9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Heilbrigðiskerfið að hruni komið, segir formaður LÍ, Reynir Arngrímsson

Nóg er af menntuðu heilbrigðisstarfsfólki, en það kýs að starfa annars staðar, segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands. Heilbrigðiskerfið hafi nær hrunið í ágúst. Tímabært sé að æðsta stjórn heilbrigðismála axli ábyrgð.

„Okkur vantar ekki menntaða lækna. Íslenskir læknar með starfsleyfi eru 3000 en á Íslandi starfa um 1500. Alltof margir eru erlendis, eða rétt tæplega 800 og þá þarf að laða heim. Við eigum að horfa til þess þegar við ræðum manneklu á Landspítala,“ segir formaður Læknafélagsins.

„Í ágúst sáum við að heilbrigðiskerfið nánast hrundi. Það má ekki gerast aftur því ófullnægjandi mönnun getur leitt til alvarlegs hruns. Við þurfum samstöðu en ekki sundurlyndi. Átaka-stjórnmál eiga ekki heima í þessum málaflokki,“ segir hann. „Heilbrigðiskerfið er ekki sjálfbært í dag litið til mannafla.“ Staðan í heilbrigðiskerfinu sé þannig að óviðunandi vinnuaðstaða og ófullnægjandi mönnun geti leitt til alvarlegra atvika.

„Meðal ráða er að mótvægisaðgerðir tryggi sveigjanleika í starfi og réttláta umbun þeirra sem sinna áhættusömum verkefnum á álagstímum. Réttarstaða heilbrigðisstarfsfólks þegar upp koma alvarleg atvik er óljós og meðferð slíkra mála innan stjórnkerfisins tekur alltof langan tíma. Þess vegna er einnig brýnt að útkljá það ólögmæta misræmi innan heilbrigðiskerfisins að settir yfirmenn lækna séu án læknismenntunar og geti ekki borið læknisfræðilega ábyrgð,“ segir hann.

„Stjórnmálaöflin eiga mikið verk framundan við að byggja upp traust stórra hreyfinga heilbrigðisstarfsmanna.“

Varðandi álagið nefnir Reynir að endurskoða þurfi mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins. Í nýlegri könnun Landspítala og LÍ meðal lækna á öllum starfseiningum spítalans hafi komið fram að 70% lækna telji mönnun sérfræðilækna ófullnægjandi og 60% lækna telji mönnun almennra lækna ófullnægjandi á sinni starfseiningu. Alls svöruðu 355 og var svarhlutfallið 59%. Yfir helmingur lækna hafði íhugað að skipta um starfsvettvang, sem Reynir segir alvarleg skilaboð til stjórnenda Landspítalans og heilbrigðisráðuneytisins.

Reynir telur lækna ekki sækja heim nema með bættu starfsumhverfi og fjölbreytni. „Jákvæðir straumar verða að fara að streyma aftur úr stjórnarráðinu,“ segir hann. „Kannski rumska stjórnvöld þegar stærsti efnahagsvandinn sem nú blasir við er skortur á fagmenntuðu starfsfólki og geta Landspítalans til að standast álag yfir lengra tímabil. Þetta má aldrei koma fyrir aftur. Það er tímabært að æðsta stjórn heilbrigðismála axli ábyrgð á ástandinu.“ Uppbygging og endurskoðun verði að fara fram.

„Við getum verið þakklát baklandinu, sjálfstætt starfandi sjúkrastofnunum, til dæmis Klíníkinni, sem steig inn við ákall stjórnvalda og mögulega bjargaði því að ekki varð algjört hrun.“ Stjórnvöld hljóti að sjá að sér nú og ganga í að ljúka samningum við heilbrigðisstarfsfólk í eigin rekstri. „Þjóðin aðhyllist blandað heilbrigðiskerfi enda góð reynsla til margra ára af því.“

Meðal annarra atriða sem Reynir vill sjá verða að veruleika á næsta kjörtímabili er að skipuð verði stjórn Landspítala og innri endurskoðun spítalans verði efld.

Fjármagn og nýting þess
þýðingarmesta verkefnið

 „Næsta ríkisstjórn verður að auka framlög til heilbrigðiskerfisins, tryggja að fjármagni sé vel varið og gefa kost á fjölbreyttri faglegri þjónustu mismunandi rekstrarforma – eins og lofað var fyrir síðustu kosningar,“ segir formaður Læknafélagsins. Styrkja ætti samvinnu opinberrar þjónustu og einkarekinnar, til dæmis með tilfærslu verkefna.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica