7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Landlæknir segir lækna ekki bera ábyrgð á mistökum vegna ónógrar mönnunar

„Lækni er ekki gert að bera ábyrgð á mistökum sem verða vegna kerfisbundinna þátta eins og ónóg mönnun gæti verið dæmi um.“ Þetta segir Alma D. Möller landlæknir í svari við spurningu Læknablaðsins um hvort læknar beri ábyrgð uppfylli starfsemin stofnana ekki lágmarkskröfur. Hún segir öðru máli gegna sé einsýnt að heilbrigðisstarfsmaður hafi farið út fyrir verksvið sitt eða þekkingu hans verið stórlega áfátt, svo dæmi séu nefnd.


Alma D. Möller landlæknir hefur sent heilbrigðisráðherra 5 minnisblöð um bága stöðu bráðamóttökunnar. Mynd/gag

Gríðarleg undiralda er meðal lækna vegna læknaskorts á Landspítala nú í sumar. Sérstaklega er staðan slæm á bráðamóttökunni. Læknar hafa í fjölmiðlum sagt sig ekki geta tryggt öryggi sjúklinga vegna manneklu. Haft var eftir landlækni á RÚV að staðan hafi aldrei verið verri. Þjónustan á deildinni uppfylli ekki lágmarkskröfur. Fimm minnisblöð hafi verið send ráðherra á tveimur og hálfu ári.

Í lögum um landlækni og lýðheilsu segir að verði rekstraraðili ekki við tilmælum landlæknis beri landlækni að upplýsa ráðherra með tillögum að lausn. Ráðherra geti þá tekið ákvörðun um að stöðva rekstur tímabundið, þar til bætt hefur verið úr annmörkum, eða stöðvað rekstur að fullu. Landlæknir segir að það komi augljóslega ekki til greina. „Þetta er eina bráðamóttaka höfuðborgarsvæðisins og þá fyrst yrði öryggi sjúklinga ógnað.“

Landlæknir segir í svari til Læknablaðsins að það þurfi að fara yfir vinnu átakshóps ráðuneytis og Landspítala og bregðast við eftir því sem þar kemur fram. „Það er verið að bjóða út hjúkrunarrými og þarf að ljúka því ferli. Þá þarf ráðherra að fullvissa sig um að brugðist sé við innan veggja Landspítala,“ segir hún.Þetta vefsvæði byggir á Eplica