9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Hefðum átt að byggja upp í fyrri bylgjum, segir Tómas Guðbjartsson

„Núna eigum við að vera nýkomin úr sumarfríi, full af orku fyrir veturinn. Það er ekki raunin á Landspítala við Hringbraut,“ segir Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir við Læknablaðið. Álagið á Landspítala sé viðvarandi.

„Ég tjái mig fyrir hönd skjólstæðinga minna, hjartasjúklinga, sem þurfa á gjörgæsluplássunum að halda. Sem betur fer hefur ekki verið mikið um bráð tilfelli undanfarið. En þegar þau verða sjáum við hvernig gjörgæslan er full upp í rjáfur,“ segir Tómas hjartalæknir á Landspítala. Lýsandi fyrir alvarleika stöðunnar sé þegar sjúklingar í lífshættu séu fluttir milli sjúkrahúsa. „Og jafnvel til útlanda í sjúkraflugi,“ segir hann.

„Það vantar starfsfólk. Nóg er af fólki, eins og hjúkrunarfræðingum, sem vildi vinna á spítalanum í upphafi faraldursins en er nú horfið á braut. Við hefðum átt að nýta meðbyrinn með spítalanum í fyrri bylgjum. Hann er ekki til staðar nú enda ekki verið haldið rétt á spilum gagnvart starfsfólkinu.“

Tómas ritaði færslu á Facebook um miðjan ágústmánuð þar sem hann líkti Landspítala við skip án björgunarbáta fyrir alla. Hann var í kjölfarið í viðtali í Síðdegisútvarpi Rásar 2 og í Bítinu á Bylgjunni. Í Facebook-færslunni gagnrýndi hann leiðara stóru dagblaðanna sem kölluðu eftir slaka í sóttvarnaraðgerðum. „Spítalinn þolir það ekki.“

Um miðjan ágúst var Landspítali á hættustigi og bráðamóttakan við þolmörk. Sjúklingur af gjörgæslu hafði verið sendur á gjörgæslu til Akureyrar og sagt var frá því að Heilbrigðisstofnun Suðurlands myndi bæta við 10-15 rúmum til að taka við fólki af Landspítala. Starfsmenn Klíníkurinnar í Ármúla væru einnig fengnir tímabundið til að létta á álagi bráðamóttökunnar.

Tómas segir að hann telji skyldu sína að greina frá ástandinu. Það hafi hann hins vegar ekki gert lengi. „Ég var áberandi í baráttu Landspítala fyrir auknu fé þegar ég kom heim til starfa. Mér fannst ákallið ekki skila neinu, var svekktur og fannst því tími kominn á aðra að taka slaginn,“ segir hann um ástæðu færslunnar núna. Hún kemur í kjölfar upphlaups eftir að almannatengill spítalans bað lækna um að beina fjölmiðlum til sín. Hann baðst síðar afsökunar á því.

„Mörgum fannst þessi e-mail samskipti ekki hvetjandi en þau blésu mér eldmóði í brjóst. Það sem er mikilvægt er að hafa opin samskipti og segja frá ástandi sem er alvarlegt,“ segir Tómas.

„Í kjölfar færslunnar fékk ég hvatningu innanhúss. Líka frá stjórnendum spítalans, sem ég átti ekki von á,“ segir hann.

U01-fig-2-Landsp

 

Fagráð Landspítala vill sjá ríkið bregðast við

„Fagráð Landspítala skorar á stjórnvöld að gera það sem þarf til að heilbrigðiskerfið, með Landspítala í fararbroddi, sé eftirsóttur vinnustaður þar sem veitt sé besta heilbrigðisþjónusta sem völ er á hverju sinni,“ segir Marta Jóns Hjördísardóttir formaður ráðsins fyrir hönd þess í yfirlýsingu sem ráðið sendi frá sér í ágústmánuði.

„Það þýðir ekki að hika lengur, búið er að benda á vandann í mörg ár, nú sem aldrei fyrr er tækifæri til úrbóta,“ segir í ályktuninni.Þetta vefsvæði byggir á Eplica