10. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Nýjar áskoranir í kunnuglegu umhverfi, - spjallað við Hildigunni Svavarsdóttur

Hildigunnur Svavarsdóttir er nýráðin forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri. Hún þekkir sjúkrahúsið eins og lófann á sér enda hefur hún unnið þar allan sinn starfsferil, sem hófst á menntaskólaárunum þegar hún vann við ræstingar á skurðstofu. Framundan er meðal annars stækkun sjúkrahússins og að ná því markmiði að gera sjúkrahúsið að háskólasjúkrahúsi

„Þetta er mikil áskorun og töluvert öðruvísi en það sem ég var að fást við sem framkvæmdastjóri. Ég er í nýju verkefni í mjög kunnuglegu umhverfi og ég ætla að nýta mér það,“ segir Hildigunnur sem fyrir mánuði síðan færði sig yfir á forstjóraskrifstofuna eftir að hafa starfað sem framkvæmdastjóri sjúkrahússins undanfarin 10 á





U05-fig-1-Hildigunnur-Svavarsdottir-

Einhver myndi segja að forstjórastóllinn hafi legið beinast við fyrir jafn metnaðarfulla manneskju en sjálf segir Hildigunnur að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld. Hún hafi þurft að hugsa sig vel um því hún var í góðu starfi sem hún kunni vel við, en forstjórahlutverkið var áskorun sem kitlaði hana. „Það er margt nýtt sem ég þarf að læra. Þetta eru spennandi tímar.“

Ákvað átta ára að vinna á slysadeild

Ekki þarf að ræða lengi við Hildigunni til þess að átta sig á því að Sjúkrahúsið á Akureyri á sér sérstakan stað í hjarta hennar. Allan sinn starfsferil hefur hún starfað þar – og reyndar var hún komin þangað í huganum strax sem krakki.

„Ég var alltaf ákveðin í því að verða hjúkrunarfræðingur. Ég ákvað það eiginlega 8 ára gömul og stóð við þá ákvörðun. Mamma var hjúkrunarfræðingur og ég ætlaði alltaf að vinna á slysadeildinni eins og hún. Ég var í skátunum og svo í hjálparsveitinni og fannst þetta allt mjög skemmtilegt. Leiðin inn á bráðamóttökuna var því ósköp bein,“ rifjar Hildigunnur upp.

Fyrsta starf hennar á sjúkrahúsinu var við ræstingar á skurðstofu á menntaskólaárunum en eftir hjúkrunarfræðinám í Háskólanum á Akureyri hóf hún störf á bráðamóttökunni. Þar starfaði hún í þrjú ár eða allt þar til hún fór til Skotlands í meistaranám í heilbrigðisvísindum. Eftir nokkur ár úti lá leiðin aftur á Sjúkrahúsið á Akureyri en einnig var hún í hálfu starfi í 14 ár á Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri. Eftir meistaranámið færði Hildigunnur sig meira yfir í ýmis verkefni tengd stjórnun og alþjóðlegu samstarfi. Hún var til dæmis skólastjóri Sjúkraflutningaskólans í 10 ár og var forstöðumaður deildar mennta og vísinda. Þess utan tók hún mikinn þátt í verkefnum er varða málefni endurlífgunar og sat í rúm 15 ár í stjórn Endurlífgunarráðs Íslands og 10 ár í stjórn í Evrópska endurlífgunarráðsins.

„Ég er svolítið alin upp hér á sjúkrahúsinu og allur minn starfsferill er hér, sem er kannski bæði kostur og galli. En auðvitað hef ég líka fengið mikið út úr þessu alþjóðlega samstarfi mínu sem gefið hefur tengingar út um allan heim.”

Ný viðbygging í augsýn

Eitt af fyrstu verkefnum Hildigunnar sem forstjóra var að fylgja eftir ákvörðun um fjármögnun nýrrar 9200 fermetra viðbyggingar við sjúkrahúsið. Nú stefnir í að það gangi allt saman upp og hægt verði að fara í hönnunarferli fljótlega og að ný bygging verði risin í lok árs 2027.

„Þetta mun gjörbreyta starfsaðstöðunni og væntanlega gera það eftirsóknarverðara fyrir heilbrigðismenntað fólk að koma hingað og vinna. Við munum færa legudeildir lyflækninga- og skurðlækningadeildar og svo göngu-, dag- og legudeild geðdeildar,“ segir Hildigunnur en húsnæði sjúkrahússins er nú í þremur byggingum og er sú elsta frá 1953.

„Geðdeildin hefur verið í bráðabirgðahúsnæði í um 30 ár. Þessi stækkun er mjög brýn. Við erum með mikla og hraða veltu á sjúklingum legudeildanna, mikla nýtingu rúma og náum illa að uppfylla sóttvarnir og friðhelgi. Stækkunin skapar rými til þess að endurskipuleggja alla okkar dag- og gönguþjónustu og nútímavæða okkar verklag.“

Háskólasjúkrahús markmiðið

Þar til nýja viðbyggingin rís, felast að sjálfsögðu áframhaldandi áskoranir í því að halda starfsemi sjúkrahússins gangandi í því húsnæði sem tiltækt er.

„Okkar áskoranir felast fyrst og fremst í því að viðhalda þeirri þjónustu sem við þurfum að standa undir samkvæmt lögum, sem kennslu- og varasjúkrahús. Til þess að standa undir þeim kröfum verðum við að hafa gott og öflugt starfsfólk, sem við erum með. Það er stór áskorun fólgin í því að vera með mannauð sem er ánægður í sínu starfi, í starfsumhverfi sem uppfyllir nútímakröfur varðandi aðstöðu og tækjabúnað,“ segir hún.

„Fyrir fimm árum síðan settum við okkur það sem stefnu að verða háskólasjúkrahús. Við náðum því ekki inn í nýjustu heilbrigðislögin, en við stefnum áfram að því markmiði. Að verða háskólasjúkrahús er partur af því að halda í öflugt starfsfólk en við teljum að með því móti getum við laðað meira af hæfu fólki til okkar sem hefur þá kannski svigrúm til að sinna klíník, kennslu og rannsóknum. Það er líka mikilvægt fyrir samfélagið hérna fyrir norðan og tenginguna við Háskólann á Akureyri. Háskólinn ætlar sér líka að ná lengra varðandi meistara- og doktorsnema og þá skiptir miklu máli að við séum í takt og dönsum þennan vals saman.“

Mikilvægt að hlúa að mannauðnum

Löngum hefur verið erfitt að manna heilbrigðisstofnanir úti á landi og aðspurð um stöðuna hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri akkúrat núna, þá segir Hildigunnur að það sé sífelld barátta að ná í sérhæft starfsfólk.

„Við skulum orða það þannig að okkur vantar alltaf starfsfólk en við höldum samt alltaf starfseminni gangandi. Ef ég tek bara sérfræðilækna sem dæmi, þá er sú lína brothætt og þá sérstaklega með tilliti til mönnunar vakta. Þar höfum við þurft að vera mjög lausnamiðuð, finna nýjar leiðir og leita eftir samstarfi við aðrar stofnanir, svo sem Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Landspítala. Það er þannig að það er stöðug vinna hjá forstöðumönnum og framkvæmdastjórum að vera á varðbergi og tryggja mönnun.“

Berum velferð starfsfólks fyrir brjósti

Akureyri hefur þó að hennar mati margt að bjóða fram yfir höfuðborgina sem hægt er að lokka heilbrigðisstarfsmenn með. Nálægðin við náttúruna er mikil, vegalengdir stuttar innanbæjar og bærinn almennt fjölskylduvænn. „Þá erum við með persónulegt starfsumhverfi hér á sjúkrahúsinu, sem ég myndi segja að sé mjög jákvætt. Það er tiltölulega opið aðgengi að stjórnendum, eða það er að minnsta kosti mín tilfinning. Við berum velferð starfsfólks fyrir brjósti og viljum bjóða því upp á góða starfsaðstöðu, góðan tækjabúnað og tækifæri til endurmenntunar eins og hægt er,“ segir Hildigunnur. 

Að hennar mati er ein stærsta breytingin, frá þeim tíma sem hún hóf fyrst störf á sjúkrahúsinu, einmitt tengd mannauðnum, ef frá er talin öll tækni- og tölvuvæðing. „Mikil áhersla er lögð á ánægju starfsfólks og almennt mun meiri umræða um mikilvægi þess að hlúa að mannauðnum.“

Spurð nánar um stöðu sjúkrahússins segir Hildigunnur smæðina á Akureyri hafa þau áhrif að ekki sé hægt að veita allar tegundir af sérhæfðri þjónustu. „Við þurfum því að stóla á Landspítala þannig að fólk fái bestu mögulegu þjónustu á hverjum tíma,“ segir hún.

„Við eigum að keppa að því að gera það sem við getum vel. Við þurfum að horfa á hverjar þarfir samfélagsins eru. Við þurfum að forgangsraða og horfa á það hvernig Sjúkrahúsið á Akureyri þjónar því hlutverki sínu að vera varasjúkrahús fyrir Landspítalann.“ Hún segir lykilatriði að íbúar landsbyggðarinnar hafi gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þeim séu tryggðar leiðir til þess að fá viðeigandi þjónustu á hverjum tíma, burtséð frá búsetu.

Stundar hlaup og útivist

En hvernig ætlar hún sjálf að hlúa að sér í þessu nýja og álagsfulla starfi? „Það að vera forstjóri er lífsstíll. Þú ert alltaf vakandi fyrir starfinu en maður þarf samt að geta aftengt sig. Ég er alveg meðvituð um það og svo á ég líka eiginmann sem er forstjóri og þar höfum við sameiginlegan skilning. Ég hef í mörg ár notað hlaup og útivist, líkamlega útrás, til þess að ná áttum. Auk útivistarinnar þá hefur okkur fundist gott að ná jafnvægi með því að ferðast og við höfum farið víða. Ég fékk líka alveg nýtt hlutverk á sama tíma og ég tók við forstjórastarfinu því ég varð tvöföld amma með þriggja vikna millibili. Ætli ömmuhlutverkið verði ekki bara mín næsta leið til að kúpla mig út?“ segir Hildigunnur að lokum, spennt fyrir nýjum hlutverkum í lífi og starfi.


 

U05-fig-2-Hildigunnur-Svavarsdottir

„Að verða háskólasjúkrahús er partur af því að halda í öflugt starfsfólk en við teljum að með því móti getum við laðað meira af hæfu starfsfólki til okkar sem hefur þá kannski svigrúm til að sinna klínik, kennslu og rannsóknum,“ segir Hildigunnur. Mynd/SNÆ



Þetta vefsvæði byggir á Eplica