12. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Vetur í bæ

Hraun í Öxnadal, fæðingarstaður Jónasar Hallgrímssonar, þar sem nú er Jónasarsetur, hvílir undir Hraundranga í vetrarklæðum eins og reyndar landið allt þessa dagana.

Jörðin er fólkvangur í eigu íslenska ríkisins og má nefna að hressileg ganga er upp að Hraunsvatni sem er í hvilft handan fellsins sem Hraun stendur undir. Þar er silungsveiði góð og kostar ekkert þeim sem leggja gönguna á sig.

Fæðingardagur Jónasar, 16. nóvember, er haldinn hátíðlegur sem Dagur íslenskrar tungu og er ekki hallað á neinn þó Jónasi sé gerður sá heiður. Hann var mestur orðsnillingur sem þjóðin hefur átt og væri íslensk tunga mun fátækari ef nýyrðasmíði hans hefði ekki notið við á sviði skáldskapar, náttúrufræða og vísinda af ýmsu tagi.

Meðal nýyrða Jónasar á sviði stjörnu- og eðlisfræði má nefna aðdráttarafl, breiðbogi, fallbyssa, fjaðurmagnaður, fleygbogi, hengill, hitabelti, hvolfspegill, jarðnánd, kuldabelti, láréttur, líkindareikningur, ljósvaki, lofthaf, miðflóttaafl, rafurmagn, sjónauki, sólbraut, sporbaugur, staðvindar, stjörnuhús og verkstofa. Eru þá ótalin fjölmörg önnur nýyrði í skáldskap Jónasar sem fest hafa í tungumálinu og eru svo tær og gagnsæ að hvert mannsbarn skilur þau við fyrstu sýn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica