7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Leggur hnífinn á hilluna, - Bjarni Torfason hjartalæknir

Bjarni Torfason hjartaskurðlæknir segir endurnæringu felast í að vera útataður við verkin í bústaðnum nú þegar starfsferlinum á sterílli skurðstofu er lokið.
Hann fer í þriggja ára frí en hvað þá taki við sé óráðin gáta

Hættur. En ekki í huganum. „Þetta er svolítið skrýtin tilfinning. Ég á inni þriggja ára óúttekið frí. Svo mér finnst ég vera að fara í þriggja ára frí. Ég veit ekki hvað ég geri eftir það. Þannig er tilfinningin,“ segir Bjarni Torfason hjartaskurðlæknir sem hefur lagt skurðarhnífinn á hilluna og stjórnina á sérgreininni hjarta- og brjóstholsskurðlækningum á Landspítala í hendur eftirmanns.

Bjarni Torfason hefur lokið störfum á Landspítala eftir rétt rúmlega 30 ára starf með skurðarhnífinn á lofti. Hann er brautryðjandi í hjartaskurðlækningum á Íslandi. Mynd/gag

Helst næst í Bjarna við framkvæmdir á bústaðnum í Kjós þessa dagana en áður á Landspítala þar sem hann starfaði frá árinu 1990. „Bústaðurinn er koparnegldur og enginn nagli er þar fyrir tilviljun og nú byggi ég og breyti og líki eftir gamla handbragðinu frá því fyrir 80 árum þegar fyrsti hluti hans var byggður af reyndum tréskipasmið sem átti hann á undan okkur fjölskyldunni,“ segir Bjarni sem hefur nú komið upp járnsuðu í gámi við bústaðinn. „Já, nú ætla ég að læra að smíða úr járni.“

Sjálfur kenndi Bjarni mörgum nemum um tveggja áratuga skeið við læknadeild og unglæknum á sjúkrahúsinu. Þá hitti hann jafnvel nemendur sem hann hafði gert aðgerð á sem börnum. Hann lærði í Svíþjóð og var yfirlæknir á brjóstholsskurðdeild á háskólasjúkrahúsinu í Lundi áður en hann flutti heim. Fyrst var hann yfirlæknir skurðdeildarinnar við Hringbraut í nær einn áratug en lengst af var hann svo yfirlæknir hjarta- og brjóstholsskurðdeildar Landspítala eða í nær tvo síðustu áratugi.

Lærði og vann í sumarfríum

Bjarni leggur þykkan blaðabunka á borðið; greinar og ferilskrár, þegar hann sest niður með Læknablaðinu. Og hvernig líður þér? spyr blaðamaðurinn sem ætlar ekkert að glugga í bunkann, bara tala um til-finn-ingar, sigra og ónýtt tækifærin. Tókstu aldrei sumarfrí?

„Jú, seinni árin tók ég þó nokkuð af fríi. En vegna gríðarlega mikillar vinnu söfnuðust frídagar upp,“ lýsir hann og því hvernig hann nýtti fríin sín. „Ég tók námsferðir frá spítalanum og á eigin vegum þegar ég gat og notaði til að læra nýjar aðgerðir og tækni.“ Hann hafi farið á einkarekin sjúkrahús á Norðurlöndunum til að sækja sér aukna þjálfun og þéna fyrir eigin námsferðum vítt um heiminn.

„Ég gerði þetta þannig að ég fann út hver var bestur í ákveðinni aðgerð og fór þá í heimsókn og fékk að vera þar eins lengi og oft og ég vildi. Stundum fékk ég þann sama til að koma til Íslands þegar ég gerði svo fyrstu aðgerðina af því tagi.“ Hann hafi búið að því að vera í klúbbi hjartaskurðlækna sem þóttu skara framúr í Evrópu, einn frá hverju landi, hópi sem hittist árlega ásamt mökum og börnum, European Club of Young Cardiac Surgeons.

„Það er mjög gagnlegt að þekkja mjög náið svona stóran hóp framúrskarandi hjartaskurðlækna og geta hringst á og rætt saman hvenær sem er.“

„Oft er algjörlega lágmark til af varahlutum á spítalanum, varla nema í eina aðgerð, vitandi það að hjá okkur eru bráðar og hálfbráðar aðgerðir 70% af því sem við gerum en að á flestum sjúkrahúsum annars staðar er því öfugt farið,“ segir Bjarni.

Bjarni er brautryðjandi. Aðeins fjögurra ára reynsla var af hjartaskurðaðgerðum hérlendis þegar hann kom heim og gerði fyrstu hjartaaðgerðir á börnum hér á landi. Hann lýsir því einnig hversu gefandi það hafi verið að sjá hundruð barna, unglinga og fullorðinna með „bungu- og holubringu“ öðlast nýtt og betra líf eftir „viðgerð á gallanum“. Hann fer yfir stöðuna þegar hann kom.

„Á þessum fyrstu árum voru ekki gerðar víkkanir á kransæðum og fyrsta hjartaskurðaðgerðin var ekki gerð á Íslandi fyrr en 1986. Farið var varlega af stað og byrjað á því að gera kransæðaaðgerðir en flestir sem þurftu hjartaskurðaðgerð voru áfram sendir til Bretlands, sérstaklega þeir sem þurftu stærri aðgerðir,“ segir hann. Hugmyndafræðin hafi breyst.

„Ég barðist fyrir því að þeir mest veiku yrðu meðhöndlaðir hér heima, frekar en að senda þá til útlanda, til dæmis sjúklingar með ósæðarflysjun, en hinir minna veiku sendir út á meðan við réðum ekki við allan fjöldann,“ segir hann. „Mörgum fannst þetta of djörf hugmynd en gerðu hana þó að sinni seinna þegar í ljós var komið að þeim veikustu reiddi betur af þegar aðgerðirnar voru gerðar hér heima, bæði hvað varðaði sýkingar og lifun.“

Hratt fyrnist yfir þekkinguna

Margt hefur breyst á löngum ferli. „Ég hef það á tilfinningunni að helmingunartími þekkingarinnar í þessu fagi sé svona þrjú ár,“ segir Bjarni. „Það er því virkilega mikilvægt að mennta sig og endurmennta stöðugt.“ Erfitt sé að sjá framþróunina fyrir og hraða hennar. Hann hafi til að mynda talið að hann væri að kaupa tölvu til frambúðar þegar hann keypti næstfyrstu Mackintosh plús floppídiskatölvuna sem kom til landsins.

„Loksins kemur tæki sem þarf ekki að endurnýja, hugsaði ég og var viss um það en hef verið varkár með spádóma síðan,“ segir hann og hlær.

Spurður um stærstu sigrana nefnir hann að hafa verið þátttakandi í að sjá hjartaskurðlækningar á Íslandi verða meðal þeirra árangursríkustu í heimi. „Fjölmargar hetjur meðal sjúklinga koma í hugann, ungar og gamlar.“ Hann staldrar sérstaklega við fyrstu ECMO-aðgerðina hér á landi, þegar hjarta- og lungnavél var notuð í stað lungna eftir alvarlegt bílslys. Lítil reynsla hafi verið komin á ECMO á þeim tíma og til dæmis aðeins einn farið í slíka meðferð í Lundi í Svíþjóð.

„Sá hafði lent í mótorhjólaslysi og þurfti ECMO en þoldi ekki meðferðina, blæddi óstöðvandi og dó,“ segir Bjarni.

„Við höfðum einn sólarhring til að útvega allt það sem til þurfti erlendis frá, og það stóðst á endum að hægt var að hefja ECMO rétt í þann mund sem lungnastarfsemin hætti alveg. Það gekk og lífi 16 ára stúlku bjargað. „Hún fékk aldrei heparín því við gátum ekki blóðstillt þann sem dó í Svíþjóð eftir að hann fékk lyfið. Hún var í 40 daga í ECMO, lungað sem hún hafði fór þá loks að starfa og hún lifði af og varð frísk, á þrjú börn í dag.“

Fullur tilhlökkunar fyrir vinnunni

En hver er drifkrafturinn? „Ég er svo lánsamur að hlakka til að mæta í vinnuna og því meira sem ég hef fengið að undirbúa mig, því ánægðari er ég með árangurinn.“ Hann nefnir þar til að mynda þrívíddarprentun sem hann hafi notað til fjölda ára í samstarfi við Háskólann í Reykjavík.

„Það er mikil ánægja fólgin í því að skipuleggja nákvæmlega hvernig maður ætlar að gera aðgerðina,“ segir hann. „Stundum hef ég notað þrívíddarprentun af hjarta og öðrum líffærum sjúklingsins við undirbúning fyrir aðgerð og gert skapalón af bótum og getað ákveðið nákvæmlega fyrirfram hvernig nálar og verkfæri þurfa að vera í aðgerðinni.“ Hann hafi með þrívíddarmódelinu æft fyrirfram saumatækni sem láti bótina hoppa milli opa og komi þannig í veg fyrir óþarfa skaða á hjartanu.

„Þetta er ekki hægt nema að æfa sig,“ segir hann og ákafinn leynir sér ekki. Hann fari oft yfir sömu aðgerðina í huganum til að þjálfa ferlin og auka hraðann. Blaðamaður, sem aldrei hefur séð opna bringu, reynir að setja í samhengi og spyr hvort hann hnýti þá flugur í veiðina eða prjóni til að æfa sig?

„Ég nota nú ekki sama efni, en ég hef klippt bót úr læknasloppi í hita leiksins og sett saumana í hana til að æfa hoppið, svo ég þurfi ekki endilega að opna slegilinn í hjartanu sjálfu, heldur læðast gegnum lokur hjartans með viðgerðarefnið.“

En hver er þá mesta eftirsjáin? „Ég er mjög hamingjusamur,“ svarar Bjarni strax. „Á yndislega fjölskyldu og vini. Mér hefur alltaf fundist skemmtilegast að gera akkúrat það sem ég er að gera á hverjum tíma, í núinu,“ segir hann. Þá skipti ekki máli hvort hann hafi verið að pakka skyri í Mjólkursamlaginu á Akureyri, í sveit sem unglingur á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, setja ferðatöskur í flugvélar á flugvellinum á Akureyri, grafa skurði hjá Vatnsveitunni, nú eða skera upp bringur og hjörtu.

„Ég er afar þakklátur fyrir að hafa átt ævistarf við raunveruleg verðmæti lífsins, sjálft lífið og heilsuna,“ segir hann. „Ég hef tekið ákvarðanir byggðar á bestu upplýsingum sem hverju sinni lágu fyrir og hef því ekki möguleika á að sjá eftir því sem ég geri.“

Maður í manns stað

Bjarni sér illa fyrir sér að vera endanlega sestur í helgan stein. Hann rétt sjötugur. Foreldrarnir hafi orðið langlífir og hann sjái því fram á góðan tíma framundan. Nú þegar fjölmiðlar greina frá því í maílok að fresta hafi þurft skurðaðgerðum á Landspítala vegna manneklu, hjartaskurðlæknum hafi fækkað úr fjórum í tvo, viðurkennir Bjarni, að hann vildi vinna lengur.

„En ég vildi ekki vera verktaki eða á tímakaupi einungis vegna aldurs. Ég vildi halda óbreyttum kjörum, héldi ég áfram.“ Það sé hins vegar ekki hefðin á spítalanum og ekki hans stíll að starfa á eigin ábyrgð, ósjúkratryggður, á spítalanum.

„Ég ætla því að byrja á að taka þessi þrjú ár frí og sjá svo til,“ segir hann. „Kemur ekki alltaf maður í manns stað? Mér þykir vænt um afkvæmið, þessa starfsemi. Ég er þakklátur og það kemur í hugann stór hópur frábærra kennara og samstarfsmanna. Mér finnst kominn tími til að aðrir axli ábyrgðina. Ég hef verið yfirmaður svo svakalega lengi og kann held ég ekki að vera undirmaður. Menn leysa vandamál. Þau eru ekki óleysanleg,“ segir hann.

„Mér finnst undarlegt að þegar maður verður sjötugur sé spítalinn ekki lengur ábyrgur til að greiða sjúkratryggingu, skyldi maður verða óheppinn og sýkjast og veikjast í aðgerð. Annað eins hefur gerst eins og nærtæk dæmi sýna.“

Það er sterk réttlætiskennd í Bjarna. „Já, ætli ég hafi ekki fengið það með genunum. Mér fannst pabbi stundum of heiðarlegur, en mér lærðist að heiðarleikinn er ein mikilvægasta undirstaða velgengni. Ég bið þeim blessunar sem ekki eru heiðarlegir, þeir sem eru í þörf fyrir að skreyta sig með stolnum fjöðrum þurfa hjálp,“ segir hann sposkur. En biður hann þá spítalanum blessunar?

„Já, en á öðrum forsendum,“ segir Bjarni og hlær og talið berst að starfsemi Landspítala. „Margt mætti betur fara en greinilega er erfitt að stjórna spítalanum. Í miðju Atlantshafi er mikilvægt að láta ekki stjórnast af naumhyggju. Það kostar að vera afskekktur.“ Hægt sé að senda varahluti til sjúkrahúsa í stórborgum með leigubíl.

„Oft er algjörlega lágmark til af vara-hlutum á spítalanum, varla nema í eina aðgerð, vitandi það að hjá okkur eru bráðar og hálfbráðar aðgerðir 70% af því sem við gerum en á flestum sjúkrahúsum annars staðar er því öfugt farið,“ segir Bjarni.

„Þetta eykur streitu hjá fólki að vita að það er svo tæpt á öllu. Sjúklingar með bráðaeinkenni geta komið í kippum. En okkar ágætu birgjar eiga þakkir skildar. Þeir hafa lært hvernig þetta er hér á landi, hafa átt sinn eigin lager fyrir okkur og hlaupið undir bagga. Þeir hafa lært hvernig hægt er að senda okkur varahluti með hraði.“ Bjarni lýsir því hvað COVID-19 hefur gert þetta erfiðara. Flugunum hafi fækkað. „Allar dyr hafa staðið opnar til að hjálpa og við upp á þá hjálpsemi komin.“

Þriggja ára frí. Þekkingin helminguð. Leggur hann í vegferðina? „Já, en núna hef ég mestan áhuga á að fara í smá frí. Ég ætla að leyfa mér það. Hvað ég geri svo verður að koma í ljós.“
Þetta vefsvæði byggir á Eplica