5. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Endurnýja sjúkrastofnunina og vilja fleiri sérfræðilækna á Suðurland, Sigurður Böðvarsson fer yfir sviðið

Heilbrigðisstofnun Suðurlands verður endurnýjuð frá toppi til táar, eins og
Sigurður Böðvarsson krabbameinslæknir lýsir. Forsvarsmenn sjúkrastofnunarinnar stefna á að færa heimamönnum aukna þjónustu og hafa rætt leiðir til þess við Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið

Reginmunur er á því að vinna á háskólasjúkrahúsum í Bandaríkjunum og á íslenskum heilbrigðisstofnunum. Þetta segir Sigurður Böðvarsson, yfirlæknir göngu- og lyflækningadeildar og nú einnig í starfi framkvæmdastjóra lækninga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Hann hefur starfað þar frá því í desember 2018 þegar hann kom heim eftir 8 ár í Bandaríkjunum, eða samtals 14 ára veru ef sérnámsárin í Madison Wisconsin talin með.

„Heimurinn er orðinn svo lítill. Ég er í töluverðu sambandi við kollega mína í Bandaríkjunum og leita þangað ef ég þarf ráðgjöf,“ segir Sigurður. Mynd/gag

„En það er svo skrýtið að sjúklingarnir eru svipaðir og jafnvel með sömu sjúkdóma,“ segir hann og hlær. Sigurður lýsir ólíkum starfsháttum þar ytra og hér heima. Tryggt sé að læknar í Bandaríkjunum nýti krafta sína og þekkingu sem best.

„Þeir eru yfirleitt með mjög margt aðstoðarfólk og geta því einbeitt sér að því að sinna sjúklingum,“ segir hann. Algengt er að sérfræðilæknir sé með tvær skoðunarstofur í gangi. Á meðan hann sinni sjúklingi í annarri stofunni sé sá næsti undirbúinn í hinni. „Svo labbaði ég á milli,“ segir hann. Hér taki hins vegar tíma að sækja sjúklinginn fram á biðstofu, leiða inn á stofu og undirbúa.

Vill sjá framfarir

Samtalið hefur ekki varað lengi þegar ljóst er að Sigurður vill láta til sín taka. Breyta, bæta, sjá framfarir. Við heimför voru Landspítali eða Selfoss í sigtinu. „Selfyssingar höfðu haft samband við mig nokkrum árum áður og boðið mér að koma og byggja upp krabbameinslækningar á Suðurlandi. Það þótti mér svolítið spennandi kostur enda Sunnlendingur,“ segir hann.

„Mér fannst í viðtölum mínum á Landspítala að þar hefði lítið breyst og ég hafði ekki áhuga á að koma þangað í gamla starfið mitt sem sérfræðilæknir. Ég vildi verða yfirlæknir og taka aðeins til. Það fannst hins vegar engum góð hugmynd nema mér. Ég ákvað því að fara á Selfoss og sé ekki eftir því. Mér hefur fundist frábærlega skemmtilegt að vera hér.“

Sigurður lýsir því hvernig Heilbrigðisstofnunin gengur nú í endurnýjun lífdaga. Fé hafi verið veitt til að stækka starfsemina og sér hann fram á að ný hæð rísi á spítalanum á næstu fjórum árum.

„Það er svo mikið í deiglunni. Það kemur til af því að fólki fjölgar hér á svæðinu. Margt fólk flytur hingað, bæði barnafólk og eftirlaunaþegar sem vilja koma í sveitina, fá meira fyrir peninginn. Þetta eru hópar sem þurfa mikla heilbrigðisþjónustu.“

Heilbrigðisstofnunin fær þrjá milljarða til að endurnýja sjúkrahúsið. „Það er gaman að taka þátt í því að rýna í teikningar, fá hugmyndir og breyta skipulagi. Við erum í því núna og stofnunin verður tekin í gegn frá toppi til táar. Það verður byrjað á neðstu hæðinni og svo fikrum við okkur upp á við og byggjum þriðju hæðina.“

Bíður eftir nýju fjárhagslíkani

Sigurður horfir til þess hvernig nýtt fjárhagslíkan sem nú sé verið að innleiða á heilsugæslunni, og svo á sjúkrahúsum landsins á næsta ári, muni efla starfsemina. „Það gengur út á að fjármagnið fylgi sjúklingum og að menn fái greitt fyrir það sem þeir gera.“ Sérkennilegt sé að sjúkrastofnanir séu á föstum fjárlögum.

„Það er svo skrýtin hugmyndafræði að fá vasapeninga sem eiga að duga út árið,“ segir hann. „Það er miklu skynsamlegra að fá greitt fyrir það sem þú gerir.“ Sigurður segir að þetta þýði að sumar heilsugæslustöðvar, eins og sú á Selfossi, fái aukið fjármagn en Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustur, sem séu 700 manna heilsugæslustofnanir, gætu fengið minna og lent í fjárhagserfiðleikum vegna óhagkvæmni rekstursins.

„Þetta verður öðruvísi landslag en mér finnst breytingin spennandi. Hún gefur okkur tækifæri til að byggja upp sérfræðiþjónustu á svæðinu.“ Hann sér fyrir sér öflugri göngudeildarstarfsemi og að til þeirra komi læknar úr flestum sérgreinum til að þjónusta íbúa. Forsvarsmenn stofnunarinnar hafi þegar fundað bæði með Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðuneytinu.

„Þetta er allt í vinnslu. Það er verið að búa til gjaldskrár fyrir þessa þjónustu,“ segir hann, því bæta verði læknum upp þann tíma sem taki þá að koma á svæðið. Það sé samfélagslegur sparnaður af því að læknar mæti á svæðið í stað þess að tugir sjúklinga ferðist af svæðinu til að hitta lækna. Sérfræðilæknarnir muni svo blanda þjónustu sinni saman við fjarlækningar.

Kominn aftur á heimaslóðir

„Ég er náttúrulega sveitamaður,“ svarar Sigurður spurður hvort skoðun hans hafi þróast á þessum árum sem hann hefur varið á Selfossi. Hann þekki frá Wisconsin að ferðast frá „móðursjúkrahúsinu“ á minni héraðssjúkrahús. „Allir sérfræðingar þurftu að fara í outreach einu sinni í viku og vera þar með móttöku. Það gat tekið einn til tvo tíma að keyra fram og til baka.“

Það er ljóst á spjalli okkar að Sigurður horfir á skipulagið, vinnuafköstin og í kostnaðinn. Hann vill miklu breyta, segir mönnun ágæta á Suðurlandi en hann vilji sjá lækna fastráðna í heilsugæslunni í stað verktakasamninga.

„Svo vantar okkur unglækna og aðstoðarlækna. Við höfum byggt upp mjög gott samband við íslenska læknanema í Slóvakíu og Ungverjalandi sem eru afar duglegir. Þau hafa fengið verknám og við aðstoðarlækna. Það hefur því verið ávinningur á báða bóga,“ segir hann.

„Við viljum einnig rækta sambandið við læknadeild og Landspítala til að fá hingað kandídata, læknanema og sérnámslækna í lyflækningar sem og fólk í öðru heilbrigðisnámi, því hér er hægt að læra góða hluti á öllum sviðum.“

Endurnýjuð sjúkrastofnun

Á Heilbrigðisstofnun Suðurlands starfa 600 manns og er stefnt að því að hún standi endurnýjuð að fjórum árum liðnum. En nægja þrír milljarðar? Þarf ekki meira til? „Örugglega.“ Spítalinn fékk einnig leyfi í september til að opna fjögurra rúma líknarrými við 18 rúma lyflækningadeildina. „Það er ánægjulegt að fólk geti legið banaleguna hér ef það er of veikt til að vera í heimahjúkrun.“

Spurður um þróunina á landsbyggðinni segir hann hana oft ekki mjög stefnu-miðaða heldur bundna við þann lækni sem þar sé hverju sinni. „Við höfum talað um það hérna að þetta fari eftir persónum og leikendum. Hér hefur krabbameinsþjónustan vaxið af því að ég er krabbameinslæknir. Ef ég væri eitthvað annað hefði annað sérsvið vaxið,“ bendir hann á. Fólk af höfuðborgarsvæðinu hafi sóst eftir þjónustunni hjá þeim.

„En það er orðið það fullt hjá okkur að við viljum einbeita okkur að Sunnlendingum. Ég hef því heldur hvatt fólk til þess að vera í sinni meðferð í bænum.“ Þá skipti staðsetningin máli. Heilbrigðisstofnun Suðurlands búi að því að vera nálægt höfuðborginni en finni fyrir því um leið.

„Hvað varðar fólksfjölda erum við hér á Árborgarsvæðinu að nálgast Eyjafjarðarsvæðið. Um leið erum við langt frá því að nálgast sjúkrahúsið á Akureyri. Það er út af nálægðinni við Landspítala. Við erum aðeins í 45 mínútna fjarlægð. Það spilar inn í,“ segir hann. Sjúkrahúsið sé því sniðið að nálægðinni við Landspítala.

„Við bjóðum praktíska þjónustu,“ segir hann. „Það er rosalegur tímasparnaður og hagræði fyrir fólk að geta sótt algenga þjónustu heima fyrir.“

Með eigin leikvöll?

Sigurður hefur marga hatta á sjúkrastofnuninni og Læknablaðið stenst ekki mátið að spyrja hvort hann sé kominn með eigin dótakassa, spítala, sem hann geti nú mótað eftir eigin höfði með yfirmönnum þar? „Ég segi það nú ekki,“ segir hann og hlær. Honum finnist gaman að vera krabbameinslæknir og að koma að stefnumótun. „Trikkið er að finna leið til að sameina það.“

Þótt Sigurður sjái víða tækifæri til þróunar er nostalgían ekki langt undan. Hann ólst upp á Búrfelli í Grímsnesi. Foreldrar hans voru bændur. „Þetta var huggulegur sveitabær með kýr, kindur, hesta, hænur, nokkra ketti og hund,“ segir hann. „Kósý, ólíkt verksmiðjubúunum sem nú eru.“ En hvers vegna varð hann þá læknir? „Já, ég veit það ekki almennilega. Ég velti því fyrir mér hvort ég yrði læknir eða lögfræðingur.“

En fékk hann mikla hvatningu heimafyrir? „Já, þegar ég hugsa mig um þá man ég að bæði mamma og pabbi hvöttu mig til náms. Ég man að einhvern tíma þegar ég var um 15 ára var ég orðinn þreyttur á náminu og talaði um að fara á sjóinn. Þá hvatti pabbi mig til að halda áfram í skólanum og sagði: „Mennt er máttur“.“

Uppeldið hafi verið gott og hann verji tíma í hverri viku hjá móður sinni á Búrfelli og grípi þá jafnvel í skák eins og forðum daga, en nú á netinu. „Vinnufélagi minn plataði mig á skákæfingu í Fischersetri hér á Selfossi svo skákdellan hefur verið endurvakin,“ lýsir hann og brosir.

„Ég sagði kollegunum frá því í gær að ég hefði dottið í að tefla kvöldinu áður. Tefldi 16 skákir, vann 10, tapaði 5 og eitt jafntefli,“ segir hann og viðurkennir að klukkan hafi verið að ganga eitt um nótt þegar hann hafi á endanum lokað tölvunni, búinn að vinda ofan af deginum.

Netið stytti vegalendir

Við spyrjum Sigurð að lokum hvernig gangi að halda sér við í faginu á ekki stærra sjúkrahúsi? „Heimurinn er orðinn svo lítill. Ég er í töluverðu sambandi við kollega mína í Bandaríkjunum og leita þangað ef ég þarf ráðgjöf,“ segir hann en einnig að NCCN-klínísku leiðbeiningarnar séu hans ær og kýr í faginu.

„Ef læknar fylgja þeim geta þeir verið vissir um að veita standard meðferð hvort heldur sem meðferðin er veitt á Selfossi eða í Seattle.“

En ætlar hann að flytja á Árborgarsvæðið? „Ég hef nefnt það en konan mín segir að við séum búin að flytja nóg. Við höfum sest að í Hafnarfirði og planið er að vera þar eitthvað áfram. En ég er mikið hér í sveitinni minni, fer og heilsa uppá múttu mína á Búrfelli og fæ þar jafnvel kjötbollur ef ég haga mér vel.“
Þetta vefsvæði byggir á Eplica