9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Alþingiskosningar 2021. Svör stjórnmálaflokkanna um heilbrigðisþjónustuna. 9. spurning. Allir flokkar vilja efla þjónustuna

Einföldun kerfisins og betri nýting fjármagns, er svar Viðreisnar við hver áhersla flokksins yrði ef heilbrigðisráðuneytið kæmi í hlut flokksins eftir kosningar. Hún vill einnig stytta biðlista og efla heilsugæsluna enn. Sjálfstæðisflokkurinn vill einnig stytta biðlista auka valfrelsi, bæta aðgengi að þjónustu. Mælikvarðar á gæði, pólitísk forysta og að ráðast á undirmönnun er svar Samfylkingarinnar.

Píratar vilja sjá fullfjármagnaða heilbrigðisþjónustu. Flokkur fólksins að staðinn sé vörður um sjúkrahús og heilsugæslu og að aldraðir séu ekki látnir líða innan heilbrigðiskerfisins.

Miðflokkurinn vill nýta kosti einkarekstrar og efla landsbyggðar-sjúkra-húsin. Framsókn vill skýra samninga við sérfræðilækna og tryggja rekstur hjúkrunar-heimila. Vinstri græn að haldið sé áfram á sömu braut þegar kemur að því að efla innviði. Einnig þurfi að efla forvarnir.

Samantekt svara stjórnmálaflokkanna við spurningum Læknablaðsins um heilbrigðisþjónustuna
fyrir Alþingiskosningarnar 25. september næstkomandi. 

9. spurning: Hver yrði áherslan í heilbrigðismálum á kjörtímabilinu ef heilbrigðisráðuneytið kæmi í hlut flokks ykkar eftir næstu kosningar?

 

Efla einkarekstur en standa vörð um hið opinbera - Flokkur fólksins

Standa á vörð um öll sjúkrahús og heilsugæslu-stöðvar hér á landi. Efla þátt einkareksturs í heilbrigðisþjónustu svo stytta megi biðlista og helst útrýma þeim, án þess þó að gengið yrði á opinbera reksturinn. Tryggja að rekstur hjúkrunarheimila komist í jafnvægi og sjá til þess að aldraðir séu ekki látnir líða innan heilbrigðiskerfisins.

 

Vilja efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni - Miðflokkurinn

Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á að efla og styrkja heilbrigðisþjónustu í landinu. Það vill hann gera með opnum huga þegar kemur að rekstrarformi og nýta þannig bæði kosti einkarekstrar og hins opinbera. Það þarf að styrkja þá þjónustu sem veitt er í dag um leið og huga þarf að framtíðinni þannig að þjóðin geti áfram verið í fremstu röð og ekki síður upplifað heilbrigðisþjónustu sína þannig. Miðflokkurinn hyggst styrkja á ný heilsugæslu og sérfræðilækningar utan höfuðborgarsvæðisins til að laga aðflæðisvanda Landspítalans auk átaks í byggingu hjúkrunarrýma. Snúið verði við þeirri þróun að minnka styrk landsbyggðarsjúkrahúsa og þau verði aftur efld verulega ásamt heilsugæslunni með nútíma tækjabúnaði og mönnun á sérhæfðari þjónustu. Þannig verði tryggt aðgengi allra íbúa landsins að góðri þjónustu í heimabyggð.

 

Gjaldfrjáls en fullfjármögnuð heilbrigðisþjónusta - Píratar

Píratar munu bjóða nálgun á heilbrigðismál sem lítur til stærra samhengis: Niðurskurður í velferðarmálum leiðir til aukins kostnaðar í heilbrigðismálum. Við-varandi svelti í geðheilbrigðisþjónustu eykur skaða og kostnað til framtíðar. Fjársveltið bitnar á starfsfólki, óheilnæmt húsnæði ógnar heilsu þess, álagið er mikið og kulnun viðvarandi vandamál. Menntakerfið leikur lykilhlutverk í heilbrigði þjóðar-innar til framtíðar, enda byggir heilbrigður lífstíll á fræðslu og forvörnum. Réttarkerfið tekur í dag á málum fólks sem þyrfti frekar aðstoð heilbrigðiskerfisins, og svo framvegis.

Stofnanir eiga því ekki að þurfa að slást um fjármagn sín á milli heldur skal móta framtíðarstefnu og þjónustustig í víðtæku samráði. Slík samvinna væri þó gagnslaus ef fjármagn til rekstrar skortir. Þetta er ekki eingöngu nauðsynlegt heldur hafa kannanir undanfarin ár sýnt að öflugt heilbrigðiskerfi sé efst í forgangs-röðun fólks í ríkisfjármálum. Forvarnir, aðgengi að þjónustu um allt land, góð starfsskilyrði fyrir starfsfólk og gjaldfrjáls – en fullfjármögnuð – heilbrigðisþjónusta yrðu því helstu áherslur Pírata í heilbrigðisráðuneytinu.

 

Tryggja þjónustu, rekstur, forvarnir og vísindi - Framsóknarflokkurinn

• Að tryggja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga.

• Að tryggja eins vel og unnt er heilsugæslulækna um land allt og nýta þar með námslánakerfið sem hvata.

• Að koma á skýrum samningum milli ríkis og sérfræðilækna um þjónustu.

• Að tryggja rekstur hjúkrunarheimila til framtíðar.

• Að koma með skýrar áherslur í framtíðarfyrirkomulagi þjónustu við aldraða þar sem horft verði til tækifæra á lengri búsetu í eigin húsnæði, samspils heimahjúkrunar og heimaþjónustu og sveigjanlegrar dagdvalar fyrir eldra fólk.

• Að halda áfram að byggja upp og samhæfa geðheilbrigðisþjónustu í landinu.

• Að leggja áherslu á forvarnir og lýðheilsu.

• Að auka fjármagn til vísindastarfs háskóla og Landspítala.

 

Mælikvarðar, verkaskipting og betri mönnun - Samfylkingin

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að þróa og innleiða mæli-kvarða fyrir árangur og gæði heilbrigðisþjónustu til að geta metið betur hvernig kerfið mætir þörfum notenda og samfélagsins alls. Í öðru lagi þarf pólitíska forystu um að bæta allt skipulag og skerpa á verkaskiptingu milli hinna ýmsu eininga í heilbrigðisþjónustunni. Í þriðja lagi er löngu tímabært að ráðast í átak gegn undirmönnun, bæta starfsaðstæður og kjör heilbrigðis-starfsfólks og veita stórauknu fjárframlagi til heilbrigðismála, meðal annars til að bregðast við hlutfallslegri fjölgun aldraðra í landinu.

Nokkrir málaflokkar kalla á mikið átak. Staðan í geðheilbrigðis-málum er alvarleg. Gera þarf heildarúttekt á umfangi og fram-kvæmd geðheilbrigðisþjónustu og gera nauðsynlegar breytingar á málaflokknum í þágu notenda þjónustunnar.

Við þurfum að ráðast í fjölbreyttari aðstoð við eldra fólk. Á næstu árum mun fjölga verulega í hópi eldri íbúa landsins og því verðum við að koma með aðrar áherslur í þessum málaflokki en nú er gert og vísum þar í svar okkar við spurningu um hjúkrunar- og dvalarrými.

Innleiðing og fjárfesting í velferðatækni er góð leið til að takast á við þær breytingar sem eru að eiga sér stað í velferðar- og heilbrigðisþjónustu.

 

Vilja auka valfrelsi og stytta biðlista -Sjálfstæðisflokkurinn

Við munum leggja mikla áherslu á að auka valfrelsi, bæta aðgengi að þjónustu og stytta biðlista. Það verður best gert með því að horfa til fjölbreyttari rekstrarforma í heilbrigðiskerfinu, stuðla að nýsköpun og gera öllum heilbrigðisstéttum kleift að stunda sjálfstæðan rekstur. Það sama á við í heilbrigðiskerfinu og annars staðar: Okkur farnast best þegar við nýtum kraftinn í samfélaginu til góðra verka.

 

Vilja einfalda kerfið og nýta fé betur - Viðreisn

Að þjónusta verði veitt á forsendum einstaklingsins, einföldun kerfisins og betri nýting fjármagns. Koma í veg fyrir áframhaldandi spekileka og áhersla lögð á að tryggja nauðsynlega nýliðun fagfólks. Starfsumhverfi verði viðunandi og samkeppnishæft við það sem best þekkist erlendis.

Forgangsraða þarf fjármunum í þágu fjárfestingar í heilbrigðismálum. Leggja þarf sérstaka áherslu á uppbyggingu öldrunarþjónustu og að aldraðir fái þjónustu í samræmi við þarfir og óskir. Efla þarf heimahjúkrun og gera átak í fjölgun öldrunar- og hjúkrunarheimila. Auka þarf fjárframlög og samvinnu við sveitarfélög um hjúkrunarheimili.

Styrkja þarf heilsugæsluna um land allt sem fyrsta viðkomustað og einfalda leið fólks um heilbrigðiskerfið. Stytta þarf bið eftir viðtali við heimilislækni, efla teymisvinnu og fjölga mismunandi fagaðilum innan heilsugæslunnar. Biðlista eftir heilbrigðisþjónustu þarf að stytta eins og framast er unnt. Skilgreina þarf þjónustu sem allir eiga rétt á í sinni heimabyggð og jafna aðgengi allra landsmanna að sérfræðiþjónustu.

 

Halda áfram á sömu braut og jafna aðgengið - Vinstri græn

Á þessu kjörtímabili hefur VG lagt áherslu á uppbyggingu innviða í heilbrigðiskerfinu og eflingu hinnar opinberu þjónustu, og má þá til dæmis nefna uppbyggingu nýs meðferðarkjarna við Landspítala, eflingu heilsugæslunnar og stóreflda geðheilbrigðisþjónustu. Þar að auki hefur greiðsluþátttaka sjúklinga verið lækkuð til muna. VG leggur áherslu á haldið verði áfram á sömu braut, þ.e. að uppbyggingu innviða í heilbrigðiskerfinu verði haldið áfram og stefnt að jöfnum aðgangi allra landsmanna að bestu mögulegu heilbrigðis-þjónustu, óháð efnahag eða búsetu. Nýjar áherslur í þjónustu og úrræðum við eldra fólk er eitt af stærstu verkefnum næstu ára, jafnhliða því sem uppbygging verður áfram að vera á hjúkrunarrýmum, sérstaklega á þeim svæðum þar sem mesti vandinn er. Þá leggja Vinstri græn áherslu á að efla forvarnir og lýðheilsu á komandi kjörtímabili og byggja upp heilsueflandi samfélag.

U14-Flokkarnir

 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica