11. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Óvissan felldi Domus. Jón Gauti Jónsson framkvæmdastjóri gagnrýnir stjórnsýsluna

Stefnuleysi og óvissa í þróun heilbrigðiskerfisins fældi eigendur Domus Medica frá því að ráðast í að endurnýja starfsaðstöðu og tækjabúnað. Jón Gauti Jónsson framkvæmdastjóri gagnrýnir stjórnsýsluna fyrir að horfa ekki til framtíðar í málefnum heilbrigðiskerfisins

„Hann snýr sér örugglega við í gröfinni núna,“ segir Jón Gauti Jónsson, framkvæmdastjóri Domus Medica og horfir afsakandi á málverk af Bjarna Bjarnasyni sem hangir á veggnum í fundarherberginu í Domus. Bjarni var einn af stofnendum Domus fyrir rétt tæplega 55 árum. „Hann var einn frumkvöðla sem sameinaði lækna sem áður höfðu starfrækt læknastofur sínar hver undir sínu þaki á einn stað með tilheyrandi hagræðingu,“ segir Jón Gauti. Nú verður Domus Medica lokað.

Jón Gauti hefur starfað sem framkvæmdastjóri Domus Medica frá árinu 2005. Hann er fjórði framkvæmdastjórinn í 55 ára sögu félagsins og sá sem skellir í lás um áramót. Hér er hann með einum af stofnendum Domus, Bjarna Bjarnasyni, á mynd. Mynd/gag

„Sorglegt? Jú, auðvitað á vissan hátt en allt hefur sinn tíma í þessu lífi. Þetta er auðvitað leiðinlegt,“ segir Jón Gauti spurður um endalokin en það kemur í hlut þessa fjórða framkvæmdastjóra stöðvarinnar frá upphafi að skella í lás. Jón Gauti hefur stýrt Domus frá árinu 2005.

„Eins og gengur og gerist í rekstri allra fyrirtækja kemur sá tími að fara þarf í endurbætur og breytingar. Við stóðum frammi fyrir því að endurnýja skurðstofur og í raun færa allar læknastofurnar í nútímalegt horf,“ segir hann.

„Svo þegar við mátuðum það við nærumhverfi okkar blasti við að reiturinn í kringum okkur þéttist og þéttist. Hér eiga að rísa mörg þúsund fermetra byggingar og bílastæðum fækkar gríðarlega. Þessi reitur, þetta horn sem stöðin stendur á, fer úr því að vera á tiltölulega vondum stað með tilliti bílastæða, yfir í að vera á vonlausum stað fyrir svona starfsemi,“ segir Jón Gauti.

„Hingað sækja mörg hundruð manns á dag og hér starfa 75 sérfræðingar ásamt álíka fjölda annarra starfsmanna. Það var því fyrirséð að það yrði erfitt að halda áfram hér nema að ráðast í meiriháttar viðbyggingu með bílakjallara til að tryggja aðgengi,“ lýsir hann. Því hafi verið að skoðað að flytja Domus og byggja nýjar skurðstofur og móttökustofur. Jón Gauti segir að kostnaðurinn hefði hlaupið á hundruðum milljóna króna.

„En þegar við mátuðum áformin við rekstrarumhverfið í stærra samhengi og til lengri framtíðar féllust mönnum hendur.“

Óvissan gerði útslagið

Jón Gauti segir ástæðuna óvissu um framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins. „Rekstrargrundvöllur sjálfstæðra stöðva er afar ótryggur, svo ekki sé fastar að orði kveðið.“ Sjálfstætt starfandi læknar hafi staðið samningslausir í þrjú ár á sama tíma og yfirvöld hafi talað utan að því að vilja hætta að skipta við einstaklinga og skipta frekar við fyrirtæki.

„Við hjá Domus erum ekki vel í stakk búin til að takast á við slíkt. Hér er veitt þjónusta í mörgum sérgreinum læknisfræðinnar þar sem hver læknir vinnur sjálfstætt. Þessi þróun hefði því þýtt gjörbreytingu á rekstrarmódeli Domus sem er ekki til þess að minnka óvissuna sem framtíðin ber í skauti sér.“

Jón Gauti segir að vegna óvissunnar um framtíðina sé einfaldlega óráðlegt að fara í kostnaðarsamar fjárfestingar. „Menn komust að þeirri niðurstöðu að það væri ekki vit í að halda áfram þegar við horfum til óvissunnar sem hefur verið alla þessa öld, sérstaklega síðustu fjögur ár,“ segir hann.

„Stefna þessarar síðustu ríkisstjórnar hefur verið einkennileg og beinlínis óraunhæf miðað við nútímakröfur og þá þróun sem við sjáum í kringum okkur. Það hefur því verið erfitt að rýna í hvernig þjónusta okkar kæmi til með að nýtast og vaxa. Miðað við hvernig framkvæmda-valdið hefur beitt sér, finnst okkur ljóst að ákvarðanir séu ekki teknar með þarfir og hagsmuni þeirra sjúkratryggðu í huga,“ segir hann ómyrkur í máli.

Skortur á fjármagni einföldun

Jón Gauti fer yfir hvernig umræðan hafi hverfst um skort á fjármagni. „Íslenska heilbrigðiskerfið er vissulega undirfjármagnað. Það þarf ekki að deila um það. Eðli kerfisins er þannig að það þarf alltaf meira fjármagn en það kemur til með að fá. Það stenst hins vegar ekki skoðun að aðeins skorti peninga,“ segir hann.

„Að mínum dómi þarf að laga stærri og dýpri vanda áður en við gerum nokkuð annað. Hann kjarnast í kringum stjórnsýslu okkar. Faglegur grunnur hennar er afar veikburða. Það hefur leitt af sér óstöðugleika og óstjórn.“ Hann tekur dæmi. Landspítali sé stærsta og fjárfrekasta stofnun landsins sem hafi enga raunverulega stjórn og engin samstaða sé um að setja slíka á stofn.

„Við höfum haft 10 heilbrigðisráðherra á síðustu 20 árum. Ekki er hægt að reka kerfi af þessari stærðargráðu með því mikla ráðherraræði sem tíðkast hér, þegar að meðaltali er skipt um ráðherra á tveggja ára fresti enda þótt sá núverandi hafi þraukað allt kjörtímabilið. Í ofanálag hefur okkur langt í frá auðnast að skapa heildstæða stefnu sem markast af hagsmunum þeirra sem nota heilbrigðisþjónustuna,“ segir hann.

„Það er grafalvarlegur hlutur að við rekum hér heilbrigðiskerfi sem kostar um 250 milljarða króna á ári án þess að vera með skýran ramma sem veitir aðhald og stuðlar bæði að samhæfingu og skýrri forystu þannig að kerfið geti þróast. Við höfum kolfallið á þessu prófi.“ En hvernig snertir það Domus Medica?

„Jú, engar hreinar línur hafa verið frá framkvæmdavaldinu aðrar en að það vilji færa sem mest af þekkingu og þjónustu til ríkisrekinnar starfsemi eða að minnsti kosti stærri fyrirtækja og stofnana,“ segir hann.

„Þessi samningsóvissa ásamt vangetu Sjúkratrygginga vegna stefnuleysis stjórnvalda til að sinna hlutverki sínu, sem er að semja um læknisverk og veita eðlilegt aðhald, þýðir að óvissan er algjör. Þess vegna treystum við okkur ekki til að ráðast í nokkur hundruð milljóna króna fjárfestingu og endurbætur upp á von og óvon um rekstrarumhverfi morgundagsins. Við gátum ekki horft til 20-30 ára í þessu óstöðuga umhverfi og komumst því að þeirri niðurstöðu að hætta rekstri Domus Medica.“

Sérfræðingar leystu COVID

Jón Gauti segir vanta pólitíska samstöðu um heilbrigðiskerfið. Langt sé í land í þeim efnum og allir kraftar hjá heilbrigðisyfirvöldum nýttir til að bregðast við bráðum vanda. Óefninu hverju sinni. Pólitísk inngrip og handbremsubeygjur séu teknar án heildsstæðrar stefnu og samráðs við heilbrigðisstarfsfólk. Óljóst sé hvernig bregðast eigi við hraðri þróun læknisfræðinnar.

„Aukin sérhæfing og miklar tækniframfarir innan heilbrigðisþjónustunnar kalla á gríðarlegar áskoranir fyrir litla þjóð eins og okkar. Við þurfum því fleiri og fleiri starfsmenn til að ná utan um það víðtæka þekkingarstig sem heilbrigðiskerfið þarf lögum samkvæmt að ráða yfir. Það er verkefni stjórnsýslunnar að búa til umhverfi sem laðar þekkinguna til landsins.“ Það sé verulegt áhyggjuefni.

Jón Gauti segir nauðsynlegt að ræða framtíðina og hækkandi lífaldur þjóðarinnar. Mörkuð verði stefna og henni fylgt í stað þess að stjórnsýslan felist í að slökkva elda; hvort sem er í öldrunarmálum eða á bráðamóttökunni. „Stjórnsýslan hefur af óskiljanlegu ábyrgðarleysi stungið hausnum í sandinn, og að því virðist hvorki viljað sjá né heyra – hvað þá skilja.“

Hann segir að nú þurfi fólk að setjast niður og kortleggja það sem það sé sammála um. „Það er miklu fleira en við erum ósammála um. Svo myndum við spyrja: Hvað skiptir mestu máli hér, forgangsraða og búa til aðgerðaáætlun út frá því. Þá þurfum við að marka okkur sýn til lengri tíma,“ segir hann. „Það hefur miklu meiri áhrif en að ausa milljörðum í kerfi sem á svo margan hátt er bæði stefnu- og stjórnlaust.“

Jón Gauti hrósar þó heilbrigðis-yfirvöld-um fyrir hvernig haldið hafi verið utan um COVID. „En lykilbreyta þar er að póli-tíkin hélt sig til hlés og leyfði fag-fólkinu að stýra för.“ Ákall heilbrigðis-starfsmanna í fjölmiðlum vegna vandans nú séu hins vegar merki um að ekki sé hlustað á þá. Aðalatriðin séu orðin að aukaatriðum.

„Það er rifist um rekstrarform sem skiptir minnstu núna þegar kerfið riðar til falls og óljóst er hvað tekur við.“

Hver og einn finni sinn farveg

„Við lokum skurðstofum, blóðrannsókninni og öllum hefðbundnum móttöku-stofum. 75 sérfræðingar færa sig um set, hætta eða stofna sínar eigin læknastöðvar,“ segir Jón Gauti Jónsson, framkvæmdastjóri Domus Medica sem hættir rekstri um áramót. Sérfræðingarnir þurfi að finna sér nýjan vettvang. Þrjátíu barnalæknar Domus stofni eigin stöð og hefji starfsemi í Urðarhvarfi 8 um áramót.

Jón Gauti sat í stjórn Samtaka heilbrigðisfyrirtækja og var formaður í eitt ár. Sér hann aðrar stofnanir rakna upp eins og Domus? „Nei, ekki í fljótu bragði. Aðrar stærri læknastofur eru á allt öðrum stað en Domus varðandi aðgengi og aðbúnað.“ Þeim sé því stætt í þessu óvissuumhverfi á meðan þau þurfi ekki að ráðast í kostnaðarsamar endurfjárfestingar.

Jón Gauti segir ekki ljóst hvað hann sjálfur taki sér fyrir hendur nú um áramót. „Ekki þannig. Það var langt ferli að komast að þessari ákvörðun og nú erum við í því að framkvæma hana. Það er okkur mikilvægt að Domus Medica kveðji með vönduðum hætti.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica