7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Öldungadeildin berst fyrir vinnunni, Óttar Guðmundsson er nýr formaður

„Við viljum við sjá meiri sveigjanleika varðandi starfslok. Við viljum ekki að fæðingarárið gildi heldur andlegt ástand, heilsa og vilji til að halda áfram,“ segir Óttar Guðmundsson, nýr formaður öldungadeildar Læknafélagsins

„Það er ótrúlegur læknaskortur og því sárt að sjá fólk í fullu fjöri, með mikla reynslu og þekkingu, hætta störfum. Fólk sem vill vinna áfram,“ segir Óttar Guðmundsson geðlæknir. „Spítalinn hefur verið harður með þetta en sé þörfin mikil mega menn vinna sem verktakar á tímakaupi. Kjörin versna mjög við það og spítalinn græðir á því en læknirinn ekki. Hann er ekki með veikindarétt eða önnur réttindi sem fylgja því að vera í fullu starfi,“ lýsir Óttar.

Glæný stjórn öldungadeildar hefur tekið við. Helga Ögmundsdóttir ritari, Sigurður Guðmundsson gjaldkeri, Friðrik Yngvason og Gísli Einarsson meðstjórnendur, Þorkell Bjarnason skoðunarmaður reikninga og ritstjóri vefsíðu.

Læknablaðið · Óttar Guðmundsson - viðtal júlí/ágústblað Læknablaðsins 2021">hlusta

Öll stjórnin fædd 1948

Læknablaðið · Óttar Guðmundsson - viðtal júlí/ágústblað Læknablaðsins 2021

„Það hefur alltaf verið þannig að formaðurinn velur með sér fólk í stjórnina, svo allir í henni eru nú fæddir 1948 og útskrifaðir úr læknisfræði 1975. Öll þekkjumst við vel,“ segir Óttar og hlær. Hann sér fram á að sitja í fjögur ár. „Ef að við höldum heilsu og kröftum og rötum á milli herbergja verða kjörtímabilin tvö.“ Félagið heldur fræðslufundi einu sinni í mánuði, 8-9 mánuði ársins. Hópurinn ferðast saman árlega og ætlar nú einnig að vera með málþing á Læknadögum. „Þetta er vettvangur fyrir okkur til að hittast, tala saman og láta ljós okkar skína.“

Óttar Guðmundsson geðlæknir ver tveimur og hálfum degi á Læknastöðinni á Sogavegi. Hinum megin við þilið situr fyrrum formaður Öldungadeildarinnar,
Kristófer Þorleifsson. Mynd/gag

Óttar er enn í fullri vinnu sem geðlæknir. Er um tvo og hálfan vinnudag á stofunni sinni, ver degi í viku á Landspítala og hálfum í Krísuvík. „Það er með mig eins og eldgosið á Reykjanesi. Það veit enginn hvenær það hættir.“

Á spítalanum vinnur hann innan trans-teymisins og hefur gert allt frá því að það var stofnað árið 1997. „Ég er einn þeirra sem vinnur á tímakaupi, en hefði viljað vera á öðruvísi samningi; á sömu kjörum og ég hafði þegar ég var og hét á spítalanum. Þetta er baráttumál okkar eldri lækna. Við viljum vera sýnilegri og hluti af Læknafélagi Íslands. Líka njóta réttinda og annars sem læknar hafa en missa þau ekki við ákveðinn aldur.“

Í fullri vinnu eftir sjötugt

Óttar segir að sér finnist gaman að vinna, hitta fólk og taka á móti því. „Þetta er það eina sem ég kann mjög vel og finnst mjög gaman. Það er mikill skortur á geðlæknum, biðlistarnir eru langir og það heldur manni líka við efnið.“ Spurður um breytta tíma, nefnir hann að þótt umgjörð samfélagsins hafi breyst mikið síðustu ár hafi manneskjan lítið breyst.

„Hún er alltaf með öll sín vandamál, hégómleika, viðkvæmni, þunglyndi og allskonar höfnunarkennd. Fólk hefur meiri tíma núna en áður og veltir meira fyrir sér eigin vandamálum, les sér til, er í sjálfskoðun. Margir sem koma til mín eru búnir að greina sig sjálfir.“

Hann velti því stundum fyrir sér hvað Helgi Tómasson og Þórður Sveinsson, fyrstu geðlæknarnir á Íslandi, upp úr aldamótum 1900, segðu, kæmu þeir á göngudeild. „Þeir myndu ekki þekkja þessa tegund geðsjúkdómafræðinnar sem við erum að fást við: Tilvistarvandamál. Þeir fengust við alvarlega þunga geðsjúkdóma. Ég held þeir myndu vera sammála um það í dagslok að það eina sem væri að þessu fólki væri að því leiddist,“ segir Óttar og hlær. „Það hefði allt of mikinn tíma til að velta fyrir sér eigin vandamálum.“

En þarf að vinda ofan af ranggreiningum fólks? „Nei,“ segir hann. Fólk þekki sig. En tilvistarvandinn sé áhugaverður. „Þessi óánægja í hjónabandi, starfi, kulnun. Þessi þreyta öll sömul og örmögnunar-þunglyndi. Fólk keyrir á vegginn. Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt en meira áberandi í starfi geðlækna. Það er miklu meiri krafa um andlegt heilbrigði og góða geðheilsu sem er mikil framför.“

Hvernig nennirðu þessu? Kominn á þennan aldur í fullri vinnu og formaður í tveimur félögum? „Einfalda svarið er að það er gaman að hafa nóg að gera. Aðgerðarleysi drepur mun fleiri en vinnan.“

Sprenging hjá transfólki

„Ótrúleg sprenging hefur orðið í málaflokki transfólks,“ segir Óttar, sem stendur einn eftir af upprunalegu sérfræðingunum í öflugu transteymi Landspítala. „Við héldum í byrjun að nýgengið yrði um tveir sjúklingar á ári en nú er það um 60 á ári sem vilja hefja greiningu.“ Fólkið hefji vegferðina yngra, eða rétt undir tvítugu. Þá hafi kynjahlutfallið breyst.

„Þegar ég byrjaði voru kannski þrjár til fjórar transkonur á móti hverjum einum transmanni en núna eru hlutföllin jöfn,“ segir Óttar. Það er alþjóðleg þróun og engin sérstök skýring. Mikil vakning hafi verið í samfélaginu um kynvitund og til að mynda hafi kynsegin fólk (nonbinary) bæst í hópinn. „Meðferðin er því mun sveigjanlegri en í upphafi.“

Óttar segir starfið þakklátt og spennandi. „Kyn-aminn er svo sterkur að fólk er tilbúið að fara í gegnum þessa erfiðu greiningu og sársaukafullu meðferð. Einstaklingunum líður miklu betur þegar þeir eru komnir í það kyn sem þeir tilheyra, sem er gefandi að upplifa með þeim.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica