06. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Reynir Arngrímsson kjörinn formaður LÍ

Það eru breytingatímar í Læknafélagi Íslands. Þær fyrstu hafa þegar litið dagsins ljós með stjórnarkjöri, því fyrsta sem fram fer með með allsherjaratkvæðagreiðslu. Hingað til hefur stjórn verið kjörin á aðalfundi þar sem eingöngu eiga sæti um 70 fulltrúar þeirra svæðafélaga sem mynda Læknafélag Íslands. Á næsta aðalfundi sem haldinn verður í haust tekur ný stjórn við taumunum en hún verður að hluta til kjörin í rafrænni kosningu þar sem 1218 læknar höfðu atkvæðisrétt.

                                                

Reyndar fór svo að sjálfkjörið var í öll embætti sem losnuðu í stjórninni nema formannsembættið. Þar buðu þrír læknar sig fram: Arna Guðmundsdóttir, Orri Þór Ormarsson og Reynir Arngrímsson. Fyrirkomulagi kjörsins svipar til frönsku forsetakosninganna þar sem kosið er aftur ef enginn fær hreinan meirihluta í fyrstu umferð. Í fyrstu umferð sem fram fór dagana 12.-17. maí var þátttakan 59,6 af hundraði og féllu atkvæði þannig að Arna hlaut 287 atkvæði (39,8%), Orri Þór 76 (1,5%) og Reynir 346 (48%). Það varð því að kjósa aftur á milli Örnu og Reynis.

Önnur umferð fór fram dagana 19.-24. maí og var þátttaka talsvert meiri, 839 félagsmenn greiddu atkvæði, eða 68,9% þeirra sem voru á kjörskrá. Þar var mjótt á munum því aðeins skildu 26 atkvæði á milli þeirra tveggja. Arna Guðmundsdóttir hlaut 387 atkvæði, eða 46,1%, en Reynir Arngrímsson var kjörinn formaður með 413 atkvæðum, eða 49,2% greiddra atkvæða. 39 skiluðu auðu, eða 4,7%.

Reynir sem er sérfræðingur í erfðalækningum tekur við formennsku á aðalfundi Læknafélags Íslands sem haldinn verður í október. Með honum koma inn í stjórn þau 5 sem sjálfkjörin voru: Björn Gunnarsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir, gjaldkeri og meðstjórnendurnir Hjalti Már Þórisson röntgenlæknir, Jóhanna Ósk Jensdóttir heimilislæknir, María Soffía Gottfreðsdóttir augnlæknir og Ólafur Ó. Guðmundsson barnageðlæknir. Sjá nánar um stjórnarkjörið í pistli Daggar Pálsdóttur lögfræðings LÍ á bls. 302.

Á aðalfundinum í haust verður svo væntanlega tekist á um nýtt skipulag læknasamtakanna en tillögur þar að lútandi verða væntanlega afgreiddar. Þá verða enn meiri breytingar sem nánar má lesa um á bls. 288.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica