10. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Fimm geta orðið fyrst til að klára fullt lyflæknanám á Íslandi að sögn Örnu Guðmundsdóttur

Fyrstu læknarnir eru nú á fjórða ári sérnáms í lyflækningum hér á landi. Námið er kennt í heild eftir bresku prógrammi Royal College of Emergency Medicine.

Fimm læknar geta orðið fyrst til að ljúka sérnámi í lyflækningum alfarið hérlendis. Þau stunda nú fjórða árið í náminu fyrst hér á landi. Áður var aðeins hægt að ljúka þremur árum hér heima. Fara þurfti utan til þess að klára. Um fjörutíu stunda sérnám í lyflækningum.

„Tímarnir hafa breyst,“ segir Arna Guðmundsdóttir, kennslustjóri í lyflækningum. Námið sé nú formlegt, vottað og fylgi breskum marklýsingum. „Sérnámslæknaprógrammið í lyflækningum er langstærst á Landspítala,“ segir hún.

„Við erum í harðri samkeppni um fólk við sérnámið í heimilislækningum. Erum í samkeppni um fólk við önnur sérnám, ekki síst þau sem hægt er að ljúka alfarið hér heima eins og heimilislækningar. Það er frábært að læknar hafi val. Við hvað viltu vinna í framtíðinni? Hvernig sjúklinga viltu hitta? Viltu vinna vaktavinnu eða ekki eða vera í bráðum aðstæðum eða ekki.“ Hún segir gæði námsins í sérflokki og jafnis á við það sem er í Bretlandi en Bretar og Bandaríkjamenn séu leiðandi í kennslu. 

Bára Dís Benediktsdóttir, umsjónarsérnámslæknir, er ein þeirra sem hefur hafið fjórða árið í lyflækningum. Hún býst þó ekki við að verða fyrst til að klára það, en hún á von á barni nú í október. „Ég gæti þó orðið fyrsta konan,“ segir hún kappsöm. Sjálf hafi hún stefnt á að fara út og stunda námið hér heima í einungis eitt ár.

„En svo kynnti ég mér málið og sá að staðan er betri hér en það sem ég sá á hinum Norðurlöndunum. Utanumhaldið er gott og af því að við erum í bresku kerfi fáum við breskt námsnúmer og getum því án vandkvæða farið í skiptinám út eða starfað þar í framtíðinni. Við höfum farið í gegnum nákvæmlega sömu skilyrði og læknar í Bretlandi.“

Námið hefur verið vottað til ársins 2023. Skoðuð sé námskrá hvers sérnámslæknis og metið hvort hann hafi staðist kröfur. „Nemendur komast ekki milli ára nema að hafa uppfyllt kröfur marklýsingarinnar,“ segir Arna. 

„Námið hefur mikla þýðingu fyrir Landspítala sem heldur nú í þennan mannafla í stað þess að missa fólkið úr landi á besta aldri, 30-35 ára. Þetta er því bylting í viðleitni við að halda fólki á spítalanum og manna hann vel,“ segir hún og leggur áherslu á mikilvægi þess. „Námið er fjöregg spítalans.“ Það haldi fólki hér heima og bæti því mönnun spítalans.

Arna segir sérnámslækna í lyflækningum hópinn sem mannar Birkiborg. „Þetta er fólkið sem stendur vaktina á öllum lyflækningadeildunum,“ segir hún. Bára tekur undir. „Ég hef gengið stofugang á öllum lyflækningadeildum spítalans.“ Lyflæknar hafi síðan afar fjölbreytt tækifæri þegar námi lýkur. „Þeir geta til dæmis unnið í stjórnsýslu, starfað sjálfstætt eða á heilbrigðisstofnunum.“

U01-fig-1-lyflaeknar

Hópurinn nýi hittist á dögunum á veitingastaðnum Sjálandi í Garðabæ. Frá vinstri; Vilhjálmur Steingrímsson, Hjálmar Ragnar Agnarsson, Telma Huld Ragnarsdóttir, Tómas Þór Ágústsson, yfirlæknir sérnáms og framhaldsnáms á Landspítala, Arna Guðmundsdóttir, kennslustjóri í lyflækningum, Bára Dís Benediktsdóttir, umsjónarsérnámslæknir. Á myndina vantar Pál Guðjónsson. Mynd/gagÞetta vefsvæði byggir á Eplica