12. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Öldungar. Í árdaga Félags íslenskra lækna í Bretlandi (FÍLB). Gunnar Sigurðsson

Um 1970 var hópur íslenskra lækna í framhaldsnámi í Bretlandi. Þeir fóru þangað í kjölfar góðra kollega, sérstaklega í London og Skotlandi. British National Health Service sem stofnað var eftir síðari heimsstyrjöld var víðfræg og margir vildu líkja eftir henni. Jafnframt voru breskir háskólar mikils metnir og kennsluhættir þeirra víðkunnir, ekki síst í klínískri læknisfræði og rannsóknum.

                                            
                                            Þrír af stofnfélögum Félags íslenskra lækna í Bretlandi sem nú eru látnir,
                                            frá vinstri Helgi Þ. Valdimarsson, Valgarður Egilsson og Matthías Kjeld.

Á Íslandi var heilbrigðisþjónustan í hægfara þróun en hafði marga kosti. Í ljósi þess sem við kynntumst í Bretlandi var þó ljóst að ýmislegt vantaði þar á og margt var vannýtt á Íslandi sem betra skipulag hefði gefið betri þjónustu við sjúklinga og ekki síst til kennslu læknanema og til klínískra rannsókna.

                                                           
                                                             Morgunblaðið 31. janúar 1974: heilsíðugrein frá FÍLB
                                                             um málefni sem brunnu á félagsmönnum en það var
                                                             að koma heilbrigðismálum þjóðarinnar í nútímalegra
                                                             horf.

                                                             Tekið af timarit.is sem er snilldar viðkomustaður á
                                                             netinu, og kostar ekkert!

 

Sjúkrahúsþjónustan í Reykjavík var lítið samhæfð en viss verkaskipting var þó komin á með augndeild á Landakoti, HNE-deild á Borgarspítala og taugalækningadeild á Landspítala. Læknisstöður utan sjúkrahúsa voru á þessum tíma aðallega einyrkjastörf bæði fyrir heimilislækna og sérfræðinga á stofu.

Með þetta í huga töldum við kollegarnir í Bretlandi að full ástæða væri fyrir okkur að stofna FÍLB í ársbyrjun 1972. Megintilgangurinn var að stofna til tjáskipta við íslenska kollega í öðrum löndum og örva upplýsingastreymi milli íslenskra lækna á Bretlandseyjum og Íslands.

Stofnfundur var haldinn 14. mars 1972 í London. Í fyrstu stjórn voru Gunnar Sigurðsson formaður, Helgi Þ. Valdimarsson ritari og Þórður Harðarson gjaldkeri sem síðan varð formaður 1973-1974. Stofnfélagar auk stjórnar: Ársæll Jónsson, Bjarni Þjóðleifsson, Eyjólfur Haraldsson, Gísli Auðunsson, Guðrún Agnarsdóttir, Ingvar Kristjánsson, Matthías Kjeld, Snorri Þorgeirsson, Unnur Pétursdóttir, Valgarður Egilsson.

Félagið varð fullgilt svæðisfélag, fyrst erlendra félaga, á aðalfundi LÍ 1973.

                                            
                                             Páll Sigurðsson læknir og ráðuneytisstjóri og Magnús Kjartansson
                                             (heitinn) heilbrigðisráðherra eru hér fulltrúar Íslands á fundi erlendis.

Helstu baráttumál

Nýstofnað FÍLB lagði áherslu á atriði sem betur mættu fara í íslenskri heilbrigðisþjónustu og ályktaði þar um:

  • Stofnun heilsugæslustöðva í þéttbýli og dreifbýli.
  • Eflingu hálfopinna göngudeilda og rannsóknadeilda.
  • Meiri verkaskiptingu og samhæfingu sjúkrahúsanna í Reykjavík.
  • Stofnun framhaldsnámsdeildar á Íslandi og eflingu vísinda og vísindasjóða.

Félagið samdi álit um frumvarp sem lá fyrir þingi um heilbrigðismál og sendi til LÍ, heilbrigðisráðherra og alþingis. Lögð var áhersla á að heilsugæslustöðvarnar þyrftu að njóta talsverðrar sjálfstjórnar og tryggja þyrfti ítök lækna og heilbrigðisstarfsfólks í stjórnum þeirra. Nánum tengslum þyrfti að koma á milli heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa með gagnkvæmum upplýsingum um sjúklinga svo og heimsóknum sérfræðinga á heilsugæslustöðvar.

Ítarleg álitsgerð um framhaldsnám lækna á Íslandi var send til Læknablaðsins og birtist í 6. hefti 1972.

Ekki urðum við vör við miklar undirtektir eða umræður í kjölfar þessarar álitsgerðar. En fróðlegt er að sjá hvernig þróunin hefur orðið svipuð á síðustu árum eins og þarna var lagt til fyrir nær hálfri öld nema hvað formleg tengsl við háskólann hafa fyrst og fremst náð til vísindaþáttarins.

Bréf til Læknablaðsins um þróun göngudeilda

Á þessum tíma sinntu göngudeildir á Íslandi eftirmeðferð þeirra sjúklinga sem legið höfðu á sjúkrahúsunum og höfðu þannig algera sérstöðu. Slíkar deildir erlendis veittu einnig viðtöku nýjum sjúklingum. Með réttri nýtingu göngudeilda töldum við að mætti stytta biðtíma sjúklinga og fækka óþarfa innlögnum. Þetta væri eitt spor af mörgum til að minnka sjúkrarúmaskortinn sem þá var þegar til staðar.

Við höfðum kynnst því hvernig slíkar deildir voru nýttar til kennslu sem við töldum okkur hafa farið á mis við í náminu á Íslandi. Einnig vildum við benda á hvernig deildirnar væru nýttar til rannsókna og án þeirra ætti háskólasjúkrahús erfitt með að koma sér upp klínískum gagnagrunni.

Tekið var fram að svona deildir ættu einungis að taka á móti sjúklingum sem þangað væri vísað frá deildum spítalanna, heilsugæslulæknum eða öðrum læknum.

Í lok bréfsins hvöttum við læknasamtökin á Íslandi til að taka frumkvæði í málinu ella myndu heilbrigðisyfirvöld knýja fram lausn fyrr en síðar og þá ef til vill á þann hátt að læknar vildu betur hafa gert það sjálfir.

Við áttum von á að Læknablaðið tæki þessu bréfi okkar vel og myndi birta það fljótlega. Þegar ekkert hafði heyrst frá Læknablaðinu í meira en hálft ár var kallað í hirðskáld félagsins, Valgarð Egilsson heitinn, til að yrkja hvatningarvísu til ritstjórans. Vísan er því miður glötuð en lokaljóðlínan var: „Ertu kannski af ætt Loka?“

Þetta virðist hafa hrifið því að afsökunarbréf barst fljótlega frá Læknablaðinu þar sem bréfið sjálft birtist síðar í 3.-4. tbl. 1973 (með afsökunarbeiðni), meira en ári eftir að það var sent til blaðsins.

Fundur í London með Magnúsi Kjartanssyni heilbrigðisráðherra

Töfin á birtingu bréfsins gaf okkur vísbendingu um að við þyrftum að leita annarra leiða til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. FÍLB óskaði því eftir fundi um heilbrigðismál með heilbrigðisráðherra sem þá var Magnús Kjartansson. Það kom okkur á óvart, en ráðherra þáði boðið og fundur var ákveðinn í sendiráði Íslands í London 14. febrúar 1973 hjá Níels P. Sigurðssyni sendiherra.

Þegar ég sótti ráðherrann út á Heath-row-flugvöll á mínum Austin Morris vildi ekki betur til en svo að bíllinn varð bensínlaus á hraðbrautinni inn í London. Ráðherrann bað mig taka þessu rólega og kveikti í sinni frægu pípu meðan ég hljóp meðfram hraðbrautinni eftir bensíndropa.

Fundurinn í sendiráðinu með ráðherra stóð heilan dag. Þar var einnig mættur Páll Sigurðsson læknir og ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu sem ráðherra hafði tekið með sér og við fögnuðum mjög enda Páll rómaður funda- og áhrifamaður.

Á fundinn mættu 11 félagar FÍLB víðsvegar af Bretlandseyjum og voru áðurnefnd áherslumál félagsins kynnt og gerðar tillögur til úrbóta.

Stofnun heilsugæslustöðva í þéttbýli og dreifbýli var brýnasta úrlausnarefnið taldi félagið og fagnaði frumvarpi um þessi mál. Ráðherra og ráðuneytisstjóri voru hlynntir hugmyndum um stofnun göngudeilda sem ásamt eflingu heilsugæslustöðva myndu leiða til þess að einyrkjalækningar heimilislækna og sérfræðinga drægjust saman og samhæfðari þjónusta fengist.

Páll upplýsti að Þórir Helgason sérfræðingur ynni að stofnun opinnar göngudeildar sykursjúkra á Landspítala með stuðningi ráðuneytisins og Samtaka sykursjúkra en hann fékk sína framhaldsmenntun í Skotlandi.

FÍLB taldi brýna nauðsyn á að sjúkrahúsin í Reykjavík yrðu rekin sem heild og komið á meiri verkaskiptingu. Ganga þyrfti mun lengra með stofnun deilda fyrir allar helstu greinar skurð- og lyflækninga sem jafnframt myndu skapa skilyrði til vísindastarfsemi. Kerfi þetta yrði þó að vera sveigjanlegt og gera ráð fyrir að stærstu undirgreinar yrðu stundaðar á fleiri en einu sjúkrahúsanna. Aðstaða til bráðalækninga þyrfti að vera til staðar á öllum sjúkrahúsunum og brýnt að nota þau öll til kennslu.

Ráðherra kvað æskilegt að frumkvæðið kæmi frá læknum en um árabil hefði starfað samstarfsnefnd sjúkrahúsanna en lítill árangur hefði orðið af stofnun hennar.

Örn Bjarnason læknir lýsti námskeiðum í félagslækningum við Edinborgarháskóla en kennsla í læknadeild HÍ í þeim fræðum var nánast engin. Ráðuneytismenn bentu á fjölgun félagsráðgjafa sem yrði mikilvægur hlekkur í heildarþjónustunni.

Að loknum fundi bauð ráðherra til kvöldverðar í karlaklúbbi Níelsar P. Sigurðssonar sendiherra í London. Guðrún Agnarsdóttir var eina konan á fundinum og þurfti að beita brögðum til að smygla henni inn.

„Lofsverður áhugi“

Niðurstöður fundarins voru sendar til Læknablaðsins (7.-8. tbl. 1973). Samhliða birtist ritstjórnargrein: „Lofsverður áhugi“ sem byrjar þannig:

Hin síðustu misseri hefur hópur ungra lækna æ oftar kvatt sér hljóðs í Læknablaðinu og jafnvel í dagblöðum. Er það Félag íslenskra lækna í Bretlandi. Lætur þetta unga fólk sér sýnilega ekkert óviðkomandi er snertir íslensk heilbrigðismál og sendir hverja álitsgerðina af annarri um hin margvíslegustu mál.

Síðan segir:

Vafalaust yppta ýmsir öxlum, jafnvel reyndustu félagsmálakólfar úr læknastétt, er þeir lesa skrif þessa unga fólks, enda séu þessir krakkar að læra í útlöndum og lítt færir um að stjórna heilbrigðismálum á Íslandi. Ritstjórnin telur þó margar hugmyndir hópsins frumlegar og verðar fullrar umhugsunar. Enginn skyldi fussa við þessum eldmóði og umbótahug sem margan fyllti á námsárum og Læknablaðið taki feginshendi framlögum hins unga hóps til líflegrar umræðu í blaðinu og vonar að þau verði til þess að nátttröllin rumski og taki að brýna raustina. (!!!)

FÍLB tók hvatningunni vel og sendi leiðara til Læknablaðsins. Ritstjórnin tók þessu vel en segir:

Enda þótt ritstjórnin teldi sig ekki reiðubúna til að gera öll orð FÍLB að sínum teldu þeir rétt að hvetja með þessu til tímabærrar umræðu um þessi mál.

Í ritstjórnargreininni voru heilbrigðismál reifuð á ný, einkum nýting göngudeilda og samhæfing sjúkrahúsanna (1.-2. tbl. Læknablaðsins. 1974).

Greinin kom í kjölfar opins bréfs til heilbrigðisráðherra frá FÍLB í Morgunblaðinu 31. janúar 1974: „Nýting sjúkrahúsanna“. Páll ráðuneytisstjóri svaraði í Morgunblaðinu. 13. mars 1974 og sagði að ráðuneytið hefði hug á opnun og eflingu göngudeilda og að ekki væri hægt að rekja núverandi ástand í göngudeildamálum sjúkrahúsanna til annars en stefnumörkunar læknasamtakana og skoðana þeirra lækna sem um málið hafi fjallað á hverjum tíma.

Í ritstjórnargrein Læknablaðsins 3.-4. tbl. 1974 telur ritstjórn gagnrýni FÍLB og Páls Sigurðssonar óréttmæta í ljósi nýlegra samþykkta aðalfundar LÍ 1973 um göngudeildir. Þar segir að stefna beri að því að sem mest af heilbrigðismálum fólksins verði leyst utan sjúkrahúsa og utan göngudeilda svo lengi sem hægt sé að sýna fram á að sú þjónusta sé ekki lakari en á sjúkrahúsum og göngudeildum þeirra. Einnig vildi ritstjóri Læknablaðsins kenna löngum byggingartíma íslenskra sjúkrahúsa um stöðu mála á Íslandi.

Lýkur þar með þessari umræðu í árdaga FÍLB en félagið ályktaði um ýmis önnur mál sem lesa má um í Læknablaðinu og Morgunblaðinu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica