2. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna. Eins árs COVID lærdómur. Indriði Einar Reynisson

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Þegar febrúar klárast verður heilt ár frá fyrsta greinda innanlandssmiti COVID-19-faraldursins á Íslandi. Lífið tók vægast sagt stakkaskiptum á stuttum tíma og mun öfgafyllri breytingum en við áttum von á. Margir héldu að þetta yrði skammvinnur vandi, efnahagurinn færi á flug um sumarið 2020, heilbrigðiskerfið þyrfti ekki að blása úr nös og líkamsræktarfrömuðir yrðu hressir og kátir sem áður. Klassíska íslenska hugsunin í forgrunni; þetta reddast! Undirritaður var jafnvel fullur efasemda á alvarleika faraldursins. Var þetta nokkuð skaðlegra en flensa? Gera maskar gagn?

Ég, eins og margir, hafði rangt fyrir mér og það er í lagi!

Meistaramótum var frestað, flugfélög hröpuðu í verði eða flugu á hausinn og hótel stóðu tóm. Samfélagið lærði að lifa með veirunni, salernispappír hvarf úr búðunum og þjóðin ferðaðist innanhúss. Það þarf ekki að endurtaka hvernig samfélagið bjó sig undir kreppuna. Hins vegar er mikilvægt að minnast á ýmsa mikilvæga þætti heilbrigðiskerfisins í faraldrinum.

Læknar hér og læknar þar!

Á fundum Almannavarna birtust læknar ítrekað á skjánum. Sóttvarnalæknir, landlæknir, forstjóri Landspítala, forstjóri og framkvæmdastjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, yfirmenn smitsjúkdómalækninga og sýkla- og veirufræðideildar Landspítala. Alma og Þórólfur fóru yfir faraldurinn og stöppuðu í okkur stálinu. Kári skimaði og rannsakaði. Staða heilbrigðisstofnana landsins var tíðrædd. Heilbrigðisráðherra hlýddi ráðleggingum sóttvarnalæknis. Heilsugæslan umturnaðist á örfáum vikum á sama tíma og þungi var lagður á; sýnatökur mögulega smitaðra í eigin persónu, og ópersónulegar fjarlækningar viðkvæmra til að halda „eðlilegri“ heilsugæslu gangandi og koma í veg fyrir óþarfa innlagnir á spítala.

Landspítali tryggði varnir meðal annars með því að safna hlífðarbúnaði, sýnatökubúnaði, raðgreiningartækjum og frekari þekkingu. Búið var undir það versta. Stofnuð var sérstök COVID-göngudeild, með læknum í fararbroddi, sem ruddi braut í meðhöndlun sjúkdómsins utan spítala og birti rannsóknir á starfi sínu. Velunnarar gáfu öndunarvélar fyrir svartsýnustu spárnar. Sóttvarnarhús voru opnuð, ekki bara eitt heldur nokkur.

Bylgjan kom og fór. Afköst kerfisins mögnuðust. Heilsugæslan lyfti grettistaki í eftirfylgd og greiningum til að reyna að vernda spítalann sem mest. Læknavaktin jók á vitjanaþjónustu sína. Þegar mest var voru þrír læknabílar á höfuðborgarsvæðinu að sinna almennum vitjunum, sýnatökum í heimahúsum og í fáeinum tilfellum að meta COVID-veika einstaklinga í heimahúsum. En það gekk ekki áfallalaust því sum landsvæðin urðu „grálúsug af COVID“, einkum höfuðborgarsvæðið.

Framlínumenn fóru í sóttkví, sumir veiktust, fáeinir alvarlega en blessunarlega dó enginn þeirra. Breyttir tímar kalla á nýjar áherslur. Samráð jókst milli almennra lækna. Læknavaktin réði til sín sérnámslækna í heimilislækningum til að sinna vöktum vegna manneklu. Sérfræðingar á lyflækningasviði Landspítala juku á sína þjónustu og stunduðu sólarhringsvaktir. Deildarlæknar lyflækninga urðu áberandi í meðferð sjúkdóma og voru höfundar á vísindagreinum sem var afrakstur COVID-göngudeildarinnar. Til aðstoðar við upplýsingaflæði fóru ýmsir læknar í sitt fræðsluhlutverk, lásu sér til, skrifuðu greinar, töluðu opinberlega og aðstoðuðu stofnanir við upplýsingagjöf. Ungur almennur læknir varð meðal annars andlit fræðslunnar í samfélaginu, aðstoðaði háskólastofnanir og kom fram í fjölmiðlum. Sumir urðu ósammála vísindunum og kærðu kollega til siðanefndar Læknafélagsins fyrir málefnalega umræðu en úr því fæddist mús er fjallið tók joðsótt; málinu var að sjálfsögðu vísað frá.

 

En hvað lærðum við?

Hér var nýr sjúkdómur á Íslandi og þjóðin tók snúning. Í brúnni og á fremstu víglínum voru læknar sem stýrðu dansinum. Allt var lagt undir og við uppskárum margt: heimsmælikvarða meðhöndlun og eftirfylgd sjúklinga með COVID-19; lækkun á dánartíðni, til skamms tíma, þegar hún hækkaði í nágrannalöndum; og líf sem var næstum því eðlilegt „í samanburði“. Hvert sem litið var voru læknar í fréttum að ráðleggja okkur, hughreysta okkur og fræða okkur. Við fundum fyrir því að allt yrði í lagi á endanum.

Ég ætla alls ekki að gera lítið úr mikilvægi annarra heilbrigðisstétta í þessum faraldri: hjúkrunarfræðingar, lífeindafræðingar, sjúkraliðar, sjúkraflutningamenn og fleiri voru okkur stoð. Hins vegar er það deginum ljósara að læknar keyra heilbrigðiskerfið áfram. Við leggjum línurnar við meðhöndlun faraldursins sem þjóðin glímir við. Við berum ábyrgðina á meðferðinni en við þekkjum líka okkar takmörk. Við verðum að geta stigið fram og sýnt forystuhæfileikana sem í okkur búa. Læknar eru leiðtogar heilbrigðiskerfisins og það verður aldrei tekið af okkur.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica