11. tbl. 107. árg. 2021

Fræðigrein

Útköll Slysavarnafélagsins Landsbjargar vegna slysa og bráðra veikinda á árunum 2017-2018

Evaluation and management of wilderness injuries and acute illness in Iceland during the years 2017-2018

 doi 10.17992/lbl.2021.11.659

Ágrip

BAKGRUNNUR
Slysavarnafélagið Landsbjörg (SL) eru öflug sjálfboðaliðasamtök sem sinna um 1200 útköllum á ári hverju. Hluti þeirra útkalla varðar björgun slasaðra eða veikra einstaklinga. Ekki liggja fyrir rannsóknir á þeirri þjónustu sem SL veitir við þessar aðstæður.

MARKMIÐ
Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um heilbrigðisþjónustu sem SL veitti á árunum 2017-2018, hvort um slys eða veikindi var að ræða, hvort veitt hafi verið viðeigandi meðferð á vettvangi og hver afdrif einstaklinganna voru.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Upplýsingar voru fengnar úr rafrænum aðgerðagrunni SL. Skoðuð voru þau tilvik þar sem fólk þurfti flutning og meðferð á heilbrigðisstofnun. Út frá Björgum, skráningarkerfi Neyðarlínu, var hægt að nálgast kennitölur og voru endanlegar greiningar og afdrif viðkomandi fengnar úr SÖGU-kerfi og Heilsugátt.

NIÐURSTÖÐUR
Alls voru 189 aðgerðir teknar inn í rannsóknina með 239 manns. Flestar aðgerðir voru skráðar á Suðurlandi. Í rúmlega helmingi tilfella var um karlmenn að ræða og meðalaldur var 44,4 ár. Slys voru mun algengari en veikindi, eða 86% tilvika. Algengast var að fólki skrikaði fótur, hrasaði eða félli sem leiddi til áverka á neðri útlim. Af þeim sem veiktust voru hjartatengd vandamál algengust. Í yfir 70% aðgerða var ekki skráð rafrænt hvaða meðferð var beitt á vettvangi eða hvaða búnaður var notaður.

ÁLYKTANIR
Björgunarsveitir þurfa reglulega að veita heilbrigðisþjónustu. Algengast er að björgunarsveitir sinni einstaklingum eftir slys sem oftast verða á neðri útlim. Veikindi sem sinnt er af björgunarsveitum eru oftast tengd hjartasjúkdómum. Skráning á notkun búnaðar og meðferðar á vettvangi er ónákvæm og má bæta.

Greinin barst til blaðsins 12. maí 2021, samþykkt til birtingar 2. ágúst 2021.

Inngangur

Útivist og fjallaferðir hafa löngum notið vinsælda meðal landans. Þá hefur erlendum ferðamönnum fjölgað gríðarlega og er náttúra Íslands aðalaðdráttaraflið.1 Þetta leiðir af sér að fólki fjölgar á hálendi Íslands og umferð eykst um þjóðvegi landsins. Allflestir eru vel undirbúnir en óhjákvæmilega verða slys og bráð veikindi utan þéttbýlis og alfaraleiða með auknum fjölda ferðamanna.

Allnokkrar erlendar rannsóknir hafa verið gerðar á tíðni, tegund og alvarleika slysa og veikinda utan alfaraleiða. Algengt er að slíkar tölur séu teknar saman innan þjóðgarða í Bandaríkjunum og hafa slys reynst töluvert algengari en veikindi.2,3 Algengt er að fólk misstígi sig eða falli, sem leiðir til áverka á neðri útlim. Í rannsókn frá Nýja-Sjálandi var sömuleiðis meirihluti útkalla vegna slysa og áverka á neðri útlim. Þar kemur einnig fram að af útköllum vegna veikinda voru hjartavandamál algengust, 9,3% reyndust hafa ofkælst og 5,6% voru látin þegar að var komið.4 Í yfirliti yfir bráðaviðbrögð í þjóðgörðum Bandaríkjanna á tveggja ára tímabili 2012-2013 var meðal annars tekin saman tíðni hjartastoppa. Er þar áhugavert að 65% einstaklinga fengu hjartastuð á vettvangi og 26% lifðu til útskriftar af sjúkrahúsi.5

Slys og veikindi utan alfaraleiða á Íslandi hafa lítið verið rannsökuð. Í meistararitgerð frá árinu 2017, Neyð í óbyggðum Íslands, tók Sigrún Guðný Pétursdóttir hjúkrunarfræðingur saman þau tilfelli þar sem slasaðir og veikir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar úr óbyggðum Íslands. Niðurstöður hennar ríma við áðurnefndar rannsóknir frá Bandaríkjunum og Kanada. Alls 70% útkalla voru vegna slysa og algengast að fólk hefði runnið eða fallið. Reyndust 29,5% alvarlega slösuð.6 Ekki koma þar fram upplýsingar um það fólk sem flutt var landleiðina.

Oftar en ekki er óskað eftir aðkomu björgunarsveita SL þegar um slys eða veikindi er að ræða utan alfaraleiða og í dreifbýli á Íslandi. Sveitirnar sinna einnig í auknum mæli aðstoð við sjúkraflutninga á landsbyggðinni þegar daglegt neyðarviðbragð dugar ekki til eða þegar færð spillist.7,8 SL eru ein stærstu sjálfboðaliðasamtök landsins, með um 4000 félaga tilbúna í útkall allan sólarhringinn, allt árið um kring. Félagar sinna að meðaltali um 1200 útköllum á ári.9 Björgunarsveitir SL eru 93 talsins, dreifðar um landið. Þær eru misstórar og misjafnlega tækjum búnar en flestar hafa að minnsta kosti einn góðan fjallajeppa ásamt lágmarks fjallabjörgunar- og skyndihjálparbúnaði. Björgunarsveitir á landsbyggðinni eru oft fyrsta viðbragð í alvarlegum bílslysum í dreifbýli.7,8 Til að mynda hafa björgunarsveitir á Suðurlandi oft tekist á við hópslys og hefur myndast dýrmæt þekking á því sviði.

Þjálfun björgunarsveitarfólks tekur að jafnaði eitt til tvö ár og felst námið meðal annars í ferðamennsku, fjallamennsku og leitartækni.10 Nám í fyrstu hjálp er einnig hluti af þjálfuninni og ljúka allflestir námskeiðunum Fyrsta hjálp 1 og Fyrsta hjálp 2. Margir bæta síðar við námskeiðinu Vettvangshjálp í óbyggðum, en þeir sem ljúka því námskeiði fá heimild frá Embætti landlæknis til að beita ákveðnum lyfjum og inngripum í óbyggðum samkvæmt vinnuferlum sem síðast voru endurskoðaðir árið 2011.11 Nánari lýsingu á námskeiðunum má sjá í töflu I. Að auki starfa sérþjálfaðir vettvangsliðar SL í ákveðnum útköllum í samvinnu við sjúkraflutningamenn þar sem langt er í heilbrigðisþjónustu.

Aðgerðir SL eru teknar saman í árbók félagsins. Á árinu 2018 var 121 verkefni flokkað sem F1, hæsti forgangur, og árið 2017 voru þau samtals 159.7,8 Nánari greining á þessum útköllum var ekki skráð. Björgunarsveitir manna vakt á 5 stöðum á hálendinu yfir sumarmánuðina og sumarið 2017 sinntu þær 3033 verkefnum. Samkvæmt skráningu voru 31% þessara aðgerða vegna slysa og 11% vegna veikinda.7 Aldrei hefur, svo við vitum, verið tekið saman um hvers konar slys eða veikindi var að ræða, hvaða einstaklingar þetta voru, hvort þeir fengu viðeigandi meðferð á vettvangi eða hver afdrif þeirra urðu.

Markmið rannsóknarinnar var að skoða öll útköll þar sem björgunarsveitarfólk sinnti slösuðum eða veikum á vettvangi og þörf var á frekari meðferð á heilbrigðisstofnun, og að greina algengi, eiginleika og alvarleika þessara tilfella. Að auki var markmið rannsóknarinnar að leggja mat á viðbragð og meðferð á vettvangi til að meta hvort hægt sé að skipuleggja betur þjálfun og búnað björgunarsveitarfólks í fyrstu hjálp.

Efniviður og aðferðir

Upplýsingar voru fengnar úr rafrænum aðgerðagrunni SL, en þar eru skráðar allar aðgerðir sem SL kemur að. Upplýsingar um framgang hvers útkalls eru skráðar í rauntíma í grunninn og hægt er að rekja afdrif einstaklings, hvernig og á hvaða heilbrigðisstofnun viðkomandi er fluttur. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru skráðar í aðgerðagrunn SL.

Í flestum útköllum fluttu sjúkrabílar eða þyrla fólk síðasta spölinn á heilbrigðisstofnun. Út frá Björgum, skráningarkerfi Neyðarlínu, var hægt að nálgast kennitölur þess. Í einhverjum tilfellum voru einstaklingar fluttir beint með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítala og var þá hægt að nálgast kennitölur úr SÖGU-kerfi þar sem komutími og flutningur af vettvangi var skráður. Í SÖGU-kerfi og Heilsugátt voru að lokum fundnar endanlegar greiningar og afdrif viðkomandi á heilbrigðisstofnun.

Alls voru 2477 aðgerðir skráðar í aðgerðagrunn SL á árunum 2017-2018. Útilokaðar voru allar æfingar og þjónustuverkefni ásamt aðgerðum sem viðkomu föstum bílum, óveðursaðstoð og björgun dýra. Vettvangsliðar sinntu 166 tilfellum á rannsóknartímabilinu. Þar sem þeir eru hluti af daglegu neyðarviðbragði, falla þeir ekki undir skilmerki þessarar rannsóknar og þau tilfelli því útilokuð. Farið var nánar yfir 981 tilfelli og þau útilokuð þar sem ekki var um björgun á fólki að ræða, fólk fannst heilt á húfi eða var með minniháttar áverka. Í 48 tilfellum var ekki hægt að nálgast kennitölu viðkomandi eða sjúkragögn voru ekki aðgengileg í SÖGU/Heilsugátt og þannig ekki hægt að taka þau tilfelli með í rannsóknina. Þessi tilfelli dreifðust nokkuð jafnt yfir landið. Að lokum voru alls 189 aðgerðir teknar með í rannsóknina, þar sem 239 einstaklingum var sinnt.

Helstu þættir sem leitast var eftir að greina voru aldur, kyn og þjóðerni, áverkaferli, tegund og alvarleiki áverka, orsakir veikinda og tíðni ofkælingar, dánartíðni, menntunarstig björgunarfólks, meðferð á vettvangi og notkun búnaðar. Einnig hver afdrif fólks voru eftir komu á heilbrigðisstofnun.

Við mat á alvarleika áverka var notað ISS-áverkaskorið (Injury Severity Score) sem byggir á AIS-áverkastigum (Abbreviated Injury Scale). Samkvæmt AIS eru áverkastigin 6, fyrsta stigið svarar til vægs áverka en það sjötta til áverka sem leiða til dauða. Samkvæmt kerfinu er líkamanum skipt í 9 svæði, en svæðið með mesta áverka ræður áverkastiginu. ISS-áverkaskorið er summa þriggja hæstu áverkastiga frá þremur mismunandi svæðum AIS-áverkaskorsins í öðru veldi. Þrjú stig eða minna er flokkað sem lítill áverki, 4-8 stig meðalmikill áverki, 9-15 stig mikill áverki, 16-24 stig alvarlegur áverki og 25 stig eða meira lífshættulegur áverki.12 Úrvinnsla gagna byggði á lýsandi tölfræði auk þess sem Kí-próf var notað til að meta marktækni. Rannsóknin var framkvæmd með leyfi Vísindasiðanefndar, læknisfræðilegra yfirmanna heil-brigðis-stofnana sem einstaklingar höfðu verið fluttir til, SL og Neyðarlínunnar.

Niðurstöður

Um aðgerðirnar

Af alls 189 aðgerðum voru 62 (33%) boðaðar á hæsta forgangi (F1). „Rauðar“ aðgerðir, það er erfið björgun eða þörf á miklu viðbragði, voru 33 aðgerðir (17%). Í meirihluta tilfella var biðtími eftir björgun undir einni klukkustund (71%) og rúmlega helmingur aðgerða var boðaður eftir hádegið (tafla II). Í 167 tilvikum, eða 88% aðgerða, var um einn einstakling að ræða. Mest var álagið yfir sumartímann og út september, en 49% aðgerða voru skráð í júlí, ágúst og september. Samtals voru 79 aðgerðir (40%) skráðar á laugardögum og sunnudögum. Í heild var rúmlega helmingur aðgerða á Suðurlandi.

Um einstaklinginn

Í 55% tilfella var um karlmann að ræða, í 44% konur og í þremur tilfellum var kyn ekki skráð. Meðalaldur var 44,4 ár og algengasti aldursflokkur 41-60 ára, (aldursbil: 7-89 ár). Í helmingi tilfella áttu erlendir ferðamenn í hlut. Á eigin vegum voru 45% og 16% voru í skipulagðri ferð. Í þriðjungi tilfella var ástæða ferðar ekki skráð. Engin tilfelli voru skráð þar sem björgunarmaður slasaðist í björgunarsveitarferð eða útkalli.

Í rúmlega tveimur af hverjum þremur tilfellum var einstaklingur fluttur beint af vettvangi með farartæki, í 18% tilfella á börum en ekki reyndist unnt að afla upplýsinga um hversu langt að meðaltali sjúklingur var borinn. Sjá nánar í töflu III. Í heild voru 69 fluttir með þyrlu og 152 með sjúkrabíl. Alls 64 (27%) voru á einhverjum tímapunkti fluttir með björgunarsveitarbíl. Sjö manns voru fluttir á fjór-/sexhjóli hluta úr leið og tveir með vélsleða.


Slys

Slys voru mun algengari en veikindi, eða 205 tilfelli (86%). Meðalaldur þeirra sem lentu í slysi var 43 ár. Oftast var fólk á göngu, eða í 46% tilfella. Bílslys voru næstalgengust, eða um þriðjungur. Sjá nánar í töflu IV.

Áverkar á neðri útlim voru algengastir, eða 40% tilfella, þar af voru rúmlega 60% brotin. Efri útlimaáverkar og höfuðáverkar voru næstalgengastir og nær drukknun eða drukknun tók til 15 tilfella, sjá mynd 1. Samkvæmt áverkaskori voru 135 einstaklingar (65%) með lítinn eða meðalmikinn áverka, 28 (14%) með mikinn áverka og 6 einstaklingar (4%) með alvarlegan eða lífshættulegan áverka. Meðaláverkaskor var 3,99. Leggja þurfti 80 einstaklinga (39%) inn á sjúkrahús, þar af voru 27 (34%) lagðir inn á gjörgæsludeild. Tíu (5%) létust af slysförum á tímabilinu.

Mynd 1. Áverkar flokkaðir eftir líkamssvæðum.

 

Veikindi

Útköll vegna veikinda voru mun sjaldgæfari en vegna slysa, eða 14% (34 einstaklingar). Meðalaldur var ívið hærri en hjá þeim sem slösuðust, 53,8 ár. Karlar voru hér í meirihluta, 62%, og 41% veikra einstaklinga voru erlendir ferðamenn. Hjartatengd vandamál voru algengust en í 5 tilfellum (15%) var um brjóstverk að ræða og í 8 (24%) hjartastopp. Kviðverkir voru skráðir hjá 5 manns og ekkert útkall var skráð vegna astma eða ofnæmis á þessu tímabili, sjá mynd 2. Tólf einstaklingar, eða 35%, voru lagðir inn á heilbrigðisstofnun, þar af 17% á gjörgæsludeild. Sjö létust á vettvangi, eða 21%. Enginn lést eftir innlögn á heilbrigðisstofnun.

Mynd 2. Flokkun veikinda.

Ofkæling

Hjá 38 einstaklingum var skráð að viðkomandi væri „kaldur“ eða hiti mældist undir 35,0°C við komu á heilbrigðisstofnun. Aðeins hjá tveimur var ofkæling eða örmögnun eina skráða ICD-10 greiningin. Um var að ræða drukknun eða nær drukknun hjá 15.

Hjá 30 af þessum 38 var skráð í aðgerðagrunn að þeir væru „kaldir“ á vettvangi en nánari lýsing á einkennum var ekki skráð. Þriðjungur þeirra (10) var með staðfesta ofkælingu (hita undir 35,0°C) við mælingu á heilbrigðisstofnun, helmingur (15) með eðlilega hitamælingu en hjá 5 manns fundust ekki upplýsingar um hitamælingar í sjúkraskrá.

Samanburður milli erlendra ferðamanna og Íslendinga

Í rétt rúmlega helmingi tilfella áttu erlendir ferðamenn í hlut. Þegar þessir tveir hópar eru bornir saman kemur í ljós að hærra hlutfall erlendra ferðamanna var í skipulagðri ferð þegar atvik átti sér stað. Einnig lentu fleiri ferðamenn í bílslysum en fleiri Íslendingar lentu í atviki á öðrum farartækjum (vélsleða, fjórhjóli eða öðrum vélknúnum tækjum). Sjá nánar í töflu V.

Umönnun á vettvangi

Í tæplega helmingi tilfella (114 alls) voru félagar björgunarsveita fyrstu viðbragðsaðilar á vettvang og í 5% tilfella voru einstaklingar alfarið í umsjón björgunarsveita þar til á heilbrigðisstofnun var komið. Í 45% tilfella (108) voru sjúkraflutningamenn með björgunarsveitarmönnum í för og veittu þá fyrstu meðferð. Í rúmlega þriðjungi tilfella til viðbótar (93) komu sjúkraflutningamenn síðar á vettvang. Læknir kom að umönnun einstaklinga á vettvangi í 34 tilfellum.

Búnaður og meðferð á vettvangi

Í 183 tilfellum (77%) var meðferð á vettvangi ekki skráð í aðgerðagrunn. Þó kemur fram að hjá 14 einstaklingum (6% tilfella) hafi þurft að spelka, sjúklingur var hitaður upp í 5% tilfella (12 einstaklingar) og gert var hryggáverkamat hjá tveimur. Lífsmörk voru einungis skráð hjá 8 einstaklingum og lyf voru gefin í alls 9 tilfellum. Ekki fundust nánari upplýsingar um hvaða lyf það voru (tafla V1). Sömuleiðis var notkun á búnaði ekki skráð í rúmlega 2/3 hlutum aðgerða (167 tilfelli). Þó var skráð að börur eða grjónadýna hafi verið notaðar hjá 59 einstaklingum. Súrefni var notað í einni aðgerð og var meðhöndlun þess í höndum sjúkraflutningamanna. Engin tilfelli voru skráð um notkun hálskraga.

Endurlífgun var beitt hjá 11 einstaklingum á vettvangi og af þeim lifðu tveir, annar við góða heilsu en ekki fundust upplýsingar um afdrif hins. Sjálfvirkt hjartastuðtæki var skráð notað alls 6 sinnum, 5 af þeim einstaklingum létust á vettvangi.

Í ljós kom að ósamræmi var í alls 7 tilfellum þegar greiningar á vettvangi voru bornar saman við ICD-10 greiningar eftir skoðun á heilbrigðisstofnun. Í fjórum þessara tilfella voru einkenni metin meiri á vettvangi en í raun reyndist þegar þau voru könnuð nánar. Í tveimur tilfellum voru áverkar skráðir minni á vettvangi en raunin var. Í báðum þeim tilfellum var viðbragðið þó rétt og þeir einstaklingar fengu viðeigandi meðferð. Í einu tilfelli var einstaklingur greindur með áverka á brjóstkassa á vettvangi, sem reyndist vera hryggbrot. Í því tilfelli var ekki skráð hvort hryggur var skorðaður fyrir flutning.

Umræður og ályktanir

Alls var 239 manns sinnt í 189 aðgerðum á rannsóknartímabilinu. Því er ljóst að SL veitir umfangsmikla þjónustu við slasaða og veika í óbyggðum og utan alfaraleiða á Íslandi. Flestar aðgerðir voru yfir sumartímann og um helgar en það er jafnframt sá tími sem flestir eru á faraldsfæti og hvað mestur ferðamannastraumur er til landsins.13 Mest var álagið á Suðurlandi. Þær niðurstöður koma ekki á óvart en gögn Ferðamálastofu sýna að vinsælustu áfangastaðir erlendra ferðamanna eru á Suðurlandi og fólksfjöldi því meiri þar en á öðrum landsvæðum.14 Slys voru mun algengari en veikindi og jafnvel enn algengari en áðurnefndar erlendar rannsóknir hafa sýnt.2,3,4 Algengast var að fólk hrasaði, skrikaði fótur eða félli, sem leiddi til neðri útlimaáverka. Sú niðurstaða er í takt við erlendar rannsóknir og meistararitgerð Sigrúnar Guðnýjar Pétursdóttur.2,3,6 Ekki reyndist unnt að finna upplýsingar um frekari ástæður þessara atvika, hvort um lausagrjót var að ræða, fall vegna vindhviðu, misstig eða annað.

Í okkar rannsókn reyndust 4% einstaklinga með alvarlegan eða lífshættulegan áverka samkvæmt áverkaskori, samanborið við 30% einstaklinga í fyrrnefndri ritgerð.6 Munurinn gæti legið í því að þar var aðeins um þyrlubjarganir að ræða. Leiða má að því líkur að þyrlan sé frekar kölluð til þegar um alvarlegri slys er að ræða. Áverkaskor var nokkuð sambærilegt milli gangandi einstaklinga og þeirra sem slasast við notkun vélknúinna farartækja.

Af veikindum reyndust hjartatengd vandamál algengust, sem rímar við erlendar rannsóknir.4 Af 11 skráðum endurlífgunum lifðu 2 (18%), sem er lægra en rannsókn frá Bandaríkjunum sýndi, en um of fáa er að ræða til að unnt sé að meta lifun nánar.5 Þar sem tími frá hjartastoppi að rafstuði er sá þáttur sem mestu skiptir varðandi lifun þessa sjúklingahóps er þetta þó merkilega góður árangur endurlífgunar við þessar aðstæður og svipað árangrinum á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi.15

Í 30 (12,5%) tilfellum var einstaklingi lýst sem „köldum“ á vettvangi. Þar af mældust 10 einstaklingar með eðlilegan líkamshita við komu á heilbrigðisstofnun. Aðeins tveir voru með ofkælingu skráða sem einu greininguna á vettvangi. Miðað við veðurfar hérlendis kemur á óvart að ekki séu skráð fleiri tilfelli ofkælingar. Hugsanlega eru ferðalangar almennt vel búnir og viðbúnir kulda. Einnig má leiða að því líkur að í einhverjum tilfellum ofkælingar séu einstaklingar hitaðir upp á vettvangi af björgunarsveitarfólki og því komi aldrei til flutnings á heilbrigðisstofnun. Í námsefni fyrstu hjálpar er lögð rík áhersla á að fyrirbyggja og meðhöndla ofkælingu á vettvangi.10 Hafa ber þó í huga að skráning var almennt ónákvæm og frekari rannsókna er þörf á þessu sviði.

Erlendir ferðamenn voru um helmingur þeirra sem SL sinnti vegna slysa eða bráðra veikinda. Erfitt er að álykta um hlutfallslegar líkur hvors hóps á að þurfa aðstoð þar sem ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um hlutföll Íslendinga og erlendra ferðamanna sem staddir eru í óbyggðum á hverjum tíma. Þó er ljóst að meðal Íslendinga er líklegra að karlmenn þurfi aðstoð björgunarsveita auk þess sem Íslendingar eru síður líklegir til að vera í skipulagðri ferð eða lenda í bílslysum.

Í tæplega helmingi tilfella voru björgunarsveitir fyrstar á vettvang og sinntu þá fyrstu meðferð. Voru áverkar á útlim algengastir. Í námsefni Björgunarskólans í fyrstu hjálp er lögð töluverð áhersla á útlimaáverka: mat á stöðugleika þeirra, blóðrás, snerti-skyn og hreyfanleika. Einnig er lögð áhersla á góða spelkunartækni.10 Samkvæmt okkar niðurstöðum á þessi áhersla vel við miðað við tíðni slíkra áverka. Minni áhersla er lögð á kennslu um veikindi, sem einnig er viðeigandi samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar. Endurlífgun á vettvangi var framkvæmd í 11 tilfellum og sjálfvirkt hjartastuðtæki notað alls 6 sinnum. Grunnþekking á endurlífgun og meðhöndlun sjálfvirkra hjartastuðtækja verður því að teljast nauðsynleg öllu björgunarsveitarfólki.

Áhugaverð niðurstaða er að súrefni var aldrei skráð notað af björgunarsveitarfólki. Þá voru engin tilfelli astma eða ofnæmis skráð og aldrei skráð notkun þeirra lyfja sem björgunarsveitarfólk með aukna þjálfun hefur heimild til að nota samkvæmt verkferlum Embættis landlæknis. Frá því að þeir verkferlar voru síðast uppfærðir, árið 2011, hefur klínískum leiðbeiningum um meðferð bráðaofnæmiskasts verið breytt þannig að gjöf prednisólons, klemastíns og ranitidíns er ekki talin sannreynd meðferð við bráðaofnæmiskasti og ekki sérstaklega mælt með notkun þessara lyfja.16 Enn er adrenalín í vöðva eina lyfið sem talið er gagnast við bráðaofnæmiskasti. Er því rétt að endurskoða þessa verkferla Embættis landlæknis og íhuga þarf hvort raunveruleg ástæða sé til þess að björgunarsveitarfólk gangi með og hafi heimild til að beita þessum lyfjum.

Í ljósi þess hve algengt var að björgunarsveitarfólk sinnti einstaklingum með útlimaáverka, sem venjulega fylgja verkir, þyrfti að íhuga hvort rétt sé að björgunarsveitarfólk sé með verkjalyf meðferðis til að bæta verkjastillingu við fyrstu meðferð slíkra áverka í óbyggðum.

Björgunarsveitarfólk notar að einhverju leyti SAGA-skráningareyðublöð á vettvangi við skráningu sjúkrasögu, lífsmarka, líkamsskoðunar og meðferðar. Eyðublöðin eru á pappírsformi og lögð er áhersla á að eyðublaðið fylgi einstaklingnum af vettvangi og inn á heilbrigðisstofnun.10 Notkun þeirra getur að einhverju leyti skýrt að rafræn skráning meðferðar á vettvangi er lítil. Þessi skráningarblöð eru í fæstum tilfellum aðgengileg í sjúkraskrá viðkomandi og því er ekki hægt að nálgast þau í rannsóknartilgangi. Notkun hálskraga, bakbretta, grjónadýna og súrefnis hefur verið mikið í umræðunni meðal björgunarsveitafólks og starfsfólks í utanspítalaþjónustu. Ekki var heldur hægt að leggja mat á tíðni notkunar eða gagnsemi þessara meðferða vegna ónákvæmrar skráningar. Greinarhöfundar sjá hér sóknarfæri í rafrænni skráningu svo betur sé hægt að greina þau tilfelli í framtíðinni sem björgunarsveitarfólk kemur að og meðhöndlar, og stuðla þannig að markvissri þjálfun björgunarsveitarfólks á sviði fyrstu hjálpar.

Engin tilfelli fundust þar sem skráð var að björgunarsveitarfólk hefði leitað sér ráðgjafar lækna við mat og meðferð slasaðra eða bráðveikra í óbyggðum. Þó er líklegt að í einhverjum tilvikum hafi björgunarsveitarfólk leitað ráðgjafar heilbrigðisstarfsmanna þó það hafi ekki verið skráð með formlegum hætti. Brýnt er að aðgengi björgunarsveitarfólks að læknisfræðilegri ráðgjöf sé greitt þar sem það getur fallið á herðar þess að annast alvarlega veika eða slasaða í talsverðan tíma í óbyggðum áður en hægt er að koma við sérhæfðri heilbrigðisþjónustu. Á vegum bráðamóttöku Landspítala og yfirlæknis utanspítalaþjónustu er unnið að því að koma upp sérhæfðri fjarlækningaþjónustu þar sem bráðalæknar veita stuðning í gegnum örugga fjarskiptagátt við heilbrigðisstarfsfólk á vettvangi. Tryggja þarf að björgunarsveitafólk fái einnig aðgang að slíkum stuðningi við störf sín á vettvangi.

Helsti veikleiki rannsóknarinnar er að skráning gagna reyndist ekki eins og best verður á kosið. Því er í einhverjum tilvikum hugsanlegt að ákveðin skoðun hafi verið framkvæmd eða meðferð veitt án rafrænnar skráningar í aðgerðagrunn SL.

Lokaorð

Björgunarsveitarfólk Slysavarnarfélagsins Landsbjargar veitir mikilvæga þjónustu við bráð veikindi og slys þar sem langt er í næstu heilbrigðisþjónustu. Þjálfun þeirra í fyrstu hjálp nýtist vel en bæta þarf skráningu á veittri meðferð á vettvangi. Lyf voru sjaldan skráð gefin á vettvangi á rannsóknartímabilinu og endurskoða þarf fyrirkomulag með lyfjagjafir björgunarsveitafólks. Einnig þarf að efla stuðning lækna í gegnum fjarskipti við störf björgunarsveitafólks á vettvangi.

Þakkir

Þakkir fá Tómas Gíslason og Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjórar Neyðarlínunnar, og SL fyrir aðstoð við öflun gagna. Sigríður Alma Gunnsteinsdóttir fær bestu þakkir fyrir excel-aðstoð og Íris Marelsdóttir fyrir veitta aðstoð.

 

Heimildir

 

 
 
1. Einarsdóttir OÞ. Erlendir ferðamenn á Íslandi 2018, lýðfræði, ferðahegðun og viðhorf. 2019. ferdamalastofa.is/static/files/konnun2018/konnun-18-2.pdf - ágúst 2021.
 
2. Sadeghi R, Konwinski JC, Cydulka RK. Adirondack Park incidents: a retrospective review of search and rescue reports from 2008 and 2009. Wilderness Environ Med 2015; 26: 159-63.
https://doi.org/10.1016/j.wem.2014.08.004
PMid:25800526
 
3. Welter CR, Sholl JM, Strout TD, et al. Epidemiology of Search and Rescue in Baxter State Park: Dangers of Descent and Fatigue. Wilderness Environ Med 2015; 26: 549-54.
https://doi.org/10.1016/j.wem.2015.08.003
PMid:26476846
 
4. Visser JT, Campbell AF. New Zealand land search and rescue operations: an analysis of medical and traumatic conditions. Wilderness Environ Med 2014; 25: 401-8.
https://doi.org/10.1016/j.wem.2014.05.003
PMid:25281590
 
5. Lane JP, Taylor B, Smith WR, et al. Emergency Medical Service in the US National Park Service: A Characterization and Two-Year Review, 2012-2013. Wilderness Environ Med 2015; 26: 531-5.
https://doi.org/10.1016/j.wem.2015.05.006
PMid:26384763
 
6. Pétursdóttir SG. Neyð í óbyggðum á Íslandi. Slasaðir og veikir fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar 2013-2015. skemman.is/bitstream/1946/29518/1/ms_lokaritgerd_sigrun_juni_2017.pdf - ágúst 2021.
 
7. Bjarnason DM. Árbók SL 2018: Aðgerðamál. issuu.com/landsbjorg/docs/sl-arbok-2018 - ágúst 2021.
 
8. Stefánsson G. Árbók SL 2019. Aðgerðamál.
 
9. Slysavarnafélagið Landsbjörg. Félagið. landsbjorg.is/felagid - ágúst 2021.
 
10. Arnardóttir AB. Námsskrá SL 2019-2020. landsbjorg.is/bjorgunarskolinn-namsskra - ágúst 2021.
 
11. Gunnlaugsson G. Vinnureglur í óbyggðum. landlaeknir.is/servlet/file/store93/item2565/4671.pdf - ágúst 2021.
 
12. Abbreviated Injury Scale. The Association for the Advancement of Automotive Medicine. aaam.org/abbreviated-injury-scale-ais/ - ágúst 2021.
 
13. Ferðamenn um Keflavíkurflugvöll. Ferðamálastofa. ferdamalastofa.is/is/tolur-og-utgafur/fjoldi-ferdamanna/talningar-ferdamalastofu-i-flugstod-leifs-eirikssonar - ágúst 2021.
 
14. Þórhallsdóttir G, Ólafsson R. Dreifing ferðamanna um landið: Talningar ferðamanna á áfangastöðum. ferdamalastofa.is/static/research/files/dreifing_ferdamanna_um_landid.pd f - ágúst 2021.
 
15. Mogensen BA, Björnsson HM, Þorgeirsson G, et al. Árangur endurlífgunartilrauna utan spítala a Reykjavíkursvæðinu árin 2004-2007. Læknablaðið 2015; 101: 137-41.
https://doi.org/10.17992/lbl.2015.03.18
PMid:25735673
 
16. Bráðaofnæmiskast (anaphylaxis). Þýtt og staðfært: Björnsson HM, Lúðvíksson BR, Gunnbjörnsdóttir MI, et al. landlaeknir.is/servlet/file/store93/item44022/Bradaofnaemiskast_PlakatA2.pdf - ágúst 2021.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica