05. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Gott að vinna sem læknir úti á landi, segir Jón H.H. Sen skurðlæknir á umdæmissjúkrahúsi Austurlands í Neskaupstað

                                         
                                          Heilbrigðisstofnun Austurlands sinnir heilbrigðisþjónustu á Austurlandi
                                          á 16.000 ferkílómetra svæði, allt frá Bakkafirði til Álftafjarðar, frá
                                          hálendi til strandar. Íbúar á Austurlandi eru um 11.000. Á myndinni er
                                          spítalinn í Norðfirði sem Ormar Þór Guðmundsson og Örnólfur Hall
                                          teiknuðu. Ljósmynd: Hallgrímur Axel Tulinius.

„Ég ætlaði ekki alltaf að verða læknir, ég hafði gríðarlegan áhuga á flugi og ætlaði að verða flugmaður. Ég lærði að fljúga svifflugum þegar ég var 16 ára og stundaði það í nokkur ár. Ég var síðan byrjaður að læra að fljúga til að taka einkaflugmannspróf þegar fór að líða að lokum menntaskólans. Ég hafði hins vegar líka mikinn áhuga á læknisfræði og sérstaklega skurðlækningum sem mér fannst og finnst enn vera spennandi sérgrein. Á þessum tíma voru atvinnuhorfur fyrir flugmenn dökkar, og það varð til þess að ég hætti flugnáminu og skellti mér í læknisfræðina í staðinn, með það að markmiði að verða skurðlæknir þegar ég yrði stór,“ segir Jón H.H. Sen, forstöðulæknir og sérfræðingur í almennum skurðlækningum á umdæmissjúkrahúsi Austurlands í Neskaupstað þegar hann var spurður um starfsáform í æsku.

                                            
                                             Jón stundar hestamennsku með fjölskyldunni. Þau eiga hesthús í
                                            Hlíðarþúfum í Hafnarfirði. Hér er hann með Loka sínum en þeir eru mjög
                                            góðir félagar. Ljósmynd/einkasafn

Pabbi frá Kína

Jón er fæddur í Reykjavík 1966 og uppalinn í Hlíðunum. Foreldrar hans eru Björg Jónasdóttir Sen og Jón Sen og er hann yngstur fjögurra systkina. „Mamma var íslensk, en pabbi er fæddur í Kína og ólst þar upp fyrstu 13 árin. Sagan á bak við það er sú að Oddný Erlendsdóttir amma mín fór til Edinborgar í enskunám rétt fyrir upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar og kynntist þar og giftist afa mínum, Kwei Ting Sen, sem var þar að læra sálfræði. Þau eignuðust einn son þar, Erlend, en hann dó úr hundaæði. Eftir að stríðinu lauk fluttist amma með honum til Kína með stuttri viðkomu á Íslandi og þau eignuðust pabba og systur hans. Þegar líða fór á fjórða áratuginn jókst ófriðurinn milli Japana og Kínverja, og þegar Japanar gerðu innrás í Kína árið 1937 fékk amma nóg og ákvað að flytja aftur heim með börnin,“ segir Jón.

Systkini Jóns eru Þóra, fyrrverandi flugfreyja og skrifstofustjóri Flugfreyjufélags Íslands, Oddný kvikmyndafræðingur og Jónas píanóleikari, kennari og tónlistargagnrýnandi. Jón er giftur Gunni Sif Sigurgeirsdóttur, myndlistarmanni og hundaræktanda, og eiga þau 5 börn.

„Starfsstúlka“ á slysadeildinni

Jón rifjar upp skólagöngu sína. Hann gekk í Hlíðaskóla og svo áfram upp eftir Hamrahlíðinni í MH og hóf nám við læknadeild HÍ 1986. „Ég vann að sjálfsögðu á sumrin meðan á læknanáminu stóð. Fyrstu tvö sumrin á slysadeildinni sem „starfsstúlka“, sem var rótgróið kvennastarf og engin fordæmi fyrir því að karlmenn væru í slíkum störfum. Við vorum reyndar tveir félagar sem fórum í þetta, ég og Sigurður Böðvarsson, og brutum ísinn. Það var gaman að vera ferskur læknanemi á Slysó og mikið sem ég lærði á þessum tíma. Ég vann mig svo upp í að vinna við hjúkrun á Slysó eftir þriðja árið og eftir fimmta árið sem aðstoðarlæknir. Eftir annað árið í læknadeildinni fórum við Hlynur Níels Grímsson sem skiptinemar til Ísrael í einn mánuð, nánar tiltekið á Chaim Sheba Medical Center í Tel Hashomer, sem var mikil upplifun.“

Jón hefur eins og flestir aðrir læknar starfað víða. Áður en hann hóf kandídatsárið 1993 vann hann í nokkra mánuði úti á landi, á Húsavík og á Hólmavík. Hann kláraði svo kandídats-árið á Landspítala og fékk stöðu á skurðdeildinni í ársbyrjun 1995 fram á haust 1996, en þá flutti fjölskyldan með tvö lítil börn til Noregs, til Haugasunds á suðvesturströndinni. Þau bjuggu þar fram til ársins 2000 og fluttu þá um set til Stafangurs svo Jón gæti klárað sérnámið sitt í meltingarskurðlækningum.

Fjölskyldan býr í Hafnarfirði

Jón segir að stefnan hafði alltaf verið að flytja aftur til Íslands og fyrir tilviljun bauðst honum starf á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, sem nú heitir umdæmissjúkrahús Austurlands (FSN) snemma árs 2002. „Við höfðum engin tengsl við Austfirðinga og höfðum aldrei komið til Neskaupstaðar en ákváðum að láta slag standa, og ég tók við stöðu skurðlæknis. Við ætluðum okkur ekki að vera þar nema kannski tvö ár, en okkur líkaði vel og árin urðu 7,“ segir Jón, sem starfar enn á FSN en fjölskyldan býr í Hafnarfirði. „Ég er þó ekki í 100% vinnu þar, er í hlutfalli sem gerir mér kleift að vinna þannig að ég fer austur í ákveðinn tíma og á síðan góð frí inni á milli og get verið heima með fjölskyldunni. Mér finnst þetta gott fyrirkomulag með góðu jafnvægi milli vinnu og frítíma,“ segir Jón.

                                            
                                             Jón og Gunnur með börnunum sínum í útlöndum sólbrún og sæl, frá
                                            vinstri: Dagbjört Ósk 9 ára, Sædís Embla 17 ára, Helgi Freyr 26 ára og
                                            Snæfríður Björg 23 ára. Ljósmynd/einkasafn

Átta heilsugæslustöðvar

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) rekur heilsugæslustöðvar á Djúpavogi, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Eskifirði, Egilsstöðum, Seyðisfirði og Vopnafirði. Í Neskaupstað er svo sjúkrahúsið ásamt heilsugæslu í sömu byggingu. Þar er hjúkrunardeild og endurhæfingardeild og stoðdeildir, röntgendeild með CT og rannsóknastofa. Einnig er sjúkra- og iðjuþjálfun fyrir inniliggjandi og göngudeildarsjúklinga. Á FSN er eina fæðingardeild Austurlands og aðgengi að skurðstofu allan sólarhringinn með skurð- og svæfingalækni. „Við náum að sinna hlutverki okkar sem fæðingarstofnun vel og það hefur verið mikil ánægja með þjónustu fæðingardeildarinnar. Það er metið í samvinnu við fæðingarlæknana á Sjúkrahúsinu á Akureyri hvaða konum sé óhætt að fæða hjá okkur og hverjar ættu að fæða á stærri stofnun. Um 2/3 barna Austfirðinga fæðast á FSN,“ segir Jón.

Öryggiskeðja Austfirðinga

Jón segir að hlutverk FSN sé einnig að vera bráðasjúkrahús fyrir fjórðunginn. „Já, við tökum við flestum þeim vandamálum sem upp koma, en í sumum tilfellum þurfum við að senda sjúklinga á stærri spítala, þá oftast Landspítala, eftir að búið að er sjúkdómsgreina og veita fyrstu meðferð hjá okkur. Öll beinbrot sem þarf að gera við á skurðstofu eru þó send til Akureyrar, þar sem gert er við brotin og ef sjúkingar þurfa á frekari innlögn og endurhæfingu að halda koma þeir aftur til okkar að aðgerð lokinni. Mér finnst við sinna okkar hlutverki vel og sjúkrahúsið er mikilvægur þáttur í öryggiskeðju Austfirðinga.“ Í þessu sambandi rifjar Jón upp blaðagrein læknis sem lýsti þeirri skoðun sinni að það væri ekki hægt að reka sjúkrahús úti á landi. Ástæðan var sú að læknismeðferð væri orðin svo sérhæfð og flókin að minni sjúkrahús en Landspítali hefðu ekki bolmagn til að veita hana. „Þessu er ég hjartanlega ósammála. Algengustu læknisfræðilegu innlagnar-ástæðurnar hjá okkur eru að aldraðir fá lungnabólgu, að það fjara undan öldruðum á heimili þeirra og þar fram eftir götunum. Þetta krefst ekki flókinna meðferða á hátæknisjúkrahúsi. Lítil sjúkrahús geta líka náð mjög góðum árangri í að veita meðferð við algengum vandamálum sem krefjast ekki flókinna lausna. Mér finnst að íbúar á landsbyggðinni eigi líka rétt á því að fá að koma í heiminn og kveðja hann í sínu nærumhverfi í stað þess að vera sendir landshluta á milli fjarri ættingjum, og einnig að fá þá heilbrigðisþjónustu sem unnt er að veita þar, en auðvitað þarf stundum að leita annað eftir sérhæfðri þjónustu,“ segir Jón. Hann vonar innilega að ráðamenn beri skynsemi til að halda áfram sjúkrahúsrekstri á stöðum eins og Neskaupstað og Ísafirði því lífsgæði íbúanna myndu skerðast verulega ef þeim yrði lokað. Á FSN er veitt göngudeildarþjónusta í ýmsum sérgreinum, gerðar valaðgerðir sem eru aðallega dagaðgerðir og gerðar maga- og ristlispeglanir. „Með þessu spörum við íbúum og Sjúkratryggingum Íslands nokkur hundruð ferðir út fyrir landshlutann á hverju ári,” segir Jón.

350 manna vinnustaður

Samtals vinna um 350 manns hjá HSA, þar af um 120 á FSN. Þegar Jón er spurður hvernig gangi að manna stöður fagfólks úti á landi kemur fram að tilhneigingin hefur verið sú að læknar á Íslandi vilja helst halda sig á höfuðborgarsvæðinu. „Eins og staðan hjá okkur er í dag eru aðeins þrír af læknunum okkar búsettir í Neskaupstað, svæfingalæknir, aðstoðarlæknir og barnalæknir. Ég er sjálfur í hlutastarfi með búsetu í bænum og annar skurðlæknir í hlutastarfi býr í Noregi. Eini fastráðni lyflæknirinn er í hlutastarfi og býr í Svíþjóð. Á móti kemur að við erum með stóran hóp af tryggum afleysingalæknum með ýmsar sérgreinar sem koma til okkar reglulega og fylla í eyðurnar þar sem vantar að manna, og gera það að verkum að þjónustan sem veitt er á FSN er að mörgu leyti fjölbreyttari en ella. Einnig fáum við til okkar talsvert af yngri læknum og læknanemum. Við fáum svo líka heimsóknir reglulega. Þá koma þvagfæraskurðlæknir, kvensjúkdómalæknir, háls-, nef- og eyrnalæknir, hjartalæknir og augnlæknir,” segir Jón og bætir við að það séu allir tilbúnir til að hjálpast að við að láta hlutina ganga, andinn á FSN sé góður og þar sé gott að vinna.

Gott að vinna sem læknir úti á landi

Jón segist vera alsæll í sínu starfi á Austurlandi, honum líki vel að vinna sem læknir úti á landi. „Já, það er ekki spurning, samfélagið er lítið og maður kynnist skjólstæðingum sínum á annan hátt. Mér líkar vel að vera stórt tannhjól í lítilli maskínu frekar en öfugt. Tempóið í sveitinni er líka allt annað og afslappaðra en í bænum. Ég efast um að ég myndi vilja skipta þessu starfi fyrir eitthvað annað, að minnsta kosti ekki úr þessu.”

Draumaland skotveiðimannsins

Spurður um helstu áhugamál hans er ekki komið að tómum kofanum. „Ég á ýmis áhugamál. Helsta ástríðan eru skotveiðar, hef stundað þær síðan ég var ungur. Ein af ástæðunum fyrir því að mér líkar svo vel að vinna fyrir austan er sú að þar er draumaland skotveiðimannsins. Ég á velviljaða bændur í Norðfjarðarsveit sem gera mér kleift að komast á gæsaveiðar án þess að þurfa að fara langt frá Neskaupstað, sem er sérstaklega hentugt þegar ég er alltaf á bakvakt. Mér finnst líka gaman að hreyfa mig, hleyp og hjóla og er með svart belti í karate. Ég stunda hestamennsku með Gunni konunni minni og dætrum, auk þess sem og við erum með fjóra hunda á heimilinu,” segir skurðlæknirinn.Þetta vefsvæði byggir á Eplica