12. tbl. 105. árg. 2019

Ritstjórnargrein

Heilsa þjóðar í efnahagsmælingum

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir Prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands

doi: 10.17992/lbl.2019.12.259

Mælikvarðar á borð við landsframleiðslu eru algengir til að meta almenna velferð í samfélögum. Þó ber að líta á slíka mælikvarða sem grófa leiðbeiningu sem metur verðmæti þess sem í samfélaginu er framleitt og neytt. Það sem fellur sjálfkrafa inn í þennan tiltekna mælikvarða – landsframleiðslu – eru hlutir sem við eigum formleg viðskipti með. Margvísleg verðmæti sem geta skipt okkur töluverðu máli falla utan þessa tiltekna kvarða sem og margra annara sem nýttir eru til að átta sig á stærðum og verðmætum í samfélaginu. Valið á aðferð skýrist oft af því hversu aðgengilegar slíkar mælingar eru, frekar en hversu nákvæmar þær eru. Það getur til dæmis verið svo að augljóslega óæskilegir þættir í samfélaginu hafi jákvæð áhrif á landsframleiðslu. Klassískt dæmi væri mikil eyðilegging á innviðum vegna náttúruhamfara sem í framhaldinu þarf að endurbyggja. Uppbyggingin eykur landsframleiðslu, þó hverjum manni sé ljóst að eyðileggingin var ekki til bóta. Vegna þessa fer mikið púður innan hagfræðinnar í að meta margvíslega þætti sem ekki hafa á sér augljósan verðmiða til að hægt sé að taka tillit til þeirra þegar skoða á hvernig fólki farnast. Margvísleg mælitæki eru til sem leiðrétta mælingar á þjóðarhag (fyrir áhugasama má benda á GPI (Genuine Progress Indicator) sem eitt dæmi um aðlagaða þjóðhagsreikninga).

Nýlega stigu íslensk yfirvöld ákveðin skref í þá átt að útbúa víðtækari mælikvarða fyrir velferð í samfélaginu en þjóðarframleiðsla ein og sér veitir okkur og skipuðu nefnd um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði.1 Til að ná markmiðum um aukna velsæld í víðu samhengi er þó ekki nóg að mæla slíkt fyrir samfélagið í heild. Fyrst og fremst þarf að huga að og meta fórnir og ávinning með sama hætti þegar einstakar ákvarðanir eru teknar af yfirvöldum. Í hvert skipti sem við veltum mögulegum ákvörðunum fyrir okkur er þannig gagnlegt að meta og bera saman þann ávinning sem næst og þær fórnir sem þarf að færa. Til að hámarka gæði, verðum við að forðast að fórna meiri gæðum fyrir minni. Með sama hætti og það er vandasamt að taka óáþreifanleg gæði til greina í þjóðhagsreikningum er slíkt einnig flókið þegar takast þarf á við mat á einstökum ákvörðunum. Í báðum tilfellum er mælivandinn töluverður þegar kemur að heilsu, enda felst megnið af ávinningi af íhlutunum á því sviði í bættri líðan og minni þjáningum. Vissulega skiptir það máli ef einstaklingur hlýtur bót meina sinna að framleiðslugeta hans eykst hugsanlega og að heilbrigðiskostnaður til lengri tíma dregst saman. Þetta eru þó oft smámunir miðað við virði þeirrar heilsutengdu lífsgæða sem einstaklingurinn sjálfur öðlaðist. Þá er spurningin hvort og hvernig hægt sé að meta virði heilsunnar og taka með í reikninginn við hagkvæmnismat íhlutana. Heilsa er flestum mikilvæg en er þó ekki það eina sem veitir fólki velferð. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að markmiðið sé einungis að samfélagsþegnarnir séu sem hraustastir og ekki er alltaf víst að áunnin heilsa sé fórnanna virði.

Ég stýri alþjóðlegu rannsóknarteymi sem hefur það einmitt að markmiði að meta virði óáþreifanlegra gæða og hefur heilsa verið ofarlega á dagskrá hópsins. Við nýtum helst svokallaða tekjuuppbótaraðferð (Compensating income variation) og ber hópurinn yfirskriftina ConCIV (Consortium on Compensating Income variation) eða „Teymi um tekjuuppbót“ á íslensku.2 Nýjasta rannsókn hópsins birtist til dæmis í tímaritinu Economics & Human Biology og fjallar um virði þess að þurfa ekki að þola sársauka.3 Áhugasömum um aðferðina er bent á vefsíðu rannsóknarteymisins.2

Vissulega er allt mat á borð við það sem hér er lýst flókið og vandasamt. En markmiðið hlýtur að vera að reyna sem best við getum að mæla það sem máli skiptir frekar en að nýta þær mælingar sem við eigum vegna einfaldleika þeirra. Mikilvægi óáþreifanlegra gæða sem verða til í heilbrigðiskerfinu eru svo afgerandi að sá vandi sem verður í hagkvæmnisútreikningum ef slíkt er ekki tekið til greina getur verið gríðarlegur. Heilbrigðiskerfið er fyrirferðarmikill hluti hagkerfisins. Þar starfar fólk sem leggur metnað sinn í að vinna í samræmi við bestu gagnreyndu þekkingu sem til er hverju sinni. Það skýtur því skökku við ef ákvarðanir um hvert auðlindum innan kerfisins er beint byggir ekki með sama hætti á bestu upplýsingum, heldur með tilviljanakenndum hætti á brjóstvitinu, áhrifamætti hagsmunaafla og getgátum. Þess vegna er mikilvægt að leita allra leiða til að magnbinda þær fórnir og þann ávinning sem íhlutanir innan kerfisins valda.

Heimildir

1. Stjórnarráð Íslands, stjornarradid.is/raduneyti/nefndir/nanar-um-nefnd/?itemid=6e9595c5-88ee-11e8-942c-005056bc530c - nóvember 2019.
 
2. Háskóli Íslands, english.hi.is/faculty_of_economics/conciv - nóvember 2019.  
 
3. Ólafsdóttir Þ, Ásgeirsdóttir TL, Norton EC. Valuing Pain using the Subjective Well-being Method. Economics & Human Biology 2019; 100827
https://doi.org/10.1016/j.ehb.2019.100827
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica