11. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Af starfstitlum lækna. Agnar H. Andrésson

Vandasamt getur verið að skilja starfstitla lækna, einkum fyrir þá sem ekki eru heilbrigðismenntaðir. Sumir titlar eiga við, aðrir eru óviðeigandi og sumir jafnvel samrýmast ekki lögum. Almennt má sá kalla sig lækni hér á landi sem hefur fengið leyfi landlæknis til þess.

Læknanemar hafa lengi verið ráðnir til starfa lækna, með tímabundnu lækningaleyfi, og verið kallaðir aðstoðarlæknar. Það starfsheiti hefur enga sérstaka merkingu og alls ekki víst að aðrir viti að um læknanema sé að ræða. Nú hefur landlæknir breytt því vinnulagi og fá bæði læknanemar og kandídatar svokallað tímabundið starfsleyfi, en ekki lækningaleyfi. Mikilvægt er að læknanemar sem hafa tímabundið starfsleyfi kynni sig ekki sem lækna heldur fremur sem læknanema. Með því fyrirbyggja læknanemar misskilning og forðast þannig vandamál sem gætu komið upp af þeim sökum. Læknakandídatar fá, eins og læknanemar, tímabundið starfsleyfi landlæknis en ekki lækningaleyfi og hafa því ekki heimild til að kalla sig lækni samkvæmt lögum og reglugerðum. Það eru ákveðin forréttindi að geta kallast kandídat en að því ári liðnu verður aldrei aftur hægt að bera þann titil og svekkjandi að missa af því eftir að hafa flýtt sér að taka sér starfstitilinn læknir of snemma.

Fyrir 8 árum síðan breytti þáverandi Félag ungra lækna nafni sínu í Félag almennra lækna (FAL). Unglæknir er enn talsvert notað en það gætir oft misskilnings í því sambandi og einhverjir telja að um læknanema eða kandídata sé að ræða. Stærstu alþjóðlegu sambönd lækna nota hugtakið „junior doctor“ fyrir almenna lækna eins og við þekkjum það. Nokkurrar óánægju gætir með þá nafngift, sem telst bæði ruglandi og lítillækkandi, enda eru margir læknar sem bera þann titill með langa starfsreynslu sem útskrifaðir læknar. Sem dæmi eru Bretar að reyna að vinda ofan af þeim titli og vilja taka upp aðra sem eru í samræmi við þá virðingu sem læknar eiga skilið. Læknir sem starfar í sérnámi er oft kallaður námslæknir en það kann að vera að fólk ruglist á því og læknanemum, en sérnámslæknir er frekar heppilegra orðalag í því sambandi. Einfaldast og öruggast er þó að kalla lækna lækna.

Sérfræðilæknar hafa hlutina í fastari skorðum heldur en yngri kollegar þeirra. Starfstitillinn sérfræðingur segir þó ákaflega lítið, einkum þegar nánast annar hver vinnandi maður á hinum almenna vinnumarkaði ber þann titil. Sérfræðilæknar eiga skilið meiri virðingu og er sjálfsagt best að þeir kynni sig með sínum sérgreinum, svo sem hjartalæknir eða sérfræðingur í hjartalækningum. Það ætti enginn að vera í vafa um hvað þeir læknar fást við.

Verst er þegar þeir sem kalla sig lækna eru í raun skottulæknar. Lítið eða ómenntað fólk sem kemst upp með að sveipa starfsemi sína trausti og trúverðugleika og ginna sjúklinga til að þiggja læknisþjónustu sem er í besta falli skaðlaust plat. Læknar ættu að standa betri vörð um starfsheiti sitt og tryggja að aðeins læknar geti kallað sig lækna.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica