11. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

„Forstjórastóllinn ómissandi en ekki sá sem þar situr“ - segir Páll Matthíasson

 „Þetta starf er í raun eins og að stökkva um borð í rússíbana og hann þýtur áfram á hundrað. Svo stekkur maður af og hann er horfinn á augabragði. Maður hefur gaman af ferðinni, en svo kemur að því að þetta er orðið gott,“ segir Páll Matthíasson fyrrverandi forstjóri Landspítala, spurður hverju nýr forstjóri megi búast við. Læknablaðið fær Pál í uppgjör á forstjóraárunum áður en rykið sest

„Það er mikilvægt að muna að þótt starfið sé ómissandi er enginn einstaklingur ómissandi. Ég taldi þetta réttan tíma til að hætta. Búinn að vera 8 ár og tímabært að fá nýjan kraftmikinn einstakling í stólinn.“

Páll Matthíasson lætur af störfum forstjóra Landspítala eftir 8 ár í starfi. Enn eru rúm tvö ár eftir af skipunartímanum en hann segir að nú, við nýja stjórnartíð, sé vert að fá annan kraftmikinn einstakling að borðinu. Með Páli á myndinni er stytta eftir Steinunni Þórarinsdóttur myndhöggvara í Bankastræti. Mynd/gag

Páll hittir Læknablaðið daginn sem starf hans er auglýst með formlegum hætti. Þótt hann sé hættur sem forstjóri Landspítala, er hann staðgenglinum Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, sem gegndi starfi framkvæmdastjóra meðferðarsviðs, innan handar.

Hann segir „ekki ljóst í smáatriðum“ hvað taki við. „En ráðherra hefur beðið mig að vera áfram í stýrihópi um Hringbrautarverkefnið undir stjórn Unnar Brár Konráðsdóttur fyrrum alþingismanns. Ég hef einnig áhuga á að halda klínísku starfi áfram inni á geðþjónustunni.“

En kom ekki til greina að taka frí? „Jú, það hefði nú verið gott og ég á nóg inni,“ segir hann og stefnir á að láta þann tíma ekki fyrnast.

Ekkert stórmál að hætta

Páll segir flestum finnast meira mál að hann sé að hætta en honum sjálfum. „Mér líður mjög vel með þessa ákvörðun. Hún er tekin á réttum tíma. Átta ár er langur tími, kannski enn lengri vegna COVID-19 farsóttarinnar og sviptinganna henni samfara. Gjörbylta þurfti skipulagi spítalans endurtekið.“ En hvernig leið honum að sjá að hægt væri að ráðast í slíkar breytingar þegar ekki hefur verið hægt að taka á vanda bráðamóttökunnar?

„Ég held að COVID hafi fært okkur heim sanninn um mikilvægi samstarfs mismunandi þátta heilbrigðiskerfisins,“ segir Páll. Skýrir farvegir og þjónusta í takti við þörfina. „Við þurfum að nýta þessa vitneskju. Allir sameinast um eitt markmið í krísu. Hægt er að leysa á korteri það sem áður tók mörg ár. Þegar um hægist flækjast hlutirnir aftur og fleiri þættir hafa áhrif á ákvarðanirnar.“ Hann sé hugsi yfir því hversu erfiðlega gangi að leysa útskriftarvanda spítalans.

„Landspítali getur ekki leyst þetta mál einn. Það er kerfislægt og ég held að reynslan úr COVID sýni að ef viljinn er fyrir hendi er hægt að leysa þessi mál með samstilltu átaki og samvinnu innan kerfisins. Algjöran stuðning stjórnvalda þarf til.“ Hann vill þó ekki meina að stuðninginn hafi allan skort. „Heilbrigðisráðuneytið er með spítalanum í liði en samstöðu um forgangsröðun í stærra samhengi ríkisfjármála skorti hins vegar. Það er ekki vinsælt að hækka skatta eða taka fé úr öðrum verkefnum.“

En af hverju gerði hann fólk sem þurfti ekki lengur á þjónustu spítalans að halda heldur þurfti að komast í annað úrræði, að vanda spítalans? Af hverju útskrifaði hann það ekki? „Það er ekki hægt að útskrifa einstakling sem getur ekki séð um sig sjálfur út á stétt,“ segir hann ákveðinn. „Þá deyr það fólk. Við sitjum uppi með þetta verkefni þar til okkur tekst að koma verkefninu annað. Það þarf samvinnu velferðarkerfisins til að fólk fari annað.“ Koma þurfi fólki í öruggt skjól.

Margt áunnist en enn þurfi fé

Átta ár. Margt hefur breyst. Hann er stoltur af mörgu. Árangur sem hafi náðst með góðri samvinnu. Fyrst og fremst aukið öryggi sjúklinga, helmingi færri sýkingar á spítalanum en fyrir áratug. Meiri starfsánægja. Betri matur. Betri vinnutími á vöktum. Samskiptasáttmáli sem hafi verið tilbúinn fyrir #Metoo og hjálpað til við að koma málum í réttan farveg. Aukin samvinna við heilbrigðisstofnanir landsbyggðarinnar og Norðurlanda og sú einfalda ákvörðun að leyfa fólki að fara á Facebook, nefnir hann.

Fólk hittir ekki endilega Pál á förnum vegi þótt hann sé hættur. Hann tekur ekki frí heldur hendir sér í ný verkefni. Sinnir Hringbrautarverkefninu, er nýjum forstjóra innan handar og stefnir á að sinna auknum klínískum störfum.“ Mynd/gag

Einnig aukna umhverfisvitund sem hafi leitt til þess að spítalinn var tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Betri göngudeildarþjónusta. Öflugri aðfangakeðjur og stoðþjónusta. Ný tæki í stað þess að kaupa varahluti í þau gömlu á Ebay. „Spítalinn var sveltur í kjölfar hrunsins og við tókum á því.“

En er hann ekkert stoltur af því að hafa fengið samþykkt að rekstrarkostnaður spítalans færi úr tæpum 70 milljörðum árið 2016 í tæplega 83 í fyrra – og það tekið tillit til verðbólgu?

„Nei, megnið af þessu fellur í tvo hópa: Verðbætur. Launavísitala hefur hækkað miklu meira en verðlag. Það kostar því meira að hafa 100 manns í vinnu núna en fyrir 10 árum, en það er ekki að fullu bætt.“ segir Páll og blæs því á að spítalinn hafi fengið meira fé til verksins. „Einnig höfum við fengið fleiri verkefni og á stundum hefur ekki fylgt fé með sem þyrfti til að reka þau almennilega.“ Nú hækki framlagið þó um 1,8% á ári til að mæta aldursþróun þjóðarinnar.

„Þessi tala byggði á aukinni eyðslu ár frá ári en ekki því sem við hefðum þurft. Sambærileg hækkun hefur verið allt að 4,4% á ári á sjúkrahúsum í Evrópu. Við erum langt frá því,“ segir Páll. En nú hillir undir að hann þurfi ekki lengur að reikna og reikna. Fylgjast með hverju aðrir eyða. Hann er að hætta. Páll segir að ákveðin tímamót séu nú eftir kosningar við nýja stjórnartíð.

„Þetta eru ekki pólitísk skilaboð heldur persónuleg ákvörðun. Nú er góður tími þegar ráðherra, sem við höfum átt gott samstarf við, stígur úr embætti. Ýmislegt hefur áunnist en það eru stórar áskoranir framundan sem ágætt er að nýr aðili komi að.“ Varðandi það að það séu tvö og hálft ár eftir; „já og nei,“ segir hann og bendir á að hann hefði alltaf þurft að taka afstöðu til þess ef hann vildi hætta, annars væri hann lögum samkvæmt ráðinn sjálfkrafa í næstu fimm ár nema að ráðherra vildi auglýsa starfið. „Ég tel að farsælast sé að taka virka ákvörðun um að hætta sjálfur,“ segir hann.

Læknar eigi að tjá sig

Ólga hefur verið í tíð Páls. Kannski ekki meiri en í tíð annarra, en þó eru til þeir læknar sem telja að það hafi verið vegið að stéttinni í hans stjórnartíð. Þá sérstaklega þegar Læknaráð var lagt niður. Páll segir það aldrei hafa truflað hann að læknar bendi á það í fjölmiðlum sem aflaga fari í kerfinu.

„Umfjöllun fjölmiðla getur truflað mig, ef mér finnst hún illa upplýst, en það að læknar tjái sig gerir það ekki“ segir hann. „Mér finnst skiljanlegt og eðlilegt, hluti af því að vera fagmanneskja, að láta óhrædd vita, telji hún öryggi sjúklinga ógnað. Ég geri ekki athugasemdir við það.“ Blaðamaður bendir á að vegna sterkrar stöðu Landspítala séu læknar oft hræddir um að tjá sig um það sem aflaga fer og Páll svarar: „Já, það getur verið og það þykir mér miður. Það er ekki af því að ég hafi sussað á fólk. Ég hef verið skýr á því að það er ljóst samkvæmt siðareglum lækna að þeir eigi að tjá sig, en þar segir líka að þeir eigi að gera það á yfirvegaðan hátt þannig að það veki ekki óþarfa ótta. Við þurfum að tjá okkur þannig að það viðhaldi virðingu læknastéttarinnar,“ segir Páll. „Ég hvet fólk til þess að tjá sig.“

Enn Landspítalamaður

En hvernig hefur forstjórastarfið breytt þér? „Ég veit ekki hvort það er starfið eða aldurinn, en mér finnst ég orðinn meiri mannasættir. Maður þarf ekki alltaf að leiðrétta allt og hafa rétt fyrir sér. Það skiptir meira máli að ná góðu samstarfi og samvinnu til lengri tíma.“ En mun hann ganga stoltur um gangana eftir forstjórasetuna?

„Já, ég er Landspítalamaður. Ég vann þarna fyrst sumarið 1989. Ég er einn af kyndilberum hugmyndarinnar um Landspítala. Hugmyndinni um almannaheill, þjóðarsjúkrahús,“ segir hann. „Ég geri það á gólfinu rétt eins og sem forstjóri og þar áður framkvæmdastjóri geðsviðs.“

Ekki meira fé með DRG-kostnaðarkerfinu

„Stutta svarið er já,” svarar Páll, spurður hvort spítalinn muni fá jafnmikið fé og nú með kostnaðarkerfinu DRG (Diagnosis-related group) sem sett verður á um áramót. Með því fylgir féð verkþáttum. Páll bætir við: „En mun hann fá allt það fé sem hann þarf? Nei. Þetta kerfi leysir ekki stóra fjármögnunarvandann. Það þarf miklu meira fé til spítalans og kerfisins alls.

Páll segir DRG ekki hafa fælt hann frá. „Nei, ég hef barist fyrir því að við tækjum upp DRG-kostnaðargreina,“ segir hann. „Ég var kátur 2016 þegar við skrifuðum undir viljayfirlýsingu með heilbrigðisráðherra um að taka upp DRG.“ Spítalinn hafi unnið eftir hugmyndafræðinni frá 2004.

Hann segir einn af kostum DRG að það gefi meiri möguleika á útvistun verkefna. Þau hafi prófað sig áfram með að leigja aðstöðu til aðgerða í Klíníkinni. „Í DRG-fjármögnun er vafningalítið hægt að gera samninga eins og við Klíníkina um aðgerðir af biðlista Landspítala.“. Við fáum fé og umfangið en fáum aðra í verkið,“ segir Páll. „Ég tel að það séu mörg tækifæri þarna.“

Telur óraunhæft að vænta fagstjórnar yfir spítalanum

„Skrattinn býr í smáatriðunum. Það gæti því bæði hjálpað eða þvælst fyrir væri stjórn yfir Landspítala,“ er mat Páls. Hann segir þó að stjórn gæti verið til bóta. „Öflug stjórn sem skipuð er sjálfstæðu, reyndu, velviljuðu áhrifafólki sem skilur almannaheillahlutverk Landspítala myndi hjálpa.“ Hann nefnir stjórnir þar sem fyrrum rektorar og forstjórar alþjóðlegra stórfyrirtækja sitja.

Hann telur þó ólíklegt að slík fagstjórn sem sæti yfir 10% af vergri landsframleiðslu yrði skipuð hér á landi. „Reynslan segir nei,“ segir Páll. „Stjórnvöld láta ekki slíka stjórn bera ábyrgð á stórum hluta íslenskra fjárlaga. Með stjórn væri því hættan á að stjórnin yrði mjög pólitískt. Stjórnir margra stofnana hafi á sínum tíma verið lagðar af með lögum vegna þessa. Við fáum þetta aðhald úr ráðgjafanefnd spítalans þar sem eru 9 valinkunnir aðilar og 9 varamenn sitja nú.“
Þetta vefsvæði byggir á Eplica