11. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Er drengilegt að bólusetja eingöngu stúlkur við HPV? Jörundur Kristinsson

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Bólusetningar eru áreiðanlega ein merkasta uppfinning læknavísindanna og á pari við uppgötvanir eins og til dæmis sýklalyf. Báðar þessar uppfinningar hafa gjörbylt möguleikum til lækninga og þar með bjargað aragrúa mannslífa. Bólusetningar eru þó ekki óumdeildar en bóluefni leika nú þessa dagana lykilhlutverk í að koma heimshjólinu af stað að nýju í COVID-faraldrinum þó ekki sjái því miður enn fyrir endann á honum.

HPV-bólusetning - hvað er í boði?

Fyrir um 10 árum hófst bólusetning hér á landi gegn Human Papilloma Virus (HPV), veiru sem smitast við kynmök. Til eru há- og lágáhættu HPV-stofnar og samtals hafa verið greindir um 200 stofnar veirunnar. Hááhættustofnar valda meðal annars krabbameini í leghálsi. Þegar HPV-bólusetningin var innleidd var um að ræða afar tímabæra ráðstöfun. Þó þótti ýmsum þá þegar skorta framsýni í þeirri ákvarðanatöku. Tvö bóluefni voru í boði gegn HPV-veirunni. Annað þeirra er tví-gilt, það er ver gegn tveimur stofnum HPV-veirunnar, báðir þeir stofnar valda leghálskrabbameini. Hitt bóluefnið er fjórgilt, það er veitir vörn gegn fjórum stofnum og þar bætist við vörn gegn kynfæravörtum (condyloma). Fjórgilda bóluefnið var svo uppfært nokkr-um árum síðar og er nú nígilt, það er veitir vörn gegn 9 stofnum. Þar bættust við 5 HPV-stofnar sem valda krabbameini, meðal annars í endaþarmi, ytri kynfærum (penis, vulva/vagina) og oropharynx. Ég þekki ekki að fullu aðdraganda þess að tvígilda bóluefnið var valið en spurning hvort kostnaður réði þar einhverju.

Hverjir smitast af HPV, bara konur?

Í upphafi HPV-bólusetninga hérlendis var ákveðið að bólusetja eingöngu stúlkur. Bólusetning hefst við 12 ára aldur en bóluefnið má nota frá 9 ára aldri. Enn í dag notum við tvígilda bóluefnið og enn er það svo 10 árum síðar að stúlkur eru eingöngu bólusettar hér á landi gegn HPV. Hvers eiga drengir að gjalda? Þeir geta jú flutt smit á milli og HPV-veiran veldur einnig krabbameini hjá karlmönnum. Er þetta mismunun? Með því að bólusetja einnig drengi og með vali á breiðara bóluefni ættum við að geta hindrað smit í mun ríkara mæli og sömuleiðis varið afkomendur okkar betur fyrir þessum vágesti.

Staðan í nágrannalöndum okkar

Ef við lítum til nokkurra nágrannalanda okkar þá er nígilda bóluefnið nú notað í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Bretlandi og Írlandi, svo einhver séu nefnd. Það er hluti af opinberu bólusetningarkerfi þessara landa og þá einnig í boði fyrir drengi. Við stöndum því öðrum Norðurlöndum verulega að baki í þessum efnum.

Horfum til framtíðar

Sóttvarnayfirvöld um allan heim hafa staðið í ströngu nú í brátt tvö ár við að verjast COVID-19. Ég tel íslensk sóttvarnayfirvöld hafa þar staðið sig afar vel. Mig grunar að COVID-19 hafi tafið fyrir endurskoðun HPV-bólusetninga hérlendis. Ég hef í mínu starfi sem heimilislæknir tekið eftir vaxandi vitund og áhuga foreldra um að breiðara og öflugra bóluefni er til við HPV. Nokkuð er um að foreldrar kaupi það bóluefni og greiði sjálf þann aukakostnað sem því fylgir. Í því felst fjárhagsleg mismunun, þar sem kostnaðurinn er verulegur, eða um 57.000 kr pr barn.

Ég vil hér með hvetja sóttvarnayfirvöld til að innleiða sem allra fyrst bólusetningu beggja kynja til jafns við HPV-veirunni, útauka vörnina og velja það bóluefni sem veitir breiðasta vörn. Börnin og barnabörnin okkar eiga það svo sannarlega skilið.

Þegar þessi orð eru rituð er ég að ljúka setu minni í stjórn Læknafélags Íslands. Þetta verður því minn síðasti pistill Úr penna stjórnarmanns hér í Læknablaðinu. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem ég hef notið þess heiðurs að starfa með innan stjórnarinnar í þessu rótgróna og öfluga félagi sem ég er stoltur af að tilheyra.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica