11. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Slysaðist til að verða læknir en „ég finn mjög sterkt að ég er á réttri hillu,“ segir Hildur Jónsdóttir lyflæknir

Hildur Jónsdóttir er komin heim frá Bandaríkjunum sem fyrsti „hospítalistinn“ hér á landi. Hún segir það fljótt hafa heillað sig að hafa víðtæka þekkingu í stað sérhæfðrar. Spítalistar séu svar við síaukinni sérhæfingu sem kalli á að læknum fjölgi í framtíðinni

„Ég finn mjög sterkt að ég er á réttri hillu,“ segir Hildur Jónsdóttir lyflæknir sem valdi að verða spítalisti, eða hospitalist á enska tungu, sá fyrsti hér á landi. Hildur útskrifaðist almennur lyflæknir eftir þriggja ára námstíma í Iowa-háskóla. Hún kom heim í ágúst.

Hildur Jónsdóttir segir andrúmsloftið á Landspítala gott. Hún hlakki til að sjá hverju hún áorki sem fyrsti spítalistinn þar, það er læknir sem hafi sérhæft sig til að vinna á spítala. Mynd/gag

„Já, eftir því sem ég best veit er ég sú fyrsta. Það þýðir að ég valdi mér að vera almennur lyflæknir án undirsérgreinar. Ég ætla mér að verða spítalalæknir,“ segir hún. „Ég vil vinna á lyflækningadeildunum, vera læknir sem sérhæfir sig í að meðhöndla sjúklinga sem þurfa á spítalaþjónustu að halda, en eru í rauninni ekki með sérhæft vandamál,“ segir hún.

Hún setur vaktavinnu ekki fyrir sig. „Nei, mér finnst mjög gaman í vinnunni.“ Nýkomin heim er hún vön miklu vinnuálagi. „Í Iowa vann ég 10-12 tíma á dag, 6 daga vikunnar. Vann gjarnan um helgar og langar vaktir þannig að fyrir mér er ekkert mál að taka nokkrar kvöldvaktir og einhverjar helgarvaktir.“

Möguleikar spítalista margir

En hræddi það Hildi að spítalinn væri aðeins einn á höfuðborgarsvæðinu? „Ég hugsaði um það þegar ég ákvað að leggja þetta fyrir mig og ákvað að koma heim til Íslands. Hugsaði að ég væri að takmarka mig við Landspítala, en samkeppnin er að eflast. Spítalarnir í Keflavík og á Selfossi hafa stækkað legudeildir sínar. Svo er aldrei vanþörf á góðum almennum lyflækni,“ bendir hún á. „Það eru því alltaf möguleikar.“

Hún lýsir því hvernig almenn legudeildarteymi séu rekin af spítalistum í Bandaríkjunum. „Þar leggjast allir inn, við greinum vandann og köllum til sérfræðinga þegar vandinn er sérhæfður,“ segir hún.

„Þetta er í rauninni starf sem snýst um að sinna almennum vandamálum. Við hospítalistar vitum lítið um mjög margt,“ segir hún sposk. „Við höfum mjög víðtæka þekkingu en ekki mjög sérhæfða. Þetta er fyrst og fremst til að auðvelda ferli sjúklingsins í gegnum spítalann.“

Hildur segir það hafa skapað vandamál í nútímaheilbrigðiskerfi að læknar verði alltaf sérhæfðari. „En inni á spítölunum þarf líka okkur sem höfum vítt áhugasvið og þekkingu og vitum hvenær kalla þarf þá sérhæfðu til.“

Hildur segir margt hafi spilað inn í að hún kom heim. „Mörg tækifæri eru fyrir hospítalista úti og þeir eftirsóttir starfskraftar. Mér fannst hins vegar uppbygging heilbrigðiskerfisins í Bandaríkjunum ekki spennandi til lengdar. Það er íþyngjandi að hafa alltaf áhyggjur af því hver greiði fyrir þjónustuna sem þarf að veita. Mig langaði líka að koma heim og taka þátt í þróuninni hér,“ lýsir hún.

„Svo spilaði inn í að allan tímann sem ég var úti var ég í fjarbúð,“ segir hún og lýsir því hvernig hún saknaði fjölskyldu og vina, en fyrst og fremst unnusta síns, Birkis Karlssonar. „Mig langaði því að koma heim en ekki vera ein í Bandaríkjunum og vinna eins og hestur.“

Birkir hafi oft komið út fyrsta eina og hálfa árið og hún heim þrjár vikur á ári. „En við COVID lokuðust landamærin. Við sáumst ekki í marga mánuði. En hann beið þolinmóður eftir mér,“ segir hún. „Það er geggjað að vera komin heim.“

Samkeppnin mikil um stöður

Hildur vann sem deildarlæknir á lyflækningasviði Landspítala þegar hún ákvað að fara út til frekara náms. Reynsla þeirra sem hafi farið til Bandaríkjanna hafi heillað hana. „Upphaflega ætlaði ég ekki í almennar lyflækningar heldur ætlaði að verða meltingarlæknir því það var gaman að vinna á meltingardeildinni.“ Hún hafi tekið próf og sótt um stöður í mikilli samkeppni við bandaríska læknanema á heimavelli þeirra.

„Við stöndum höllum fæti sem útlendingar,“ segir hún. „Ég sótti um á nokkrum stöðum og fékk stöðu í Iowa enda hafa margir héðan verið þar. Allir hafa verið mjög ánægðir og reynsla þeirra af okkur Íslendingum góð.“

Hildur segir veruna ytra hafa sýnt sér hvað Landspítali veiti góða þjónustu. „Mér finnst andrúmsloftið að breytast. Finn vilja til að finna lausnir, skoða hverju við getum breytt. Ég finn fyrir jákvæðni,“ segir hún.

„En úti er kerfið þyngra í vöfum, stærra. En auðvitað er líka munur á að spítalinn úti er rekinn með framleiðni og gróða í huga. Það er því meiri hraði. Þar er ýmislegt hægt að gera um kvöld og helgar sem ekki er hægt að gera hér.“

Læknisfræði rammaði áhugann inn

Hildur er Reykvíkingur. Ólst upp í Grafarvogi. Hún er fyrst í sinni fjölskyldu til að verða læknir. „Ég slysaðist í læknisfræði og svo almennar lyflækningar. Ég hafði áhuga á bókmenntum og á þar fyrirmyndir í fjölskyldunni. Svo sat ég líffræði og erfðafræðitíma í Menntaskólanum í Hamrahlíð og fannst mjög spennandi,“ segir hún og hlær.

„Ég vissi líka að mig langaði að vinna með fólki og vaknaði því einn daginn og sá að læknisstarfið myndi sameina þessi áhugasvið.“ Hún dreif sig í námið. „Mér fannst það alltaf skemmtilegra og skemmtilegra. Setti mér markmið og sá þau breytast. Sá þegar ég hafði verið hálft ár úti að það gæti verið skemmtilegra að vera hospítalisti en meltingarlæknir,“ segir hún og útskýrir frekar.

„Ég áttaði mig á að ef ég yrði meltingarlæknir væri ég lítið að vinna með til dæmis sýkingar, blóðþrýsting og sykursýki og fannst leiðinlegt að hugsa um að það tæki enda og skipti því um skoðun. Ég fann aldrei að mig langaði að sinna einhverju einu. Vildi frekar hafa allt undir. Ég fékk því hugljómun úti þegar ég sá að það væri möguleiki. Ég gæti haft mjög víðfemt áhugasvið og skipt mér af öllu.“

Hún bendir líka á að æ ríkari hefð sé fyrir því í Bandaríkjunum að spítalistar stýri deildum. „Þeir hafa mikinn skilning á því hvað hver undirsérgrein gerir. Þeir vita hvernig ber að leysa vandann. Hospítalistar þekkja hvaða leið er sú besta fyrir sjúklinginn.“ Rannsóknir sýni einnig að þjónusta spítalista henti sjúklingum og lækki kostnað.

En hvaða viðhorfum mætir hún á Landspítala? „Heilt yfir mjög góðum,“ segir hún. „Ég held að þetta muni ganga vel. Ég vinn með frábæru bráða- og lyflækningateymi. Stemningin er góð. Það er ótrúlega gaman að koma heim og upplifa jákvæðnina í hópnum.“ Fólk hafi áhuga á námsvali hennar.

„Flestir þekkja hospítalista erlendis frá. Deildarlæknarnir eru líka áhugasamir.“ Hún sé nú fullnuma. „Ég kláraði á styttri tíma því ég fer ekki í undirsérgrein. Það er kostur enda er þetta starf það skemmtilegasta sem ég get gert.“

Öryggisnet að vera frá Íslandi

„Ég fann glöggt í Bandaríkjunum hversu gott öryggisnet felst í því að vera frá Íslandi. Ég vissi alltaf að ég hefði öruggt skjól hér,“ segir Hildur Jónsdóttir almennur lyflæknir á Landspítala.

„Ruglingslegar upplýsingar Trump á forsetastóli höfðu mikil áhrif á mig þegar ég vann sem læknir í Iowa. Áhrifin voru þó lítil miðað við bandarískt samstarfsfólk mitt. Þau lifðu í stöðugum ótta um hvað framtíðin bæri með sér,“ segir hún um andrúmsloftið í upphafi COVID-19 í Bandaríkjunum. Ekkert traust hafi verið til þess að Trump tæki yfirvegaðar réttar ákvarðanir. „Og hann gerði það ekki.“

Hún skiptir þriggja ára námstíma sínum og lærdómi í Bandaríkjunum í tvennt, fyrir faraldur og í. Fékk gesti og unnustann í heimsókn fyrri hlutann og kom heim en stóð ein þann seinni. „Óvissan var svo mikil.“ Á sama tíma og algjör aflétting hafði orðið í samfélaginu hafi starfsmenn spítalans gengið bæði með grímu og skjöld fyrir vitum sínum.

„Ég horfði upp á mörg dauðsföll og mikið var um mjög veika sjúklinga. Í fyrstu bylgjunni vann ég í krabbameinsteymi. Þar voru engir gestir leyfðir og engar undanþágur gefnar. Fólk var eitt. Það stóð eitt greint með ólæknandi krabbamein. Dó eitt. Þetta var ótrúlega erfiður tími sem kenndi mér svo miklu meira en ég gat nokkru sinni búist við.“ Hún hugsar sig um. „Ég myndi ekki hika við að gera þetta aftur.“




Þetta vefsvæði byggir á Eplica