6. tbl. 107. árg. 2021

Ritstjórnargrein

Þverfagleg verkjameðferð á Landspítala gegnum árin. Guðmundur Björnsson

Guðmundur Björnsson sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum með sérhæfingu í verkjalækningum|á verkjamiðstöð Landspítala Hringbraut og Holtasmára 1

doi 10.17992/lbl.2021.06.637

Í blaði mánaðarins birtist grein um „fjölþætt svæðisbundið verkjaheilkenni“ eftir Kristján G. Guðmundsson lækni. Greinin tengist starfsemi á vegum Félags svæfinga- og gjörgæslulækna á Norðurlöndum, sem undirritaður hefur átt aðild að síðustu tvo áratugi. Félagið stendur meðal annars fyrir viðbótarmenntun í verkjafræðum (advanced pain medicine) fyrir sérfræðinga og er opin læknum í öðrum sérgreinum sem tengjast verkjum.

Heilkennið er dæmi um ástand sem á að meðhöndla á þverfaglegri verkjaklíník samkvæmt klínískum leiðbeiningum IASP.

Af því tilefni langar mig að rekja stuttlega sögu þverfaglegrar verkjameðferðar á Landspítala undanfarinn aldarfjórðung frá mínum sjónarhóli.

Á 10. áratugnum varð almenn vakning með auknum áhuga á verkjum og meðferð þeirra. Það leiddi til stofnunar Verkjafræðafélags Íslands sem eru þverfagleg samtök heilbrigðisstarfsfólks með áhuga á verkjum. Fyrsti vísir að þverfaglegri verkjameðferð á Landspítala, sem mér er kunnugt um, var samstarf læknanna Torfa Magnússonar og Ragnars Finnssonar í Fossvogi. Þeir hittu sjúklinga sameiginlega.

Um miðjan áratuginn hófst á Hringbraut samvinna þriggja lækna, þeirra Sigurðar Árnasonar, krabbameinslæknis, Halldórs Jónssonar, bæklunarlæknis, og undirritaðs ásamt Eiríki Líndal, sálfræð-ingi. Á reglulegum fundum var leitað lausna á fjölþættum vandamálum verkjasjúklinga.

Fleiri starfsstéttir bættust í hópinn, hjúkrunarfræðingar, lyfjafræðingur, sjúkraþjálfari, iðjuþjálfari, félagsráðgjafi, sem og fleiri læknar. Frumkvæðið var starfsfólksins. Var undantekning að tíma eða fjármunum væri sérstaklega veitt til þeirrar vinnu, en verkjateymi var staðreynd. Við höfðum í flimtingum, að tími okkar væri „stolinn“. Nær hefði verið að kalla hann gjöf starfsmanna til spítalans.

Þegar best lét, upp úr aldamótunum, störfuðu þverfagleg verkjateymi bæði á Hringbraut og í Fossvogi, sem stundum héldu sameiginlega fundi.

Samhliða urðu miklar framfarir á spítalanum í stillingu bráðaverkja í tengslum við skurðaðgerðir. Nefna má sídreypi í mænugöng og sjúklingastýrða verkjalyfjagjöf. Gísli Vigfússon leiddi þá vinnu.

Þó var einn galli á gjöf Njarðar. Ekki var til staðar neitt sem kallast gæti sérhæfð verkjamóttaka eða verkjamiðstöð. Þrátt fyrir eldmóð starfsmanna fékkst ekki hljómgrunnur fyrir því meðal stjórnenda að láta í té aðstöðu sem nauðsynleg var til þess að starfsemin dafnaði. Því fór svo að henni hnignaði og þessi góði hópur tvístraðist án þess að nýir kraftar fylltu skörðin. Að lokum hökti vélin á tveimur strokkum. Tveir starfsmenn, Anna Gyða Gunnlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur, og undirritaður sinntu ráðgjafarbeiðnum, hvorugt í fullu starfi á þeim vettvangi. Á þeim tímapunkti, árið 2007, var verkjateymi Landspítala formlega lagt niður.

Einsdæmi var á Norðurlöndum að helsta háskólasjúkrahús landsins hefði hvorki verkjateymi né verkjaklíník.

Verkjavandi sjúklinga hvarf vitanlega ekki við þetta, en beindist að miklu leyti í annan farveg.

Ég hélt áfram að sinna ráðgjafarbeiðnum vegna verkja frá deildum spítalans eftir því sem tími vannst til frá öðrum skyldum. Ákveðinn sjúklingahópur leitaði til mín persónulega.

Sex ár liðu, en fyrri hluta annars áratugarins jókst með nýju blóði aftur áhugi á að veita góða fjölþætta verkjameðferð á spítalanum. Þá reyndust viðhorf stjórnenda gagnvart mikilvægi þverfaglegrar verkjameðferðar jákvæðari en áður.

Undirbúningur að Verkjamiðstöð Landspítala hófst 2013. Hún tók til starfa 2014 með þátttöku þriggja svæfingalækna með þjálfun í sérhæfðum verkjalækningum og Sigríðar Zoëga, hjúrunarfræðings og sérfræðings í verkjum.

Starfsemin átti loks ákveðinn samastað. Umfang hennar hefur aukist ár frá ári og starfsfólki fjölgað. Þverfaglegt verkjateymi tók jafnframt til starfa. Verkjamiðstöð sinnir nú einnig utanaðkomandi til-vísunum og biðlistar hafa lengst síðustu árin, einkum eftir ýmsum verkjastillandi inngripum sem krefjast gegnumlýsingar og skurðstofuaðstöðu. Skortur er á slíkri aðstöðu á Landspítala.

Árið 2019 kom Bjarni Valtýsson, svæfingalæknir, til liðs við verkjamiðstöð Landspítala og þá hófust einnig viðræður um formlegt samstarf spítalans og Corpus Medica með aðkomu Sjúkratrygginga Íslands. Þær báru ávöxt í byrjun þessa árs með aukinni aðstöðu verkjamiðstöðvar til móttöku sjúklinga og verkjastillandi inngripa í Holtasmára 1. Starfsemin á Hringbraut helst að mestu óbreytt.

Senn líður að starfslokum hjá mér en ég sé fyrir mér að Verkjamiðstöðin muni þróast áfram með nýjum starfskröftum og aukinni þekkingu. Þegar nýr meðferðarkjarni Landspítala verður tekinn í notkun tel ég að verkjamiðstöð verði mikilvægur hlekkur í starfseminni þar með aðstöðu á einum stað sem sjálfstæð eining.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica