7-8. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Tímamótaþjarki ekki fullnýttur, rætt við Ólaf G. Skúlason og Jórunni Atladóttur

Landspítali segir aðstöðuleysi og kostnað skýra að þjarkinn er ekki fullnýttur

„Sett var hámark á aðgerðafjölda vegna kostnaðar, enda mjög dýrt úrræði. Það hefur þó aðeins verið viðmið og við notað hann í þeim tilfellum sem skurðlæknar hafa metið það betri kost fyrir sjúklinginn en aðrar aðgerðartegundir,“ segir Ólafur G. Skúlason, forstöðumaður skurðstofu- og gjörgæslukjarna Landspítala.

Ólafur B. Skúlason, forstöðumaður skurðstofu- og gjörgæslukjarna Landspítala. Mynd/gag

Sex ár eru nú síðan þjarkinn var tekinn í notkun. Í frétt á vef Landspítala sagði að hann nýttist til margvíslegra skurðaðgerða, sérstaklega við þvagfæraskurðlækningar og aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna. „Segja má að þjarkinn sé framlenging á fingrum skurðlæknisins þannig að allar hreyfingar hans verði nákvæmari,“ segir meðal annars í fréttinni við tímamótin.

Jórunn Atladóttir, skurðlæknir á kviðarholsskurðdeild Landspítala, segir að skurðlæknar myndu vilja nýta þjarkann betur. Hún bendir á að þjarkinn sé einnig að úreldast. Nýrri útgáfa af þjarkanum myndi gagnast betur. „Til dæmis í ýmsar kviðarholsaðgerðir sem erfiðara er að nota þennan þjarka í.“

Róbert Lee Tómasson, söluráðgjafi á heilbrigðissviði hjá Fastus, segir að birgðir í þjarkann hafi þó verið tryggðar svo hægt sé að nota hann þar til nýr þjarki verði keyptur.

Þjarkinn var tekinn í notkun fyrir sex árum. Safnað var fyrir honum og hann tekinn í notkun með viðhöfn. Ráðherra flutti ávarp sem og forstjóri spítalans og Brynjólfur Bjarnason, formaður söfnunarsjóðs. Hér má sjá mynd spítalans af þjarkanum. Mynd/Landspítali

Þjarkinn var gjöf frá fjölda samtaka, fyrirtækja og einstaklinga en ríkið greiddi það sem á vantaði og breytingar á húsnæði. Ólafur segir í svari við fyrirspurn Læknablaðsins að ef fullnýta ætti þjarkann þyrfti að vera sér skurðstofa sem eingöngu sinnti þjarkaaðgerðum.

„Í dag er það ekki raunhæft miðað við þá aðstöðu sem við höfum,“ segir hann fyrir hönd spítalans. Ólafur bendir þó á að aðgerðum með þjarkanum hafi fjölgað síðustu ár. „Árið 2018 voru gerðar 198 aðgerðir, 219 árið 2019 og 220 árið 2020. Hafa verður í huga að vegna COVID var skurðstofum lokað um tíma og hafði það áhrif á nýtingu þjarkans.“




Þetta vefsvæði byggir á Eplica