9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Bráðaofnæmiskast er meðhöndlað með adrenalíni

Tíðni ofnæmissjúkdóma og sérlega fæðuofnæmis hefur farið vaxandi undanfarin ár. Þetta á einnig við um bráðaofnæmiskast (anaphylaxis) en fæða er ein algengasta orsök þess. Mikilvægt er að læknar kunni góð skil á greiningu bráðaofnæmiskasts og hvernig ber að meðhöndla það og fyrirbyggja.

Bráðaofnæmiskast er alvarlegt ofnæmisviðbragð sem kemur skyndilega eftir að einstaklingur hefur verið útsettur fyrir ofnæmisvaka, svo sem fæðu, lyfi eða skordýrabiti/stungu. Bráðaofnæmiskast getur í alvarlegustu tilfellum valdið dauða.

Að greina bráðaofnæmiskast (BOK)

Bráðaofnæmiskast er ofnæmisviðbragð sem tekur til öndunarfæra og blóðrásar (ABC). Einkenni þess eru meðal annars astmi, lágur blóðþrýstingur, yfirlið eða yfirliðstilfinning og jafnvel rugl. Þessu fylgja gjarnan mildari einkenni svo sem nefrennsli, þina (ofsakláðaútbrot, urticaria), bjúgbólga (ofsabjúgur, angioedema) á vörum eða í andliti, kviðverkir eða uppköst. Bráðaofnæmiskast getur í alvarlegustu tilfellum valdið blóðþrýstingsfalli, yfirliði eða meðvitundarleysi og jafnvel dauða vegna skorts á blóðflæði til lífsnauðsynlegra líffæra.

Að meðhöndla bráðaofnæmiskast STRAX

Ef grunur vaknar um bráðaofnæmiskast, skal gefa adrenalín í vöðva strax, hringja í neyðarlínuna, símanúmer 112, og biðja um sjúkrabíl. Þetta er árangursríkasta meðferðin á bráðaofnæmiskasti. Adrenalín fæst í sjálfræsandi pennum eða áfylltum sprautum til að gefa í vöðva (Epi-pen eða Jext).

Að fyrirbyggja bráðaofnæmiskast

Þeir einstaklingar sem eiga það á hættu að fá bráðaofnæmiskast eiga að fá fræðslu og leiðbeiningar frá þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki um það hvernig og hvenær á að nota adrenalínpenna og gera auk þess viðbragðs-áætlun. Það ætti ætíð að bera á sér bæði adrenalín og viðbragðsáætlunina. Að forðast ofnæmisvaldinn, að deila neyðarplani með öðrum, aukið sjálfstraust vegna fræðslu, umræðu og betri þekkingar á bráðaofnæmiskasti, minnkar allt líkurnar á bráðaofnæmiskasti.

Á myndinni eru leiðbeiningar af vef Landlæknis um greiningu og meðferð á bráðaofnæmiskasti. Bráðaofnæmiskast gerir ekki boð á undan sér og því gefst sjaldan tími til að fletta því upp hvernig bregðast skal við. Því eiga allir læknar að kunna að greina og meðhöndla bráðaofnæmiskast.

 

Heimild: Alheimsofnæmissamtökin (WAO), vefnámskeið „SToP Anaphylaxis!“ júní 2021.

U09-plakat

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica