06. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Rúmlega þrítugur reiknir leystur af hólmi - Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir og Sölvi Rögnvaldsson fengu Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir framlag sitt til verkefnisins Blóðskimun til bjargar

Eins og fram kemur í viðtalinu við Sigurð Yngva hefur verkefnið Blóðskimun til bjargar fengið góðar viðtökur hjá þjóðinni. Rannsóknir af þessu tagi eru margþættar og stundum verða til efnileg afkvæmi sem ekki voru á upphaflegri áætlun. -Tveir ungir vísindamenn fengu þannig í haust Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir þróun á reiknilíkani sem rannsóknin kallaði á.

                 
Starfsfólk Blóðskimunarseturs, frá vinstri: Sigurður Yngvi Kristinsson prófessor, hjúkrunarfræðingarnir Sara Lovísa Halldórsdóttir og Guðrún Ásta Sigurðardóttir og höfundar reiknisins Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir og Sölvi Rögnvaldsson. Auk þeirra starfa líffræðingar og fleiri læknar að rannsóknum í setrinu og í vinnuaðstöðu hópsins í Háskóla Íslands.

Þau sem fengu verðlaunin voru Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir læknir og doktorsnemi og Sölvi Rögnvaldsson nemi á BS-stigi í hagnýtri stærðfræði. Blaðamaður spurði þau hvernig það hefði borið til að þau tóku þetta að sér.

Það kom til umræðu milli okkar Sigurðar Yngva fyrir alllöngu að það þyrfti að rannsaka fylgisjúkdóma einstaklinga með mergæxli. Þegar einstaklingur með til dæmis sykursýki og háþrýsting greinist með mergæxli þá glímir hann við fylgisjúkdóma, segir Ingigerður. – Læknar þurfa að taka tillit til þessara fylgisjúkdóma þegar ákvarða þarf krabbameinsmeðferð. Það er algengt í klínískum lyfjarannsóknum á fólki með mergæxli að það sé ekki með aðra sjúkdóma og því eru lyf sem notuð eru nú ekki prófuð á einstaklingum með fylgisjúkdóma. Þegar við fórum að skoða þetta betur sáum við að í flestum rannsóknum tengdum mergæxli er notaður gamall reiknir kenndur við Charlson til að meta fylgisjúkdóma. Hann er orðinn rúmlega þrjátíu ára gamall, búinn til 1986, og hefur verið notaður óbreyttur síðan. Miðað við þá framþróun sem orðið hefur í læknavísindum og tölvum vorum við sammála um að það væri áreiðanlega hægt að búa til reikni sem væri hæfari um að meta horfur sjúklinga með fylgisjúkdóma og þannig auðvelda læknum að taka ákvörðun um meðferð. Við vildum líka búa til reikni sem næði bara yfir fylgisjúkdóma mergæxlis en sá gamli er almennur áhættureiknir og á ekki við um fólk með langvinna sjúkdóma, segir hún.

Síðasta sumar bættist Sölvi svo í hópinn. – Ég komst í samband við hópinn í gegnum Sigrúnu Helgu Lund og við sóttum um styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til þess að vinna þetta verkefni með Ingigerði. Þetta er sannarlega hagnýt stærðfræði og kemur inn á mín helstu áhugasvið sem eru tölvunarfræði og tölfræði. Við Ingigerður náðum vel saman við þetta verkefni í fyrrasumar. Hún hefur allt á hreinu um læknisfræðina og er þess utan klár í tölfræði, segir Sölvi.

Við fundum það líka að það er gott að vera fleiri við svona þróunarstarf, bætir Ingigerður við. Við köstum á milli okkar hugmyndum og þótt Sölvi sé ekki sterkur í læknisfræði kemur hann með ýmsa punkta sem ég hef ekki hugsað út í, og öfugt. Við erum leikmenn á sviði hvort annars.

Við unnum vel saman og komumst langt á stuttum tíma, halda þau áfram. Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkti verkefnið og í gegnum hann vorum við tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands sem við fengum í haust. Það var gaman, ekki síst að hitta Guðna Th. og fara á Bessastaði. Verðlaun eru mikil hvatning til að fylgja þessu eftir.

Nú er Sölvi laus úr prófönnum og þau eru að hefjast handa við að koma reikninum í notkun. – Eitt er að þróa hann en svo þarf að sjá til þess að hann verði nothæfur í raun. Það er spennandi verkefni að setja hann í samband við hina klínísku vinnu og sjá hvernig hann nýtist.

Er þetta ekki viðskiptahugmynd? Sjáið þið ekki fyrir ykkur fyrirtækjarekstur?

Nei, ég held ekki, segir Sölvi, við erum svo mikið háskólafólk að við viljum bara dreifa þekkingunni sem víðast.

Hugmyndin er sú að reiknirinn verði aðgengilegur bæði á netinu og sem smáforrit í síma, bætir Ingigerður við. – Þá geta læknar verið með það í símanum sínum og notað það á auðveldan hátt í sinni vinnu. Það þarf ekki stærðfræðing til þess að geta notað reikninn.

Það var hluti nýsköpunarverkefnisins, að gefa út afurð sem er aðgengileg öllum, segir Sölvi að lokum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica