4. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

COVID-19 smitast inn í rannsóknir hér á landi, segir Sunna Snædal formaður Vísindasiðanefndar

Sunna Snædal, formaður Vísindasiðanefndar, segir sér koma á óvart hversu margt fólk stundi vísindi samhliða fullri vinnu. Ný kynslóð sætti sig síður við þá stöðu og því þurfi kerfisbreytingu eigi vísindastarf að dafna í íslensku samfélagi

Læknablaðið · Sunna Snædal - viðtal í apríl 2021

viðtal

Sjaldan hafa jafnmargar umsóknir um vísindarannsóknir borist Vísindasiðanefnd eins og í apríl í fyrra. Fjöldann má rekja til COVID-19. „Alls voru um 100 erindi tengd COVID á síðasta ári,“ segir Sunna Snædal, formaður Vísindasiðanefndar. Hún segir ekki allar rannsóknirnar hafa snúist um kófið en spurningum hafi verið bætt við til að ná utan um þann nýja veruleika.

Sunna Snædal segir þekkingu almennings á vísindastarfi hafa vaxið mjög innan íslensks samfélags. Mikilvægt sé að vísindin fái aukinn sess í störfum heilbrigðisstarfsfólks en sé ekki að mestu sinnt utan vinnuskyldu. Mynd/gag

„Nýjar rannsóknir vegna COVID-19 voru rétt um 30 og COVID-vinklum bætt við í um 70 tilvikanna,“ segir hún. „Eðli rannsóknanna hefur ekki mikið breyst. Áfram er áherslan á að safna lífsýnum, skoða erfðaþætti og sjá viðbrögð fólks við sýkingum.“ Þá séu tengsl COVID-sýkinga við aðra sjúkdóma skoðuð.

Stýrt nefndinni í tvö ár

Sunna hefur gegnt starfi formanns Vísindasiðanefndar í tvö ár af fjórum. Hún segir það hafa komið sér á óvart hve margir stundi rannsóknir meðfram fullu starfi.

„Ég vissi að hér væri stundað öflugt rannsóknarstarf, en það hefur komið mér á óvart hve margir hafa marga hatta. Hjúkrunar-, og lyfjafræðingar, læknar og sjúkraþjálfarar, fólk sem vinnur hér á Landspítala í fullu klínísku starfi, er svo líka að senda inn umsóknir til okkar ásamt því og að leiðbeina nemendum í BS-verkefnum og mastersverkefnum.“ Fólkið sé öflugt í vísindastarfi meðfram fullri vinnu.

Hún segir þó blikur á lofti. Ekki gangi að stóla á að íslenskt fagfólk stundi vísindi, oft kauplaust með fullu starfi, til lengdar. Þá sé ekki gott að fólk sem vilji stunda vísindastarf þurfi að velja á milli þess og klíníkurinnar. Þurfi jafnvel að velja að vinna launalaust.

„Mín kynslóð er sú sem leyfir sér að segja upphátt: Lífið er ekki aðeins vinna. Kynslóðin sem nú er að koma úr námi spyr einfaldlega: Hvernig ætlið þið að skapa mér fjölskylduvæna vinnu. Það þarf því algjöra kerfisbreytingu eigi vísindastarf að dafna í íslensku samfélagi.“

Vísindastarf varði þjónustuna sem veitt sé á sjúkrahúsum. „Vísindin speglast í störfum heilbrigðisstarfsfólks og skila sér í betri þjónustu við sjúklinga.“

Áhrif kófsins komi síðar fram

Sunna segir ekki ljóst hvort áhugi á að stunda vísindastarf hafi aukist nú í kófinu. Það sjáist betur á næstu árum. „Rannsóknir krefjast mikils undirbúnings og því fullsnemmt að meta áhrifin,“ segir hún. Ljóst sé þó að kófið hafi almennt kveikt áhuga almennings á vísindunum.

„Ég tel að þar sé stærsta breytingin. Fólk talar um tíðnitölur eins og að drekka vatn en hafði ekki áður heyrt um nýgengi, algengi og aðra frasa rannsókna. Það þekkir spálíkön og annað sem það var ekki vant að heyra um. Ég tel að áhugi á þátttöku í vísindarannsóknum sé að aukast og að fólk þekki betur þýðingu þess að taka þátt í þeim,“ segir hún.

Fólk sé einnig meðvitaðra um það hvernig þekkingu sé verið að safna og sé gagnrýnna á hvaða gögnum sé safnað. „Hvað verður um gögnin mín? Eru þau nýtt á viðeigandi hátt?“ Þróunin sé spennandi. En hefur skilningur stjórnvalda á mikilvægi rannsókna aukist í heimsfaraldrinum?

„Ég lít stjórnvöld sömu augum og almenning. Þekkingin verður til í umræðunni og litar stjórnmálafólk sem aðra, sem á endanum hefur valdið. Já, ég vona því að þekking þeirra sé að aukast en veit um leið að það fennir hratt yfir ef athyglin fer annað,“ segir hún og hlær.

Persónuvernd mikilvæg

Sunna segir flestar umsóknir til Vísindasiðanefndarinnar fara áfram til umsagnar hjá Persónuvernd. Ný persónuverndarlög sem sett voru árið 2018 hafi aukið álagið á stofnunina en ekki Vísindasiðanefndina.

„Samkvæmt lögum megum við veita leyfið eftir 10 daga en meginreglan er að við bíðum eftir niðurstöðu Persónuverndar “ Persónuvernd hafi eftirlitsskyldu og geti stöðvað rannsóknir telji hún þörf á því. „Það er því ráðlegt að bíða.“

Heilbrigðisráðherra skipaði Sunnu formann nefndarinnar og sinnir hún því ásamt fullu starfi sem nýrnalæknir á Landspítala. „Allir í nefndinni eru skipaðir frá hinum ýmsu ráðuneytum og embættum. Ég veit ekki hverjir bentu á mig en kannski hefur haft áhrif að ég hef látið til mín taka í félagsstörfum.“

Hún segir starf nefndarinnar víðfeðmara en hún hafi reiknað með. „Lærdóms-kúrfan var sannarlega brött fyrsta árið,“ segir hún og að hún hafi kosið að móta starfið eftir eigin höfði. Nefndin hafi sett upp málþing í janúar. Einnig komið að kennslu í háskólanum á heilbrigðissviði. Hún segir það hafa verið áhugavert skref fyrir sig að stíga út úr vísindastarfi og verða partur af stjórnvaldi.

„Ég er með doktorsgráðu og þekki það að hugsa vísindin og siðfræðihlutann. Nú er ég hins vegar komin í það hlutverk að vera eftirlitsaðili, hindrun á vegi spenntra vísindamanna sem vilja byrja rannsóknina sem allra fyrst.“ En hvað hefur Sunna lært af formannsstarfinu? Hún nefnir að hún sé nú í fyrsta sinn í stjórnunarhlutverki.

Jafnræðið mikilvægt

„Við erum 7 í nefndinni og atkvæði formanns vegur ekki þyngra en annarra. Við erum ekki alltaf sammála og þá er áskorun að leiða nefndina að niðurstöðu. Ég þurfti að hugsa frá byrjun hvernig stjórnandi ég vildi vera.“ Niðurstaðan sé að komast sameiginlega að viðunandi niðurstöðu. „Hingað til höfum við ekki þurft að greiða atkvæði um niðurstöðuna.“

Í nefndinni sitja lögfræðingar, líffærafræðingur, læknar, heimspekingur og lýðheilsufræðingur. „Ég ákvað snemma að skoðun eins skipti ekki meira máli en annars. Hugmyndin er að raddir allra heyrist. Þær fara ekki alltaf saman í fyrstu umræðu.“ Spennandi sé að fá fólk til að vinna saman.

„Læknisstarfið er ekki þannig að maður geti velt hlutunum fyrir sér út í hið óendanlega. Við verðum að taka ákvörðun og standa með henni. Þetta er því öðruvísi vinna,“ segir hún og lýsir því hvernig hún þurfi að standa með ákvörðunum sínum. Reynslumiklir einstaklingar hafa haft beint samband og viljað hafa áhrif á vinnulag hennar. „Ég hlusta en stend á mínu.“

Á heimaslóðum í Svíþjóð

Sunna er dóttir Jóns Snædals öldrunarlæknis og Sigríðar Stefánsdóttur réttarfélagsfræðings og segir það hafa haft sín áhrif á starfsvalið.

„Ég reyndi að finna mér annað en læknisfræði eftir menntaskóla. Fannst ég hafa ákveðið brautina of snemma og skoðaði sálfræði en þegar ég mat fögin var læknisfræðin borðleggjandi.“

Svíþjóð á sérstakan stað í hjarta Sunnu. Þar bjó hún sem barn þegar foreldrarnir menntuðu sig í lok áttunda og byrjun níunda áratugarins. Þar vann hún í 10 ár á Karólínska. Mynd/gag

Vinirnir hefðu þó ekki orðið hissa á að hún færi í pólitík, enda í forystusveit í stúdentapólitíkinni með Röskvu. „En hjarta mitt slær með læknisfræðinni.“ Hún hafi til að mynda verið í hópi þeirra lækna sem stofnuðu Félag sjúkrahúslækna.

Sunna fór inn í læknisfræðina í annarri tilraun í klásus. „Ég sótti um á Norðurlöndunum til vara en náði inn og hef ekki litið til baka.“ Hún hafi velt fyrir sér geðlækningum en áttað sig á að áhuginn lá frekar í lyflæknisfræðivanda sjúklinganna.

„Ég leitaði að fagi með breiðustu skírskotunina innan lyflækninga og endaði í nýrnalækningum. Þá næ ég tengingu við hjarta-, smit-, og innkirtlafræðin auk þess að vera í samstarfi við ýmsar skurðgreinar.“

Svíþjóð á sérstakan stað í hjarta hennar. Þar bjó hún sem barn þegar foreldrarnir menntuðu sig í lok áttunda og byrjun níunda áratugarins. Þar vann hún í 10 ár á Karólínska en kom heim fyrir rétt tæpum áratug. Hún horfir til vísindastarfa þar ytra.

„Prófessorinn varði 95% tímans í rannsóknar- og kennslustörf. Hann hafði bæði tækifæri og peninga til að sinna því auk alþjóðlegs samstarfs. Hann var sífellt að búa til ný verkefni og feta nýjar brautir. Hann stundaði klíník einn eða hálfan dag aðra hverja viku til að halda sér við. En hér er umhverfið annað,“ segir hún. „Við ætlum okkur alltaf svona hluti hér líka en það hefur ekki gengið.“

Sjálf hafi hún farið í launalaust leyfi til að klára doktorsnám sitt eftir heimkomuna. „Svo gerði ég mér vonir um að tími myndi gefast til vísindastarfa þegar ég hefði komið mér vel fyrir. Ég held að yfirmenn mínir hafi líka vonast til þess sama fyrir sig en flestir hér innanhúss myndu taka undir að svigrúmið sé ekki mikið. Margar sérgreinar eru ekki þannig mannaðar að hægt sé að setja einn sérfræðing hverju sinni í rannsóknarstarf. Það væri þó æskilegt á háskólasjúkrahúsi.“

Hún stefni á að sinna meira vísindastarfi þegar tíma hennar sem formaður Vísindasiðanefndar lýkur. „En þangað til bíður það betri tíma.“

Liðinn tími liðinn

En saknar hún Karólínska? „Já, ég átti þar frábæra samstarfsmenn og fyrirmyndir bæði í vísindum og klínísku starfi. En miklar breytingar hafa orðið þar og maður getur saknað þess sem var. Ég veit að Karólínska er ekki sami staðurinn og áður. Ég er hálfgerður Svíi í mér, eftir að hafa alist þar upp, en líður vel hér heima.“

Sunna er þriggja barna móðir. Þau eldri tvö um og yfir tvítugt og sú yngsta 14 ára. „Nei, þau ætla ekki að verða læknar,“ segir hún og hlær. „Þau horfa til sálfræðináms og sviðslista. Ætli þeim hafi ekki fundist foreldrar sínir, bæði læknar, vinna of mikið.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica