09. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Göngum saman hópurinn 10 ára: Rannsakað fyrir 70milljónir á 10 árum

Gunnhildur Óskarsdóttir er ein stofnenda styrktarfélagsins Göngum saman sem fagnar 10 ára afmæli í ár. Megintilgangur félagsins hefur verið að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Rúmlega 500 manns eru í félaginu sem hefur frá upphafi veitt um 50 styrki, samtals að fjárhæð 70 milljónir króna. Gunnhildur, sem sjálf greindist með brjóstakrabbamein 38 ára árið 1998 og aftur 2002, segir félagið hafa fengið mikinn meðbyr frá upphafi og að fjölmargir hafi lagt málefninu lið.

 

                                
                 Gunnhildur Óskarsdóttir, ein stofnenda Göngum saman hópsins. Mynd: Olga Björt Þórðardóttir

Árið 2006 var Gunnhildur að hefja á ný meðferð við bjóstakrabbameini á sama tíma og hún var að ljúka doktorsritgerð í uppeldis- og menntunarfræðum. „Ég hugsaði með mér að eftir vinnuna við doktorsverkefnið vildi ég gera eitthvað fyrir málstaðinn, baráttuna við brjóstakrabbameinið, fyrst þetta var komið til að vera og líklegt til að verða alltaf hluti af mér. Ég sá umfjöllun um göngu sem haldin er víðs vegar um Bandaríkin árlega og ákvað að taka þátt árið 2007 í New York. Við vorum 22 konur sem ákváðum að vera með, allar tengdar mér á einhvern hátt, og samhliða æfingum söfnuðum við fyrir gjaldinu fyrir þátttökuna, sem var 1800 dollarar á hverja konu, eða um tvær og hálf milljón í heild.“ Þegar þær voru spurðar af hverju þær stæðu ekki fyrir svona göngu á Íslandi var ákveðið að gera það bara líka. „Sama ár var ganga sem markaði upphafið að þessu öllu saman og við náðum þremur milljónum sem við veittum rannsóknarhópi Jórunnar Erlu Eyfjörð,“ segir Gunnhildur.

 

Bakarar og hönnuðir mikilvægir

Frá upphafi hefur Göngum saman veitt árlega styrki til íslenskra rannsakenda, samtals 70 milljónir, samhliða því að standa fyrir fjölda gangna og viðburða. „Við höfum leitað ýmissa leiða til að afla fjár t.d. með sölu á varningi okkar sem hefur verið framleiddur í samstarfi við þekkta íslenska hönnuði, s.s. JÖR, Munda vonda, KronKron, Lóu Hjálmtýs, Farmers Market, Hildi Yeoman, Hlín Reykdal og Aurum. Einnig hefur Sigurborg Stefánsdóttir, einn af stofnfélögum Göngum saman, lagt okkur lið í gegnum árin með hönnun sinni en hún hannaði m.a. merki félagsins. Reykjavíkurmaraþonið hefur gefið okkur 12 milljónir frá upphafi og brjóstabollur bakaranna sem seldar hafa verið í tengslum við mæðradagsgönguna 9 milljónir.“ Einnig hafi sjóðnum borist minningarstyrkir og afmælisstyrkir auk þess sem fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar hafa styrkt félagið beint eða með einhvers konar þema, eins og Omnom súkkulaðigerðin í vor með súkkulaðiþrennu sem seld var til styrktar félaginu.

 

Hafa skilað sínu í þágu vísinda

Gunnhildur vekur athygli á því að félagið hefur frá upphafi verið rekið í sjálfboðavinnu. „Við höfum haft duglegar manneskjur í sjálfboða- og hugsjónavinnu. Undanfarin ár höfum við staðið fyrir göngum á mæðradaginn á allt að 16 stöðum víðs vegar um landið með hátt í 2000 þátttakendum. Þetta krefst mikils undirbúnings og mikillar samvinnu margra aðila sem gefa vinnu sína glaðir og sumir hverjir ár eftir ár. Framkvæmdin hefur legið á fárra höndum þótt fólk sé alltaf boðið og búið að leggja lið á viðburðunum sjálfum. Við ákváðum því á þessum tímamótum að það væri kominn tími til að breyta til og minnka áherslu á stóra viðburði sem krefjast mikillar vinnu og utanumhalds eins og mæðradagsgönguna. Það er von mín að vísindasjóðurinn okkar verði sjálfbær svo við getum haldið áfram að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Það er öllum hollt að breyta til þannig að hlutir séu ekki alltaf sjálfsagðir. Við ætlum að leyfa hlutunum að detta upp í hendurnar á okkur og treystum bara á sköpunargleði landans,“ segir Gunnhildur bjartsýn.

Þegar allt kemur til alls segir hún að rannsóknirnar séu það sem skipti mestu máli í tengslum við Göngum saman. Einnig sé vakin athygli á mikilvægi hreyfingar, hvort sem manneskja er heilbrigð, í krabbameinsmeðferð eða eftir meðferð. „Það verða engar framfarir í læknavísindunum ef ekki eru til grunnrannsóknir. Við auglýstum eftir styrkjum og umóknarfresturinn rennur út í september. Þá fá valdir umsækjendur tækifæri til að kynna rannsóknir sínar og eftir það veljum við styrkþega.“ Oftast sé um að ræða meistara- og doktorsnema auk vísindafólks við Háskóla Íslands og Landspítalann. „Þetta er langhlaup sem vonandi bjargar lífum í framtíðinni. Rannsakendur eru gjarnan fólk sem lítið ber á, vinnur sína vinnu á bak við luktar dyr á rannsóknarstofum og alltof fáir vita hvað þau eru að gera góða og mikilvæga hluti. Styrkþegar hafa sýnt að þeir kunna að meta framlag okkar og vinnu í þeirra þágu og eru þakklátir fyrir þá athygli og styrki sem félagið hefur veitt til rannsóknanna,“ segir Gunnhildur.

 

Samtakamátturinn mikilvægur

6. október næstkomandi verður haldið upp á 10 ára afmæli Göngum saman með afmælismálþingi í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, en hún er verndari samtakanna. „Þetta verður uppbygging á hrundaginn sjálfan, við snúum sögunni við,“ segir Gunnhildur hlæjandi og bætir við að á málþinginu verði rýnt í hverju starfið hefur skilað og hvar við stöndum í dag í þessum rannsóknum. „Reynsla mín sýnir hvað hægt er að gera ótrúlega hluti með samtakamætti, jákvæðni og trú á það sem verið er að gera. Það þekkja allir einhvern sem hefur greinst með brjóstakrabbamein. Grunnrannsóknir eru forsenda annarra rannsókna og þess að framfarir verði í læknavísindum og það er von mín og trú að framlag Göngum saman skili sér til komandi kynslóða.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica