3. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Frá Félagi læknanema. Ástráður í 20 ár: Kynfræðsla á tímum kórónuveirunnar

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá stofnun Ástráðs fyrir 20 árum. Margar breytingar hafa átt sér stað í félaginu sem endurspegla ekki síst breytingar á samfélagi okkar á þessum tíma. Félagið hefur breytt nafninu tvisvar, en árið 2004 varð það að Ástráði (áður Félag um forvarnarstarf læknanema) og árið 2017 varð félagið að kynfræðslufélagi í stað forvarnarfélags.

Auk nafnbreytingar fékk félagið nýtt merki og bolum fræðaranna var breytt; þeir fóru úr því að vera skærgrænir með manni sem leit út eins og Woody Allen, yfir í stílhreina hvíta boli með fallegu bleiku hjarta. Við þurftum því aldrei að ganga í skærgrænu bolunum og viljum þakka fyrri stjórnum Ástráðs fyrir það tískuskyn sem þurfti til að koma þeim bolum út úr myndinni – að öllum ólöstuðum sem komu að hönnun bolanna.

Hugrún Lilja og Snædís Inga

Markmiðið með stofnun félagsins var að veita unglingum fræðslu um heilbrigðismál og var í fyrstu einkum lögð áhersla á kynsjúkdóma og getnaðarvarnir. Ein helsta ástæða fyrir þeirri áherslu var há tíðni barneigna og þungunarrofs meðal ungra kvenna á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. Fljótt kom þó í ljós að margt annað þurfti að bæta og því hefur fræðsla Ástráðs ekki aðeins miðast að getnaðarvörnum og kynsjúkdómum heldur einnig tveimur öðrum meginþáttum kynfræðslu síðustu ára, samskiptum og samþykki.

Á fyrsta starfsári félagsins var farið í 15 framhaldsskóla á landinu auk félagsmiðstöðva og síðan þá hefur fjöldi fyrirlestra aukist jafnt og þétt. Nú fara læknanemar á vegum Ástráðs í alla framhaldsskóla landsins, 31 talsins. Ástráður hefur þó ekki aðeins verið með fyrirlestra heldur einnig komið að ýmsum verkefnum sem varða kynheilbrigðismál á Íslandi og innan háskólans. Þar má nefna SEKSÍherferðina 2008, smokkaherferðina 2011 og smokkasjálfsalaverkefnið 2018, stofnun Ástblæs hinsegin félags læknanema 2020 og bætt aðgengi háskólanema heilbrigðisvísindasviðs að tíðavörum, svo eitthvað sé nefnt.

Þó er óhætt að segja að á starfsárinu 2020 hafi félagið orðið fyrir hvað mestum breytingum sökum heimsfaraldursins COVID-19. Í mars féllu allir fyrirlestrar tímabundið niður og um haustið varð ljóst að nánast öll fræðslan yrði að fara fram í gegnum fjarfundabúnað. Þar glímdu 2. árs læknanemar og fræðarar við áður óþekktar áskoranir í kynfræðslu. Eins og það hafi ekki verið nógu mikil áskorun að ræða við unglinga um kynlíf – þá var talað um forsæði, að snípurinn blotni ekki og að endaþarmurinn hafi sogkraft líkt og ryksuga, með 100 manns á „mute” og engan í mynd. Við í stjórn Ástráðs getum ekki annað en verið stolt af því hvernig allir sem komið hafa að fræðslunni stóðu sig í að aðlaga starfsemi félagsins að samfélaginu á tímum heimsfaraldurs.

Ein stærsta áskorun Ástráðs undanfarin 20 ár hefur verið fjármögnun starfseminnar. Sífellt meiri vinna fer í að sækja um styrki frá hinum ýmsu fyrirtækjum og stofnunum. Á sama tíma gerir ungt fólk auknar kröfur um bætta kynfræðslu. Til þess að efla þá kynfræðslu sem ungmennum stendur nú þegar til boða þarf aukið fjármagn í félög eins og Ástráð. Nú í vetur skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp um eflingu kynfræðslu í skólum. Fulltrúar Ástráðs hafa þó ekki enn verið kallaðir að borðinu í þeirri vinnu og er það miður. Við vonum að stuðningur við þá jafningjafræðslu sem hópur eins og læknanemar bjóða falli á endanum að stefnu menntamálaráðuneytisins um öfluga kynfræðslu í skólum landsins. Okkur langar að leggja okkar reynslu fram og erum reiðubúin til samstarfs í því fjölþætta og stóra verkefni.

Starf Ástráðs er gríðarlega mikilvægt. Það sýnir öll sú umræða sem á sér stað í samfélaginu um bætta kynfræðslu í skólum. Ástráður er eina staðlaða jafningjafræðslan sem er í boði fyrir alla framhaldsskóla á landinu. Því er brýnt að halda áfram starfseminni af miklum krafti. Við í stjórn Ástráðs þökkum fyrri stjórnarmeðlimum Ástráðs fyrir sína vinnu í gegnum árin, fyrri fræðurum og öllum þeim sem hafa komið að starfsemi félagsins – án ykkar væri félagið ekkert og kynlíf og náin samskipti ungra Íslendinga lakari en ella.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica