7-8. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Svör heilbr.starfsmanna: Tryggja þarf mönnun og setja aldraða í forgang. Sigrún Jónsdóttir
1. Í mínu nærumhverfi eru verðandi sérnámsgrunnslæknar sem kvíða því að hefja störf á bráðamóttöku Landspítalans. Skiljanlega í ljósi stöðunnar og, að því er virðist, vegna skorts á aðgerðum hingað til. Skortur á sérfræðilæknum kemur niður á þjónustu við sjúklinga, er hættulegur og skerðir sömuleiðis námstækifæri yngri lækna. Það er ekki sérlega heillandi né styðjandi umhverfi. Ég tek því undir ályktanir fjölda læknafélaga sem hvetja stjórnvöld og heilbrigðisstofnanir til þess að tryggja að mönnun starfsfólks sé fullnægjandi.
2. Það er að ýmsu að huga en þjónusta við aldraða ætti að vera forgangsatriði. Í fréttum þann 14. júní kom fram að hlutfall sjúklinga á spítalanum sem bíða eftir öðrum úrræðum hafi aldrei verið hærra. Þessi vandi virðist hafa relapse-remitting mynstur þar sem opnun hjúkrunarheimilis annað slagið bætir aðeins ástandið. Ég vona að þær aðgerðir sem átakshópur bráðamóttökunnar kynntu síðastliðinn vetur brjóti þetta mynstur að einhverju leyti og að langtímalausnir frekar en skammtíma ráði ríkjum í málaflokknum.