1. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Tæknin færir lækna frá tölvunni til sjúklingsins, segja Guðrún Ása Björnsdóttir og Berglind Bergmann

„Í COVID-19 hafa múrar brotnað og fólk þorað að stíga út fyrir þægindarammann,“ segir Guðrún Ása Björnsdóttir og horfir til þess hvað tæknilausnir hafa fengið aukið brautargengi í heimsfaraldrinum. Þær Berglind Bergmann, sem tók við keflinu af henni sem formaður Félags almennra lækna (FAL), halda utan um málþingið Tækni í heilbrigðisþjónustu: Tæknilausnir og fjarlækningar, á fyrsta degi Læknadaga.

Kófið hefur hjálpað læknum að yfirstíga ótta við tækninýjungar og nýta þær sér til hagsbóta. Læknarnir Guðrún Ása Björnsdóttir og Berglind Bergmann fara yfir það mikilvægasta þegar kemur að nýrri tækni í heilbrigðismálum á Læknadögum.

„Læknar um allan heim hafa byrjað að nota tæknilausnir sem þeir gerðu ekki áður. Þeir hafa opnað hugann fyrir öðru vinnulagi, öðrum lausnum og samskiptaformi,“ segir Guðrún Ása. Þær segja alla meðvitaða um mikilvægi tækninnar en mörgum vaxi í augum að byrja enda ógrynni af upplýsingum alls staðar. Hlaðvörp, smáforrit, Twitter.

Berglind segir margt í gangi sem hjálpi bæði læknum og sjúklingum. „Þessi aukna tækni og að nýta hana í heilbrigðisþjónustunni er komin til að vera og getur hjálpað okkur.“ Um leið geti hún þvælst fyrir. Guðrún Ása tekur við og segir oft nóg til að drepa áhugann að vita ekki hvar eigi að byrja. „Við ætlum því að fara yfir það helsta,“ segir hún.

Læknar þrói tæknina

Þær segja mikilvægt að láta ekki þróun tækninnar alfarið í hendur annarra, heldur eigi læknar að taka þátt í henni. „Við þurfum að vera þátttakendur en ekki standa á hliðarlínunni,“ segir Guðrún Ása.


Guðrún Ása Björnsdóttir og Berglind Bergmann stýra málþingi FAL á Læknadögum þar sem læknum er hjálpað að sigta það mikilvæga frá öðru þegar kemur að tækniþróun. Mynd/gag

En hverjar eru áskoranirnar? Berglind nefnir að margir óttist að tæknin muni skaða samband læknis og sjúklings en aukin tæknivæðing geti hins vegar styrkt sambandið. „Samskipti lækna og sjúklinga hafa aðallega verið augliti til auglitis. Það er ákveðin áskorun í því. Sumir nota þessar röksemdir gegn aukinni tæknivæðingu.“ Hins vegar megi horfa öðrum augum á tæknina. Hún geti fært lækninn frá tölvunni og gefið honum meiri tíma með sjúklingnum.

„Nýútskrifaður læknir talar um að hann sé mest fyrir framan tölvuna en ekki með sjúklingnum,“ segir hún. „Með tækninni getum við færst frá því að starf læknis sé helst nýtt í skráningar í að lækna,“ segir hún. „Ég er spennt fyrir þessu.“ Hún nefnir hættuna á kulnun við mikla skráningarvinnu lækna.

Þær nefna að margar lausnir hafi verið kynntar, eins og gervigreind, sem einnig hafi kallað fram ótta um að tæknin taki yfir hlutverk læknisins.

„Ég held að það verði aldrei,“ segir Berglind. „Tæknin á að hjálpa okkur þótt við verðum að gæta að ýmsu, eins og öryggi. Við sýslum með mikilvægar persónulegar upplýsingar og þurfum að vera meðvituð um það.“

Lausnir sem bæta engu við

Guðrún segir að með nýrri tækni þreifi fólk fyrir sér. „Það er hægt að vera með lausnir sem bæta engu við og ýta undir aukna vinnu og álag. Það er hins vegar mikilvægt að þær geri það ekki,“ segir hún. „Læknisfræðin er orðin svo flókin. Við þurfum að nýta tæknina til að einfalda umhverfi okkar og kaupa okkur tíma. Lausnir geta meðal annars nýst til að safna upplýsingum og hjálpa okkur að vinna úr þeim.“ Röng notkun og hönnun virki fælandi, læknar hætti fljótt að treysta utanaðkomandi lausnum og fólk nýti sér þá ekki tæknina.

Á málþinginu verða ýmsir angar og nýjungar tækninnar rædd og þar með að sjálfsögðu fjarlækningar. Berglind bendir á að fjarlækningar hafi verið borðleggjandi nú í COVID-19 af illri nauðsyn.

„Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með því,“ segir hún. „Vel útfærðar fjarlækningar eru nauðsyn fyrir strjábýlt og stórt land eins og Ísland. Það þarf því að opna umræðuna og tala meira saman um raunhæfar útfærslur.“

Guðrún segir tæknilausnir eiga heima alls staðar í kerfinu og Berglind nefnir að taki læknar ekki þátt í að þróa tæknina taki hún og sjúklingarnir framúr þeim. „Við þurfum að vita hvað er í gangi til þess að geta svarað spurningum fólksins sem býr orðið yfir mikilli þekkingu,“ segir hún.

En hafa sjúklingar verið spurðir um þessa þróun? Guðrún segir sjúklinga einnig þurfa að stýra því hvað henti þeim. „Ýmsar lausnir geta valdeflt þá og aukið þekkingu þeirra og sjálfstæði til að takast á við heilsubresti sína.“ Fyrstu lausnirnar hafi ekki tekið nægt tillit til þeirra. „Fólki var sagt hvað það ætti að gera en núna endurspegla lausnirnar frekar samtalið og að þeir taki þátt í ákvarðanatökunum.“

Ísland í kjörstöðu

En hvar stöndum við Íslendingar þegar kemur að tækninni að mati þeirra tveggja? Berglind nefnir að í ljósi smæðarinnar sé auðvelt að prófa nýjar lausnir. „Það hefur til dæmis verið magnað að fylgjast með þróuninni í COVID.“ Lausnir sem hafi verið hugmynd degi fyrr hafi komið til framkvæmda daginn eftir.

„Við unnum öll saman. Það var frábært og auðveldaði allt utanumhald og gagnasöfnun,“ segir hún. Tæknin hafi leitt til fjölda fræðigreina hér um COVID. „Ég held því að á mörgum sviðum séum við framarlega en oft er það ill nauðsyn sem rekur lausnirnar áfram. Það vantar því kannski heildarstefnu innan heilbrigðiskerfisins. Það er að gerast,“ segir Berglind.

Guðrún segir að gefa þurfi í. „Við höfum kosti. Við erum lítil þjóð með stuttar boðleiðir. Við erum með frekar samræmt sjúkraskrárkerfi, þó gera megi betur þar, öflugt fólk og greiðan aðgang að tækni. Við ættum því að vera leiðandi í stafrænni læknisfræði,“ segir hún.

Berglind nefnir aftur gervigreind. „Hún hentar læknisfræði mjög vel.“ Guðrún grípur boltann. „Ef gervigreind þróast í rétta átt er hún drifkraftur fjórðu iðnbyltingarinnar. Gervigreindin hefur náð árangri á þröngum sviðum en hefur ekki almennt náð framúr ákvörðunum læknisins. En það gerist kannski.“

Berglind leggur þó áherslu á að tækni eigi að einfalda læknum lífið. „Hún á ekki að taka ákvörðun fyrir mann heldur hjálpa við ákvarðanatökuna.“

Tæknin styðji og hjálpi

Guðrún segir lækna átta sig á því að þeir lifi á tölvuöld. „Sjúklingarnir verða eldri, það eru meiri fjölveikindi, fjöllyfjan, rannsóknir springa út. Enginn læknir getur fylgst með öllu sem er að gerast. Það er ómögulegt,“ segir hún. Spurð segir hún það ekki grafa undan sjálfstrausti lækna heldur breyta vinnulaginu.

„Læknar muna kannski ekki allt en kunna að leita að svörunum og þeir nota tæknina sér til stuðnings og sem öryggisnet.“

En hvernig er svo að vera læknir á gervihnattaöld? „Ótrúlega spennandi,“ segir Berglind. „Frábært.“ Guðrún er sammála. „Það er ótrúlega gaman að taka þátt í svona uppbyggingu, þar sem drastískar breytingar verða á vinnulagi. Vonandi til hins betra. Allt fer í hringi og við erum í raun að kalla eftir gömlum tíma. Við erum að kalla eftir því að nýta tæknina til þess að fá tækifæri til að verja tíma með sjúklingnum en ekki framan við tölvu.“




Þetta vefsvæði byggir á Eplica