02. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Bólusetningar heilbrigðisstarfsmanna undir viðmiðunarmörkum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar

                               

                                                                               
                                                                    Páll Matthíasson,        Þórólfur Guðnason,
                                                                    forstjóri                        sóttvarnalæknir
                                                                    Landspítala
                 hjá Embætti
                                                                                                         landlæknis.

Bólusetningarhlutfall starfsmanna Landspítala er undir viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. 63% starfsfólks voru bólusett gegn inflúensu árið 2017 en stofnunin vill sjá yfir 75% hlutfall. Þetta kom fram í fyrirlestri Helenu X. Jóhannsdóttur, 4. árs læknanema við læknadeild Háskóla Íslands, á 19. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands í upphafi árs. Embætti landlæknis mælist til þess að heilbrigðisstarfsfólk sé bólusett árlega. Forstjóri Landspítala segir þetta hlutfall hafa hækkað og standi nú í 70% að meðaltali.

                                        
                                         Þótt bólusetningar starfsmanna Landspítala fari vaxandi eru þær enn
                                         sagðar undir viðmiðunarmörkum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
                                         Helena X. Jóhannsdóttir hjá læknadeild Háskóla Íslands. Mynd/gag

                                          

„Það er ekki nákvæmlega vitað hvað veldur því að fólk fer ekki í þessar sprautur,“ sagði Helena við fyrirspurn úr sal, en nú stæði yfir rannsókn á ástæðum þess að fólk þiggi ekki bólusetningar gegn inflúensu á spítalanum. Með aukinni þátttöku starfsmanna mætti líklega hindra smit til sjúklinga og draga úr útbreiðslu inflúensu á Landspítala.

Helena sýndi hvernig bólusetningum hefur fjölgað undanfarin ár. Þær hafi þó aldrei verið fleiri en árið 2009, þegar 81% starfsmanna Landspítala þáðu bólusetninguna. „Svínaflensa var ástæðan og óttinn við hana,“ sagði Helena.

Bólusetningar náðu þó ekki 50% næstu 5 ár á eftir og sýndi rannsókn Helenu, sem hún vann undir handleiðslu Ásgeirs Haraldssonar, Valtýs S. Thors, Áslaugar S. Grétarsdóttur og Ýmis Óskarssonar, að þær voru aðeins 30% árið 2010. Sagði Helena að starfsmenn skurðsviðs stæðu sig verst hvað þetta snerti.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hjá Embætti landlæknis, segir embættið ætla stofnunum að tryggja að starfsmenn séu fullbólusettir gegn barnaveiki, stífkrampa, kíghósta, mænusótt, mislingum, hettusótt, rauðum hundum, lifrarbólgu B og pneumókokkasýkingum. Embættið mælist einnig til árlegrar bólusetningar gegn inflúensu og greiði fyrir hana.

„Það er erfitt að fullyrða um hvort 63% bólusetning starfmanna sé vandamál. Til að svara því þyrfti að greina betur hvaða starfsmenn voru bólusettir, hverjir ekki og um hvaða bólusetningar er að ræða. Almenn bólusetning upp á 63% er hreint ekki svo slæmt þótt það nái ekki viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO,“ svarar Þórólfur fyrirspurn blaðsins.

„Almennt má segja að lág þátttaka heilbrigðisstarfsmanna í bólusetningu geti skapað hættu fyrir starfsmanninn sjálfan og eins fyrir sjúklinga þeirra,“ segir hann. Embættið sendi í desember dreifibréf sem áréttaði þetta.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir inflúensubólusetningu starfsmanna mjög mikilvægan þátt í sýklavörnum Landspítala, en ekki þann eina. „Undanfarin ár hefur náðst töluverður árangur í bólusetningum og þátttakan legið í um 70% að meðaltali. Mjög margar klínískar einingar hafa náð yfir 90% og nokkrar 100%. Það er því ekki skoðun okkar að inflúensubólusetningarhlutfall Landspítala sé lágt, en það er hins vegar alveg ljóst að æskilegra er að þátttakan sé almennt ennþá betri og markmið spítalans náist.“ Hann segir starfsmannaheilsuvernd Landspítala og sýkingarvarnardeild ásamt fleirum hafa unnið markvisst að umbótum á þessu sviði og sú vinna hafi skilað árangri.

Markmið rannsóknarinnar var annars vegar að kanna þátttöku starfsmanna Landspítala í inflúensubólusetningum og einnig að meta afstöðu starfsmanna og nema á Landspítala til þeirra, en bólusetningar hafa dregið verulega úr dauðsföllum af völdum smitsjúkdóma í heiminum.

Samkvæmt rannsókninni eru tæp 89% sammála því að bólusetning veiti vörn gegn inflúensu, 72,5% telja hana betri en að fá náttúrulega sýkingu og eru rúm 87% sammála því að bólusetning hindri útbreiðslu inflúensu. Þá telur tæpt 91% hana minnka áhættu á að smita sjúklinga. Þá eru rúm 73% ósammála því að óttast aukaverkanir bólusetninga.

Helena sagði að borið hefði á því hér áður að bólusetningar starfsmanna hefðu ekki verið skráðar. „Það skekkir aðeins niðurstöðurnar. En síðustu ár hefur skráningin verið bætt og fólk skráir þetta í sameiginlegt skjal,“ sagði hún.

Páll bendir á að bólusetning sé ekki eina leiðin til að verjast smiti, því sé áskorun að fyrirbyggja flensusmit á hverjum vetri. Allar færar leiðir séu nýttar.

„Við bólusetjum sjúklinga og starfsmenn, tökum sýni ef minnsti grunur er um flensu og einangrum strax, gefum Tamiflu í meðferðarskyni og jafnvel í fyrirbyggjandi skyni, þrífum og biðjum aðstandendur með flensueinkenni um að koma ekki í heimsókn,“ nefnir hann: „Með því að samþætta þessar aðgerðir náum við bestum árangri.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica