5. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Dagur í lífi læknis í Keflavík. Ragnheiður Erla Magnúsdóttir

07:00 Vekjaraklukkan gefur frá sér rólyndistóna frá ónefndu svefnsnjallforriti. Lít á símann og fæ skýrslu um hversu vel ég hef sofið í % talið, hversu margar mínútur ég hraut, hversu mikið ég talaði upp úr svefni og fleira gagnlegt. Gott að byrja daginn á naflaskoðun.

Einkasonurinn vakinn og kveikt á kaffivélinni. Allt gengur eins og í sögu og við á góðri leið með að mæta tímanlega í skóla og vinnu – svo fær barnið blóðnasir. Lífið gefur og lífið tekur.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) í Reykjanesbæ er með starfsemi í Keflavík, Vogum og Grindavík. Í umdæminu búa um 20.000 manns og þar mjög margt að gerast: eldsumbrot, jarðskjálftar, gífurleg umferð og álag, og stórir vinnustaðir: til dæmis hin alþjóðlega flugstöð Leifs Eiríkssonar og Bláa lónið. Þarna unir Ragnheiður Erla sér vel. – Myndina tók Valdís Björg Hilmarsdóttir, læknanemi á HSS.


08:10 Lagt af stað frá Mosfellsbæ til Keflavíkur. Þetta er vissulega tæplega klukkutíma akstur og hann er alltaf vel nýttur. Öll podcöst undir sólinni hafa fengið að hljóma um mín eyru síðastliðna mánuði og nánir vinir og fjölskyldumeðlimir hafa aldrei talað jafn mikið við mig í síma (í handfrjálsri bluetooth-tengingu altsvo). Enda svo rúntinn með slagara frá Rihönnu vinkonu minni – Work. Viðeigandi og peppandi.

09:00 Mætt á Heilsugæsluna í Keflavík. Stefnan tekin rakleiðis inn í matstofu, gripinn kaffibolli og vatnsbrúsinn fylltur af sódavatni. Strangheiðarlegur morgunmatur.

09:10 Geri fyrstu drög að áverkavottorði að beiðni lögreglunnar á Suðurnesjum fyrir konu sem ég hafði skoðað á bráðamóttökunni vikunni áður. Þakka fortíðarmér fyrir að hafa skrifað þokkalega nótu þá. Helst ekki nota nein latnesk orð, og þá aðeins í sviga. Hlýt að geta orðið við því.

09:20-10:40 Viðtöl á heilsugæslunni. Svimi, bakverkir, VIRK-umsókn, liðverkir. Þetta hefðbundna.

10:40 Viðtal við konu á fertugsaldri – erindið var blóðþrýstingseftirlit og lyfja-yfirferð eftir magahjáveituaðgerð og mikið þyngdartap. Megnið af tímanum fór þó í að reyna að sannfæra viðkomandi um að Bill Gates stæði reyndar ekki á bakvið covid-bólusetningarnar, hann væri ekki að reyna að erfðabreyta alheiminum né sé verið að sprauta okkur með 5G.

11:00 Símatímar: Fylgt eftir lyfjameðferðum, farið yfir rannsóknarniðurstöður og fólk bókað í endurmat á stofu. Fólk er að mestu búið að hrista af sér skjálftasvimann.

11:30 Hádegismatur á HSS – sem er alltaf til fyrirmyndar. Metnaðarfyllsta mötuneyti landsins heyrði ég einhvern segja – kannski var það ég.

12:00-15:30 Förinni heitið á bráðamóttökuna. Unglæknar sem og seniorar rótera á milli bráðamóttöku og heilsugæslu hér, sem hressir, bætir og kætir. Brýtur upp daginn og maður sér ný tilfelli og lærir nýja hluti á hverjum degi. Til okkar koma alls kyns sjúklingar á öllum tímum sólarhringsins og yfirleitt eru það einhver þemu í gangi. Kviðverkjaþemu, skurðþemu, brjóstverkjaþemu ... hjarðhegðunin, þið vitið.

Tekið við sjúklingum morgunvaktarinnar. Kona á fertugsaldri, preseptísk, með tvo nýrnasteina í stærra lagi í safnkerfi í vinstra nýra, hydronephrosa. Sjálf taldi hún sig aðeins vera með „takíbaki". Ber sig ótrúlega vel, hvorki „bráðveikindaleg né meðtekin að sjá”. Ræði við urologana á Landspítala og þeir vilja fá hana í nephrostómíu í Fossvogi eftir nokkra klukkutíma. Svo í innlögn í HSS. Færi konunni fregnirnar, ordinera sýklalyfjum IV og TLC. Niðurstaðan var henni skiljanlega mikið áfall.

Næsti sjúklingur – maður á sextugsaldri. Margra vikna slappleiki, polyuria, polydipsia. Nýlega greindur með þvagfærasýkingu. Skánaði lítið við meðferðina. Blóðprufur sýna hækkaðan blóðsykur (24) og verulega hækkaðan langtíma blóðsykur (199 í HbA1c). Blóðgös og sölt innan marka. Engar ketónur í þvagi. Meðhöndlaður með NaCl vökva IV og fljótvirku insúlíni.

Engin slys frá Geldingadal komu eftir þessa hádegisvakt, en þau hafa verið ansi mörg undanfarna daga. Koma þó yfirleitt í kringum miðnætti. Skurðir, tognanir, beinbrot, astmaköst og gasmenganir. Gosið er nefnilega fallegast um ljósaskiptin.

15:30 Primervaktin tekur við mér á BMT. Hún stendur vaktina fram að næsta morgni. Ég rapportera um sjúklinginn minn á HSS sem er nær því HHS (hyperosmolar hyperglycemic, svæsin blóðsykurshækkun með osmólareitrun) en sem er allur að braggast og kominn með tíma á sykursýkismóttökunni daginn eftir. Skrifa upp á Toujeo og metformín.

15:30 Nú tekur næsta partí við. Það er læknavaktin. Á læknavaktinni á HSS eru þrír læknar í kapphlaupi við sjúklingana. Það er forbókað á vaktina svo það myndist ekki biðraðir og múgæsingur. Sjúklingar eru bókaðir á 10 mínútna fresti, þrír í hvert slott, til kl. 20:00.

20:00 Kveð síðasta sjúklinginn. Nú skal klára þessar nótur og gera upp vaktina. Fer nú ekki að gera framtíðar-sjálfri mér að skilja þessar 30 ókláruðu nótur eftir. Sæki mér kvöldmat úr sjálfsalanum sæta fína. Súkkulaðibitakaka og Kristall plús. Strangóheiðarlegt.

21:30 Kíki á stöðuna á bráðamóttökunni. Allir í banastuði, ekkert þema þennan daginn þó, fyrir utan fjölbreytileika og annríki.

21:40 Ferðalagið heim hefst. Sunnudags-tvíhöfðapodcastið hefur aldrei kætt jafn mikið. Lít yfir gufustrókinn frá eldgosinu á leiðinni heim. Pappírsdagur fyrir hádegi á morgun og sérnámskennsla eftir hádegi á Teams. Sem þýðir bara eitt – heimadagur!

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica