10. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Draga lærdóm af COVID-19 á lyflæknaþinginu í nóvember, segir Signý Vala Sveinsdóttir

„Við ætlum meðal annars að draga lærdóm af COVID-19 faraldrinum sem tók af okkur þingið á síðasta ári,“ segir Signý Vala Sveinsdóttir, fulltrúi stjórnar Félags íslenskra lyflækna, um 24. Lyflæknaþingið sem haldið verður í Hörpu dagana 5.-6. nóvember.

Nýjungar í faginu, stafræn tækni og heilsueflandi borgarskipulag fá sinn sess á Lyflæknaþinginu í Hörpu. „En fyrst og fremst fáum við nú tækifæri til að treysta böndin, kynnast og efla tengslin okkar á milli. Það jafnast ekkert rafrænt þing á við þau í raunheimum,“ segir Signý Vala sem starfar sem yfirlæknir á blóðlækningadeild á Landspítala.

U01-fig-3-Signy-Vala

Signý Vala Sveinsdóttir er ein þeirra sem stýrir undirbúningi Lyflæknaþingsins í ár.

Þrjú ár eru frá síðasta þingi. Signý á von á því að læknar allra undirsérgreina komi á ráðstefnuna og hvetur aðra heilbrigðisstarfsmenn einnig til að mæta. „Almennar lyflækningar koma jú við sögu í öllum greinum læknisfræðinnar.“

Lyflæknaþing voru hér áður gjarnan haldin úti á landi. „Það er aldrei að vita nema horfið verði aftur til eldri hefðar síðar. Við leitumst við að hafa sem skemmtilegast og lofum stútfullri dagskrá.“ Hún fagnar því að þinginu ljúki á hátíðarkvöldverði í Hörpu. „Við í stjórninni hvetjum alla til að mæta og innbyrða nýja þekkingu.“ – gag



Þetta vefsvæði byggir á Eplica