7-8. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Svör heilbr.starfsmanna: Ný tæki og afkastahvetjandi fjármögnun. Karl G. Kristinsson
1. Fjármagn til tækjakaupa á Landspítalanum er og hefur verið mjög takmarkað. Mörg tækjanna eru gömul og óáreiðanleg. Þetta getur skapað alvarleg vandamál í rekstri og þjónustu, eins og kom í ljós í upphafi COVID-19 þegar gamall tækjakostur sýkla- og veirufræðideildar þoldi ekki álagið. Veita þarf mun meira fjármagni til tækjakaupa en gert hefur verið, bæði til að tryggja rekstraröryggi og geta innleitt nýjar og betri rannsóknaraðferðir fyrr en verið hefur.
2. Bæta þarf kostnaðargreiningu á rannsóknum og meðferðarúrræðum. Fjármögnun þarf að vera afkastahvetjandi frekar en letjandi. Erfitt getur verið að innleiða nýjar rannsóknir sem bæta meðferð og draga úr kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið, af því að viðbótarkostnaðurinn lendir óbættur á rannsóknadeildum.
Dregið hefur úr virkni í vísindarannsóknum á heilbrigðissviði, meðal annars vegna manneklu og vinnuálags. Auka þarf vægi vísindarannsókna á heilbrigðissviði með því að tryggja fullnægjandi mönnun og skapa starfsmönnum svigrúm til rannsókna.