10. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna. Af Basil Gimlet, læknanemum, stéttarvitund og samstöðu. Þórdís Þorkelsdóttir
Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.
Basil Gimlet er góður kokteill. Í honum er sykur, límóna, basilika og gin og það besta er: hann er einfaldur í framkvæmd. Drykkurinn er nútíma „gimlet“ sem á sér nokkuð áhugaverða sögu. Talið er að hann sé nefndur eftir lækni í breska sjóhernum á 19. öld, Sir Thomas Gimlette. Hann á að hafa gefið sjómönnum gin blandað í límónusafa til að minnka líkur á skyrbjúg á löngum sjóferðum um heimsins höf.1 Á þriðja áratug 20. aldar var drykkurinn vinsæll í Bretlandi á mannamótum, sem tíðkuðust víst í þá tíma ólíkt því sem nú gerist. Í gimlet nútímans er yfirleitt síróp, límónusafi og gin. Ónefndum snillingi datt í hug að krydda drykkinn með basiliku sem lyftir honum á annað plan. Þessi drykkur hefur verið í uppáhaldi hjá undirritaðri frá því á fyrstu árunum í læknadeild HÍ. Hann er bestur í sinni einföldustu mynd, vinsæll meðal læknanema og er tilvalinn fyrir hátíðleg tilefni eins og árshátíð.
Líf læknanema er þó meira en nám, árshátíðir og gimlet. Læknanemar hafa nefnilega sóst eftir aðild að Læknafélagi Íslands (LÍ) frá árinu 2018 til að tryggja kjarasamningsbundin réttindi ásamt því að verða hluti af fagfélagi lækna. Eftir ályktunartillögu frá Félagi almennra lækna (FAL) á aðalfundi LÍ 2019 var skipaður starfshópur um hvernig aðild læknanema að LÍ gæti verið háttað. Sá starfshópur skilaði tillögu til stjórnar LÍ fyrir aðalfund 2020. Sólveig Bjarnadóttir og Teitur Ari Theodórsson gerðu þessu máli góð skil í grein í Læknablaðinu í september 2020.2 Vegna aðstæðna voru engar lagabreytingar gerðar það árið og til stendur að tillaga sniðin eftir niðurstöðum starfshópsins verði lögð fyrir næsta aðalfund LÍ.
Læknanemar starfa samkvæmt kjarasamningi LÍ í afleysingastöðum á sumrin og á vöktum eftir fjögurra ára nám. Þau eru ekki meðlimir í LÍ og eru ekki meðlimir í stéttarfélagi við störf sín á þessum tíma. Launin eru gjarnan reiknuð sem hlutfall af launum kandídata en fer það þó eftir geðþótta þeirrar stofnunnar sem ræður þá í vinnu. Launaflokkar þeirra, 001-003, finnast einungis skilgreindir á heimasíðu Fjársýslu ríkisins en ekki í kjarasamningi LÍ.3 Ágreiningsmál um túlkunaratriði kjarasamninga hafa litlar sem engar afleiðingar fyrir vinnuveitanda því enginn hefur það lögbundna hlutverk að vernda réttindi læknanemanna.
Á síðustu árum hafa í auknum mæli komið upp mál þar sem brotið er á réttindum læknanema. Sem dæmi hafa þau fengið upplýsingar frá stjórnendum stofnunar „um að veikindaréttur gildi eftir atvikum“ og hafa verið fjarlægðir af vaktaplani án fyrirvara, sem jafngildir fyrirvaralausri uppsögn. Þetta kann að vera mikil breyting frá því umhverfi sem starfandi sérfræðingar muna eftir frá sín-um námsárum, þegar samkeppni var milli margra vinnustaða um starfskrafta læknanema og slíkar tilraunir til brota á réttindum voru fáheyrðar. Undanfarin ár hafa læknanemar sótt stuðning til FAL og LÍ sem hafa staðið við bakið á þeim í þessum málum. Nú er tími til kominn að gera það með formlegum hætti og veita læknanemum sem starfa í afleysingum hlutaaðild að Læknafélagi Íslands.
Einnig skiptir gífurlegu máli fyrir fé-lagið að efla stéttarvitund verðandi lækna strax í upphafi starfsferilsins. Læknafélagið sinnir þessu hlutverki að hluta til með því að dreifa Læknablaðinu til klínískra læknanema. Stolt og hugmyndin að tilheyra hópi fagfólks voru tilfinningarnar sem fylgdu því að fá Læknablaðið inn um lúguna í fyrsta skipti. Það eitt og sér er þó ekki nóg til að efla stéttarvitund verðandi lækna. Það þarf að bjóða þá velkomna í það starfsumhverfi sem læknar starfa við, tryggja þeim kjarasamningsbundin réttindi og kynna félagið fyrir verðandi fullgildum meðlimum þess. Það er ein-faldlega ekki hægt ef upplifunin er að nemarnir sitji eftir og séu skildir eftir úti í kuldanum af verðandi samstarfsfólki.
Að veita læknanemum hlutaaðild að LÍ hvetur til stéttarvitundar, eykur líkur á viðeigandi og vernduðu starfsumhverfi og tryggir þeim þau réttindi sem þau eiga skilið. Læknanemar verða læknar, sér-fræðingar og stjórnendur framtíðarinnar. Þau eru verðandi kollegar okkar allra og það er brýnt að standa vörð um þeirra hagsmuni. Hlutaaðildin er að mati undir-ritaðrar og FAL, best framreidd einföld og fellur eins og basillauf á gimlet. Basilikan er ekki drykkjarhæf ein og sér, en að bæta henni í gimlet gerir góðan drykk enn betri. Þannig mætti segja að læknanemar gætu orðið fyrir Læknafélag Íslands eins og basilikan fyrir gimletinn.
Meðfylgjandi er einföld og góð uppskrift af Basil Gimlet fyrir áhugasama:
15 ml af basil sírópi*60 ml af gini að eigin vali (mæli með Tanqueray 10)
30 ml af límónusafa
Hristist saman með klökum, borið fram kælt með basillaufi.
*Basil síróp: Jafnt hlutfall af sykri og vatni soðið saman í potti.
2-3 stilkum af ferskri basiliku bætt út í þegar sykurinn hefur að mestu bráðnað.
Best er að láta þetta kólna og standa í 1-2 klukkustundir og fjarlægja stilkana úr sírópinu að því loknu.
Njótið!
Heimildir
1. web.archive.org/web/20091201145311 / royalnavy.mod.uk/training-and-people/rn-life/navy-slang/covey-crump-a-to-aye/galley-gunwale/ - september 20212. |
||||
2. Theodórsson TA, Bjarnadóttir S. Eiga læknanemar að fá aðild að LÍ? Læknablaðið 2020; 106; 436. | ||||
3. Fjársýsla ríkisins. Launatöflur. Launatöflur sem taka gildi 2021. http://fjs.is - september 2021. |