7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands í 30 stiga hita, - Guðbjörg Jónsdóttir

Iowa-borg. 30 stiga hiti og sól. Guðbjörg Jónsdóttir, sérnámslæknir í blóð- og krabbameinslækningum við háskólasjúkrahúsið í Iowa, varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við Háskóla Íslands frá Bandaríkjunum. Rannsókn hennar leiddi í ljós að bæði meðferð og erfðafræði eiga mögulega þátt í þróun annarra krabbameina hjá sjúklingum með mergæxli

Gestirnir sátu í hátíðasal Háskóla Íslands meðan Guðbjörg Jónsdóttir varði doktorsritgerð sína við HÍ frá Bandaríkjunum. Ekki nóg með það heldur sat annar tveggja andmælenda, Anette Vangsted, yfirlæknir á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn, við tölvu í Danmörku en Signý Vala Sveinsdóttir, yfirlæknir á blóðsjúkdómadeild Landspítala, hér heima. Alþjóðlegt á COVID-tímum.

Guðbjörg Jónsdóttir lauk sérnámi í almennum lyflækningum við háskólasjúkrahúsið í Iowa í Bandaríkjunum árið 2019 og stundar nú sérnám í blóð- og krabbameinslækningum. Hún er ein 6 íslenskra lækna í sérnámi við sjúkrahúsið.

„Það var heiður að fá tvær framúrskarandi konur sem andmælendur verkefnisins. Þær stýrðu áhugaverðum og skemmtilegum umræðum þennan dag,“ segir Guðbjörg. „Auðvitað hefði verið skemmtilegast að vera í salnum en dagurinn var hátíðlegur. Það var gaman að sjá gestina á skjánum, sjá fólkið sitt en svo var líka gaman að fjölskylda og vinir gátu horft hvaðanæva að úr heiminum.“

Ræða íþróttir, ekki veðrið

Guðbjörg lauk sérnámi í almennum lyflækningum við háskólasjúkrahúsið í Iowa árið 2019. Hún stundar þar nú sérnám í blóð- og krabbameinslækningum, ein 6 íslenskra lækna. Samhliða sérnáminu sinnti hún doktorsnáminu hér heima og uppeldi tveggja barna sinna, svona í takti við íslenskar ofurkonur. Þar deilir hún hins vegar verkinu með manni sínum, Ásgeiri Þór Mássyni lækni. Hann nemur almennar skurðlækningar.

„Já, þetta tók mjög á síðustu mánuði. Þeir voru krefjandi og erfitt að samtvinna vinnu, barnauppeldi og doktorsnámið, en það tókst. Læknadeildin gerði þetta vel. Það var auðvelt að eiga samskipti við þau og dagurinn sjálfur óaðfinnanlegur. Þau eiga þakkir skilið,“ segir Guðbjörg þar sem hún situr inni og spjallar heim úr hitanum. Er það ekki synd? spyr blaðamaður.

„Maður er orðinn ónæmur fyrir góða veðrinu. Það er alltaf sól,“ segir Guðbjörg. „Íslenska veðureirðarleysið hverfur þegar veðrið er gott 8 mánuði á ári.” Bandaríkjamenn furði sig alltaf á því hvað Íslendingurinn tali mikið um veðrið. „Það er alltaf sama veðrið. Þeir tala um háskóla-íþróttirnar og ruðningsleikinn. Það er mikið sameiningartákn í samfélaginu hér.“

Skoðuðu lítt þekkta áhrifaþætti

Við doktorsvörnina fór Guðbjörg yfir lýðgrundaða rannsókn sína á þróun annarra krabbameina hjá sjúklingum með mergæxli. Skoðaði áhættuþætti og áhrif á lífslengd. Rannsóknin leiddi í ljós að meðferðartengdir og erfðafræðilegir þættir eiga mögulega þátt í þróun annarra krabbameina hjá sjúklingum með merg-æxli. Einnig að horfurnar yrðu verri við þróun annars krabbameins. Guðbjörg segir niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að greina áhættuþætti og líffræðilega ferla sem valda þessari þróun.

„Áhættuþættirnir voru lítt þekktir þegar við fórum af stað í verkefnið, sem hvatti okkur til að skoða málið. Mögulega má koma í veg fyrir krabbamein seinna og bæta meðferðir þegar áhættuþættirnir eru þekktir,“ segir hún.

„Þótt ég hafi verið hér, gögnin sænsk og doktorsnefndin mín á tímabili í fjórum mismunandi löndum, hafði það ekki áhrif á vinnsluna. Verkefnið var fjölþjóðlegt, unnið frá Kanada, Bandaríkjunum, Svíþjóð og Íslandi, og gekk vel. Við Sigurður Yngvi Kristinsson, leiðbeinandi minn, hófum samstarfið áður en ég fór út og því auðvelt að byggja á því góða samstarfi í fjarsamskiptum.“

Guðbjörg segir að hún vilji gjarnan vinna við frekari vísindi. Hún vonist til að samtvinna þau við störf sín í framtíðinni.

Fetar í fótspor föður síns

Læknablaðið hellir nú í rafrænan kaffibolla og ræðir einkalífið. Guðbjörg er ekki á Facebook, Instagram eða öðrum samfélagsmiðlum. „Ég er á Twitter. Margt gerist varðandi námið og vísindin í gegnum það en af öðrum miðlum fer ég inn og út,“ segir hún og við ræðum starfsvalið sem virðist kannski hafa legið beint við.

Guðbjörg með manni sínum, Ásgeir Þór Mássyni lækni, og börnunum þeirra, Má og Margréti Höllu.

Pabbi hennar, Jón Hrafnkelsson, er krabbameinslæknir og mamma hennar, Margrét Björnsdóttir heitin, var hjúkrunarfræðingur. Guðbjörg fæddist í Svíþjóð þar sem Jón og Margrét voru við nám.

„Þau eru helstu fyrirmyndirnar í lífi mínu og hafa veitt mér innblástur.“ Hún flækir ekki málin heldur velur sömu sérgrein og pabbi hennar. „Jú, hann er örugglega stoltur,“ segir hún og hlær. Valið hefur þá legið beint við? „Bæði og.“ Systkini hennar tvö hafi valið sér annan vettvang.

Svona til að ramma lífsvalið inn fann hún sér mann í læknadeild. Þau Ásgeir Þór eignuðust bæði börnin áður en þau fluttu út. „Ég er ánægð með það því fæðingar-orlofið er stutt í Bandaríkjunum. En ég held að við höfum ekki alveg gert okkur grein fyrir því hversu krefjandi það yrði að flytja með tvö lítil börn, ætla bæði að fara í sérnám og vera ekki með neinn stuðning frá sínum nánustu,“ segir hún.

„Það var mikið átak en Ásgeir Þór var að klára hugbúnaðarverkfræði fyrstu tvö árin og gat verið meira heima við með börnin. Svo þegar við fórum bæði að vinna hefur verið erfitt að samtvinna það fjölskyldulífinu þar sem vinnudagarnir eru langir,“ segir hún. „Við höfum fengið til okkar frábærar stelpur til að hjálpa okkur með krakkana og án þeirra hefði þetta ekki gengið upp.“

En hvers vegna Bandaríkin?

Guðbjörg segir margt hafa komið til greina og þau Ásgeir Þór verið í skiptinámi Mayo Clinic fyrir sérnámið. „Þá ólst maðurinn minn upp hér á austurströndinni,” segir hún og í ljós kemur að Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga Landspítala, er tengdapabbi hennar. Hann var í sérnámi í Bandaríkjunum fyrir um 30 árum.

„Hingað til Iowa hefur verið stöðugur straumur Íslendinga síðustu ár. Það er vinalegt að strax fyrsta daginn hittir maður sérfræðinga sem lærðu með íslenskum læknum fyrir 20-30 árum síðan. Þetta er eins og að koma heim. Hér þekkja allir einhvern Íslending og við njótum góðs af því. Hér er líka gott Íslendingasamfélag sem er í raun eins og lítil fjölskylda,“ segir Guðbjörg.

En er ólíkt að vera á bandarísku sjúkrahúsi og hér heima? „Já,“ svarar hún. „Þetta sjúkrahús er miklu stærra en Landspítali. Kerfið er ólíkt. Við höfum verið mjög ánægð með námið okkar og eignast góða vini. Við höfum aðlagast bandarísku samfélagi, börnin eru ánægð. Iowa er frábær lítil háskólaborg. Við hjólum eða löbbum til vinnu alla daga, búum í 5 mínútna fjarlægð frá sjúkrahúsinu. Krakkarnir hlaupa um í stuttbuxum 8 mánuði á ári, og ég hef ekki læst heimilinu í 5 ár.“ Draumalíf.

„Það eru allir mjög glaðir hér og þetta er fjölskylduvænt samfélag,“ segir hún og lýsir lífi afar ólíku því sem margir gera sér í hugarlund þegar þeir hugsa um Bandaríkin: bílar og byssur. „Bandaríkin eru stór og ólík milli svæða. Okkur hefur liðið mjög vel hér. Miðað við margar aðrar borgir í Iowa er þetta alþjóðleg borg. Í bekk sonar míns koma börnin frá 30 ólíkum málsvæðum heimsins.“

En þrátt fyrir afar góða umgjörð er erfitt að vera fjarri fjölskyldu og vinum þegar áföll verða; hvað þá þegar kórónuveiran kemur í veg fyrir ferðalög. „Við höfum ekki komið heim í tvö ár og ekki hitt fjölskyldu og vini,“ segir Guðbjörg. „Erfiðasti tíminn var þegar mamma veiktist af heilakrabbameini. Þá fann ég fyrir fjarlægðinni til Íslands,“ segir hún en móðir hennar lést í júlíbyrjun fyrir tveimur árum.

„Það hefur verið erfitt að geta ekki tekið þátt í daglegu lífi fjölskyldunnar þegar hún tekst á við sorgina og sárt að vera ein úti.“ Veikindi Margrétar móður hennar hafi bankað óvænt uppá. „Þá hefði ég viljað vera nær og hafa meiri sveigjanleika,“ segir hún. Þau stefna að því að koma heim þegar námi lýkur þótt tekjumöguleikarnir séu aðrir og betri í Bandaríkjunum en Íslandi. „Við erum spennt að koma heim og sameinast aftur fjölskyldu og vinum,“ segir Guðbjörg að lokum og telur að það verði að einu eða tveimur árum liðnum.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica