09. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

SÁÁ fagnar fertugsafmæli

                 
Loftmynd af framkvæmdunum í Vík á Kjalarnesi eins og þær voru á þjóðhátíðardaginn í sumar. Ljósmynd af heimasíðu SÁÁ

Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann hafa nú starfað óslitið í 40 ár og meðhöndlað á þriðja tug þúsunda Íslendinga og fólk af öðru þjóðerni. Segja má að samtökin hafi með starfi sínu sýnt þjóðinni fram á að fíknsjúkdómar séu ekki ólæknanlegir eins og löngum var talið. Og eins og vera ber á afmælisári er heilmikið að gerast á vettvangi samtakanna.

Myndin hér að ofan var tekin í sumar af framkvæmdum sem nú eru á lokastigi í Vík á Kjalarnesi. Þar var lítil eftirmeðferðarstöð fyrir konur í tveimur húsum en nú er búið að bæta við þau eins og sjá má. Áætlað er að konurnar geti tekið upp þráðinn nú í september en í afmælis-mánuðinum, október, verða nýbyggingarnar teknar í notkun ein af annarri. Þegar allt verður komið á sinn stað er ætlunin að húsið leysi Staðarfell í Dölum af hólmi en þar hefur verið veitt eftirmeðferð um langt árabil.

SÁÁ var stofnað eftir fjölmennan borgarafund í Háskólabíói 1. október 1977 og verður haldið upp á afmælið með því að endurtaka þann fund á sama stað að kvöldi afmælisdagsins. Áfram verður fagnað með ráðstefnu dagana 2.-4. október á Hótel Hilton Nordica. Þangað er boðið mörgum af áhrifamestu læknum og sérfræðingum heims á sviði fíknlækninga og erfðafræði. Nægir að nefna bandarísku læknana Nora D. Volkow, Patrick G. O'Connor, David R. Gastfriend, Andrew H. Talal og fleiri, Finnann Kaarlo Simojoki og að sjálfsögðu Þórarin Tyrfingsson sem stýrði meðferðarstarfinu á Vogi frá upphafi fram í maí á þessu ári.

Að sögn Valgerðar Rúnarsdóttur læknis og forstjóra Sjúkrahússins Vogs verða ekki fluttir langir fyrirlestrar á ráðstefnunni heldur stefnt að því að koma á samræðum sérfræðinga og þjóðarinnar um þann vanda sem SÁÁ hefur glímt við í fjóra áratugi með góðum árangri.Þetta vefsvæði byggir á Eplica