09. tbl. 103. árg. 2017
Umræða og fréttir
Dr. Guðrún Nína Óskarsdóttir varði doktorsritgerð sína 2. júní 2017 - 29 ára doktor frá Selfossi
Föstudagurinn 2. júní 2017 verður eflaust lengi í minnum hafður hjá Dr. Guðrúnu Nínu Óskarsdóttur lækni sem þann dag varði doktorsritgerð sína við læknadeild HÍ í líf- og læknavísindum. Ritgerðin hennar fjallar um árangur skurðaðgerða við lungnakrabbameini og byggir á fjórum vísindagreinum sem hafa verið birtar í virtum alþjóðlegum vísindaritum. Niðurstöðurnar eru mjög jákvæðar þar sem árangur þessara aðgerða er mjög góður á Íslandi og fer batnandi. Guðrún stóð sig vel í vörninni en andmælendur voru prófessor Joachim Pfannschmidt frá Berlín og Sif Hansdóttir frá Landspítalanum. Tómas Guðbjartsson prófessor í skurðlæknisfræði var umsjónarkennari hennar og aðalleiðbeinandi.
Guðrún Nína og Árni með fjölskyldu Guðrúnar eftir doktorsvörnina 2. júní. Foreldrar hennar eru þau Óskar Sesar Reykdalsson læknir og Bryndís Guðjónsdóttir framhaldsskólakennari. Systur Guðrúnar, þær Sigríður Erla og Margrét Dís eru læknar og bróðirinn í hópnum, Guðjón Reykdal, er með meistarapróf í lyfjafræði. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson.
Læknahjónin Guðrún Nína Óskarsdóttir og Árni Sæmundsson með strákana sína tvo, þá Guðjón Steinar og Sæmund Óskar. Ljósmynd/Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Selfyssingur í húð og hár
Guðrún Nína er uppalin á Selfossi. Foreldrar hennar eru Óskar Reykdalsson læknir og Bryndís Guðjónsdóttir framhaldsskólakennari á Selfossi. Systur hennar tvær eru líka læknar, Sigríður Erla er augnlæknir í Lundi í Svíþjóð og Margrét er barnataugalæknir í Reykjavík. Bróðir hennar, Guðjón Reykdal, er með meistarapróf í lyfjafræði og er nú að vinna við rannsóknir hjá DeCode genetics á Íslandi. Guðrún Nína er 29 ára, fædd 27. október 1987. Maður hennar er Árni Sæmundsson sérnámslæknir í þvagfæraskurðlækningum í Malmö. Börnin þeirra heita Guðjón Steinar, 6 ára, og Sæmundur Óskar, 3 ára. Fjölskyldan býr í Lundi í Svíþjóð. Guðrún Nína var í grunn- og framhaldsskóla á Selfossi en flutti til Reykjavíkur og síðan til Svíþjóðar eftir það. Hún er núna í sérnámi í lungnalækningum við Skånes Universitetssjukhus í Lundi í Svíþjóð en hún ætlar sér að klára sérnámið þar og halda áfram rannsóknum á lungnakrabbameinum.
Alltaf haft áhuga á lungum
Nafnið á doktorsverkefni Guðrúnar Nínu er „Árangur skurðaðgerða við lungnakrabbameini á Íslandi – lífshorfur hjá undirhópum sjúklinga“. Rannsóknarhópurinn safnaði upplýsingum í gagnagrunn um alla sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð við lungnakrabbameini á Íslandi frá 1991 til 2014. Aðalmarkmiðið var að skoða árangur aðgerðar og lifun mismunandi undirhópa sjúklinga sem gengist hafa undir skurðaðgerð við lungnakrabbameini á Íslandi. Guðrún Nína segir að samantekið sé hlutfall sjúklinga sem gangast undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins hátt á Íslandi en á sama tíma er skammtímaárangur þessara aðgerða góður og tíðni alvarlegra fylgikvilla og 30 daga dánartíðni lág. „Að frátöldum árangri eftir lungnabrottnám er langtímalifun svipuð og í erlendum rannsóknum og lífshorfur fara batnandi. Ég hafði frá upphafi læknanámsins áhuga á lungunum. Ég ræddi svo við Tómas Guðbjartsson brjóstholsskurðlækni, leiðbeinanda minn, og hann var þá þegar byrjaður að rannsaka árangur skurðaðgerða hjá sjúklingum sem höfðu gengist undir lungnabrottnámsaðgerðir á Íslandi. Mér þótti áhugavert að kanna lífshorfur þessara sjúklinga og ákváðum við því að ég myndi halda áfram með þetta verkefni. Síðan þá hefur bæst í rannsóknarhópinn og fjölmargar greinar verið birtar, þar með talið þær fjórar greinar sem doktorsritgerð mín byggist á“, segir Guðrún Nína.
Betri horfur hjá konum
Í nokkur ár hafa fleiri konur en karlar greinst með lungnakrabbamein á Íslandi, ólíkt því sem raunin er á flestum stöðum í heiminum. „Samkvæmt mínum rannsóknum hafa konur aðeins betri horfur en karlar en þegar niðurstöðurnar eru leiðréttar fyrir aldri, gerð krabbameins og öðrum sjúkdómum þá eru horfurnar eins á milli kynjanna“, bætir Guðrún Nína við.
Kleip sig fyrstu dagana
Guðrún Nína segist smátt og smátt vera að átta sig á því að hún sé orðinn doktor en hún hafi oft þurft að klípa sig fyrstu dagana á eftir til að átta sig á að doktorsprófið væri komið í hús. „Ég get alls ekki sagt að þetta hafi verið eins og að drekka vatn, það þurfti mikla vinnu til að þetta gengi upp. Ansi mörg kvöld og helgar sem hafa farið í vinnu! Mesti munurinn núna er að ég finn það að ég hef meiri tíma til að gera aðra hluti eftir að strákarnir eru sofnaðir, eins og að horfa á sjónvarpið sem mér finnst ég ekki hafa gert í mörg ár“.
Hættum reykingum
Umræðan um skaðsemi reykinga, hvort sem það eru „hefðbundnar“ reykingar eða rafsígarettur skýtur reglulega upp kollinum og skiptist almenningur og sérfræðingar í fylkingar í málinu. En hvaða skoðun hefur Guðrún Nína? „Já, þetta er mjög heitt umræðuefni í dag og margar rannsóknir í gangi á þessu. Í heildina sagt þá verð ég að segja að ég myndi mæla með hvorugu, hvorki reykingum né rafrettum. Við höfum ekki nógu miklar rannsóknir á rafrettum ennþá til þess að ég geti mælt með þeim. Mín persónulega skoðun er að best sé að hætta algjörlega öllum reykingum, en ef það er alls ekki möguleiki (með t.d. nikótín-hjálpartækjum) þá lítur út fyrir að það sé skárra að nota rafrettur. Sjáum til hvað verður í framtíðinni þegar fleiri rannsóknir hafa verið birtar“, segir hún.
Saknar fjölskyldu og vina
„Fjölskyldan og vinirnir eru hiklaust það sem við söknum mest að heiman. Við söknum þess að hafa fólkið okkar meira í kringum okkur. Svo eru það náttúrulega náttúran og sundlaugarnar, ekki má gleyma því. Við vitum ekki hvernig verður í framtíðinni, hvar við munum búa. Eins og staðan er þá erum við sátt hérna í Lundi og stefnum að minnsta kosti á að klára okkar sérnám hér, það tekur nokkur ár til viðbótar. Þegar það er búið þá metum við aftur stöðuna hvernig allt gengur og ákveðum þá hvort við förum aftur heim. Okkur finnst mjög erfitt að taka svona ákvörðum langt fram í tímann“, segir Guðrún Nína þegar hún var spurð hvort hún saknaði einhvers frá Íslandi.