30.
https://doi.org/10.1080/17439760.2010.516765
 
5. Angerer P, Weigl M. Physicians' Psychosocial Work Conditions and Quality of Care: A Literature Review. Profess Professionalism 2015; 5.
https://doi.org/10.7577/pp.960
 
6. Gunnarsdóttir GA. Landlæknir vill að kynferðisáreitið verði skoðað strax. Læknablaðið 2019; 105: 86.
 
7. Gold KJ, Sen A, Schwenk TL. Details on suicide among US physicians: data from the National Violent Death Reporting System. Gen Hospital Psychiatry 2013; 35: 45-9.
https://doi.org/10.1016/j.genhosppsych.2013.02.003
https://doi.org/10.1016/j.genhosppsych.2012.08.005
PMid:23123101 PMCid:PMC3549025
 
8. Huber A, Strecker C, Kachel T, et al. Character Strengths Profiles in Medical Professionals and Their Impact on Well-Being. Front Psychol 2020; 11.
https://doi.org/10.3389/fpsyg.2020.566728
PMid:33424679 PMCid:PMC7786021
 
9. Beauchamp TL, Childress JF. Principles of Biomedical Ethics. 7. útg.. Oxford University Press, Oxford, New York 2013.
 
10. Aristóteles. Siðfræði Níkomakkosar. 2. útg. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2011.
 
11. Sigurbjörnsson S. Siðrænar dyggðir og læknismenntun - Hugmyndalegur grunnur að mannkostamenntun lækna. [Meistararitgerð]. Háskóli Íslands, Reykjavík 2020.
 
12. Dugdale DC, Epstein R, Pantilat SZ. Time and the patient-physician relationship. J Gen Intern Med 1999; 14: S34-S40.
https://doi.org/10.1046/j.1525-1497.1999.00263.x
PMid:9933493 PMCid:PMC1496869
 
13. Haraldsson G. Læknar á Íslandi. 4. útg. Þjóðsaga ehf. Reykjavík 2000.
 
14. Kárason S. Tólf gjörgæslurúm á Landspítala - dugar það til? Læknablaðið 2018; 104: 333.
https://doi.org/10.17992/lbl.2018.0708.191
PMid:29972133
 
15. Benedikz E. Öryggi sjúklinga og flækjustig nútíma heilbrigðisþjónustu. Læknablaðið 2018; 104: 167.
https://doi.org/10.17992/lbl.2018.04.178
PMid:29616655
 
16. McManus IC, Winder BC, Gordon D. Are UK doctors particularly stressed? Lancet 1999; 354: 1358-9.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(99)02112-1
 
17. McManus IC, Winder BC, Gordon D. The causal links between stress and burnout in a longitudional study of UK doctors. Lancet 2002; 359: 2089-90.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(02)08915-8
 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica