6. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Liprir pennar. Aldur. Sigurður Guðmundsson
Mér hefur stundum fundist að lífið í einhverri mynd byrji með hverjum áratug sem maður lifir og hrærist, einu sinni byrjaði það um fertugt, svo um fimmtugt, þar næst um sextugt, og nú loks um sjötugt. Hvert skeið hefur sín sérkenni, verkefni og vandamál, gleði- og tómstundir. Svo verður að koma í ljós hvernig himintunglin raða sér á festinguna um áttrætt.
Hjónin Sigurður Guðmundsson og Sigríður Snæbjörnsdóttir stödd í ævintýri á gönguför í Rangala í Lónafirði í Jökulfjörðum.
Myndina tók Halldóra Blair.
Misjafnt er hvernig fólk lítur á eigin aldur. Konan þjóðþekkta, Ásdís Rán, sagði einhvern tíma að hún „hræddist ekki að eldast og yrði aldrei útrunnin vara“. Kannski er þetta raunsætt í tilviki Ásdísar Ránar en ekki víst að svo sé um alla farið. Hólmgöngu-Bersi leit öðruvísi á sitt hlutskipti á efri árum. Hann átti að gæta drengsins Halldórs. Sá féll úr vöggunni og gat sig ekki hrært. Þá kvað Bersi bestu öldrunarvísu sem kveðin hefur verið:
Liggjum báðir
í lamasessi
Halldór og ek,
höfum engi þrek.
Veldur elli mér
en æska þér.
Þess batnar þér
en þeygi mér.
Tvennt sækir svolítið á hugann, annars vegar lögfest starfslok um sjötugt og svo hitt hvað bíður þegar við erum komin í spor Hólmgöngu-Bersa og höfum engi þrek.
Fólk um sjötugt hefur margt heilmikið starfsþrek, kann ýmislegt fyrir sér auk allrar reynslunnar. Kannski eru menn ekki jafn snarir í snúningum í lækningunum og áður, og færni til ákveðinna verka minni en áður, en samt er með ólíkindum hvað reynslan hefur oft bjargað manni úr snúnum kringumstæðum (been there, done that). Samfélag sem ekki nýtir þetta kastar verðmætum á glæ. Hins vegar er skiljanleg afstaða þeirra sem finnst komið nóg um sjötugt og jafnvel fyrr og vilja gera eitthvað allt annað. Okkur hinum yljar í sálinni að halda áfram að bauka eitthvað, starfslokin séu ekki hrap, heldur lending.
Ég get ekki kvartað, var gefinn kostur á hlutastarfi áfram við Landspítala, en það breytir samt ekki viðhorfi mínu til lagaklásúlunnar sem kveður á um starfslok við 70 ára aldur. Það hefur verið ómetanlegt að starfa áfram, fátt eins hvetjandi fyrir sál og sinni að vinna með ungum kollegum. Líka er heillandi að hafa nú tíma til að gera allt hitt sem sumt hefur setið á hakanum, með fjölskyldu og vinum, með sjálfum sér og jafnvel stundum að gera einfaldlega ekki neitt.
Öll verðum við samt að þekkja okkar vitjunartíma, og gæta þess að verða ekki fyrir og öllum til ama og leiðinda, „ætlar kallandskotinn aldrei að koma sér í burtu“? Að því mun koma.
Hólmgöngu-Bersi fór aldrei á hjúkrunarheimili enda ekki með samþykkt færni- og heilsumat. Nú er öldin önnur og hugtakið velferðarþjóðfélag var fundið upp. Ekki veit ég hve margir dálkmetrar hafa verið skrifaðir um umönnun aldraðra sem engi þrek hafa á liðnum áratugum, en samt sitjum við ætíð í svipuðu fari, engu skiptir hverjir fara með völdin, allir stjórnmálaflokkar eru á sömu bókina lærðir.
Þjóðarskömm er að sumir aldraðir þurfi að dvelja síðasta skeið ævinnar á bráðadeildum sem einna helst má stundum líkja við Leifsstöð á annatíma fyrir COVID-19. Þær kringumstæður eru einfaldlega ekki sæmandi. Þetta er kynslóðin sem lagði grunninn að þeirri velsæld sem við nú búum við. Hún á annað skilið en þetta.
Ítrekað hefur áratugum saman verið rætt um ýmsar leiðir til að létta Bersum nútímans síðustu sporin, fjölbreytta og aukna meðferð í heimahúsi, þar á meðal sjúkrahúsþjónustu (hospital-at-home), efld úrræði til endurhæfingar, líknardeild fyrir aldrað fólk, öldrunargeðdeild, og svo má lengi telja. Ekki skortir hugmyndir og ábendingar frá okkar færasta fagfólki, en eins og Einar Ben benti á „vilji er allt sem þarf“. Nú er tækifærið fyrir íslenskt samfélag að bretta upp ermar, eða svo aftur sé vitnað til Íslandsljóðs Einars: „Upp með plóginn. Hér er þúfa í vegi.“