1. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Ver Vestfirði fyrir smitum, Súsanna Björg Ástvaldsdóttir er umdæmislæknir sóttvarna þar

„Sjúkrahús er öryggiskrafa fólks sem ætlar að búa á Vestfjörðum,“ segir Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, yfirlæknir heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Hún hefur verið búsett á Ísafirði í 7 ár nú í janúar.

hlusta

Súsanna Björg Ástvaldsdóttir umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum segir krefjandi að flug vestur hafið legið mikið niðri nú í COVID-19. Hún segist alltaf hafa verið skýr við útgerð Júlíusar Geirmundssonar og skipuleggur starfið út frá samgöngum.

Súsanna Björg vinnur sem yfirlæknir heilsugæslunnar og segir að sig dreymi um að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða geti verið öflugri kennslustofnun. Þau byggi upp hægt og rólega í þá átt.

viðtal

Hvert áfallið af öðru hefur dunið yfir á Vestfjörðum á þessu ári. Snjóflóð féll á Flateyri í janúar. Hópsmit kom upp á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í byrjun apríl og liðsauki sendur vestur. Smit kom upp á hjúkrunarheimilinu Hlíf á Ísafirði í ágúst og hópsmit um borð í skuttogaranum Júlíusi Geirmundssyni þar sem meginþorri 25 skipverja var smitaður. Súsanna er umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum.

Mál togarans Júlíusar Geirmundssonar var á allra vörum. Súsanna fór með samstarfsfélögum um borð þegar hann lagðist að bryggju með smituðum skipverjum. Hún segir að hún hafi alltaf hvatt forsvarsmenn skipsinstil þess að koma í land í sýnatöku. Myndirnar tók Hafþór Gunnarsson í Bolungarvík.

„Við fengum ekki lækna senda til að hjálpa heldur lagðist álagið ofan á alla aðra vinnu sem við sinnum. Við höfum keyrt á yfirsnúningi frá því í febrúar,“ segir Súsanna. „Við unnum hér mjög langa vinnudaga margar vikur í röð. Við röktum smit með hausinn á kafi í annarri vinnu.“

Súsanna segir læknana þrjá sem sinni fastri vinnu á stofnuninni alltaf viðbúna. „Hér getur blossað upp allt annar veruleiki en á höfuðborgarsvæðinu og við staðið frammi fyrir sambærilegum vanda og á Ítalíu. Það er okkar sóttvarna- og umdæmislæknanna að passa samfélagið okkar, passa að smit dreifist ekki.“ Það hafa þau gert með Súsönnu í fararbroddi.

Afdráttarlaus í svörum

Mál togarans Júlíusar Geirmundssonar var á allra vörum og í tengslum við það var því fleygt fram að Súsanna hefði ekki kallað togarann afdráttarlaust í land. „Ég hef alltaf verið skýr í tilmælum mínum,“ segir hún. „Þeir sem þekkja mig vita að það hefði verið ómögulegt fyrir mig að segja annað en það sem ég hef sagt í marga, marga mánuði: Komið í sýnatöku,“ leggur hún áherslu á.

„En útgerðin Gunnvör er stórt fyrirtæki á litlum stað. Rígur skapaðist í samfélaginu um hvað væri rétt og rangt. Þess vegna er gott að málið sé afgreitt í sjóprófum og að lögreglan skoði málið,“ segir hún um þá ákvörðun að túrinn skyldi kláraður þrátt fyrir smitin.

Hún segir Læknablaðinu frá því að tveimur dögum fyrir viðtalið nú hafi hún svo fengið símtal þar sem óskað var eftir að 35 sjómenn færu í sýnatöku. Hún hafi ekki getað tekið á móti því skipi vegna veðurs. Sýnin hefðu setið föst fyrir vestan.

„Ég vísaði skipinu til Reykjavíkur,“ segir hún ákveðin. Ekki sé hægt að stóla á flugsamgöngur. „Við getum aðeins skipulagt sýnatökur hér fyrir vestan í takti við samgöngurnar,“ segir hún og gagnrýnir að flugið hafi oft legið niðri í heimsfaraldrinum.

„Þess vegna beittum við þeim ráðum að setja fólk í sóttkví og einangrun áður en ljóst var um niðurstöður úr sýnatöku hér í vor. Við vissum að það tæki á annan sólarhring að fá niðurstöðuna og gátum með þessum aðgerðum verið skrefi á undan COVID í samfélaginu,“ segir hún.

Röktu smitin flest til tveggja

Súsanna segir að um 100 manns hafi smitast í heildina í fyrstu bylgjunni en rekja hafi mátt 80 smitanna til tveggja. „Þau fengu að malla í samfélaginu í um þrjár vikur þar sem leiðbeiningarnar voru að ekki mætti fara í sýnatöku nema fólk hefði yfir 38 gráðu hita, kvef og beinverki.“

Þau hafi fljótt séð hve vandinn var útbreiddur. Rekja hafi mátt veikindi eins fjölskyldumeðlims af öðrum til ferðar til Reykjavíkur þremur vikum áður. „Þessi rakning varð til þess að við fórum í 5 manna samkomubann.“ Það hafi hjálpað þeim mikið.

„Hér á Ísafirði þekkja allir alla og fólk kemst ekkert upp með að segja að það hafi ekki verið einhvers staðar, því maður veit betur.“ Það sýni mikilvægi þess að virkja umdæmi sóttvarna á hverjum stað. „Rakningin verður svo miklu öflugri og við höfum átt gott samstarf við rakningarteymi og þríeykið. Allt gekk eins og smurð vél.“

En myndi hún vilja sjá frekari sérsniðnar lausnir fyrir hvert landsvæði? „Nei. Vestfirðingar fara mikið suður. Þetta er stutt hálftíma flug og ef hér væru minni takmarkanir myndi smit dreifast hraðar um. Þannig að lausari taumur á alls ekki við um Vestfirði.“

Lærði í Danmörku

Súsanna segir að fjölskyldan hafi ekki ætlað að vera eins lengi fyrir vestan og raunin er. „En við komumst fljótt að því að hér er æðislegt að búa.“ Læknisstarfið er fjölbreytt. „Ég er á heilsugæslu, lyflæknir, bráðalæknir – allt í einu – og umdæmislæknir sóttvarna líka,“ segir hún og hlær. Maður hennar starfar í bænum sem lögfræðingur.

Súsanna lærði til læknis í Óðinsvéum í Danmörku og tók kandídatsárið hér heima. „Ég er alin upp á slysa- og bráðadeildinni og hafði alltaf í huga að starfa þar. Ég fæ að gera mikið af því hér og er því svo sátt.“ Hún lýsir því hvernig þau hafi nú veika manneskju inniliggjandi á sjúkrahúsinu sem hefði þurft að flytja suður en komist ekki vegna veðurs.

„Við verðum að vera í stakk búin til að veita bráðameðferð í nokkra daga þar til við komum fólki suður.“ Þrír læknar eru fastráðnir hjá stofnuninni. Hún er yfirlæknir á heilsugæslunni, einn er bæklunarskurðlæknir á heilsugæslunni og annar er skurðlæknir á sjúkrahúsinu.

Lítið um verktöku

„Síðan höfum við fengið kandídata, sérnámslækna og verktaka í bland hingað vestur. En við höfum verið heppin undanfarin ár því það er vinsælt að koma hingað. Við höfum því að mestu sloppið við verktökuna.“

Hún segir að stutt stopp lækna komi í veg fyrir samfellda þjónustu við sjúklinga. „Fólk vill hitta sinn lækni og fá eftirfylgd sem verður brothættari með verktöku. Í rauninni er það bagalegt fyrir okkur sem störfum hér og þurfum þá að fylgja þungu málunum eftir, sem og fyrir sjúklingana. Verktaka er holufyllir þar sem læknar stökkva inn á vaktir.“ Verktaka á landsbyggðinni sé því vandamál.

„Heilbrigðisstarfsemi á landsbyggðinni er rekin meira og minna í verktöku.“ Erfitt er að fá fastráðna lækna, sem skilar sér í mikilli vaktabyrði þeirra fastráðnu úti á landi. „Það er vart heillandi fyrir unga lækna,“ segir hún. Hún er á um 15 bakvöktum á mánuði. „Ég fer í útkall ef upp koma bráð veikindi eða slys,“ segir hún og lýsir því hvernig hún mæti svo í vinnu á daginn, jafnvel ósofin.

„Það er ekki eins og einhver geti mætt ef maður vill sofa daginn eftir. Ég tek því fríin mín út eftir á.“ En gengur þetta upp? „Nei,“ svarar hún. „Ég á þrjá mánuði í uppsafnað frí.“ Það vantar fastráðna lækna á heilsugæsluna. „Ég er eini heilsugæslulæknirinn á Vestfjörðum fyrir utan einn sem sinnir Patreksfirði í verktöku í 26 vikur á ári.“

Læknar þekkja almennt lítið til á landsbyggðinni. Það átti líka átt við um hana og því kom henni á óvart hve fjölbreytt starfið er þegar hún flutti vestur.

„Já, algerlega. Ég hélt ég myndi standa ein að starfinu,“ segir hún. „En hér er mikil stoðþjónusta; röntgen á vakt, skurðstofa opin með skurðstofuhjúkrunarfræðingum og rannsóknarstofa. Hér er því heilmikil starfsemi sem þarf að vera, eins og núna þegar er óveður. Við verðum að geta bjargað okkur,“ segir hún.

Vön landsbyggðarlífinu

Súsanna og fjölskylda höfðu ekki tengingu til Ísafjarðar áður en þau fluttu en hún lýsir því hvernig hún hafi búið um allt land í gegnum tíðina og sé vön landsbyggðarlífinu. „Ég held að það sé gott að vera læknir í samfélagi þar sem maður er ekki fæddur og uppalinn,“ segir hún.

„En Vestfirðingar eru fastir í ættfræðinni. Ég slepp fyrir horn þegar ég segi þeim að pabbi minn sé frá Hólmavík,“ segir hún og hlær. Þar fæddist hún og bjó fyrstu árin. Flutti þá á Blönduós, sótti menntun fyrir austan og til Akureyrar, höfuðborgarinnar og Danmerkur. „Maður verður óhræddari við að taka áhættu þegar maður flytur mikið,“ segir hún. Súsanna er komin af sjómönnum í báðar ættir. „Komin af fólki sem setur hausinn undir sig og vinnur,“ segir hún og hlær. „Það hefur komið sér einkar vel þetta árið.“

Hún segir draumi líkast að búa stutt frá vinnu og geta stundað áhugamálin eftir hana; langhlaup og skíði. „Það fer enginn tími í samgöngur. Ég er mínútu í vinnuna og mínútu heim og er alltaf úti að leika ef ég er ekki í vinnunni,“ segir hún og hlær. „Hreyfing er mér mikilvæg og hjálpar við að takast á við álagið í vinnunni.“

En hvernig hefur kófið leikið hugarfarið fyrir vestan? „Vestfirðingar eru bara svo miklir naglar,“ segir Súsanna en nefnir þó að fólk sé orðið þreytt þar eins og annars staðar. „En það er mikil samheldni í samfélaginu. Við pössum öll hvert upp á annað. Vestfirðingar eru örugglega bara vanir að vera einir á báti vegna erfiðra samgangna.“

Vill sjá kennslu fyrir vestan

En hvernig sér hún stofnunina þróast til framtíðar? „Fjarlækningar,“ svarar hún. Þau vinna með Landspítala að þróun fjarheilbrigðisþjónustu. „Það er stór kostur fyrir landsbyggðina að hafa sérgreinalækna sem geta tekið viðtöl um netið, verið jafnvel í hópavinnu í Reykjavík í gegnum fjarfundabúnaðinn,“ segir hún.

„Síðan dreymir mig um að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða geti verið öflugri kennslustofnun. Ég hef unnið að því og síðan ég kom hafa komið hingað kandídatar. Við byggjum upp hægt og rólega,“ segir hún og bendir á að sjaldnast þurfi að senda fólk á Landspítala.

„Sumir vilja ekki fara til Reykjavíkur. Sumir vilja heldur deyja en að fara til Reykjavíkur,“ segir Súsanna og hlær.

En ætlar hún að vera lengi fyrir vestan? „Mig langar að halda áfram að byggja upp staðinn og er opin fyrir nýjungum eins og fjarheilbrigðisþjónustu. Ég vil koma okkur almennilega á kortið fyrir starfið sem hér er unnið – með jákvæðum fréttum.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica